United mæta á Prenton Park – síðasti leikur kvennaliðsins í bili

Þessa helgina klára liðin okkar tímabilið, strákarnir okkar mæta Southampton á morgun og það kemur inn upphitun fyrir það á eftir, en núna kl. 13:30 ætla stelpurnar okkar að klára leiktíðina þegar þær frá heimsókn frá stöllum sínum í United. Gestirnir eru í harðri baráttu við Chelsea um meistaratitilinn, en þó hljóta þær að átta sig á að líkurnar eru ekki þeim í hag þar sem Chelsea eru að fara að spila við liðið í neðsta sæti deildarinnar, og þær bláklæddu hafa bara tapað tveim leikjum á leiktíðinni: gegn City og jú gegn okkar konum. Semsagt, United er komið til að reyna að ná í 3 stig ef svo ólíklega vildi til að Chelsea misstígi sig, þó svo líkurnar á því séu afskaplega litlar.

Nóg um gestina, svosem óþarfi að fókusera á þær, en mikið væri nú gaman ef okkar konur gerðu þeim smá skráveifu í dag og hirtu eitt eða jafnvel 3 stig. Síðasti leikur var gegn Aston Villa og var fjörlegur, og endaði 3-3, en leikurinn þar á undan var heimaleikur gegn City þar sem okkar konur unnu 2-1 með mörkum frá Dowie og Missy Bo. Stelpurnar okkar eru því í fínum gír.

Þetta verður lokaleikur nokkurra leikmanna í rauðu skyrtunni, en á síðustu dögum hefur liðið tilkynnt að samningar verði ekki endurnýjaðir við eftir talda leikmenn: Rylee Foster, Charlotte Clarke, Rhiannon Roberts, Leighanne Robe, Megan Campbell, Carla Humphrey og Ashley Hodson. Það þarf nú ekkert að láta sum nöfnin þarna koma sér á óvart, Rylee Foster lenti jú í lífshættulegu slysi fyrir líklega 20 mánuðum síðan, endurhæfingin hefur vissulega gengið vel en það á samt eftir að koma í ljós hvort hún spili fótbolta yfirhöfuð aftur. Það er þó gríðarleg eftirsjá af henni enda er hún harður púlari með YNWA tattúverað á handlegginn. Charlotte Clarke var fengin sem redding eftir að Rylee slasaðist, en hefur ekki spilað nema 1 eða 2 leiki og var á láni allt þetta tímabilið. Carla Humphrey var alltaf aftarlega á vagninum á listanum yfir miðjumenn og fékk í mesta lagi að koma inn af bekk einstaka sinnum í vetur. Roberts, Robe og Campbell hafa hins vegar spilað helling, og ákveðin eftirsjá í þeim. Roberts hefur verið James Milner kvennaliðsins, hún hefur hlaupið í hvaða stöður sem er, hvort sem er í bakvörð, miðvörð, miðju eða eitthvað annað, og hefur leyst þetta allt mjög vel. En hún er vitlausu megin við þrítugt, og því skiljanlegt að það þurfi að rýma til fyrir nýju blóði. Þá eigum við klárlega eftir að sakna innkastanna frá Megan Campbell, en mögulega var liðið of mikið að reiða sig á ógnina frá þeim þegar mörkin sem komu upp úr þeim voru kannski ekki nægilega mörg.

Leighanne Robe er líka leikmaður sem við eigum eftir að sakna, hún hefur gjarnan verið sá leikmaður sem hefur átt flestar tæklanir í deildinni, og svo er hún líklega eini leikmaðurinn í sögunni sem hefur bara skorað þrennur fyrir liðið sitt. Jú vissulega er það bara ein þrenna, í bikarleik gegn Lincoln City á síðasta ári, en engu að síður… þetta eru einu mörkin sem hún hefur skorað fyrir félagið. Svo átti auðvitað að dæma markið hennar gegn Everton í vetur gilt, en dómarinn tognaði á heila í eitt augnablik og því fór sem fór.

Og svo er það Ashley Hodson. Hún var orðin leikjahæsti leikmaður liðsins frá upphafi áður en Gemma Bonner kom aftur til liðsins, er uppalin hjá félaginu og harður Púlari rétt eins og Rylee Foster, Niamh Fahey, Missy Bo og fleiri. En málið er bara að hún var orðin það aftarlega á merinni í röð leikmanna í framlínunni, og fyrirséð að hún fengi ekki marga leiki. Hún var því á láni hjá Birmingham í vetur, og ljóst að hún myndi ekki ná að brjóta sér leið til baka inn í framlínu Liverpool. Það er því lang sanngjarnast að hún fái að spila annars staðar, hvort sem það verður með Birmingham eða annars staðar. Það kemur í ljós.

Nóg um það, liðið sem ætlar að hefna ófaranna gegn United í fyrri leiknum lítur svona út:

Laws

Bonner – Fahey – Matthews

Koivisto – Nagano – Holland – Hinds

Kearns

van de Sanden – Stengel

Bekkur: Kirby, Cumings, Roberts, Robe, Humphrey, Lundgaard, Taylor, Dowie, Daniels

Natasha Dowie fer á bekkinn og Shanice van de Sanden kemur í hennar stað, en kæmi ekki á óvart að sjá þær svissa einhverntímann í síðari hálfleik. Þá fer Rachael Laws aftur á milli stanganna en Faye Kirby sest aftur á bekkinn. Ceri Holland er mætt aftur sem er mikill léttir, enda er hún mjög mikilvægur hluti af hryggjarsúlu liðsins.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á BBC. EDIT: leikurinn verður einnig sýndur á Viaplay.

KOMA SVO!!!

Ein athugasemd

  1. Úrslitin 0-1, en þau breyttu engu um lokaniðurstöðu tímabilsins. Liverpool í 7. sæti.

    Nú er það bara að safna liði og stefna hærra á næsta ári!

    4

Mjög spennandi breytingar á miðsvæðinu

Lokaleikur tímabilsins: Southampton heimsóttir