Í dag var opinberað að Everton verður refsað um 10 stig vegna vegna brota á fjármálareglum. Þessi refsing hljómar rosalega, en eins og deildin er að spilast þá myndi ég samt setja pening á að þeir bláu haldi sér uppi. Þeir byrja deildina aftur með fjögur stig. Luton, sem hoppar uppí sautjánda sætið við þetta eru ekki með nema sex stig og mér finnst ekki óraunhæft að Everton nái í þremur stigum meira en Luton, Sheffield og Burnley í næstu 26 leikjum. Það gæti reynst Everton mikið lán í óláni að þetta gerist í ár, þegar botnlið deildarinnar eru sögulega hörmuleg gæðalega.
Þetta er í sjötta sinn sem FA dregur stig af liðum fyrir fjármálabrot. Birmingham voru fyrstir til tímabilið 2018/19, Derby hafa lent í þessu, Reading einu sinni og síðast en ekki síst Sheffield Wednesday tvisvar. Þess má geta að lið get líka misst stig fyrir að fara á hausinn sem hefur þó nokkrum sinnum gerst, meðal annars fyrir Derby, Bournemouth og Wrexham svo nokkur dæmi séu tekin. Everton skera sig úr því þeir (að ég fæ best séð) eru fyrsta enska úrvaldeildarliðið sem eru tekið svo föstum tökum.
Það eru 115 ástæður fyrir að þetta vekji upp blendnar tilfinningar. Við viljum öll að það séu skynsamar og góðar reglur sem eru á einhvern hátt sanngjarnar. Oft gleymist að tilgangurinn með FFP var ekki bara að hafa hemil á liðum sem fá sykurpabba inn, heldur líka að verja lið frá eigendum sem veðja öllu á að komast upp um deild og hrynja svo í sundur.
Ef að væri eina markmið FFP er ekki hægt að kvarta yfir árangrinum: Áratuginn áður en FFP tók gildi þá fóru 40 lið á hausinn á Englandi. Á þeim tólf árum sem liðið hafa síðan hefur það gerst átta sinnum. Tvö að þeim atvikum voru strax árið á eftir, fjögur gjaldþrotana gerðust í og strax eftir Covid.
En það var önnur ástæða fyrir að reglurnar voru settar á. Chelsea FC. Þeir og síðar Manchester City sýndu að hægt væri að dæla peningum inn í fótboltalið og breyta annars meðalstórum félögum með sterkan grunn í risa. Í tilfelli Chelsea virðist drifkrafturinn hafa verið egó fyrrum eiganda, en City og Newcastle hafa sýnt að það er hægt að nota fótboltafélög til að hvítþvo heilu löndin.
Sama hver ástæðan er stríðir það gegn sanngirnistilfinningu okkar að hægt sé að kaupa sér árangurinn. Íþróttaandi byggist á miklu leyti á þeirri hugmynd að maður uppskeri eins og maður sái. Engum finnst það sanngjarnt að hægt sé að dæla peningum inn í fótboltafélag til að gera það að stórveldi, ekki frekar en við myndum dást að Usain Bolt ef hann hefði slegið heimsmet sín með því að taka tíu sinnum meiri stera en keppinautarnir.
Svo þarf að hugsa út í framtíð deildarinnar. Í Frakklandi, á Ítalíu, á Skotalandi og í Þýskalandi hefur það nú verið þannig í áratug að sama liðið vinnur deildina. Einn stærsti styrkur ensku deildarinnar sem markaðsvöru var að manni fannst eins og mun fleiri lið gætu unnið. Hægt og rólega er sú tilfinning að dofna. Mun fólk nenna að horfa á City og Newcastle berjast um titilinn tíu ár í röð? Til að sú staða raungerist ekki verður að taka á þessum peningasterum.
Mun það gerast? Ég efa það. Þess vegna er svo erfitt að gleðjast mikið yfir óförum Everton í þessu efni. Þangað til deildin sínir að þeir geti látir réttlætið ganga yfir stóra sem smáa, eru reglurnar einfaldlega ósanngjarnar.
Hvað finnst ykkur? Er þetta vonarneisti um að blái fíllinn fái ekki að traðga á deildinni að eilífu, eða bara táknrænn gjörðingur sem mun engu breyta nema blóðþrýstingi Sean Dyche?
Bara svo það er alveg á hreinu þá á 100% að refsa þeim sem svindla og það er ömurlegt að Everton hafi gert það.
Það sem fer samt í taugarnar á mér að þetta svindl þeirra leiddi til þess að Burnley féll úr deildinni á kostnað Everton og töpuðu gríðarlega á þessu svindli. Það að draga 10 stig af Everton er minniháttar refsing og gæti svo bara ekki skipt neinu máli ef þeir bjarga sér frá falli í vor.
Það verður aldrei nóg í mínum huga að fella ManCity eða taka af þeim stig. Það eina sem það myndi gera væri að hægja á þeim í smá tíma en á endanum væri líklegt að það hafi borgað sig að svindla sem væri ömurleg niðurstaða. Það verður því að taka af þeim titlana sem þeir unnu með því að svindla svo lið hegði sér eðlilega í framtíðinni.
Áfram Liverpool!
Það er svó undarlegt í gangi í kringum þessa deild að ég er löngu hættur að botna í því. Man City og Chelsea eru með einhverjar ótrúlegar barbabrellur og sleppa við refsingu en Everton fær aftur á móti 10 stig afskrifuð..
Ég gleðst sannarlega þegar okkar menn niðurlægja Everton á Anfield eða Goodison – þess utan er bara fínt ef þeir ná stigum af Manchester liðunum og öðrum. Everton bikarinn hefur heldur ekki farið upp í hillu hjá þeim síðustu ár.
Þetta svindl þeirra er líka svo stórkostlega misheppnað að það er aumkunnarvert.
En þetta sýnir aumingjaskapinn hjá FA í enn skærara ljósi. Svind Man City er svo stórkostlega stærra að það dugir ekkert minna en dæma alla titla af þeim frá þeim tíma sem Mancini tók við liðnu og fella þá niður í fjórðu deild.
Ætli Cit og Chelsea séu ekki með fleiri og klókari lögmenn á sínum snærum en Everton hafði ráð á að ráða? Þetta er gamla sagan: Fangelsin eru full af fólki sem stal ýmsu smáræði en þeir sem stálu formúgum hafa það gott í háhýsunum!
Þeir munu aldrei ná City fari svo ólíklega að félagi verði dæmt til einhverrar refsingar þá mun Liverpool ekki hagnast á því. Ekki frekar en Burnley sem féll niður um deild þarna um árið.
Það er víst þannig að mun auðveldara er að ráðast á litla manninn. Minnir mig á sögu skósmiðs í Kringlunni sem var, hlutfallslega, sektaður mjög hátt fyrir að vera ekki með sýnilegt verð á skóreimum í hillu sinni. Skósmiðurinn benti réttilega á að verslun beint á móti var með risastóran glugga með engum verðmerkingum. Sá aðili var í eigu Haga…
Svona virkar þetta, því miður
Kv
Haddi
Svo þarf að hugsa út í framtíð deildarinnar. Í Frakklandi, á Ítalíu, á Skotalandi og í Þýskalandi hefur það nú verið þannig í áratug að sama liðið vinnur deildina. Einn stærsti styrkur ensku deildarinnar sem markaðsvöru var að manni fannst eins og mun fleiri lið gætu unnið. Hægt og rólega er sú tilfinning að dofna. Mun fólk nenna að horfa á City og Newcastle berjast um titilinn tíu ár í röð?
———–
Þessi málsgrein er svo afspyrnu vond í annars ágætis pistli. Hefur áhorf á þessar deildir dregist saman þrátt fyrir yfirburða 1-3þriggja liða í hverri deild fyrir sig?
Var ekki alveg jafnmikið horft á Ensku deildina þegar að United vann Premier League titla á tuttugu árum?
Trúið mér, ég er alfarið á móti þessum sykurpöbbum og fjárhagslegu svínaríi en ég held að áhorf á ensku deildina sé aldrei að fara dragast saman þrátt fyrir yfirburði Man.City og hugsanlega Newcastle í framtíðinni.
vantaði 13titla “United vann 13 Premier League titla á tuttugu árum?”