Arsenal 0 – 2 Liverpool

Okkar menn heimsóttu Arsenal í FA bikarnum á Emirates vellinum núna síðdegis og höfðu 0-2 sigur. Annar sigur Liverpool á Emirates á leiktíðinni, því Liverpool Women unnu 0-1 í byrjun leiktíðar, og þetta verður ekki síðasti sigurinn þarna í vetur því okkar menn eiga útileikinn í deildinni eftir.

Mörkin

0-1 Sjálfsmark (80. mín)
0-2 Díaz (90+5 mín)

Gangur leiksins

Fyrri hálfleikur var nú ekki sá besti hjá okkar mönnum, það var svona næstum því eins og okkar menn væru án Virgil og Salah og vissu ekki almennilega hver stjórnaði sirkusinum. Arsenal fengu ágætis færi til að skora, t.d. átti Ødegaard skot í slá í sókn þar sem þeir fengu í raun fjölmörg tækifæri til að setja boltann í netið en tókst ekki. 0-0 í hálfleik, og Klopp ræddi örugglega á rólegu nótunum við sína menn í hálfleik. Í seinni hálfleik skipti hann svo Gravenberch og Jota inn eftir klukkutíma leik, sjálfsagt löngu planað, og tók Cody og Mac útaf. Elliott fór niður á miðju og Jota fram. Korteri síðar fengu svo Conor Bradley og Bobby Clark að koma inná, Bradley kom inn fyrir Harvey og Clark fyrir Curtis, en Bradley fór í hægri bakvarðarstöðuna og Trent selflutti sig endanlega á miðjuna eins og hann hefur gert alloft í vetur, t.d. í Fulham leiknum eftirminnilega. Allt þetta (Klopp ræðan í hálfleik, skiptingar á 60 og 75. mínútu) hjálpuðu til þess að okkar menn voru mun ferskari í seinni hálfleiknum, og áttu hann í reynd alveg eins og Arsenal áttu fyrri hálfleikinn. Eini munurinn var sá að á 80. mínútu fengu okkar menn aukaspyrnu úti við hliðarlínu, Trent átti frábæra sendingu inn á markteig þar sem boltinn hrökk af Arsenal kolli og í netið. 0-1 og það var alveg sanngjarnt miðað við gang leiksins í síðari, mögulega ósanngjarnt ef allur leikurinn er skoðaður, en hei okkur er drullusama og það er ekki okkar mál þó einhver lið eigi í erfiðleikum með að klára færin sín, nóg höfum við nú þurft að þola af slíku hjá okkar mönnum. Arsenal gerði svo harða atlögu að okkar mönnum og það skilaði sér í seinna markinu í síðustu skyndisókn leiksins, þar sem Gravenberch vann boltann, Nunez bar hann upp, gaf á Jota sem spilaði upp að vítateigslínu, gaf þar á Díaz sem var í opnu færi og hann afgreiddi boltann efst í hægra hornið.

Hvað þýða úrslitin?

Liverpool er komið í næstu umferð bikarsins, afar gott að vera laus við að þurfa að spila aftur eins og mörg önnur lið þurfa að gera (Everton, Luton, Forest, West Ham og Úlfarnir svo nokkur úrvalsdeildarlið séu nefnd). Arsenal eru hins vegar með þessum úrslitum komnir í ákveðna krísu, því þeir hafa aðeins unnið einn leik af síðustu sjö í öllum keppnum.

Hverjir stóðu sig vel?

Eiginlega allir. Jújú, við vitum alveg að Nunez má bæta færanýtinguna. En svo er hann líka bara stórhættulegur þegar hann spilar á vinstri kantinum, og kannski er það bara besta staðan hans í augnablikinu? Allavega leit liðið út fyrir að vera ansi hættulegt fram á við með Nunez á vinstri, Jota í framherjanum og Díaz hægra megin. Við erum svo vön að hafa Salah þarna að það hefur hreinlega verið erfitt að sjá eitthvað annað fyrir sér, en a.m.k. miðað við síðustu 15-20 mínúturnar í kvöld þá er ekkert að óttast.

Maður leiksins er Ibrahim Konate, en félagar hans í vörninni voru skammt undan. Quansah hélt áfram að sýna leik sem hefði sæmt hvaða þaulvana úrvalsdeildarleikmanni sem er, og Gomez heldur líka áfram að leika vel í vinstri bak sem n.b. er alls ekki hans besta staða. Díaz er svo hægt og bítandi að ná vopnum sínum og er búinn að vera afar öflugur í síðustu tveim leikjum. Alisson var Alisson, einfaldlega sá besti í heimi í sinni stöðu, vissulega hefur oft reynt meira á hann, en svo lætur hann líka sumar vörslur líta út fyrir að vera einfaldar þegar þær eru það alls ekki.

Hvað hefði mátt betur fara?

Vissulega var frammistaðan í fyrri hálfleik með þeim allra slökustu, og þetta virðist reyndar vera orðið þema hjá okkar mönnum. Spila ekkert sérstaklega vel í fyrri, lenda hugsanlega undir (ekki í kvöld samt), en koma svo tvíefldir til leiks í síðari og vinna þetta á síðustu 15 mínútunum. Í sjálfu sér er þetta allt í lagi, en vita leikmenn ekki örugglega að það má líka bara spila vel allan leikinn? Mætti alveg skjóta þessu að þeim við tækifæri.

Hvað er framundan?

Næst er það fyrri undanúrslitaleikurinn gegn Fulham, sá fer fram á Anfield á miðvikudagskvöldið. Það eru því aðeins tveir sólarhringar sem fara í endurheimt, og líklegt að Klopp muni keyra á svipuðu liði á miðvikudaginn. Jú sjálfsagt fær Kelleher hanskana, það er jú hans keppni, og vonandi verður Virgil kominn til baka. Hugsanlega fær Owen Beck sénsinn í vinstri bak – ef ekki þá spyr maður sig af hverju var verið að kalla hann til baka? – og svosem ekki ólíklegt að Jota og Gravenberch byrji fyrst þeir voru á bekk í dag. En hæpið að neinir af þessum meiddu verði komnir til baka. Það er svosem vika síðan liðið spilaði við Newcastle, og eftir leikinn gegn Fulham verða 11 dagar í næsta leik, sem verður deildarleikur gegn Bournemouth á útivelli. Í raun bara fínt að menn fái svolítinn rytma með því að spila í dag og svo á miðvikudaginn, og fái svo smá pásu.

En fögnum því að vera komin í næstu umferð bikarsins, og fögnum því að eiga svona frábært fótboltalið!

51 Comments

  1. Vel gert.
    Fyrri var slakur en þeir voru miklu betri í þeim seinni.
    Trent var frábær.

    YNWA !

    9
  2. Glæsilegt! Algjörlega frábært.

    bara einn mínus… við hefðu allan daginn átt að vinna þessa nalla á heimavellinum okkar í deildinni!

    En að öðru leyti, með 10 sterka fjarverandi þá var þetta magnað afrek. Enginn Salah, enginn Virgill, enginn Endo…

    Og hvernig sem þessi ,,elsta og virtasta” endar þá er mikilvægt að halda sigurgöngunni áfram.

    7
  3. Stórkostlegur seinni hálfleikur. Geggjaður Konate. Frábær Klopp. Góður Curtis. Snilldar Diaz. Yndislegur Alison. Nýr Bobby. Æðislegur leikur. Verðskuldaður sigur.

    YNWA

    19
  4. Geggjaðar skiptingar!! Kjúklingarnir lokuðu hægri vængnum og Trent geggjaður á miðjunni

    20
  5. Alveg sama hvað menn segja eftir þennan leik.
    Að Arsenal hafi stjórmað leiknum og hvað menn reyna afsaka sig liverpool mætti á Emirates
    Og það vantaði okkar besta mann í allar línur á vellinum nema markið.
    Dijk í vörn Sobo á miðjuna og Salah frammi.
    Í 0-0 hendir hin snarklikkaði Klopp Clark og barndsley inná sem stíga varla feilspor!
    Mikið vona ég að klopp semji aftur!

    Þetta var alvöru statement í dag!!!!

    26
    • Enginn mun koma í stað Klopps. Hvort takist að ná að sannfæra hann um að taka nokkur ár í viðbót verður að koma í ljós. Hann er með samning í tvö ár héðan í frá að ég held. Kannski finnst honum þá þetta vera orðið gott. Þetta er þrotlaust starf og þraut, óháð því hversu vel er greitt fyrir það.

      En mikið vona ég, eins og þú, að hann taki svosem eins og 4-6 ár í viðbót. Pep má líka fá hrós en hann hefur yfir mun meira fé að ráða. Klopp er ljósið í fótboltanum í dag. Nær allt hefur verið rétt gert frá því hann kom. Hann er mega legend og leiðir vonandi nýjan stjóra í sinn starfsstað þegar þar að kemur. Fer svo bara og vonar það besta. Þegar og þá, er breytingin verður, þarf nýr stjóri andrými til að móta sínar hugmyndir.

      Það verður ákveðinn sorgardagur þegar Klopp kveður. En líka eitthvað sem verður á endanum að gerast. Ef hálfdrættingur hans nær tökum á starfinu og bætir sig fram úr því ættum við ekki að vera í slæmum málum. Við sem erum fædd í kringum 1980 munum ekki eftir Shankly nema í ljósi þess sem við um hann höfum lesið. En við munum aldrei gleyma Klopp. Aldrei.

      YNWA

      4
  6. Þetta var frábær sigur hjá okkar mönnum.

    Arsenal ætlaði sér klárlega áfram og byrjuðu mun betur en hægt og rólega náði Liverpool að vinna sig í leikinn og voru sterkari í síðari hálfleik.

    Konate var stórkostlegur í þessum leik.
    Gomez en einn góði leikurinn.
    Diaz/Nunez á fullu allan tíman
    Trent spilaði eins og alvöru leiðtogi
    Jones heldur áfram að eiga góða leiki.
    og gaman að sjá ungu strákana fá að spila mikilvægar mín.

    Virkilega ánægður með þennan sigur og gegn sterku Arsenal liði sem ætlaði sér lang í þessari keppni.

    YNWA

    17
  7. Ég elska þetta lið okkar! ??

    Fáum örugglega shitty úti í næstu.

    18
    • Uuuuu nei, City fá Maidstone United. Við fáum líklega West Ham eða Brighton eða Villa.

      Breytir svosem engu, förum áfram þrátt fyrir það.

      21
  8. Vel gert og Konate og Trent frábærir, innáskiptingarnar rábærar, þvílík vítaminsprauta. Kjúklingarnir hægra megin geggjaðir. Djöfull er Jota góður.

    15
  9. Gott að fá svona alvöru æfingaleik fyrir framhaldið í deildinni…..var hissa á skýrsluhöfundi að vilja tap eða sigur svo það yrði ekki annar leikur….við viljum og bjóðum ALDREI UPPÁ TAP…..ALDREI….

    11
    • Auðvitað vildi ég ekki tap. Ég vildi bara ekki jafntefli, og þá eru bara tveir möguleikar eftir. En hei, þetta var Arsenal, svo það var í raun bara einn möguleiki í stöðunni.

      9
      • Móttekið minn kæri…..þú svarar alltaf okkur sófasérfæðingum um hæl sem má þakka fyrir….

        7
      • Já það er nú bara einn sófasérfræðingur að svara öðrum.

        12
  10. Allison
    Bradley Konate Quansah Gomez
    Clark Trent Gravenberch
    Diaz Jota Darwin

    Þetta var liðið/uppstillingin undir lokin. Fyrir taktík nörda er þetta áhugavert á svo marga vegu. T.d., enginn vinstri fótar LFC leikmaður á vellinum… TAA sem holding mid. Þrír unglingar á lokamínútum á útivelli gegn ágætu EPL liði. Og auðvitað það að liðið er að þróa færiband af hæfileikum. Vissulega tók það tíma og heppni að komast inní leikinn — en svo þegar það gerðist var unun að horfa.

    Margir leikir þetta tímabilið!

    10
  11. Rán á miðjum degi! En það eru víst mörkin sem telja í þessum fallega leik. Mac Allister fékk 59 mínútur og Jota 35 mínútur. Hægt og bítandi komast þeir í leikform til þess að spila fullan leik. Bobby Clark og Conor Bradley fengu 19 mínútur sem er frábært. Hreint lak og Diaz skoraði.

    5
    • Liverpool var með tvo skot í tréverkið og Ramsdale varði a.m.k. einu sinni mjög vel frá Diaz, það er meira en ég man eftir að Alisson hafi þurft að gera. Þetta er auðvitað fyrir utan tvö mörk sem Liverpool skoraði. Rán? Arsenal var miklu betri fyrstu 45 mín en leikurinn er 90 mín.

      38
  12. Ég verð að viðurkenna að þegar guttarnir komu inná þá fór um mig,en þeir stóðu sig virkilega vel og lokuðu á hægri kantinn.

    Konaté var maður leiksins með skotblokkum og yfirferð í vörninni heilt yfir….Jota kom með miklum lúðrablæstri inn í leikinn og gott að fá hann tilbaka.

    13
  13. Jota var og verður maðurinn í fjarveru Salah, ég giska á það

    7
  14. Þetta var einfaldlega frábær sigur og gefur vonandi fyrirheit fyrir framhaldið hjá okkar mönnum í vetur.

    Það að fara á Emirates og vinna með þetta marga lykilmenn frá á móti góðu Arsenal liði sem augljóslega lagði gríðarlega áherslu á þennan leik er mjög sterkt.

    Van Dijk var meiddur ásamt Matip og því er Quansah (20 ára) hent í djúpu laugina með Konate fyrir aftan miðju sem var fáránlega tæp varnarlega, Gakpo var farþegi í fyrri hálfleik og magnað vel gert með dash af heppni að halda hreinu í þessum leik.

    Báðir vinstri bakverðirnir eru meiddir og sá þriðji sem kallaður var til baka úr láni núna um áramótin var einhvernvegin í banni. Gomez pakkaði Saka saman í þessum leik og sýndi ágætlega hversu mikið bull það er að bera þann ágæta pilt saman við Salah alveg strax.

    McAllister var bara treyst í 60 mínútur enda nýkominn úr meiðslum auk þess sem Liverpool er án Szoboszlai, Endo, Thiago og Bajcetic. Vonandi er slúður um að Thiago snúi til baka á æfingasvæðið í næstu viku rétt því að ég held að það sé töluvert vanmetið hversu mikið högg það er að vera án hans svona lengi og oft. Það líður ekki leikvika þar sem ekki er talað um fjarveru De Buyne hjá Man City sem dæmi.

    Bobby Clark er svo enn einn miðjumaðurinn hjá Liverpool sem hefur verið lengi frá og sýndi að líklega hefði hann fengið töluvert fleiri sénsa undanfarin 1-2 ár hefði hann verið heill, þetta er alvöru efni sem mikið hefur verið látið með síðan hann kom til Liverpool. Vonandi gefst tækifæri í leikjunum gegn Fulham til að gefa honum fleiri mínútur.

    Trent endaði leikinn sem miðjumaður og ekki í fyrsta skipti, Bradley var loksins treyst í hægri bakvarðarstöðuna á meðan og sýndi að þarna gæti Liverpool loksins átt valmöguleika sem hægt er að nota við rétt tækifæri, hvort sem er til að hvíla Trent eða færa hann framar. Liverpool hefur í eitt og hálft tímabil reynt að eiga svona ungan og efnilegan hægri bakvörð til að spila nákvæmlega þetta hlutverk en ekki getað þar sem þeir (Ramsey og Bradley) hafa verið meiddir í eitt og hálft tímabil.

    Mo Salah sem hefur komið að rúmlega helmingi marka Liverpool í vetur í deildinni var svo líka fjarverandi. Elliott náði nú ekki að sannfæra mann um að hann fylli skarð Salah en það helgast líka af því að miðjan og þá sérstaklega Gakpo var ekkert að hjálpa til í fyrri hálfleik. Eftir að Klopp gerði nauðsynlegar breytingar í hálfleik og færði Elliott á miðjuna og Gakpo fram fór sóknarleikurinn að fúnkera mun betur og Diaz sýndi að hann er klárlega maðurinn sem á að leysa Salah af.

    Þriggja manna miðja með Gakpo fremstan og engan djúpan miðjumann var aldrei líkleg til árangurs gegn mjög öflugu teymi Arsenal í sömu hlutverkum. Eftir að Klopp lagfræði þetta í hálfleik fórum við að sjá hið raunverulega Liverpool mun meira. Diaz virðist vera nálgast sitt gamla form sem eru rosalega góðar fréttir fyrir seinni hluta tímabilsins. Darwin Nunez virkar miklu hættulegri út á vinstri vængnum og Diogo Jota er að koma frábærlega til baka eftir meiðsli, hann hefur komið við sögu í samtals 79 mínútur núna og er með mark og tvær stoðsendingar.

    Þegar liðið gerir þetta á útivelli með svona marga fjarverandi er galið að fá ekki aukna trú á liðinu.
    Markmaðurinn er augljóslega sá besti í deildinni.
    Trent er bæði besti bakvörðurinn í boltanum og samhliða einn besti miðjumaður deildarinnar.
    Miðvarðapar Liverpool er það besta í deildinni í vetur, Konate sem hefur verið geggjaður í báðum leikjunum gegn Arsenal hefur nota bene bara spilað 49% af leikjum tímabilsins í deildinni.
    Robertson eigum við alveg inni og endurheimtum vonandi fljótlega eftir mánaðarmót.

    Miðjan hjá Liverpool hefur vaxið vel eftir því sem líður á tímabilið og er svo miklu betri en miðja liðsins á síðasta tímabli. Mest spennandi þar er að maður getur léttilega séð fyrir sér að Szoboszlai, Mac Allister, Elliott og Gravenberch eigi svo miklu meira inni. Jones er svo bara 22 ára ennþá.
    Szoboszlai er sem dæmi eini miðjumaður Liverpool sem hefur spilað um 90% af deildarleikjum liðsins í vetur. Mac Allister hefur spilað um 60% en Jones, Gravenberch og Endo allir minna en 45%
    Þá eigum við alveg inni Thiago, Bajcetic og innkoma Clark breikkar hópinn enn frekar.

    Sóknarlína Liverpool getur vel unnið mótið fyrir okkar menn. Ekki bara Salah heldur allir fimm saman. Diaz, Jota og Gakpo voru allir fjarverandi a.m.k. hálft síðasta tímabil og við höfum séð í vetur hversu mikilvægt er að hafa þá alla klára til að breyta leikjum. Það er ekki tilviljun að Liverpool skorar svona mikið undir lok leikja. Diaz er sérstaklega vanmetinn því hann hefur verið skugginn af sjálfum sér síðan pabba hans var rænt þar til núna í síðustu tveimur leikjum, þetta er hinn raunverulegi Diaz.

    Það er svo bara fáránlegt hvað við eigum mikið inni í Darwin Nunez, hann mun á endanum læra að tímasetja hlaupin betur gagnvart rangstöðunni, hann hefur t.a.m. eiginlega ekkert spilað með miðjumönnum Liverpool fyrr en á þessu tímabili og þarf að þróa sín hlaup aðeins betur samhliða því að þeir læri betur inn á hvern annan.

    Nunez er með fimm mörk í deildinni í vetur en xG upp á 11,13 sem er galið. Hann “skuldar” semsagt 6,13 mörk og eins og við erum farin að þekkja getur xG upp á 11,13 verið innistaða fyrir miklu meira en 11 mörkum. Hann er t.a.m. að skjóta á við Suarez í tréverkið, sá sprakk nú út þegar þetta fór allt að smella hjá honum (í mun veikara Liverpool liði). Nunez var með 9 mörk i fyrra en xG uppá 14,37.
    Nunez er svo með 6 stoðsendingar í vetur en xA 3,89. Það er mun eðlilegri tölfræði.

    Salah sem hefur spilað 7 leikjum meira en Nunez er með xG 13,61 en hefur líka skorað 14 mörk. Salah er eins með átt stoðsendingar í vetur en xA 9,58. Það er líklega að mestu Nunez að kenna að Salah er ekki í plús líka hvað xA varðar því hann hefur gloprað nokkrum góðum sendingum Salah.

    Þessi tölfræði Nunez er óeðlilega langt undir pari og hann sýndi hjá Benfica að hann getur sannarlega sprungið út.

    Fyrir tímabilið voru Newcastle og Arsenal meðal þeirra liða sem Liverpool var talið helst í keppni við og bæði lið sem Liverpool þurfti að passa sig á að halda í við. Það getur verið erfitt að detta úr Meistaradeildinni og komast aftur inn. Newcaste og Arsenal eru bæði Meistaradeildarlið í vetur.
    Það er því geggjað að byrja árið á því að yfirspila Newcastle og vinna þá í annað sinn á þessu tímabili og fylgja því svo eftir með sigri gegn sterku liði Arsenal á útivelli með 10 menn fjarverandi.

    Newcastle er í 9.sæti, hafa unnið 2 af síðustu 9 leikjum, fallnir úr leik í Evrópu og deildarbikar og skipta okkur satt að segja engu máli út þetta tímabil. Arsenal er sannarlega enn með í titilbaráttunni en eru núna með einn sigur í síðustu sjö leikjum.

    Liverpool á síðasta tímabili var með 25 stigum minna en liðið var með árið á undan (2021-22) þrátt fyrir að þá hafi Liverpool einnig farið alla leið í bókstaflega öllum bikarkeppnunum. Liðið núna hefur klárlega alla burði til að vinna til baka megnið af þessum 25 stiga mun.

    42
  15. Frábær niðurstaða á erfiðum leik. Að sjá Liverpool liðið styrkjast við að TAA fór úr hægri bak. inn á miðjuna við innkomu Conor Bradleys og Martinelli hætti að labba þar í gegn eins og um vængjahurð var styrking á tveimur stöðum á vellinum, sem skilar bara betra Liverpool liði. Að fara á Emirates og vinna án þess að hafa skozka, hollenska, japanska og egypska landsliðsfyrirliða í liðinu sýnir bara styrk Liverpool.

    18
    • Og ungverska, NB. Og Matip væri líklega fyrirliði Kamerún ef hann gæfi kost á sér…

      12
  16. Svo margt jákvætt við leikinn.
    Unnum á erfiðum útivelli.
    Þurfum ekki að spila aukaleik.
    Vorum án nokkurra lykilleikmanna og aðrir stigu upp og gerðu vel.
    Tveir ungir og lítið reyndir leikmenn fengu spilatíma og stóðu sig mjög vel.

    Yndislegt.
    YNWA

    14
  17. Eitt í viðbót.

    Þegar Curtis Jones bakaði Ben White úti við hornfánann á 33 mín, og Ben White greip í Jones með báðum höndum og henti honum niður…….í hvaða veruleika er það ekki gult spjald?

    23
  18. Sælir félagar

    Enar Matthías segir í raun allt sem ég vildi sagt hafa um þennan leik. Ég ætla samt að bæta smá við. Leikaðferð eins og Liverpool notaði í fyrri hálfleik er óskaplega leiðinleg og líka stórhættuleg. Endalausar þversendingar á eigin vallarhelmingi er alveg skelfilega leiðinlegar og alls ekki líklegt til árangurs. Að því sögðu vil ég bæta við: Þetta Liverpool lið er algjörlega magnað. Eftir mjög slakan fyrri hálfleik tók liðið leikinn í sínar hendur og landaði sigri sem var að lokum fyllilega verðskuldaður

    Allison 8
    TAA 8
    Konate 9
    Quansah 8
    Gomes 8
    MacAlister 7
    Jones 8
    Gagpo 7
    Darwin8
    Diaz 9
    Elliot 6

    Allir varamenn 7

    Lið mmeð svona einkunnir tapar ekki leik ekki einusinni á erfiðustu útivöllum

    8
    • “… ekki líklegt til árangurs …”???
      Er það? Má ekki þreyta bráðina allan tímann?

      Vörnin hélt, hreint lak og andstæðingurinn síðan grillaður og étinn á heimavelli!!

      Sammála samt “… magnað” hlutanum, síðustu setningingunni og einkunnunum um +(/-) r1.

      2
    • myndi henda 8 á okkar mann Jota sem enn og aftur kom með frábæra innkomu. Gull ígildi hann Jota.

      8
  19. Þessi meinloka hjá Arteta að spila Havertz endalaust hjálpaði okkur auðvitað mjög mikið í fyrrihálfleik.

    Leikmaður sem getur tekið sæmilegar ákvarðanir í þeim stöðum sem hann fékk hefði kostað okkur.

    En geggjaður leikur, og frábært lið sem við eigum.

    5
  20. Núna myndi ég vilja sjá Liverpool fara á eftir bakverði, helst skammtíma vinstri bakverði.
    Það hlýtur að vera þarna úti vinstri bakvörður sem er ekki að fá að spila með sínu liði af einhverri ástæðu og er farin að óttast um sæti í landsliðinu fyrir mótið í sumar og hægt að fá lánaðan með loforð um nægan spilatíma.
    Skella Joe Gomez í hægri bakvörðinn og færa Trent á miðjuna þar sem hann á heima.
    Gomez hefur verið frábær í vetur og á klárlega heima í þessu liði og ég get alveg séð hann fyrir mér eigna sér hægri bakvörðinn ef hann heldur sér heill.

    6
  21. Liverpool átti í miklum vandræðum í upphafi bikarleiksins gegn Arsenal. Lundúnaliðið var klárlega betra í fyrri hálfleik og hefði vel getað farið inn í hálfleikinn með forystu ef ekki hefði verið fyrir góða varnartilburði í öftustu línu okkar manna og skort á skerpu Arsenal leikmanna fyrir framan markið.
    Jürgen Klopp ákvað strax í leikhléi að breyta um taktík og leit Liverpool miklu betur ú í seinni hálfleik. Svo vel heppnuðust taktísku breytingarnar að liðið skoraði bæði 1-0 og 2-0 og tryggði sér sæti í fjórðu umferð FA bikarsins. Einmitt taktískar breytingar var nokkuð sem tekið var eftir af fjölmiðlum.
    Mikel Arteta var mjög svekktur með glötuð færi Arsenal í fyrri hálfleik og hann sagði eflaust sínum leikmönnum í hálfleik að ef þeir spiluðu eins í þeim síðari þá myndu þeir vinna leikinn. Sem betur fer fyrir okkur náði Arsenal ekki að keyra yfir Liverpool í fyrri hálfleik og tókst því Klopp með snilli sinni að móta seinni hálfleikinn algerlega og gera hann að sínum. Allar breytingarnar sem hann gerði gagnaðist Liverpool á einhvern hátt og tryggðu að þeir fóru með sigur af hólmi úr bikarleik sem fyrstu 45 mínúturnar litu út fyrir að geta bara endað á einn veg. Þetta er til marks um hæfni Klopps og kannski líka það að ekki er hægt að líkja Arteta á neinn hátt við hann. Það má hrósa stjóranum okkar fyrir hvernig hann breytti leiknum í seinni hálfleik. Tilfærslan í sókninni þar sem Harvey Elliott steig niður á miðjuna, Cody Gakpo var færður upp í miðframherjann á meðan Darwin Nunez steig út til vinstri eru breytingar sem ollu því að liðið náði leiknum á sitt vald. Stór persónuleiki Klopps gerir það að verkum að hann fær stundum ekki þann heiður og lof sem hann á skilið þegar kemur að tæknilegri og taktískri hlutum leiksins. Hann á mikið hrós skilið fyrir skiptingarnar og hans vilja að nota allan leikmannahópinn á þessu tímabili. Liverpool aðdáendur sem voru á Emirates í mikilli stemningu sungu „Ég er svo ánægður með að Jürgen er rauður“ eftir að Klopp var nýbúinn að reka hnefan þrisvar á loft til að þakka stuðningininn. Hvernig hann stjórnar leikjum, sjálfstraustið í liðinu og menningin sem Klopp hefur skapað á undanförnum árum mótaði þennan leik og gerði það að verkum að hann vannst. Reyndar má segja að við séum leidd af lifandi goðsögn og hans verður sárt saknað þegar hann yfirgefur Liverpool.

    24
  22. Mér finnst eins og að Klopp sé búinn að ná miklu betri tökum á listinni að skipta mönnum inná. Það var ekki hans sterkasta hlið lengi vel og yfirleitt var hann of seinn að skipta inná. Í síðustu leikjum og jafnvel í allan vetur hafa skiptingarnar verið alveg dúndurgóðar og breytt leikjum til hins betra. Hvað segja aðrir KOP-arar um þetta?

    5
    • Og það var mjög vel heppnað að færa Diaz yfir á hægri vænginn. Gerði Klopp það ekki bara í leikhléi? Ég held að Diaz ætti að vera hægra megin á meðan Mo er í Afríku, og hlaupabelgurinn Darwin á vinstri. Jota í miðjunni. Takk.

      3
    • Held að ef maður skoði tölfræði yfir áhrif varamanna Klopp í gegnum feril hans hjá Liverpool sé nokkuð ljóst að hann hefur alltaf verið mjög góður hvað þetta varðar og stangast oft á við þá tilfinningu sem maður hefur.

      Núna er samt bara augljóst að hann hefur mun betra vopnabúr og það hefur áhrif. Ástæða þess að Salah – Mané og Firmino spiluðu alla leiki var ekki bara vegna þess að þeir voru svo ógeðslega góðir heldur líka vegna þess að hann hafði ekkert af viti í staðin. Origi gat sem dæmi ekki blautan megnið af sínum ferli en Klopp held ég að hafi náð að fullnýta hans krafta.

      Origi og Minamino sem báðir eru flottir leikmenn þannig séð eru töluvert undir Jota og Gakpo sem dæmi.

      Eins er töluvert annað að geta leitað til Gravenberch, Elliott og Endo af bekknum en bara Keita, Ox og Lallana sem voru meira og minna alltaf meiddir. Fyrir utan að eiga Thiago, Bajcetic og Clark alla alveg inni ennþá.

      4
      • Já, það er engin spurning að hópurinn er með sterkasta móti. Sennilega aldrei verið eins mikil dýpt hjá Klopp eins og núna.

        2
  23. Með alla heila og til taks, hvaða miðja er best í liðinu og gefum okkur það að Gomez fari í hægri bakvörðinn.
    Ég myndi sennilegast velja
    Jones – Trent – Szobozlai
    Mikil hlaupageta, allir tæknilega góðir og allir geta varist og skilað mörkum.
    ykkar mat ?

    3
  24. Ekkert minna en frábært að slá út Arsenal úr FA-bikarnum – og það á útivelli.

    Ekki miklu við að bæta við flott innlegg hér að ofan… en Diogo Jota, þvílíkur knattspyrnumaður <3

    6

Arsenal leikur nr. 2 á 44 dögum – liðið klárt

Fyrri undanúrslitaleikurinn gegn Fulham