Það styttist í hálfleik enska boltans og 13 dagar í gluggaopnun. Við eigum eftir að fara rækilega í alls konar slúður um okkar menn en þangað til er ekki úr vegi að skoða aðeins hvernig þeim farnast sem hafa farið á lán nú í vetur, svona í ljósi þess að í öllum tilvikum væri hægt að kippa þeim til baka…þá annað hvort til að hafa í hóp eða mögulega lána á ný eða selja.
Alls eru 16 leikmenn frá okkur á láni þetta tímabilið og ég ætla hér að skutla þeim í þrjá hópa. Í fyrsta hópi (efsta skúffa) eru leikmenn sem eiga leiki að baki fyrir aðalliðið, í miðskúffunni leikmenn sem hafa verið í kringum leikmannahópinn eða lyklar í U23ja ára liðinu og í botnskúffunni ungir menn sem hafa lítið rekist á aðalliðið. Kíkjum á hver staðan á þessum köppum er!
Efsta skúffan
Nat Phillips – Celtic þekkjum við ansi vel enda kappinn búinn að spila alls 29 leiki fyrir aðallið LFC. Hann fór á láni til Skotlands í haust og rennur það út í janúar. Þegar hann fór uppeftir þótti líklegt að hann yrði stór hlekkur í liði þeirra þverröndóttu en það hefur ekki orðið. Hann hefur leikið 8 leiki hingað til hjá Celtic og þar af 2 í CL. Þegar hann var lánaður var horft til þess að hann yrði mögulega keyptur en nú lítur allt út fyrir að ekkert verði af því og hann mætir til Kirkby á nýju ári enn á ný mögulega sem fimmti kostur í okkar vörn og ólíklegt að hann fari annað á þessum vetri.
Rhys Williams – Aberdeen er hafsentsfélagi Phillips og sá trítlaði líka upp til Skotlands og er í leikmannahópi Aberdeen. Þeir rauðklæddu hafa átt ansi erfiðan vetur í deildinni og eru í fallbaráttu en þrátt fyrir það hefur Williams ekki fengið eina leikmínútu og bara verið í hóp í Euro Conference League. Þetta er endurtekin saga, hann hefur hreinlega aldrei náð að spila af viti í sínum lánsferðum og nú þykir nokkuð ljóst að kappinn verði kallaður úr láni í janúar og lánaður annað, líklegast til liðs í League One. Það að hann eigi 19 leiki fyrir aðallið LFC er náttúrulega a.m.k. magnað!
Fabio Carvalho – RB Leipzig var fenginn til LFC með töluverðri eftirvæntingu og fyrst um sinn á ferlinum þar leit vel út. Eftirminnilegt sigurmark gegn Newcastle en svo fjaraði hann út og var að lokum varla í hóp. Eitthvað súrnuðu samskiptin hans við þjálfarateymið og úr varð að hann var lánaður í Bundesliguna. Þar hefur hann sannarlega ekki náð miklu flugi en hefur þó náð í alls 14 leiki í öllum keppnum. Samtals hefur hann þó ekki náð nema 354 mínútum en fékk í fyrsta sinn 90 mínútur nú nýlega í lokaleik RB Leipzig í Meistaradeildinni. Hávært spjall hefur verið um það að hann verði kallaður til baka en stjórnendur þýska liðsins segja ekkert til í því og hann muni klára lánssamninginn þar.
Tyler Morton – Hull skrifaði undir langtímasamning í haust áður en hann valdi svo að fara til Hull City á láni. Eftir vel heppnað lánsdvöl hjá Blackburn í fyrra taldi hann ferlinum betur borgið aftur í Championshipdeildinni þar sem hann er í algeru lykilhlutverki í baráttu fyrir því að koma liði í playoffs keppnina. Auk þess var hann valinn í U21s árs lið Englands nú í haust þar sem hann lék í “sexunni” í síðasta leik liðsins. Klopp hefur sagt LFC vera að fylgjast náið með framvindu hans og ég held við getum sagt að hans lánsdvöl sé sú sem best lítur út hjá okkur!
Sepp van den Berg – Mainz hefur ekki náð að verða alvöru partur af byrjunarliði LFC en það eru ennþá raddir sem segja hann eiga möguleika á því. Ákveðið var að senda hann á lán í Bundesliguna og þar er hann í dag fastur maður í liði Mainz sem situr vissulega í botnsætum deildarinnar en það að hann spili nær allar mínútur gefur von um að hann geti mögulega gert alvöru atlögu að því að fá eitthvað hlutverk í vörninni frá næsta sumri. Það er a.m.k. ljóst að hann er að auka virði sitt þessa dagana sem er jú alveg ágætis aukaverkefni ef þeir ungu eru ekki klárir í byrjunarliðið.
Miðskúffan
Calvin Ramsay – Preston er efstur í miðskúffunni og gæti mögulega verið í efstu enda keyptur í fyrra með það að markmiði að eiga möguleika í aðalliðið, nokkuð sem hvarf þegar líkaminn eiginlega bara gaf sig. Í sumar var ákveðið að senda hann stutta leið upp til Preston þar sem hann lenti í nýjum meiðslum sem kölluðu á hnjáaðgerð. Hann náði sér loks eftir meiðslin og lék tvo leiki nú í lok nóvember en fékk svo Covid sem hefur haldið honum frá þátttöku. Kappinn er búinn að vera annað slagið í Kirkby og fengið mikið hrós bæði þar og hjá Preston fyrir einbeittan baráttuvilja í meiðslunum og mikið skulum við vona að seinni hluti mótsins verði á þann veg að hann komi aftur næsta sumar í leikæfingu og hægt verði að sjá hvort hann á framtíð á Merseyside.
Owen Beck – Dundee hefur farið bara nokkuð þekkta leið sem lánsmaður Liverpool, upp til Skotlands. Þessi vinstri sinnaði Walesmaður hefur leikið sem vinstri bakvörður í fjögurra manna vörn eða vængbakvörður í fimm manna línu og er fastur maður í byrjunarliði Dundee sem hafa náð ágætum árangri í efstu deildinni. Hans nafn var töluvert uppi fyrir nokkrum árum en virðist hafa tapað af lestinni hjá LFC en líklegt má vera að hann fylgi fordæmi Leighton Clarkson og fari fyrir fullt og fast í skoska boltann næsta sumar og þá fyrir ágæta upphæð.
Harvey Davies – Crewe er markvörður sem margir hafa nefnt sem arftaka Kelleher hjá okkur næsta sumar. Hávaxinn og kraftmikill kappi sem ákveðið var að senda í bardagana í League Two hjá nágrönnum okkar til austurs. Hann er fastur maður þar, hefur leikið alla leikina hingað til í liði sem er í toppslag deildarinnar þegar þessi orð eru skrifuð. Stuðningsmenn Crewe eru sáttir við hans frammistöðu sem þó hefur alveg verið sveiflukennd eins og við má búast hjá ungum manni en ef hann heldur áfram á sömu braut og klárar 50+ leiki á þessari leiktíð kemur kröftugri leikmaður til baka. Klárlega góð ákvörðun fyrir hann og félagið að velja þessa leið.
Billy Koumetio – US Dunkerque var underdog-hetja eitt sumarið, stór með svakalegan vinstri fót…en býsna mistækur í sínum aðgerðum. Eftir misheppnaðan lánsvetur í fyrra var hann sendur í næstefstu deild í Frakklandi og eftir erfiða byrjun hefur hann verið að fá mínútur í síðustu leikjum. Þó fyrst og fremst í vinstri bakverði sem er nú væntanlega ekki staða sem hann myndi leysa hjá LFC. Kappinn er orðinn 21s árs og líklega ekki í framtíðarplönum okkar manna svo vonandi nær hann sér á strik þannig að við fáum verð fyrir hann næsta sumar.
Anderson Arroyo – FC Andorra er 24ra ára Kólumbíumaður sem hefur verið sendur víða um Evrópu síðustu ár. Upphaflega var það til að reyna að fá fyrir hann atvinnuleyfi en héðan af er alveg ljóst að fyrst og síðast er verið að reyna að búa til pening í honum. Hann hefur í vetur verið í spænsku B-deildinni líkt og síðustu ár og líklegast má telja að hann verði seldur næsta sumar því hann rennur út á samningi 2025 og því síðasta árið sem eitthvað gæti fengist fyrir hann. Er yfirleitt í liði FC Andorra þessar vikurnar.
Botnskúffan
James Balagizi – Wigan hefur farið um neðri deildirnar síðustu ár og ætlaði sér að ná árangri í League One hjá Wigan eftir ágæta frammistöðu hjá Crawley í fyrra. Alvarleg meiðsli hafa þýtt að hann verður væntanlega sendur til LFC í janúar og líklegt þykir að honum verði gefinn kostur á að kveðja snemma enda samningurinn hans útrunninn næsta sumar.
Dominic Corness – Yverdon hefur leikið töluvert á undanförnum árum hjá U23ja árs liðinu án þess að fá athygli frá aðalliðinu. Hann var lánaður til Sviss þar sem hann hefur verið inn og út úr liði Yverdon sem er í neðri hluta deildarinnar.
James Norris – Tranmere hefur fengið ansi fáar mínútur fyrir nágranna okkar frá Wirral þrátt fyrir að þeir séu í harðri baráttu um að halda sér í ensku deildarkeppninni.
Luca Stephenson – Barrow væri mögulega Öskubuskan í þessum hópi. Eftir að hafa leikið 3 fyrstu leiki með U23ja ára liðinu var hann sendur í League Two þar sem hann hefur leikið stórt hlutverk í fínu gengi Barrow sem eru óvænt í toppslag. Þessi varnarsinnaði miðjumaður hefur verið undir radar en er a.m.k. kominn á þann stað að geta fengið lið í neðri hluta Englands næsta tímabilið.
Jakub Ojrzynski – Den Bosch hefur verið inn og út úr liði í næstefstu deild Hollands. Þessi pólski markmaður hefur fengið að koma nálægt aðalliðshópnum undanfarin ár en það þykir afskaplega líklegt að hann hverfi burt næsta sumar í ljósi þess að Davies er að spila hjá Crewe og Pitaluga er framar honum líka í goggunarröðinni.
Luke Hewitson – Stalybridge Celtic er enn einn markvörðurinn. Sá var lánaður í sjöttu efstu deild Englands og er þar varamarkvörður, en snýr aftur til LFC 1.janúar eftir að hafa ekki leikið eina mínútu.
Svo, þetta eru þeir 16 leikmenn sem liðið hefur sent frá sér nú í vetur. Bestur árangur lánsmanna í vetur liggur í fótum Morton og van den Berg en það eru þó litlar líkur til þess að einhver hér verði í hlutverki seinni hluta tímabilsins. Meiri líkur eru væntanlega á því að fjölgi í útlánshópnum eftir að við erum farnir úr Europa League þar sem margir ungir hafa fengið sénsa. Nöfn eins og Kaide Gordon, Calum Scanlon og jafnvel Ben Doak eru nöfn sem mögulega verða sendir út á lán frekar en að klára tímabilið með U23ja ára liðinu og þá ekki síst í ljósi þess hversu vel það heppnaðist að senda Quensah í slíkan túr seinni hluta síðasta tímabils.
Kemur ekki á óvart að Tyler Morton standi sig vel. Góður leikmaður sem hefur ekki verið nógu líkamlega sterkur en það er að koma.