Arsenal á Þorláksmessu

Það er farið að síga á seinni hlutann í desemberlotunni, og næsta verkefni er að fá Arsenal í heimsókn á Anfield. Það vill reyndar til að þessi lið munu spila þrisvar á næstu 6 vikum eða þar um bil: í deild 23. desember, í bikar þann 7. janúar í London, og svo að lokum í deild þann 3. febrúar, aftur í Lundúnaborg. Reyndar verður svo svipað í gangi með Fulham: leikurinn 3. desember er okkur enn í fersku minni, og svo bætast við tveir leikir gegn þeim í undanúrslitum deildarbikarsins: 10. janúar og svo þann 24. janúar.

En tökum bara einn leik í einu, og það er leikurinn gegn Arsenal á Anfield á Þorláksmessu. Þetta verður í a.m.k. annað sinn á leiktíðinni þar sem liðin í 1. og 2. sæti mætast, hitt skiptið var einmitt þegar Liverpool og City mættust í lok nóvember. Sigurvegarinn í þessum leik fær þann heiður að verma toppsætið um jólin, en ef liðin gera jafntefli þá gætu Aston Villa hirt þann heiður með sigri á Sheffield United (sem við gerum nú frekar ráð fyrir að gangi eftir).

Talandi um toppsætið um jólin: það er ansi sterk fylgni milli þess að vera á toppnum um jólin og að vinna deildina um vorið. Undantekningarnar eru þó nokkrar ef við skoðum síðustu 20 ár, og það er ansi óþægilegt mynstur sem má lesa út úr þessum gögnum…

  • 2003-2004: United á toppnum um jólin, Arsenal vann
  • 2007-2008: Arsenal á toppnum um jólin, United vann
  • 2008-2009: Liverpool á toppnum um jólin, United vann
  • 2013-2014: Liverpool á toppnum um jólin, City vann
  • 2018-2019: Liverpool á toppnum um jólin, City vann
  • 2020-2021: Liverpool á toppnum um jólin, City vann
  • 2022-2023: Arsenal á toppnum um jólin, City vann

Við þökkum Arsenal kærlega fyrir að hafa rofið þessa leiðinlegu hefð sem var farin að myndast, og vonum að þetta gerist ALDREI aftur.

En til að allrar sanngirni sé gætt, þá var Liverpool vissulega á toppnum jólin 2019, og endaði svo á að vinna deildina vorið 2020 (eða reyndar um sumarið/haustið, út af dottlu). Mesta kraftaverkið er samt eiginlega að Liverpool skyldi hafa verið á toppnum jólin 2020, við munum öll hve það tímabil var mikið stórslysatímabil með nánast alla miðverði liðsins á meiðslalistanum megnið af tímabilinu.

Nóg um það. Það er betra að vera á toppnum en að vera EKKI á toppnum, og alveg sama hvenær það gerist á tímabilinu, þó það skipti auðvitað í raun í raun engu máli nema hver er á toppnum að loknum 38 umferðum.

Andstæðingarnir

Við erum að fá ansi sterkt lið í heimsókn, lið sem var í titilbaráttu megnið af síðasta tímabili, og styrkti sig svo ágætlega í sumar. Aðal viðbótin hlýtur að teljast Declan Rice frá West Ham, sá hefur heldur betur fundið fjölina sína eftir vistaskiptin milli Lundúnaklúbbanna. Hann var ekki sá eini sem kom frá nágrönnum Arsenal í Lundúnum, því Kai Havertz kom frá Chelsea og virðist vera að ná vopnum sínum eftir að hafa verið aðeins hægur af stað. Enn ein viðbótin við hópinn kom frá þriðja Lundúnafélaginu: David Raya kom frá Brentford og virðist vera búinn að setja Ramsdale á bekkinn. Klár bæting þar, þó svo Raya hafi nú ekki endilega virkað eitthvað ævintýralega öruggur öllum stundum. Að lokum fengu þeir svo Timber frá Ajax, en hann er í langtímameiðslum og sést varla fyrr en í vor í allra fyrsta lagi.

Verandi á toppnum í augnablikinu þá hefur þeim gengið alveg ljómandi vel í haust. Vissulega hafa komið leikir sem þeir hafa tapað stigum, núna síðast töpuðu þeir á útivelli gegn Villa, höfðu þar á undan tapað fyrir Newcastle á útivelli í byrjun nóvember, og þar áður jafntefli gegn Chelsea. En svo unnu þeir t.d. City um miðjan október og svo auðvitað United í byrjun september. Síðasti leikur var heimaleikur gegn Brighton sem Arsenal vann 2-0. Semsagt: andstæðingur Liverpool á laugardaginn verður topplið deildarinnar, lið sem er búið að vera á góðri siglingu síðasta árið og rúmlega það, og verður því ekkert lamb að leika sér við.

Meiðslalistinn hjá Arsenal er reyndar hérumbil jafn langur og hjá okkar mönnum, en spurning hvort það séu samt jafn margir leikmenn sem væru í fyrstu 11. Áður var minnst á Timber, en með honum á meiðslalistanum eru Vieira, Jorginho, Elneny, Tomiyasu og Partey.

Okkar menn

Ef við horfum bara á leikinn gegn West Ham og hvernig holningin var á okkar mönnum í þeim leik, þá hefði maður nákvæmlega engar áhyggjur. En þetta er bara ekki svo einfalt, og ef maður myndi horfa á holninguna á okkar mönnum í síðasta deildarleiknum, þá væri full ástæða til að hafa miklar áhyggjur. Reyndar verður að segjast að mótspyrnan sem West Ham sýndi á miðvikudaginn var furðulega lítil. Undirritaður hafði það á tilfinningunni að gestirnir vildu helst ekki óhreinka búningana sína (enda hvítir, og tómt vesen að ná grasgrænu úr þeim). Það sást vel bæði í mörkunum hjá Gakpo og seinna markinu hjá Curtis, þar sem andstæðingarnir hreinlega virtust ekki þora að pressa okkar menn. Sjálfsagt var þetta ekki svona einfalt, en við skulum a.m.k. gera ráð fyrir mun meiri mótspyrnu frá Arsenal.

Eins og venjulega þá skiptir auðvitað lang mestu máli hvernig okkar menn mæta stemmdir til leiks. Ef það verður sama stemmingin eins og á miðvikudaginn, þá erum við með lið sem getur unnið hvaða leik sem er. Ef það verður svipuð stemming og gegn United eða Toulouse, þá er þetta lið sem getur tapað hvaða leik sem er. Það er kannski einna helst þessi óstöðugleiki sem gerir það að verkum að manni finnst þetta vera lið sem á enn eitthvað ólært til að vinna titilinn, en munum samt að þetta er lið sem var á toppnum í síðustu umferð og gæti verið á toppnum eftir þessa umferð (og vonandi í lok maí sömuleiðis!).

Meiðslalistinn hefur lítið hreyfst; Gravenberch fór af velli gegn United og menn voru smeykir um að hann hefði tognað aftan í læri, en þetta virtist bara hafa verið þreyta og hann er því líklega leikfær. Hann fékk líka frí á miðvikudaginn, en svo verður bara að koma í ljós hvort hann verður metinn leikfær. Svipað er uppi á teningnum með Mac Allister, kannski nær hann á bekk, en varla í byrjunarliðið. Reyndar verður að segjast að spilamennskan hjá Curtis og Harvey á miðvikudaginn var þess eðlis að þeir gera sterkt tilkall til þess að byrja. Kannski helst spurning hvað þeir séu tilbúnir í margar mínútur á rúmum 3 sólarhringum?

Svo er það spurningin um það hvort Darwin Nunez byrjar, og þá hvar. Það að færa hann aftur á vinstri kantinn gegn West Ham virtist henta honum betur, og alveg spurning hvort það verði gert aftur gegn Arsenal, satt að segja virkar hann meiri ógn heldur en Díaz í augnablikinu. Nunez hins vegar spilaði allan leikinn á miðvikudaginn á meðan Díaz fékk bara ca. 15 mínútur, svo kannski horfa menn á það að Díaz gæti mögulega verið ferskari.

Elliott spilaði svo jú á hægri kanti megnið af leiknum gegn Hömrunum og gerði það ágætlega, þetta er jú staðan hans Salah, en sá möguleiki væri fyrir hendi að henda Salah upp á topp og leyfa Harvey að djöflast á hægri kantinum. Reiknum síður með því.

Vörnin er annars líklega sjálfvalin, engin þeirra Trent, Konate, Virgil eða Kostas spilaði 90 mínútur á miðvikudaginn en tóku allir eitthvað þátt, Tsimikas sýnu lengst því hann spilaði 70 mínútur, en þetta velur sig nokkuð sjálft. Aðeins meiri spurning um miðjuna: ræður Endo við miðjuna hjá Arsenal? Hann hefur verið að vinna sig jafnt og þétt inn í miðjuna hjá okkar mönnum, og undirritaður hallast frekar að því að hann fái sénsinn enda spilaði hann bara í 60 mínútur á miðvikudaginn. Auðvitað væri alltaf sá möguleiki að færa Trent bara endanlega yfir á miðjuna og setja Gomez í hægri bak, gleymum ekki að það var einmitt í Arsenal leiknum í vor sem þessi tilraun með Trent sem “inverted” bakvörð hófst, og kannski hefst næsta tímabil í þroskaferli hans sem leikmaður á laugardaginn? Szoboszlai er væntanlega að taka sína hefðbundnu stöðu með honum, hann og Endo fóru útaf á sama tíma á miðvikudaginn, sjálfsagt með laugardagsleikinn í huga. Spurningin er hvort Gravenberch sé tilbúinn sem þriðji maður, eða hvort Jones sé tilbúinn í að byrja? Curtis spilaði jú allan leikinn á miðvikudaginn, og mögulega hæpið að ætla skrokknum á honum að byrja annan leik svona skömmu síðar.

Við spáum þessu a.m.k. svona:

(með fyrirvara um að blaðamannafundur Klopp er að sjálfsögðu ekki búinn að fara fram í þessum skrifuðu orðum, og það gætu komið fram nýjar upplýsingar þar um hverjir eru leikfærir og hverjir ekki. Hendum því í athugasemdir þegar það skýrist).

Og þá er það spáin. Hún er tvíþætt í þetta skiptið: ANNAÐHVORT fer þetta jafntefli og Aston Villa hirðir toppsætið um jólin, EÐA okkar menn vinna þetta 2-1 í hörku erfiðum leik þar sem Joe Gomez skorar sigurmarkið. Já þið lásuð þetta rétt, upphitari kvöldsins lifir ansi hættulega í þessari upphitun.

Toppsætið í lok maí væri toppnæs. Sigur gegn Arsenal á Þorláksmessu væri það líka.

KOMA SVO!!!!!

9 Comments

  1. Gravenberch leikfær, Mac Allister og Jota báðir frá. Þá yrði ég ekkert hissa þó Grav byrji í stað Jones, svona í ljósi þess að Curtis spilaði allan leikinn á miðvikudaginn.

    3
  2. Daginn félagar. Ég væri til að sjá Núnez hvíldan í þessum leik og setja Gapko vinstra megin, Salah uppá topp og Elliott hægra megin. Mín spá er 3-1 Elliott setur allavega 2 ef hann fær að byrja

    4
  3. Jæja… þetta gæti orðið skellur. En ef Anfield lagast af hálsbólgunni og liðið verður rétt upp sett… þá er aldrei að vita.

    Sé fyrir mér byltingu í framlínu (sem hefur hvort eð er, verið hálf ómöguleg): Nunez á vinstri kanti – Salah frammi og Elliott á hægri.

    Láááásuð það fyrst hér.

    jessör.

    3
  4. Diaz verður að hvíla, búinn að vera langt frá því að geta eitthvað.
    Endo finnst mér ekki alveg búinn að sanna að hann höndli svona leik, of auðvelt að keyra í bakið á honum oft á tíðum. Hræddur um að Rice myndi fara illa með hann.
    Sóknarmennirnir hafa í raun verið hver öðrum slakari undanfarið og ég held það væri ráð að reyna að hræra aðeins í þessu, t.d. Með því að setja Nunez til vinstri og Salah fram.

    3
  5. Væri alveg gaman að sjá Elliot fá tækifærið í svona stórum leik og eiga þá Diaz og Nunez á bekknum ef þörf verður á í seinni.
    Salah frammi og Gakpo á kantinum.
    Gomez í hægri bak og Trent með Gravenbergh og Szobozlai á miðjunni.

    4
  6. Úrslit kvöldsins juku enn á spennuna fyrir leiknum við Arsenal. Villa rétt skrapaði sér eitt stig á elleftu stundu gegn botnliði Sheffield og það á heimavelli! Allt að gerast…

    2
  7. Sælir félagar

    Þetta verður erfitt en ekkert er ómögulegt. Arse er með öflugt lið sem er vel mannað á öllum póstum. Ég veit ekki með meiðslalista þeirra en mér sýnist að allir lykilmenn séu heilir á meðan við erum með meislalista sem mundi teljast verulegur hjá öllum öðrum liðum. Hinsvegar finnst öllum álitsgjöfum sá listi vera óumræðilega ómerkilegur meðan meiðslalisti annara liða er þeim mun erfiðari. Það er út af fyrir sig dálítið merkilegt.

    Ég hefi miklar áhyggjur af þessum leik. Enso er of oft hægur og þá er boltinn hirtur af honum. Vörnin er ekki til að kvarta yfir ef enginn meiðist þar en sóknin er og hefur verið áhyggjuefni. Sem sagt ef vörnin heldur (?!?) þá verður alla vega stiginu bjargað. Svo ef miðja og sókn skila sínu þá vinnst þessi leikur. Þetta verður hunderfitt og nú er bara að vona. Þori ekki að spá en vona hið besta.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  8. Engin göngutúr í garðinum, en við vinnum þennann leik 3-1, skiptir engu máli hver skorar bara að Salah setji eitt og Nunes bæti öðru við. Strákurinn verður að fara að koma til í markaskorun.

    YNWA

    2
  9. Leikmenn og stuðningsmenn United hafa greinilega ekki náð sér niður á jörðina fyrir leikinn gegn West Ham eftir sögulegt jafntefli á Anfield 🙂

    10

Liverpool 5 – West Ham 1 (Leikskýrsla uppfærð)

Liðið gegn Arsenal