Hver verður næsta markavél Liverpool?

Það segir kannski töluvert um áfallastreituröskun stuðningsmanna Liverpool hvað meiðslavandræði varðar að liðið stefnir inn í næsta tímabil með fimm mjög góða sóknarmenn á besta aldri plús 2-3 gríðarlega efnilega 18-20 ára leikmenn þeim til stuðnings og það eru samt efasemdir um að þetta sé nóg.

Liverpool er núna á u.þ.b. tveimur árum búið að endurnýja og yngja nánast alla sóknarlínuna úr Salah, Mané, Firmino, Origi, Minamino og Ox yfir í Salah, Nunez, Diaz, Jota og Gakpo með Doak, Gordon og Elliott þeim til stuðnings. Þetta er mjög spennandi endurnýjun.

Salah er sá eini sem er eftir og réttilega svo en á næsta tímabili væri mjög gott að fara sjá arftaka hans stíga upp og sýna að hann sé tilbúinn að taka við keflinu sem aðalmarkasorari Liverpool. Mögulega er Klopp nú þegar búinn að kaupa næsta aðalmann í sóknarlínu Liverpool en það er satt að segja erfitt að segja til um hver af Nunez, Gakpo, Jota eða Diaz það svo verður.

Salah er auðvitað ennþá í fullu fjöri og vilji maður ávaxta peninginn nokkuð örugglega er ágætlega öruggt að veðja á að hann verði markahæsti leikmaður Liverpool næsta vetur, það mun ekki vara endalaust og tölfræði Salah er ekkert að gefa til kynna að hann sé á uppleið.

Síðasta tímabil

Liverpool var heilt yfir tímabilið með sex frammherja og þrátt fyrir það spilaði Ox þar að auki nokkra leiki í frammlínunni rétt eins og Elliott og Carvalho. Markaskorun liðsins dreifðist því töluvert en að sama skapi er ljóst að allir þessir nýju sóknarmenn eiga töluvert inni ennþá en af ólíkum ástæðum.

Það að nota fleiri en sex framherja er enn eitt dæmið um óstöðugleika í Liverpool liðinu á síðsta tímabili, það átti ekkert bara við á miðjunni eða í varnarlínunni.

Salah endaði mótið vel og snar lagaði tölfræði sína, endar með 19 mörk í deildinni og beina aðkomu að samtals 31 marki sem gerir mark á 106,4 mínútna fresti í deildarleikjum. Hálftíma verri tölfræði en tímabilið á undan. Hann var hinsvegar mjög góður í Meistaradeildinni og lagar þessa tölfræði enn frekar þar. Augljóslega aðalmaðurinn hjá Liverpool líkt og áður.

Tölfræðin sem sker Salah samt hvað mest úr frá öðrum sóknarmönnum og raunar bara leikmönnum Liverpool er að hann spilar nánast alla leiki. Þar eiga allir hinir mjög langt í land.

Bobby Firmino var hlutfallslega langbesti sóknarmaður Liverpool síðasta vetur, hann kom að marki á 81 mínútna fresti en það er auðveldara að koma vel út úr slíkum útreikningum með 1.213 mínútur eða næstum þrefalt minna en Salah er að skila á hverju tímabili. Þetta eru samt 15 deildarmörk frá Bobby sem Liverpool þarf að vinna upp næsta vetur.

Darwin Nunez myndi maður ætla að sé með langhæsta þakið af sóknarmönnum Liverpool en ef að Klopp ætlar að ná því úr honum þarf líklega að aðlaga töluvert leikstíl liðsins. Nunez væri líklega ekki 30 marka maður í uppleggi Liverpool á árunum 2018 – 2022 nema þá með svipað mikið frelsi frammi og Salah hefur jafnan fengið. 9 mörk, 3 stoðsendingar og aðeins 1.700 mínútur eru langt undir þeim væntingum sem maður hafði og miðað við endahnút tímabilsins virtist hann ekki vera í byrjunarliðsplönum Klopp.

Það þarf ekki að þíða að Klopp hafi gefist upp á honum. Miðað við færin sem Nunez (rétt eins og Salah) var að klúðra í vetur er augljóst að hann er með svakalegt svigrúm til bætinga. Eins er til video af xA sénsum sem hann var að skapa fyrir samherja sína sem var fullkomlega fyrirmunað að nýta þá.

Satt að segja var hann hálfgert freak hvað framlag til marktækifæra varðar síðasta vetur:

Það er aðeins einn sem hefur verið sambærilega spennandi og pirrandi eftir sitt fyrsta tímabil hjá Liverpool og það er samlandi Nunez. Ef að hann tekur tímabil tvö á eitthvað svipuðum nótum og Suarez gerði er ljóst að hann verður okkar næsti aðalmaður í sóknarlínunni.

Það sem gerir Nunez kannski enn meira spennandi er að svona var þetta nákvæmlega hjá Benfica líka.

Diogo Jota var meiddur nánast framm að áramótum og tók heila eilífð að ná sér fullkomlega. Hann skoraði ekki mark í bókstaflega heilt ár en er samt hlutfallslega með betri aðkomu að mörkum en Salah þegar hann er inná. Jota var að koma að marki á 103 mínútna fresti þessar 1.100 mínútur sem hann spilaði í vetur.

Hann er núna 26 ára og ætti að vera nálgast sinn hátind sem leikmaður. Er það svo fráleitt að gera sér vonir um 15-20 mörk frá Jota sem spilar +2.500 mínútur heilt tímabil? Hann kom að 19 mörkum á 2.400 mínútum tímabilið 2021-22…

Stóra spurningin er hvort hann ætlar að verða einn af okkar meiðslapésum eða hvort hægt verði að treysta eitthvað smá á hann.

Gody Gakpo er að byrja frábærlega hjá Liverpool ef hans framtíð er sannarlega að verða nokkurskonar arftaki Bobby Firmino. Mögulega er það betra fyrir liðið að hafa slíkan mann í miðjunni frammi sem leggur upp fleiri mörk en hann skorar frekar en t.d. Darwin Nunez týpu sem líklega skorar 25-30 mörk.

Það er nefnilega aðeins vanmetið hvað Gakpo var að gera flotta hluti í Eredivisie sem fékk Liverpool til að kaupa hann hálfu ári á undan áætlun. Gakpo var með beina aðkomu að 21 marki á rúmlega 1.100 mínútum eða marki á 53 mín fresti. Það er galin tölfræði en hann hann var líka að koma að rúmlega marki í leik á síðasta tímabili. Bæði tímabil er hann með fleiri stoðsendingar en mörk.

Hann er með 7 mörk hjá Liverpool eftir áramót en aðeins tvær stoðsendingar, hann rétt eins og Nunez gæti því sannarlega enn sprungið miklu betur út en við sáum frá honum í vetur.

Luis Diaz var rétt svo byrjaður að springa út sem markaskorari hjá Porto þegar Liverpool keypti hann í janúarglugganum. Síðsta tímabil var auðvitað ein risastór vonbrigði og ennþá óljóst hvernig ferill hans þróast hjá Liverpool. Hann hefur verið að koma að marki á 160 mínútna fresti þessa búta sem hann hefur spilað en var byrjaður að skila helmingi betri tölum áður en hann yfirgaf Porto.

Diaz var svo augljóslega arftaki Mané hjá Liverpool að hann tók stöðuna af honum áður en Mané fór en síðan þá er áhugavert að Liverpool er búið að bæta við Nunez og Gakpo, leikmenn sem báðir eru vanir að leysa út á vinstri vænginn og fyrir hjá Liverpool var Diogo Jota sem kom ekki svo löngu áður en Diaz var keyptur.

Er það vísbending fyrir næsta tímabil að Diaz – Gakpo – Salah var sóknarlínan undir lok síðasta tímabils? Það eru nefnilega möglega fleiri mörk í Nunez og Jota.

Þarsíðasta tímabil

Til samanburðar eru hér tölurnar fyrir þarsíðasta tímabil. Nunez, Diaz og Gakpo voru allir að gera frábæra hluti í sínum fyrri liðum og Salah var eins mun beinskeittari hjá Liverpool en á síðasta tímabili.

 

Mikilvægi Salah

Frá því að Salah kom til Liverpool hefur hann verið markahæsti leikmaður liðsins og jafnan meðal þeirra sem gefa flestar stoðsendingar einnig. Reyndar skekkir það kannski jöfnuna eitthvað að sóknarleikur Liverpool gengur rosalega mikið út á markaskorun sóknarmanna liðsins á meðan miðjan skorar fáránlega lítið af mörkum og kemur satt að segja furðulega lítið að markaskorun með beinum hætti. Mögulega er hægt að dreifa álaginu betur með sambærilegum árangri?

Það sem sker Salah hvað mest út í þessu Liverpool liði eru spilaðar mínútur. Hann er eins og afkvæmi Superman og Iron Man í samanburði við samherja sína.

Salah er nú þegar kominn í hóp meðal bestu sóknarmanna í sögu Liverpool og áður en hann kom er erfitt að muna hvaða sóknarmaður skilaði svipuðum tölum og hélt tryggð við Liverpool.

Hinsvegar tel ég að Klopp eigi einnig töluvert mikin heiður í þróun Salah og það er alls ekkert víst að hann hefði verið sama súperstjarnan annarsstaðar. Leikur Liverpool hefur í sex ár gengið rosalega mikið út á það að koma Salah í færi og við sáum á löngum köflum síðasta vetur hvað sóknarleikurinn gat virkað steingeldur ef Salah komst ekki í takt við leikinn.

Hann hefur verið frábær og verður vonandi út samning sinn hjá Liverpool en ég færi varlega í að efast um að Klopp geti ekki þróað nýjan sóknarmann sem getur skilað 25-35 mörkum á tímabili. Allir fimm sóknarmenn Liverpool hafa sýnt það á sínum ferli að þeir geta vel skilað slíkum tölum og hinir fjórir hafa allir kennitöluna með sér.

Það er annars áhugavert að skoða tölfræði Salah hjá Liverpool í gegnum þessi sex tímabil og þá sérstaklega sjá hversu galið fyrsta tímabilið hans var. 42 mörk og 14 stoðsendingar í báðum stóru keppnunum.

Þarf endilega 30 marka sóknarmann?

Salah kom með beinum hætti að 56 mörkum tímabilið 2017/18 (Deild og CL) sem var hans fyrsta hjá Liverpool. Allt annað sólkerfi en hann var að vinna með hjá Roma þar sem hann var hinn sóknarmaðurinn í því liði með Edin Dzeko.  Árið eftir (2018/19) kom Salah  “aðeins” að 37 mörkum eða 19 mörkum færra en árið áður. Samt var Liverpool MIKLU MIKLU betra það tímabil, 97 stig í deild og sigur í Meistaradeild. Salah var ekki einu sinni með í 4-0 sigrinum fræga gegn Barcelona.

Það er enginn einn heilagur sannleikur í fótbolta. Liverpool gæti vel þróað leikkerfið næsta tímabil þannig að mikilvægi Salah sé ekki jafn mikið en á sama tíma bætt leik liðsins í heild. Alveg eins og Liverpool gæti vel átt 30 marka mann í Darwin Nunez en liðið væri samt betra með 12 marka Cody Gakpo í “hans” stöðu.

Næsta vetur er t.d. mun líklegra til árangurs að fækka mörkum sem liðið fékk á sig úr 47 í 27 mörk frekar en að reyna skora 95 mörk frekar en þau 75 mörk sem liðið skoraði á síðasta tímabili. Já eða dreifa helvítis markaskoruninni aðeins úr 22 mörkum í þremur leikjum á fleiri leiki.

Ef við drögum þessi freak úrslit gegn United, Bournemouth og Leeds frá skoraði Liverpool aðeins 53 mörk í hinum 35 leikjunum og fékk á sig 46 mörk. Það er skammarlega lélegt svo vægt sé til orða tekið og mikið raunsærri greining á vandræðum liðsins á báðum endum vallarins. Það gera 1,5 mörk að meðaltali í leik skoruð og 1,3 mörk að meðaltali fengin á sig.

Til að setja í eitthvað samhengi hversu fáránlega lélegt það var að fá á sig 47 mörk á síðsta tímabili er ágætt að horfa til tímabilsins 2020-21 þegar liðið fékk á sig 42 mörk, megnið af því tímabili voru bókstaflega allir miðverðir liðsins meiddir.

Samanburður við markahæstu menn 2022-23

Salah hefur jafnan verið meðal markahæstu manna í deildinni en var sannarlega ekki nálægt besta manni deildarinnar þennan veturinn, skoraði næstum því helmingi færri mörk. Haaland er 22 ára og átti ekki í neinum vandræðum með að heimfæra það sem hann hefur verið að gera í Austurríki og Þýskalandi yfir á England.

Harry Kane skoraði að vanda sín 30 mörk í vetur en þrátt fyrir það endaði hans lið í 8.sæti og nokkuð sannfærandi á eftir afleitu Liverpool liði. Þarf það endilega að fara svo að Tottenham versni við að missa Kane og endurskipuleggja leikaðferð liðsins? Eru þeir líklegri til að enda neðar en 8.sæti því það var niðurstaðan á 30 marka tímabili hjá Kane.

PSG er með bestu sóknarlínu í heimi, Mbappe skoraði 29 mörk og lagði upp 5. Massi skoraði 16 og lagði upp önnur 16. Neymar skoraði 13 og lagði upp 11. Þrátt fyrir það slefuðu þeir í mark í deildinni með einu marki stigi meira en Lens þar sem markahæsti maður var með 21 mark og sá næst markahæsti með 7 mörk.

Markahæsti leikmaður Þýskalandsmeistara Bayern skoraði 14 mörk í deildinni í vetur. Markahæsti leikmaður Dortmund skoraði 9 mörk.

Markahæsti leikmaður Atletico í 3.sæti á Spáni lagði upp fleiri mörk (16) en hann skoraði (15).

Benzema endaði sinn feril hjá Real með 19 mörk og var markahæstur í því liði. Hinn óþolandi góði Vinícius skoraði ekki nema 10 mörk í deildinni.

Markahæstu menn Arsenal skoruðu 15 mörk en þeir voru líka með fjóra sem skoruðu 11-15 mörk í vetur.

Man Utd vann einfaldlega réttu leikina og dreifði mörkunum betur en Liverpool því liðið skoraði bara 58 mörk og fékk á sig alveg 43 mörk, hvorugt er merkilegt. Markahæsti maður þeirra var með 17 mörk í vetur og næst markahæsti maður náði ekki 10 mörkum. Samt náðu þeir 3.sæti, átta stigum meira en Liverpool sem var með 13 mörkum betri markatölu (eða einum 7-0 leik eða svo).

Það er sannarlega gaman að vera með sóknarmann sem skilar 20-30 mörkum og Salah hefur verið algjör forréttindi hjá Liverpool. En það er alls ekkert eina leiðin til að ná árangri í fótbolta að vera með einn alveg rosalega afgerandi markahæstan.

Liðið þarf allt að fúnkera sem heild.

Hver verður næsta markavél Liverpool?

Fyrir það fyrsta er vonandi ljóst eftir þennan lestur að það er alls ekkert sjálfgefið að Liverpool finni strax nýja markavél eftir að tíma Salah líkur og vonandi á hann nóg inni í nýju Liverpool liði þar sem vonandi verður einhver tengning komin á aftur milli varnarlínu og sóknarlínu í gegnum miðsvæðið.

Það skemmtilega við alla hina fjóra er að þeir eru ennþá nokkuð óskrifað blað.

Diogo Jota er mesta áhyggjuefnið hvað meiðslavandræði varðar. Hann hefur allt of oft verið á meiðslalistanum og lengi að jafna sig þegar hann kemur til baka. En rosalega beinskeittur þegar sjálfstraustið er í lagi líkt og við sáum strax eftir að hann skoraði loksins undir lok síðasta tímabils.

Luis Diaz var líka lengi frá vegna impact meiðsla en hafði fram að því aldrei meiðst. Hans meiðsli voru ekki þessi dæmigerðu álagsvöðvameiðsli sem bendir vonandi til að hann sé eitthvað líkari Salah en rest af hópnum.

Mögulega er það rangt mat en einhvernvegin finnst mér hann ekki jafn líklegur fyrir framan markið og hinir fjórir, Diaz virkar meira sem kantmaður og fínn arftaki Mané sem slíkur frekar en leikmaður sem þróast í +20 marka mann. That said þá var hann klárlega að stefna í vel rúmlega 20 marka mann síðasta tímabil sitt í Portúgal og líklega var maður að horfa svipuðum augum á Salah þegar hann kom.

Cody Gakpo er að byrja mjög vel og hefur allt að bera til að verða í miklu uppáhaldi hjá Klopp. Hann veit sannarlega hvar markið er en virðist líklegri til að verða Bobby Firmino nýrrar sóknarlínu frekar en annar af hinum tveimur. Það þíðir færri mörk, meiri vinna sem ekki sést eða er jafn auðvelt að meta út frá mörk/stoðsendingar tölfræði en verður að sama skapi jafnvel mikilvægari en hinir báðir. Hann er á hárréttum stað til að þróast í þennan leikmann því að á Anfield eru þessir leikmenn síður en svo unsung heros. Bobby Firmino getur kvittað upp á það.

Darwin Nunez – Hrár 24 ára sóknarmaður sem kom að marki hjá Benfica á 66 mínútna fresti áður en hann fór til Liverpool þar sem Jurgen Klopp er að móta hann. Það eru alltaf efasemdir um unga og hráa leikmenn og auðvitað viljum við tilbúna leikmenn til Liverpool, sérstaklega fyrir þennan pening og í þetta hlutverk. Miðað við sýnishornið sem við fengum í vetur er alveg ennþá ástæða til að vera mjög spennt fyrir framtíð Nunez hjá Liverpool. Hann þarf að skila miklu meira en 1.700 mínútum, en á þeim setti hann þó 9 mörk og klúðraði svona 20 góðum færum.

Ef ég ætti að veðja á einn af þessum núna væri það klárlega þennan sem kom með þróunarkenninguna.

Á eðlilegu tímabili væru tveir af þessum fimm leikmönnum að spila svipað mikið og við sáum Origi og Minamino spila, þessir eru allir miklu öflugri en þeir og haldist þeir betur heilir eru þarna möguleiki á að dreifa álaginu betur milli manna.

Eins gefur Evrópudeildin Liverpool enn frekar tækifæri til að nota hópinn og jafnvel þar gefa þeim sem standa svo fyrir utan þennan hóp séns. Ben Doak verður að fara spila meira í fullorðins fótbolta. Líklega væri best fyrir hann að taka eitt svona Blackburn lán en ef ekki þarf klárlega að finna fyrir hann mínútur í slíkum leikjum. Kadie Gordon er eins að koma til baka eftir rúmlega árs fjarveru og sömu lögmál eiga við um hann. Þeir eru báðir Sterling & Suso level spennandi unglingar en að koma inn í miklu betra Liverpool lið en gat gefið þeim töluverðan séns 17-18 ára gömlum.

Harvey Elliott verður svo meira og meira sóknarmaður í þessu Liverpool liði eftir því sem fleiri miðjumenn ganga til liðs við Liverpool. Hann var allavega enn meira efni en bæði Sterling og Suso voru, hvort hann standi undir því er ekki jafn auðvelt að segja núna.

Hvað með ykkur, hver af hinum fjórum sóknarmönnum Liverpool (fyrir utan Salah) hafið þið mesta trú á að springi út? 

47 Comments

  1. Frískandi að lesa þessa greiningu með morgunkaffinu. Sóknarúrvalið er stórt og fjölbreytt en það er eins og segir í byrjun greinar að meiðslin eru stóri óvissufaktorinn sem setja öll áform í uppnám.

    Darwin fór oft í taugarnar á mér – ákvarðanir, móttökur, slútt… úff þetta var stundum eins og í grínmynd. Veit ekki hvort samanburður við Suárez stenst – en ef svo er, þá erum við í góðum málum.

    Mér sýnist niðurstaðan vera sú að leggja ekki allt kapp á einstaka markamaskínur, fremur að dreifa mörkum og vanda sig í vörninni. Held það sé laukrétt. Það var ekki fyrr en við komum þeim málum í lag sem liðið fór að safna titlum. Er það þá ekki morgunljóst að óþarfi er að bæta enn fleiri sóknarmönnum við liðið en nú þarf að koma miðju og vörn í fyrra horf.

    5
  2. Flottur pistill.

    Ég hef trú á Darwin Nunez. En til þess hann springi út þarf liðið að spila talsvert betur en á síðasta tímabili. Hann þarf líka að fara vel af stað. Þangað til það klikkar er hann minn maður þegar kemur að markaskorun.

    8
  3. Sælir félagar

    Darwin Nunez er sá sem ég tel að komi með gríðarlega ógnun í sóknarleiknum. Svo þarf að fara að búa til leikmann sem getur tekið við af Salah og dettur mér helst í hug Doak eða Elliot. Elliot hefur ekki hraða á við Salah en ég veit ekki með Doak. Hefur hann hraða á við Sala? Veit það einhver. Kadie Gordon er líka gríðarlega (var, hver veit hvernig meiðsli hafa farið með hann?) lofandi sóknarmaður. Samt tel ég að það sem muni ráða úrslitum í gengi liðsins á komandi tímabili verði miðjan. Við verðum bókstaflega að fá fleiri mörk af miðjunni, meiri ógnun þaðan sem mun gefa sóknarmönnum fleiri tækifæri o.s. frv.

    Einnig þarf miðjan að verja vörnina mun betur en raun hefur verið á undanfarin misseri. Með kaupum á alvöru miðjumönnum, og einum alvöru miðverði mun liðið geta gert alvöru atlögu að titlum á næstu leiktíð. Ég persónulega hefi áhyggjur af leikmannakaupum en ætla ekki að tjá mig um þau fyrr en í haust. Ég er mjög sáttur við Mac Allister en það þarf miklu meira til. Eins veit maður ekki hvernig uppleggið verðu á komandi leiktíð. Hver verður staða TAA? Verður keyptur hægri bakvörður? Verður keyptur alvöru maður til að leysa Robbo af annað slagið? Sem sagt; hvað verður keypt og hvert verður uppleggið í spili liðsins í haust?

    Það er nú þannig

    YNWA

    7
  4. Total football + gegenpressen var það sem virkaði þegar Gini og Hendo voru að rúlla með Fabino og fleirum. Þegar liðið eltist og taktíkin varð þekktari þá vantaði meiri sveigjanleika og hraða í liðið.

    Þurfum að vera harðir og losa leikmenn sem eru einhæfir og ekki nógu hraðir. Elska Thiago en þurfum að selja hann. Megum ekki reikna með Hendo nema ca 60 míns á viku. Verðum að kaupa miðvörð. Erum bara með 4 og vantar yngri hlaupandi miðvörð.

    Framávið vantar eitthvað. Kannski geta TAA og MacA gefið okkur eitthvað. En sóknarleikurinn síðasta tímabil var alltof linur og Salah var of mikið uppleggið. Þarf að búa honum pláss en ekki spila á hann.

    Elliott er mjög efnilegur, en hann hefur engan hraða. Veit ekki hvað hann spilar fyrir okkur nema sem squad player og svona 1-2 player á móti rútum. En hann er ekki markaskorari. Jones er góður en hann er á mörkunum að vera nóg fyrir topp 5 lið í heiminum.

    Það sem er verið að tala um í slúðrinu eru ekki leikmenn sem ganga í 11 manna róteringuna. VIð erum að leita að sterkum landsliðsmönnum í bestu 16 liðum heims, eða besta leikmanna næstu 16 landsliðanna. Fínt að kaupa U21 leikmenn — en ekki til að setja þá í liðið.

    Sjáum til — en liðið sem við erum með er ekki lið sem maður reiknar með að keppi um titilinn næsta ár. Margir helstu leikmenn ári eldri, (VVD, Robbo, Hendo, Salah, Matip) nokkrir farnir og yngri mennirnir utan TAA og Konaté bara ekki heimsklassi ennþá. Diaz, Darwin, Gakpo geta sprungið út, en það er bara happa glappa. Jota týndur allt síðast og er ágætur en ekki maður sem maður byggir sóknarleik í kringum.

    En á meðan við erum ekki leikfang fursta, durta, eða spilltra landa þá horfi ég á alla leiki.

    9
  5. Takk fyrir þessa fróðlegu yfirferð. Skýrandi tölfræði og gefur góða mynd af stöðu mála. Ekki ætla ég að draga úr vægi Salah og guð minn almáttugur ef þessi drengur hann Nunez tæki nú upp á því að nýta færin sín. Sá yrði fljótur i 20+ mörk ef það gerðist. Spái því að hann springi út annaðhvort í vetur eða amk undir næsta vor. Eins og segi ætla ég ekki að draga úr vægi Salah og ef ég les rétt þá er hann búinn að skora 186 mörk (í öllum keppnum) fyrir okkar lið, þar af 26 úr vítaspyrnum. Í opnum leik gera það 160 mörk í 305 leikjum eða 0,52 mörk í leik að jafnaði sem er mjög gott. Til samanburðar skoraði Ian Rush 343 mörk í opnum leik (alls 346 mörk) fyrir Liverpool í 660 leikjum. Hann tók nefnilega ekki nema 3 vítaspyrnur fyrir Liverpool á ferlinum. Það gera líka 0,52 mörk að meðaltali í leik svo tölfræði Ian Rush er svipuð ef teknar eru frá vítaspyrnurnar og þar fyrir utan spilaði hann fyrir breytingu á rangstöðureglunni sem gerði sóknarmönnum sem lágu alltaf í aftasta varnarmanni erfiðara um vik að vera ekki rangstæðir. Báðir heimsklassa menn á sínum bestu árum.

    8
  6. Góðan og blessaðan daginn, út frá fyrirsögn á góðum pistli EM mætti einnig spyrja – hver verður næsti leikmaður Liverpool?

    Sama grafarþögnin á þeim bænum!

    Engin taugaveiklun hér, bara óttaslegin yfir því að hillurnar fari að tæmast! :O)

    3
    • tja maður hefur lesið nokkuð sannfærandi slúður um að kaupin á Khephren Thuram séu langt komin, en skiljanlega eru þau í biðstöðu vegna þess að hann er að spila í Evróukeppni U21 í augnablikinu og því er ekkert að fara að gerast í þeim málum fyrr en að hann hefur lokið keppni þar.

      3
      • Mögulega, en hvað vitum við um Thuram? Verður hann ekki bara einn af “unglingapakkanum” sem þarf tíma til að spila sig inn í liðið? Og afhverju erum við að bíða eftir að Euro U21 klárist? Erum við virkilega á þeim stað hvað varðar kaup í sumar?! Þurfum við ekki einhvern alvöru jaxl á miðjunni sem “kann á þetta” og tilbúinn í ensku úrvalsdeildina?

        Og talandi um slúður þá virðist City vera ná í okkar mann, Gvardiol og fyrst staðfest að Gundagon sé farinn til Barcelona, mun City þá ekki stela Declan Rice frá Arsenal?!

        Verður óþolandi ef það verður raunin!

        3
  7. Ég ætla að spá því að í fyrsta sinn í nokkur ár verði Salah ekki markahæsti leikmaður Liverpool, ekki útaf því að ég hafi áhyggjur af Salah. Ég held að Nunez komi fullur sjálfstraust í þetta tímabil og ef hann byrjar vel þá mun fátt stoppa hann. Hann gat gert mann brjálaðan í fyrra með endalausum klúðrum en hann kom sér í færi trekk eftir trekk, næsta tímabil verður stöngin inn hjá honum.

    9
    • Ég er sammála þessari spá þinni – vona að hann mæti dýrvitlaust á næsta tímabili og toppi landa sinn Luis Suárez……….. án þess þó að bíta manna og annan!

      4
  8. Ég verð mjög hissa ef Liverpool er að fara að gera eitthvað meira stórtækt í leikmannamálum í þessum glugga. Við vorum í tómu tjóni í vetur og heðum átt að bretta upp ermar strax í lok leiktíðar hvað varðar 2 – 3 leikmenn úr efstu hillunni, ok við erum búnir að ganga frá einum kaupum sem ég tel mjög fín kaup, enn kannski var gengið svo fljótt frá þessum kaupum vegna þess að ég tel að maðurinn hafi verið keyptur á hálfvirði, ef City eð Chelsea hefðu boðið hærra og hann verið opin fyrir því að fara til þeirra þá væri Alexis Mac Allister ekki leikmaður Liverpool í dag, sem sagt við vorum stál heppnir!

    Ég sé fyrir mér að Liverpool verði neðar á töflunni á næstu leiktíð enn þessari sem var að ljúka
    FSG er og veður alltaf dragbíturinn á það að Liverpool verði það stórveldi sem við eigum að vera.
    FSG er bara mörgum númerum of litlir til að eiga Liverpool Fc og það mun ekkert breytast meðan þeir eiga klúbbinn.

    Fólki hér á síðunni mun örugglega finnast ég hljóma svartsýnn enn ég byggi mína skoðun á getu FSG gagnvart stóru eigendunum síðan þeir komu 2010. Þessum stóru eigendum fer bara fjölgandi og eru þeir að minnstakosti orðnir fimm núna.

    8
    • hvers vegna hefði eitthvað annað lið átt að bjóða hærra en klásúluverð í Mac Allister?

      Mér þætti stórundarlegt ef Liverpool hafi verið eina liðið sem var áhugasamt um að kaupa AM á þessu verði. Allt bendir til þess að hann hafi valið Liverpool fram yfir önnur lið. Enda fékk hann nokkuð stóran samning.

      3
      • Indriði, það er það sem er heppnin hjá okkur hann valdi Liverpool.

        Ef það hefði orðið eitthvað kaupstríð um hann þá hefði FSG alsrei unnið það stríð, svo einfallt er það.

        3
      • Chelsea og Man Utd spurðust fyrir um MacAllister. Hann vildi koma til okkar og spila fyrir Klopp. Hann lítur greinilega á það líka að við séum eina liðið sem getur veitt Man City alvöru keppni og getur unnið CL á þarnæsta tímabili. Metur það þannig að hvorki Man Utd og Chelsea séu nálægt því. Skynsamur strákur sem hugsar ekki bara um peninga. Ef þau hefðu boðið hærra en við þá hefði hann nánast örugglega samt valið Liverpool. Vorum búnir að sannfæra hann og vinna í þessum díl lengi.

        Vel gert FSG að sniffa þetta lága kaupverð út. Þeir eru góðir í akkúrat svona eltingaleik. En þessi endalausa peninganíska þeirra mun samt eyðileggja Liverpool á endanum ef þeir selja ekki fljótlega. Við erum að dragast hratt afturúr. FSG bjóða núna Real Madrid lowball tilboð í Valverde og Tchouameni. Henry að reyna gera góðan díl eins og venjulega of treysta á að Real selji ódýrt því það liggur á að reyna kaupa Mbappe. Klopp vill greinilega Valverde en því miður fær Klopp nær aldrei sinn fyrsta kost hjá FSG. Real eru aldrei að fara að selja hann til erkifjenda sinna nema fá toppverð fyrir hann.

        4
  9. Pop Quiz: Ef það kemur 200m. punda tilboð í Salah frá einhverjum Saudi klúbbnum, á LFC að selja?

    2
    • Já selja, engin spurning! Mitt mat að Salah sé búinn með það besta, alltof mistækur síðustu leiktíð, klúðrandi vítaspyrnum, döpur sendingargeta……….

      ……. Nunez og Diaz stíga upp + Gakpo og Jota.

      Ímyndið ykkur hvað væri hægt að gera við 200m pund + það sem FSG ætlar (ætluðu) að setja í leikmannakaup í sumar!

      1
    • Það færi alveg eftir því hvort að þessar 200 millur færu beint í vasa FSG eða beint í leikmannakaup. Salah er einn allra besti leikmaður í sögu liðsins og hann á nóg eftir, liðið var allt í lægð á seinasta tímabili og hann skilaði sínu heilt yfir.
      Hann setti vissulega standardinn gríðarlega hátt á sjálfan sig en hann hefur alltaf skilað helling af mörkum og það má ekki gleyma því að hann spilar nánast alla leiki og það er nú ekki hægt að segja það um marga leikmenn í sögu leikmanna Klopp

      3
  10. Sælir félagar

    Hatton Rockall; nei. En að öðru, þ. e. leikmannakaupum. Því miður virðist svo að Ari Óskars og AEG hafi rétt fyrir sér. Ekkert bendir til að FSG skítateymið ætli sér að gera “stóra” hluti á markaðnum og bakka Klopp upp. T. d. það að gera tilboð í Tchouameni sem R. Madrid getur sætt sig við í stöðunni (þurfa aura til að kaupa Mbappe) virðist ekki vera á borðinu. Þeir hanga á nefhárunum í sínum nískudraumum og Klopp endar með eintóma leikmenn úr hillu 2. Það er nottla ekki boðlegt að þetta skítalið í FSG skuli ekki rífa sig upp á rasshárunum og klára díla eins og Tchouameni og Valvarde ef það eru þeir leikmenn sem Klopp vill fá. Þetta er farið að minna á síðasta sumar.

    Leikmenn eins og Thuram og Kone er örugglega áhugaverð kaup. En þeir eru vonarpeningur og enginn veit hvort þeir ná árangri í jafn erfiðri deild og enska deildin er. Tchouameni hefur sýnt það , meðal annars í leikjum gegn Liverpool að hann er alvöru leikmaður um Valvarde veit ég lítið en Klopp virðist hafa mikinn áhuga á honum. Ef FSG stendur ekki við stóru orðin og bakkar Klopp upp gefst ég endanlega upp á því hyski og held áfram með frasann; FSG out. En sjáum til. Ég hefi að vísu mikinn áhuga á Thuram og vona að hann verði leikmaður Liverpool. En ef sumarið verður svipað síðasta sumri þar sem ekkert var keypt nema ónefndur Argentínumaður, gef ég lítið fyrir stóru orð Klopp og FSG í lok síðustu leiktíðar.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
    • Hillu 2? Ertu ekki frekar að meina hvað hægt er að finna í kössunum sem útsöludótið er í?

      3
    • “Tchouameni hefur sýnt það , meðal annars í leikjum gegn Liverpool að hann er alvöru leikmaður ”

      Hann spilaði 6 og 0 mínútur í leikjunum á móti Liverpool…

      3
    • Reyndar er maður einmitt að lesa glænýtt slúður um að við eigum að hafa hækkað boðið í Valverde í 77m punda og Real hafi samþykkt það.
      Sjáum til hvort að FSG skítahyskið sé loksins að taka sönsum og Jóakim Henry Aðalönd hafi hrist sparibaukinn svo um munaði.

      Frábært ef þetta reynist rétt og hann kemur. Fjölhæfur og frábær heimsklassa leikmaður. Getur spilað flest allar miðjustöður og líka tekið hægri kantframherjann ef að Salah meiðist eða fer í Afríkubikarinn í janúar.

      2
  11. Diaz, Gakpo og Salah okkar lang sterkasta framlína. Hef trú á því að Diaz nái nýjum hæðum á komandi tímabili.

    Call the season on!

    5
    • Ég væri reyndar spenntur fyrir því að hafa Gakpo í hlutverki fremsta miðjumanns með 2 öfluga miðjumenn þar fyrir aftan, og Nunez uppi á topp.
      Gakpo er flottur í pressunni og frábær að rekja boltann.

      5
      • Ég vill að Nunez detti í gang og verði þarna með front 3 en væri mjög til í sjá Gakpo vera fyrir aftan þá það gæti vel virkað ásamt Mac Allister og Fabinho það trio væri ég til að sjá.
        Hvernig þessu verður stillt upp kemur í ljós hlítur að vera smá hausverkur fyrir Klopp og svo má ekki gleyma Jota.

        5
  12. Nunez er einfaldlega ekki kantmaður. Alla vega ekki eins og Liverpool hefur verið að hugsa og nota sem kantmenn. Setja hann fram og þá kanski. Ansi hræddur um að ef hann á að vera úti á kantinum að keyra fram og til baka, vinna með bakvörðum í overlapi og tilfærslum þá er hans tími búinn. Láta þá sem það kunna gera það og leita þá frekar að þannig mönnum eða þjálfa. Salah og Arnold hægra meigin. Hef takmarkaðatrú á vinstri vængnum eins og er. Diaz og Jota bara einfaldlega of miklar níur. Alla vega hingað til, myndi hjálpa til við að öðlast trú á þeim ef ég sæi þá einhvern tímann spila.

    Gakpo og Elliot á vinstri. Diaz og Jota sem uppfyllingarefni. Skiptir samt ekki einu máli ef það verður ekki solid miðja til að bakka það upp og frekar sorglegt ef hún má ekki kosta nema 35 mill per haus.

    Já ekki svakalega bjartsýnn, en það eru þarna nokkuð mörg kanski og ef þau ganga öll upp. Þá af hverju ekki?

    5
  13. Svo er spurning hvernig Curtis Jones sé hugsaður af Klopp, ég persónulega myndi frekar vilja sjá hann spila heldur en Thiago, ég myndi ekki vera fúll ef að Thiago færi í sumar því mér finnst hann ekki passa í hápressu og hratt uppspil hjá Klopp. Jones er ennþá mjög ungur af miðjumanni að vera og er kominn með mikla reynslu og eftir erfitt ár í fyrra með slæm meiðsli þar sem hann mátti lítið sem ekker æfa þá spilaði hann frábærlega seinustu 10 leikina eða svo.

    3
  14. Sælir félagar

    Já góðan daginn, 258 millur – já sæll og blessaður 🙂 🙂 🙂 Svona bulli um framlag til kaupa á einum leikmann til LIverpool trúir enginn 🙂 🙂 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    • tja eitt er að bjóða í og annað að kaupa.

      Við þekkjum FSG og ef eitthvað er til í þessu þá held ég að Nike komi að þessu líka.

      Þess utan geta FSG verið að horfa í mikla tekjumöguleika sem gætu náð langt upp í kaupverðið.

      PSG vilja amk selja í sumar og það eru ekki margir klúbbar sem koma til greina.

      PSG væru væntanlega til í að taka Mo Salah upp í kaupverðið.

      Real hafa reynt að beita brögðum í þessu ferli og hefur maður heyrt að PSG séu lítt hrifnir að selja hann þangað sem verður líklega niðurstaðan þó einnig sé líklegt að Mbappe neiti að fara nokkuð í sumar til þess að komast frítt til Real næsta sumar.

      Ef einhver fótur er fyrir þessu slúðri (sem ég er ekki sannfærður um) þá tel ég harla ólíklegt að Mbappe myndi vilja koma til Liverpool utan meistaradeildar.

      1
  15. Mbappe er líkt og Bellingham, bara draumórar.
    Væri flott ef Real færi bara að drífa þetta af og þá getum hætt að horfa á þetta slúður endalaust.
    Aftur á móti gætum við hjálpað þeim að fjármagna Mbappe ef þeir myndu bara selja til Liverpool Valverde eða Tchouaméni.

    3
    • Mbappe fer til Real og þá byrja sögusagnir um að Jamal Musiala sé efstur á óskalista Liverpool, það heldur stuðningmönnum Liverpool heitum í tvö til þrjú ár.

      6
  16. Arsenal að eyða 170m punda á einum degi í leikmenn. Liverpool búið að vera 3-4 hillum ofan við Arsenal í mörg ár. Við búnir að losa 6-7 leikmenn. Net spending er um 30m punda. Er eitthvað að frétta??

    3
    • Nei, ekkert að frétta. Ætli þessi Thuram komi ekki eftir EM-U21, hann er að spila þar með Frakklandi núna. Arsenal er með “statement” og taka Rice af shitty. Mér finnst LFC vinna hægt í þessum málum, of hægt fyrir minn smekk.

      4
  17. Já þetta er að ganga mjög hægt á meðan margt að gerast hjá andstæðingunum – draumórar með Mbappe og miðjumenn Real.
    Og hvað er að gerast hjá okkar mönnum á meðan? Jú nýjasta slúðrið tengt Liverpool er…….

    …… og haldið ykkur nú……… Dominik Szoboszlai ungverskur miðjumaður, hver er það??!

    Við erum svo sannarlega stórhuga eða hitt þó heldur korteri áður en liðið kemur saman til æfinga á ný…….. þegar yfirlýsingar á vormánuðum sögðu að öll innkaup ættu að vera búin!!

    4
    • að sumra mati betri leikmaður en Bellingham. Þetta væru gríðarlega spennandi kaup. Klásúlan 70 milljón evrur.

      4
    • Dominik Szoboszlai’s er stor og sterkur og fljotur sem er naudsynlegt fyrir midjumenn i enskabltanum i dag .Ef madur skodar midjumennina hja City Arsenal og Newcastle ser madur ekki neina titti sem geta verid godir lika en ta vantar styrkinn og kiloin . Ungverjinn Dominik er meira en efnilegur og mundi passa vel inn i hopinn i Liverpool svo vonandi er eitthvad til i ordromnum um ad hann se a leidinni.

  18. Þetta gengur mjög hægt… ég er að missa þolinmæðina… er að fara að sækja veskið og selja hlutabréfin og kaupa leikmenn á eigin kostnað og gefa Liverpool. Hverja viljið þið að ég splæsi í?

    2
    • missa þolinmæðina og enn eru 10 dagar eða svo í að undirbúningur hefjist.

      Ég myndi skilja óþolinmæði og pirring ef 10 dagar væru eftir af glugganum.

      Call the silly season off

      4
  19. Ég skal hinsvegar játa að öll þess nöfn á yngri leikmönnum sem slúðrað er um til Liverpool sbr Thuram, hinn ungverska Dominik o.fl……… ég hef ekkert séð til þeirra, kannski er einhver þeirra algjör gimsteinn sem mun brillera næstu leiktíð ef þeir á annað borð koma til Liverpool.

    Ég sófadýrið veit minnst hvað er í gangi og hvað þessir leikmenn geta, þetta verður bara að koma í ljós. Verður maður ekki að treysta Klopp & co fyrir þessu eins og öðru!

    Maður er bara svo brenndur með þetta undanfarin ár, hélt t.d. að við værum að fá algjört skrímsli inn á miðjuna þegar Keita kom en það fór nú á annan veg. Ox voru fín kaup eða þannig, einn Arsenal félagi sagði að við værum að fá hörku leikmann……. ef hann héldist heill!

    Hver man svo ekki eftir manni að nafni Mario Balotelli!

    Púff……………..

    1
  20. Jæja, þá er að sjá hvort Mason Mount verður peninganna virði hjá Man Utd næsta vetur.

    2
  21. MU menn í kringum mig sem ég hef hlerað eru ekkert yfir sig spenntir.

    2
  22. Úff, mount fyrir 55 millur punda og með 300 k á viku. Of feitt fyrir mig. Þessi Dominick er þrælgóður, hef aðeins fylgst með honum, og Thuram er svona hundrað sinnum betri kaup en mount.

    4
  23. Oj, Firmino á leiðinni til Sádi-Arabíu! Ég trúi þessu varla…

Steven Gerrard og Mo Salah

Szoboszlai að nálgast?