Í kjölfar umræðunnar síðustu daga væri ekkert skrýtið ef eftirfarandi spurningar myndu vakna hjá lesendum:
- Á að endurtaka leiki undir einhverjum kringumstæðum?
- Ef svarið við fyrri spurningunni er já, þá hvaða?
Svarið við fyrri spurningunni er mjög einfalt: já. Bara með því að skoða söguna, þá eru allnokkur dæmi um það að leikir hafi verið spilaðir aftur, bara núna síðast í september. Reyndar ekkert dæmi úr ensku úrvalsdeildinni, og mögulega eru menn tilbúnari í að ákveða að það eigi að endurtaka leiki þegar minna er undir heldur en er í PL. Þessi grein er með ágætis útlistun á þeim helstu leikjum sem hafa verið endurteknir, en við getum dregið innihald þeirrar greinar saman fyrir þá sem vilja ekki flytja sig af kop.is (og það er bara mjög skiljanlegt).
1. Arsenal – Sheffield United árið 1999 í deildarbikarnum: eftir að leikmaður meiddist og markvörður Sheffield sparkaði útaf, þá ætlaði leikmaður Arsenal að kasta boltanum til baka til Sheffield leikmanna eins og hefð var, en nýr leikmaður Arsenal sem ekki þekkti hefðir við þessar kringumstæður nappaði sendingunni og gaf á samherja sinn sem var á auðum sjó og skoraði. Allt varð brjálað, en leikurinn kláraður og Arsenal vann 2-1. Arsene Wenger bauðst til að endurtaka leikinn sem varð raunin, og aftur urðu úrslitin 2-1 Arsenal í vil.
Ástæða endurspilunar: hefðir ekki virtar, og að Arsene Wenger er franskur séntilmaður
2. Besiktas – Genclerbirligi árið 2005 í deildinni: dómarinn dæmdi aukaspyrnu fyrir gestina og flautaði að það mætti taka hana, en tók eftir að veggurinn var ekki í lagi og flautaði aftur. Gestirnir tóku engu að síður spyrnuna og skoruðu. Markið var dæmt gott og gilt og reyndist sigurmark leiksins, en dómarinn viðurkenndi að hafa gert mistök og setti það í skýrsluna, spyrnan var í reynd ekki rétt framkvæmd. Leikurinn var endurtekinn og fór nú 0-0.
Ástæða endurspilunar: dómari viðurkenndi í skýrslu að hafa gert mistök.
3. Suður-Afríka – Senegal árið 2018 í undankeppni HM: Suður-Afríka fékk víti vegna hendi þrátt fyrir að boltinn færi alls ekki í hendi heldur í hné Koulibaly. Vítið skilaði sigurmarki, en svo kom í ljós að dómarinn hafði verið viðriðinn mútuþægni og því ákveðið að endurtaka leikinn. Þar sigruðu Senegal menn 2-0.
Ástæða endurspilunar: spilling hjá dómara
4. Úsbekistan – Bahrain árið 2006 í undankeppni HM: heimamenn fengu vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr, en samherji þess sem skoraði úr vítinu var of fljótur á sér að fara inn í teig. Reglur segja að þá skuli endurtaka vítið, en dómarinn dæmdi aukaspyrnu Bahrain í vil. Þrátt fyrir að Úsbekistan endaði á að vinna leikinn 1-0 var ákveðið að spila hann aftur vegna þessara dómaramistaka, og sá leikur fór 0-0. Bahrain endaði því á að græða á þessu en komst þó ekki í lokakeppnina.
Ástæða endurspilunar: dómari fór ekki að reglum
5. Edgware Town – Harefield United árið 2006 í utandeildinni: nánast sama atburðarrás og hjá Úsbekistan-Bahrain, þ.e. víti ekki endurtekið eftir að samherji vítaskyttunnar var of fljótur inn í teig.
Ástæða endurspilunar: dómari fór ekki að reglum
6. Miami FC – Pittsburgh Riverhounds árið 2021 í bandarísku deildinni: þetta er reyndar ansi áhugavert tilfelli þar sem Howard Webb kom þarna við sögu, verandi þátttakandi í bandarísku dómarasamtökunum sem ákváðu að spila aftur tiltekinn hluta þessa leiks. Miami fékk aukaspyrnu nálægt eigin marki, sá sem tók spyrnuna gaf á samherja sem ætlaði að gefa á markvörðinn en hann missti af boltanum og hann fór í netið. Reglur segja að ef aukaspyrna fer beint í eigið mark skuli dæma hornspyrnu – það var gert í þessu tilfelli, en þarna hefði átt að dæma löglegt mark, þar sem markið kom ekki beint úr aukaspyrnunni heldur var ein sending þar á milli. Leikurinn var spilaður aftur frá mínútunni þegar markið var skorað, og þetta mark reyndist ráða úrslitum.
Ástæða endurspilunar: dómari fór ekki að reglum
7. Scunthorpe – Buxton í september sl. í ensku norðurdeildinni (National League): ekki tókst að ljúka leik vegna rigningar, komið var fram í uppbótartíma þegar hellirigning skall á, dómari stöðvaði leikinn og mat það svo eftir að rigningunni slotaði að aðstæður væru óboðlegar. Þrátt fyrir hve lítið var eftir var ákveðið að spila leikinn aftur frá byrjun. Endurspilunin breytti engu í þessu tilfelli þar sem Buxton hafði forystu í leiknum sem var hætt, og vann seinni leikinn sömuleiðis.
Ástæða endurspilunar: vallaraðstæður
8. Exwick Villa – Bow AAC árið 2019 í einhverri bikarkeppni: leik lauk með jafntefli, og dómari blés til framlengingar þar sem Bow skoraði 2 mörk og vann. En reglum hafði verið breytt varðandi hvað skyldi gera eftir jafntefli í venjulegum leiktíma, og rétt hefði verið að fara beint í vítakeppni. Leikurinn var endurtekinn og þá vann Exwick í venjulegum leiktíma.
Ástæða endurspilunar: dómari fór ekki að reglum
Lesendur taka eftir að ástæður endurspilunar eru allnokkrar. Dæmin varðandi vallaraðstæður eru fleiri, skemmst er að minnast leiks Liverpool og Chelsea síðasta vetur í kvennadeildinni sem hófst á glerhörðum velli þar sem leikmenn voru eins og beljur (í óeiginlegri merkingu) á svelli (í eiginlegri merkingu). Leikurinn var blásinn af eftir korter og spilaður aftur frá byrjun allnokkru síðar. Sjálfsagt væri hægt að finna fleiri dæmi um slíkt.
Eins og sést á þessari upptalningu þá er þarna um mismikilvæga leiki að ræða, og mismikið undir eins og gengur. Þó eru þarna leikir í undankeppni HM, og ég ætla að leyfa mér að meta það sem bara talsvert mikilvæga leiki. Vissulega er það þó þannig að þarna eru engir leikir úr ensku úrvalsdeildinni.
Það er þó ljóst að ef dómari fer ekki að reglum, þá eru komnar ákveðnar forsendur fyrir því að spila leikinn aftur, svo er það upp og ofan hvort leikurinn er spilaður frá þeim tímapunkti þegar reglur voru brotnar, eða hvort hann sé spilaður allur aftur, og virðist vera ljóst að viðkomandi knattspyrnusambönd eru að ákveða það bara eftir hentugleika. Strax þar er tækifæri til úrbóta varðandi regluverkið sem spilað er eftir.
Að sjálfsögðu er það þannig að það sem gerðist í leik Tottenham og Liverpool á sér engin fordæmi. Jújú, dómarar og VAR hafa gert mistök áður, og munu gera áfram. En stóra spurningin er: þegar VAR ætlar að leiðrétta dóm aðstoðardómara, og telur sig gera það, en klúður í samskiptum veldur því að leiðréttingin skilar sér ekki: er það sambærilegt við það að dómari fari ekki að reglum? Því það sem gerðist var vissulega að Liverpool skoraði löglegt mark, VAR ætlaði að láta markið gilda, en svo var markið ekki látið gilda. Við fellum engan dóm um það hér.
Höfum líka á hreinu að þetta er gerólíkt því að allar vitleysur sem dómarar hafa dæmt þýði að þá eigi að spila viðkomandi leik upp á nýtt. Ef dómari metur það sem svo að leikmaður hafi handleikið boltann innan vítateigs og dæmir vítaspyrnu, þá er hann að fara að reglum. Það hvort boltinn fór í hönd eða hönd í bolta er svo alltaf matsatriði, og það getur vissulega gerst að eftir ítarlega skoðun þyki þau augljóst að hið síðarnefnda hafi EKKI átt við og því hefði líklega ekki átt að dæma vítaspyrnu… en dómarinn fór engu að síður að reglum. Þetta var hans mat á þessum tímapunkti. Þannig er allt tal um úrslitaleikinn í Madríd 2019 eins og hvert annað þrugl og bull. Í fyrsta lagi voru bæði dómari OG VAR fullkomlega sammála um að þar hefði átt að dæma víti, og því engar reglur brotnar. Þar fyrir utan er ekkert “consensus” um að það hafi verið rangur dómur, nema síður sé. Einhverjir eru á því að þetta hafi ekki verið víti, aðrir eru sammála dómurum. Semsagt, engar reglur voru brotnar. Látum ekki óráðshjal Spursara rugla umræðuna og horfum á aðalatriðin.
Að lokum: það er síður en svo ljóst að Liverpool verði eina fórnarlamb þessara dómaramistaka. Ímyndum okkur að við séum komin fram til loka tímabilsins í maí 2024, og það kemur í ljós að Spurs eru í síðasta CL sætinu, stigi á undan liðinu á eftir. Þá er ljóst að það lið er jafnframt fórnarlamb þessara mistaka. Stuðningsmenn þess liðs eru e.t.v. á fullu við það að níða skóinn af Klopp og Liverpool í þessum töluðu orðum á netinu, en ætli tónninn myndi ekki breytast ef þetta yrði niðurstaðan? Tökum eftir að þetta gæti gerst í ýmsum tilfellum: Spurs og lið X jöfn að stigum en Spurs með betra markahlutfall, Spurs 1 stigi fyrir ofan lið X, Spurs 2 stigum fyrir ofan lið X en með verra markahlutfall. Og í reynd á þetta við í öllum tilfellum en ekki bara ef Spurs lenda í síðasta CL sætinu, því verðlaunafé fyrir lokasæti í deildinni er jú misjafnt eftir því hvar liðin lenda. En það að vinna sér inn sæti í CL er umtalsvert stærri biti að missa af og gæti vel skipt gríðarlegu máli fyrir viðkomandi félag.
Hver veit, kannski verða United aðdáendur skyndilega komnir með okkur í lið í lok tímabils?
Líklegasta staðan er að sjálfsögðu sú að leikurinn verði ekki endurtekinn. Og kannski er það bara best. Það sem maður óskar að gerist er að Klopp nýti sér mótlætið til að berja hópinn enn frekar saman, og að þeir einfaldlega sigli þessu heim héðan í frá. Tökum höndum saman og hjálpumst að við að láta akkúrat það gerast!
Sæl öll. Ég póstaði þessu reyndar hérna rétt áðan en á annan link. Held að kommentið sé meira viðeigandi hér. Auðvitað kysum við að spila aftur, af því að við erum betra lið og allt það. En hér endurtek ég mig semsagt í ljósi nýs pistils:
Stór vika að baki hjá okkar mönnum. Fínn skyldusigur í Evrópudeildinni. Hitt er vart þess virði að tala um meir, eins ljótt og það var í garð okkar liðs. Það sem ég vonast til að þetta gefi okkar liði er að dómarar hætti frá þessum tímapunkti að dæma á móti Liverpool í vetur. Það er í raun búið að taka af okkur flest hver stigin sem við höfum ekki halað inn vegna svona … já. Þið vitið hvað ég meina.
Mín skoðun er sú að það eigi ekki að endurtaka Tottenham-leikinn, eins sanngjarnt og það nú væri. Slíkt myndi enda með ósköpum og ekki verða LFC til góðs. Held að allir viti nú að það mun aldrei gerast hvort eð er.
Flestir muna þegar allir vildu stöðva deildina í Covid og slaufa hana af þegar við áttum 1 – nkvl. 1 stig eftir – og einhverjir 10 leikir eða ég man ekki hvað margir óspilaðir. Allir vissu að við vorum löngu búin að vinna deildina en í mörgum hlakkaði ef þetta kynni að verða niðurstaðan.
Hate frá öðrum stuðningsmönnum er mest á Liverpool af einhverjum sökum. Allt frá Shankly höfum við líklega verið stöðugasta liðið, með besta stuðningshópinn. Klopp er okkar Fergie, þó ég vilji nú alls ekki líkja þeim saman. Fergie þurfti aldrei að keppa við lið sem er kostað af ríkasta þjóðríki heims, sem veigrar sér ekki við að myrða áhrifafólk sem talar gegn þeim og blæðir peningum.
Í raun er með ólíkindum að við höfum yfirleitt getað staðið í City síðustu ár. Það er ástríðu félagsins að þakka. Jürgen Norbert Klopp hefur keyrt hana áfram og tendrað fágætan neista í leikmönnum sem hafa skilað sínu. Hann hefur endurnýjað liðið tvisvar, nú síðast í haust. Hann virðist töframaður hvað varðar sýn á leikinn og með minna fé á hendi en helstu keppinautar.
Ég ber í raun mun meiri virðingu fyrir MU en MCity, þótt ég vilji aldrei að MU vinni neitt. Í því felst kannski virðingin, vegna sögunnar.
Ferguson gerði ýmislegt gott. Klopp er hundrað sinnum skemmtilegri. Og hann lætur ekki deigan síga þótt hann viti að hann rís gegn ofurefli fjármálaafla sem hafa enga sögu, ekkert nema eyðimörk búna til úr hundrað dollara seðlum.
Kannski verða það örlög okkar líka.
Þangað til skulum við njóta þess að eiga þennan mannskap, þetta lið, og þennan stórkostlega stjóra.
Og trúa áfram.
YNWA
Endurtaka leiki er mjög langsótt og kallar á fleiri vandamál en hann leysir, svo við verðum að reyna að gleyma og berjast.
Geymt en ekki gleymt í mínum huga.
Góð samantekt Daníel og mjög áhugaverður lestur.
Það sem ég er þakklátur fyrir ykkur pennana hér á Kop.is
Nú þori ég ekki að spá um það hvort leikurinn verður leikinn aftur eða ekki. Það er svo erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Klopp hefur lýst sinni skoðun og ég er henni sammála. To be, or not to be: that is the question.
Allt er gott að frétta af Gunnu spákonu. Hún hefur komið sér fyrir á glæsihóteli við ströndina í Brighton & Hove Albion. Hún segir þó að gargandi mávarnir eigi að sofa á nóttunni og líka í leiknum.
Við hér á Ystu Nöf drekkum nú kaffi í setustofunni.
Skínandi umfjöllun, takk Daníel. Þetta er það besta sem ég hef lesið um þetta mál. Það hefur angrað mig eins og sveimandi lúsmý alla vikuna. Flott að setja það í samhengi við önnur lið sem kynnu að tapa á þessum óréttlátu stigum.
Sælir félagar
Ég get ekki að því gert að ég er enn fjúkandi reiður vegna tottara leiksins og ég er dálítið hissa á stuðningsmönnum tottara hvað þeir eru ánægðir með stolin stig úr leik sem þeir í reynd töpuðu. En þeirra fátæklega sálarlíf liggur mér í léttu rúmi. Þrátt fyrir reiðina er það nú svo að ég vil ekki spila þennan leik aftur og ég trúi að þetta eigi eftir að bíta tottara að lokum. Að lokum mun þetta lið sem fagnaðai stolnu stigunum eins og þeir væru orðnir meistarar fá sitt karma og það verður yndislegt.
HVað pistil Daníels varðar þá þakka ég fyrir hann. Mjög góður pistill og samantekt. Samkvæmt honum er margt sem styður þá kenningu að leika eigi leikinn aftur. Ég vil það ekki, bara alls ekki. Það mun bara auka álitamálin sem VAR býr til og hefur búið til. En vonandi fær Liverpool betri og sanngjarnari dómgæslu eftir en áður. Vonandi áttar dómarastéttin sig á að þetta gengur ekki lengur og Simon Hooper mun eiga erfitt í framtíðinni hvað sem svo veldur því? 🙂
Liverpool og Klopp mun hrista þetta mótlæti af sér og berja liðið saman í grjótharðan hnefa sem brýtur deildina undir sig og stendur uppi sem meistari í vor. Skítahópurinn hjá totturum mun súpa hel (óeiginleg merking) og karmað mun bíta þá fast. Ánægja þeirra vegna stolinna stiga mun fleyta þeim skammt á vegferðinni og ummæli Ange Postecoglou gera það að verkum að ég hefi svona 1000 sinnum minna álit á þessum “geðþekka” stjóra en áður.
Það er nú þannig
YNWA
Mér finnst mjög mikilvægt fyrir heilindi leiksins að leikmenn og stuðningsmenn liðanna skynji það að það ríki engin spilling á bak við tjöldin. Að menn geti á leikreglur verið öruggir um það að klíkuskapur eða fyllerí dómara í útlöndum ráði ekki úrslitum leikja. Þennan leik þyrfti að endurspegla og þótt hann tapaðist 14-2 þá væri það leið til þess að leikmenn og stuðningsmenn myndu trúa því á leikdegi að betra liðið á deginum myndi oftast vinna.
Frábær pistill og samantekt Daníel!
Ég er eindregið þeirrar skoðunar að verði leikurinn ekki spilaður aftur verði skapað ömurlegt og vont fordæmi.
Reglum leiksins var ekki fylgt og ætli menn í alvöru að láta það viðgangast þá er deildarkeppnin þennan veturinn ónýt eða a.m.k. verulega sködduð.
Áfram Liverpool!
Eg er orðin gamall kall 38 ara og bara nybuin að atta mig a þvi að fyrir neðan mig er komin önnur kynslóð ( GUÐ BLESSI HANA ) en það er aukaatriði en þegar það gerist ad menn ætla að fara að spila leiki aftur þa endanlega hætti eg að horfa a þessa íþrótt. Nógu erfitt er að geta aldrei fagnað marki þegar markið er skorað hvað þa ef maður gæti aldrei fagnað sigri eftir leik og þyrfti að biða i nokkra daga vegna þess að mögulega I leiknum voru domaramistok sem verða til þess að leikinn þarf að spila aftur, NEI TAKK, HELD að enginn myndi vilja það., þetta yrði algjört fíaskó og ef einn leikur yrði spilaðir aftur værum við að hlusta a það eftir hverja helgi hvort ætti ekki að spila 3-4 leiki aftur.. einföldum þetta bara og hendum þessu ógeðslega VAR út, þetta er fullreynt., eg vildi þetta aldrei og það er augljóst að þetta er að skaða þessa yndislegu íþrótt. Fyrir viku síðan eftir leikinn við Tottenham fór eg ut i glugga setti hausinn niður, tárin láku bara niður og eg vissi ekki hvort það væri af gleði, stolti, reiði , sorg, gremju eða hvað og eg kom ekki upp orði i góðar 40 mínútur..
Fyrsta sem eg sagði við konuna mina eftir þessar 40 mínútur þegar eg hafði hugsað þetta til enda var þetta, VIÐ VINNUM ÞESSA DEILD MEÐ YFIRBURÐUM I MAÍ… liðið er frábært og karakterinn i þessum leik spilandi 9 gegn 15 eða 18 eða eitthvað sagði mer það að þetta lið sem Klopp er að smiða er orðin og verður ÓSIGRANDI MASKÍNA. Meira hef eg ekki um málið að segja 🙂