Möguleikarnir í stöðunni

Fyrir aðeins örfáum vikum virtist þetta allt vera klappað og klárt, Liverpool var búið að missa af meistaradeildarsætinu og gat í raun prísað sig sæla að ná einhvers konar Evrópusæti. Liðið var nýbúið að tapa fyrir City, og gerði svo jafntefli við Chelsea, og áttum okkur á því að fyrir leik Chelsea í gær þá höfðu þeir skorað færri mörk síðan í nóvember heldur en Newcastle skoraði í þarsíðustu viku. Jújú, tölfræðilega var einhver möguleiki, en þá þurfti Liverpool líka að fara að spila betur og vinna leiki, og United liðin tvö þurftu að fara að tapa stigum.

Og svo bara fór akkúrat það að gerast.

Áttum okkur samt á því að möguleikinn er lítill. United liðin tvö eiga fjóra leiki eftir, okkar menn þrjá. Staðan er sú að okkar menn geta að hámarki náð 71 stigi, Newcastle geta náð í 77 stig og Man United geta náð í 75 stig.

Okkar menn verða einfaldlega að vinna alla þessa leiki:

  • Leicester á útivelli,
  • Aston Villa á Anfield (í nýju búningunum),
  • og að lokum Saints úti í lokaleik tímabilsins

Á sama tíma mega United liðin 2 ekki vinna nema að hámarki 2 af sínum 4 leikjum, en reyndar nægir okkur að komast upp fyrir annað liðanna. Þ.e. annaðhvort verða Newcastle að tapa tveim leikjum (þrjú jafntefli og sigur mun líklega ekki duga okkur), eða Man United að tapa stigum í tveim leikjum.

Leikjaplanið hjá þessum tveim liðum er sem hér segir:

Newcastle United:

  • Útileikur gegn Leeds (fyrsti heimaleikur Big Sam með Leeds)
  • Heimaleikur gegn Brighton
  • Heimaleikur gegn Leicester
  • Útileikur gegn Chelsea

og hjá Man United:

  • Heima gegn Úlfunum
  • Úti gegn Bournemouth
  • Heima gegn Chelsea
  • Heima gegn Fulham

Í fljótu bragði virkar prógrammið hjá United léttara, og þar munar miklu um að liðinu gengur ágætlega á heimavelli en talsvert síður á útivelli. Síðustu tveir leikir liðsins hafa tapast, báðir á útivelli, og gegn topp 9 liðunum hefur liðið aðeins náð í eitt stig á útivelli – gegn Spurs núna í lok apríl. Kannski hjálpar það þeim þegar upp er staðið að eiga 3 af síðustu 4 leikjum heima.

Prógrammið hjá Newcastle er kannski ögn erfiðara, bæði eiga þeir jafn marga heima- og útileiki eftir, og svo eiga þeir eftir að fá Brighton í heimsókn og eins og komið hefur fram er árangur Brighton á síðustu mánuðum slíkur að liðið væri einfaldlega í toppslagnum ef við framlengdum það form yfir heilt tímabil.

Bæði lið eiga eftir að spila við Chelsea, gæti það verið að Lampard og co eigi e.t.v. eftir að hafa meiri áhrif á toppbaráttuna heldur en maður gæti haldið út frá stöðu þeirra í töflunni?

Við þurfum líka að hafa í huga að ef Newcastle tapa tveim leikjum, en vinna hina tvo, og okkar menn vinna sína þrjá, þá dugar það tæplega því þeir eru með öllu betra markahlutfall (+32 vs. +25 hjá okkar mönnum)

Semsagt, mögulega eru ögn meiri möguleikar á að Newcastle tapi 6 stigum, en óvíst að það dugi. Ef hins vegar Man Utd tapa 6 stigum, þá eru allar líkur á að það dugi okkar mönnum, út af ákveðnum úrslitum hér fyrr á tímabilinu (já ég er að vísa í 7-0 leikinn).

En munum að allt þetta er tómt mál að tala um ef okkar menn vinna ekki sína leiki, og það eru 3 brekkur eftir fyrir okkar menn að klífa. Villa eru ekkert hættir svona sem dæmi, Leicester ekki heldur. Saints verða væntanlega fallnir á lokadeginum, en vilja sjálfsagt spila fyrir heiðurinn.

Veðbankar meta líkur Liverpool á að komast í Meistaradeildina 27% í augnablikinu. Þær líkur voru talsvert minni fyrir örfáum vikum síðan.

Gleymum svo ekki að þó svo að 4. sætið náist ekki, þá mun það væntanlega þýða að Klopp fær annan séns á að hirða eina titilinn sem hann á eftir að hirða.

Hvað segið þið, í hvaða sæti endar Liverpool í lok tímabilsins?

10 Comments

  1. Góðar pælingar, tölfræðin og möguleikar hér á einum stað. Eitt andartak kemur skallamark Alisson á loka mínútunum gegn WBA upp í hugann!

    En….. það er ótrúlegt til þess að hugsa að við mögulega vinnum 9 leiki í röð sem er svakaleg tölfræði og MU og Newcastle misstígi sig á meðan!

    Raunsæið segir 5 sætið og Evrópudeildin, ég yrði sáttur við það miðað við það sem á undan er gengið.

    En ég læt mig dreyma…….

    3
  2. LFC þarf að vinna sína þrjá.

    Og
    Ef NCU tapa tveimur eða gera 3 jafntefli+sigur verða þeir með 71 stig.
    Ef MU gerir tvö jafntefli+2 sigra þá verða þeir með 71 stig.

    Staða MU er sú að ef þeir gera jafntefli eða tapa í næstu 3 leikjum sem þeir eiga gegn Úlfunum, þá mega þeir ekki tapa fleiri stigum.

    Miðað við stigasöfnun þessara liða yfir tímabilið og stressið í þessum leikjum og hvernig MU sérstaklega hafa verið að spila, þá metur td., 538 líkanið meðal líkurnar þannig að NCU fái 72 og MU fái 71 stig.

    Við höfum þetta ekki í eigin höndum — en ef LFC vinnur þess þrjá vinnanlegu leiki, þá eru líkurnar sennilega yfir 50% að við komust í UCL. Klikkað

    3
  3. Sælir félagar

    Það er alltaf von og þegar vonin ein er eftir þá gerast stundum kraftaverk.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  4. Liverpool þarf að vinna síðustu þrjá leikina sína og Man Utd misstígur sig og gerir jafntefli við Wolves og Chelsea og bæði lið enda með 71 stig sem dugar Liverpool í fjórða sætið.

    Nú þarf Liverpool að koma með stóra yfirlýsingu og kaupa Bellingham fyrir framan nefið á Real Madrid!

    YNWA

    1
  5. Miði er möguleiki sagði einhver hérna um árið, annars tel ég 5. sætið líklegast, og miðað við hvernig staðan var fyrir örfáum vikum síðan, held ég að við getum bara vel við unað að ná 5. sæti, stefnum þá bara á að vinna Evrópudeildina á næsta tímabili!

  6. Persónulega var ég búinn að sætta mig við að Liverpool myndi ekki ná meistaradeildarsæti, en góð úrslit undanfarið hafa bæði veitt manni ánægju og svo von. Enn meiri yrði ánægjan auðvitað ef Liverpool kemst uppfyrir annað hvort Newcastle United eða Manchester United, en ólíklegt er það – má samt vona.

    1
  7. Ég er á báðum áttum, auðvitað vil ég að Liverpool sé í meistaradeildinni hverju ári og að berjast um alla titla, en aftur á móti þá væri það gott högg í maga eigenda Liverpool ef að við kæmumst ekki í meistaradeildina á næsta tímibili og það myndi 100% skrifast á nísku þeirra með því að styrkja liðið ekki meira en að fá Arthur Melo lánaðan.
    Það að Klopp hafi gert kraftaverk á hverju ári með þann hóp sem hann fær er magnað, Ef við komumst ekki í 4 sætið núna þá vonandi átta þeir sig á því að það er betra að vera með sterkari og betri hóp því það kostar líka helling af peningum að komast ekki í meistaradeildina.

    5
    • Sammála þessu Red og ekki síður að það kostar að komast ekki í þá grúbbu sem gefur mest af sér!

      1
  8. Gaman að gæla við hugsunina um möguleikann, en ég held að raunhæft sé það nú ekki að ná 4 sætinu.

    Vinnum bara leikina sem við eigum eftir og sjáum svo til.

    3
  9. Ef okkar menn í Liverpool vinna rest þá náum við fjórða sætinu en það er alltaf þetta helvítis EF.
    Man utd eiga eftir að gera í buxurnar í síðustu leikjunum, það bara verður að ske til að lækka aðeins helvítis hrokan í vinnufélögum mínum sem eru búnir að vera hrikalega pirrand og leiðinlegir í allan vetur og halda því fram að ég eigi það skilið eftir allt böggið sem ég hef látið dynja á þeim undanfarin ár, sem er reyndar rétt hjá þeim en það er annað mál.
    Í það minnsta ætla ég að halda í þá von á meðan einhver smá möguleiki er en í boði.
    YNWA

    2

Stelpurnar fá City í heimsókn

Árshátíð Liverpoolklúbbsins – ALVÖRU heiðursgestur