Leikmenn úr akademíunni

Helmingurinn af leikmannahópi Liverpool sem ferðaðist til London um daginn fyrir leikinn gegn Arsenal var skipaður leikmönnum úr yngri flokkum Liverpool eða strákum sem voru keyptir 16-18 ára og flokkast sem uppaldir. Þessir strákar geta verið gríðarlega mikilvægir á næstu árum, bæði sem leikmenn Liverpool og ekki síður sem söluvara.

Undanfarin ár hefur Liverpool selt sjö leikmenn úr þessu hópi fyrir um €94m sem samanlagt voru með um 14 deildarleiki á bakinu (1.251 mínútu).

Neco Williams fór fyrir síðsta tímabil á €20m, árið áður seldi Liverpool Harry Wilson loksins fyrir €14m en var búið að fá samanlagt um €5,1m fyrir hann þrjú ár þar á undan vegna lánssamninga. Wilson ótrúlegt en satt fékk ekki eina mínútu í deild með Liverpool. Sama á við um Awoniyi sem var seldur á €8,6m án þess að spila mínútu fyrir Liverpool. Allt strákar sem eru algjörlega nógu góðir til að spila í Úrvalsdeildinni. Sama á við um Solanke sem var seldur nokkrum árum áður.

Það eru nokkrir í akademíu Liverpool núna sem eru svipað eflilegir ef ekki meiri efni en þessir strákar voru á sínum tíma.

Uppaldir lykilmenn

Byrjun á þeim uppöldu strákum sem við erum farin að taka nokkurnvegin sem sjálfsögðum. Trent Alexander-Arnold skekkir auðvitað myndina töluvert enda besta dæmið um uppaldan leikmann í deildinni um þessar mundir.

Curtis Jones er núna að feta í hans fótspor og þar með að koma upp sem hinn uppaldi heimamaðurinn í aðalliðinu. Þessir leikmenn kostuðu ekkert á leikmannamarkaðnum og er vanmetið hvað það sparar félaginu.

Kelleher er líklegur til að fara fljótlega og verðmiði á honum væntanlega í kringum €20m. Líklega á Liverpool nú þegar í yngri flokkum arftaka hans.

Elliott og Gomez eru ekki upphaldir hjá Liverpool en komu báðir fyrir skiptimynt þegar þeir voru ennþá unglingar. Joe Gomez er “bara” búinn að spila 8.700 mínútur í deildinni (96 leiki) sem væri líklega a.m.k. helmingi meira ef ekki væri fyrir endalaus meiðsli, Trent fékk t.a.m. fyrst séns fyrir alvöru þegar Gomez meiddist (nokkrum dögum eftir að Klopp tók við).

Elliott er svo ennþá bara 20 ára og þegar búinn að spila rúmlega 50 leiki fyrir Liverpool. Verðmiðin á honum í dag er engu minni en t.d. verðmiði Raheem Sterling var á sínum tíma.

Næstu menn

Það var enginn að spá Jarrell Quansah sem þeim næsta sem kæmi upp úr akademíu Liverpool. Þegar við vorum í sumar að óska eftir Colwill frá Chelsea á stórfé var ekki minnst á Quansah í þeirri jöfnu. Hann er hinsvegar að fá sénsinns í vetur ekki ósvipað Trent á sínum tíma og heldur betur að grípa hann með báðum. Það er ekki að sjá að Colwill sé eitthvað merkilegri en Quansah það sem af er tímabili. Hann verður bara 21 árs núna í lok mánaðar. Ein skemmtilegasta saga tímabilsins það sem af er. Þetta er strákur sem Liverpool selur líklega ekki, hann er nógu góður.

Þessi hópur á myndinni er btw búinn að spila svipað mikið í deild og meira í öllum keppnum en þessir sjö uppöldu leikmenn sem Liverpool hefur selt undanfarin ár gerðu á sínum ferli hjá Liverpool (sjá myndina efst í færslu).

Tyler Morton er núna einn besti miðjumaður Championship deildarinnar og mjög líklegur til að fara í Neco Williams eða Harry Wilson flokkinn yfir uppalda stráka sem eru nógu góðir fyrir Úrvalsdeild, töluvert verðmætir en kannski ekki alveg í Liverpool gæðaflokki. Gætu vel legið nokkrar kúlur þarna.

Bajcetic var bara 18 ára á síðsta tímabili og farinn að fá sénsa í byrjunarliði Liverpool þrátt fyrir að miklu eldri og reyndari leikmenn á miklu hærri launum væru heilir heilsu. Hann er búinn að spila meira í deildinni heldur en bikarkeppnum sem er ágætis vísbending um að þjálfarinn treystir honum. Hann er auk þess svo ungur að hann er ennþá að vaxa og skrifast langtímameiðsli hans á vaxtaverki! Erfitt að meta hann auðvitað og hvernig hann kemur til baka en félagið virðist veðja á hann sem alvöru framtíðarmann Liverpool. Frammistöður hans á síðsta tímabili voru ekkert allar einhverjar flugeldasýningar en augljóst að þarna eru alvöru gæði á ferð.

Conor Bradley hefur svo loksins tekið framúr Calvin Ramsey í goggunarröðinni virðist vera. Þeir eru báðir 20 ára (fæddir 2003), eiga báðir að baki eitt gott tímabil í fullorðis fótbolta og hafa báðir verið meira og minna meiddir eftir að þeir komu til greina í aðalliðshópi Liverpool. Bradley kom til Liverpool 16 ára og var lengi eitt mesta efnið í akademíunni og kemur uppgangur hans ekkert stórkostlega á óvart. Hann var leikmaður tímabilsins hjá Bolton í fyrra, þá 19 ára í fyrsta skipti að spila með fullorðnum í deild. Hann er í dauðafæri til að fá fleiri mínútur núna í janúar og festa sig í sessi sem næsti kostur í hægri bakverði á eftir Trent.

Ramsey kom fyrir síðasta tímabil eftir mjög gott ár hjá Aberdeen og var klárlega hugsaður í það hlutverk sem Bradley virðist vera að grípa núna. Hann var hinsvegar meiddur bókstaflega allt tímabilið og komst ekki almennilega af stað á þessu tímabili fyrr en núna í desember. Hann var á láni hjá Preston sem skilaði honum til baka núna í dag og er mun líklegra að hann fari aftur út á láni frekar en að hann keppi við Bradley um stöðuna. Hroðalegt ár hjá Ramsey og erfitt að meta hvort Liverpool eigi mikil verðmæti þarna.

Kadie Gordon og Ben Doak hafa verið vonarstjörnur akademíunnar undanfarin ár og eru vissulega ennþá bara 18 og 19 ára. Gordon er að koma til baka úr endalausum meiðslum og Doak er líklega meiddur út tímabilið. Vonandi verða þeir merkilegri en Bobby Duncan og Paul Glatzel, eða t.d. Ben Woodburn en maður óttast að þeirra saga stefni í eitthvað svipaða átt. Kæmi ekki á óvart ef báðir færu eitthvað á láni næsta vetur.

Bobby Clark er líklega kominn framúr bæði Gordon og Doak eftir innkomu hans gegn Arsenal um daginn. Hann er enn einn ungi leikmaðurinn sem hefur verið meiddur fáránlega lengi en er að koma til baka. Ljinders sagði að hann og Bradley væru ekki lengur akademíu leikmenn heldur bara partur af aðalliðshópnum. Clark er ennþá bara 18 ára og mjög mikið efni, spilar svipaða stöðu og t.d. Jones og Elliott og þarf því að grípa þá sénsa sem hann fær.

Næsta kynslóð

Líklega eru þeir Trey Nyoni og Trent Kone-Doherty að taka við keflinu af Doak og Gordon sem mest spennandi ungu leikmenn félagsins. Nyoni hefur t.a.m. verið á bekknum í undanförnum leikjum hjá aðalliðinu. Hvernig þeir þróast er hinsvegar vonlaust að segja strax.

Scanlon ætti svo að vera í svipuðum flokki og Nyoni og Kone-Dogherty og hefur m.a. aðeins fengið smjörþefinn á þessu tímabili í Evrópudeildinni. Hann heillaði reyndar ekki í þeim leik en hefur með þessum mínútum spilað svipað mikið fyrir Liverpool og t.d. Harry Wilson og Ryan Kent gerðu á sínum ferli! Þetta er ennþá mjög mikið efni.

Owen Beck sem kallaður var til baka úr láni er líklega ekki hugsaður sem framtíðar valkostur fyrir Liverpool og eins hugsa sé að James McConnell fari mun aftar í goggunarröðina þegar miðjumenn Liverpool fara skila sér af meiðslalistanum.

Leikmenn á láni 

Að lokum á Liverpool svo vonandi eitthvað inni í þeim tveimur leikmönnum aðalliðshópsins sem eru úti á láni. Fabio Carvalho er sagður vera hátt skrifaður ennþá hjá Liverpool og ljóst að annaðhvort á félagið þar inni góðan leikmann sem þarf að ná sér í meiri leikreynslu eða enskan strák sem hægt er að selja á einhvern pening.

Svipað er hægt að segja með van den Berg, það virðist vera leikmaður sem var keyptur til að ávaxta kaupverðið á þegar tíminn til þess er réttur.

Þannig að

Það eru fjórir leikmenn í aðalliðshópnum auk varamarkvarðarins uppaldir hjá Liverpool eða sem komu sem unglingar.

Quansah, Bajcetic og Bradley eru allir við það að brjóta sér leið inn í aðalliðshópinn ef þeir eru ekki búnir að því nú þegar. Þeir gætu allir orðið meira en bara uppfyllingarefni.

Bobby Clark virðist í dag vera næsta vonarstjarna en gleymum ekki að það kemur jafnan upp einhver allt annar sem var ekkert í umræðunni.

Hver ætli séu raunveruleg verðmæti þessara stráka?

Spennandi að sjá á næstu misserum.

11 Comments

  1. Takk fyrir þessa samantekt.

    Mér finnst óvenjulega margir vænlegir ungir leikmenn þessa dagana.
    Höfum oft verið að fá fréttir af “gullmolum” sem svo koðna niður þegar á reynir.

    Ég er óvenjulega bjartsýnn á ungu leikmennina okkar núna.

    YNWA

    9
  2. Þetta er ástæða þess að ég er mjög ánægður með stefnu FSG og tel þá vera að gera mjög góða hluti. Akademian er bæði fjárhagslega sjálfbær og svo eru að koma þaðan upp áragrúi af leikmönnum sem koma til með að spila stór hlutverk fyrir Klopp í framtíðinni.

    Leikmenn eins og Trent, Gomez, Jones, Elliot, Quansah eru alveg jafn mikil ástæða þess að við erum stórlið og okkar skærustu stjörnur. Bæði vegna þess að þeir eru með nægjanleg gæði til að spila á hæsta styrkleika og svo einnig út af því að þeir kostuðu okkur mjög lítið. Að leikmenn eins og Bobby Clark og Conor Bradley, eru að koma upp, þýðir að leikmannakaup sumarglugga framtíðarinnar verða færri en betri og það er meginn forsenda þess að við getum keppt við fjársterkustu lið fótboltans.

    5
  3. Gleymum svo ekki að það eru ennþá fleiri ungir leikmenn sem eru efnilegir, líklega er enginn þeirra að fara að komast í aðallið Liverpool, en útilokum nú samt ekkert.

    * James Balagizi er búinn að vera á láni en óheppinn með meiðsli (hvar höfum við heyrt þetta áður?)
    * Frauendorf hefur verið viðloðandi liðið í fyrstu umferðum deildarbikarsins
    * Musialowski er ennþá kallaður “hinn pólski Messi”, en svosem spurning hvort hann hafi hugarfarið sem þarf.
    * Oakley Cannonier þarf svo að fá sinn tíma til að þroskast, gefum honum smá tíma til að sýna sig þegar hann verður búinn að ná fullum vexti og fer að spila meðal fullorðinna. Hann virtist nú aldeilis ná að pota inn mörkunum síðustu 2 árin.
    * Harvey Blair fékk nú sénsinn í bikarleik fyrir 2 árum ef ég man rétt.

    Svo er ég svona hérumbil 100% viss um að það er einhver leikmaður á pari við Bajcetic og Quansah sem er undir radarnum en á eftir að dúkka upp næsta haust og springa út. Yrði a.m.k. ekkert hissa.

    5
  4. Takk

    Bjóst við miklu af Doak. Samt ósanngjarnt því hann er svo ungur. Hefur þó ekki alveg gripið gæsina gegn frekar slöppum andstæðingum og meiðsli hafa angrað hann eitthvað. Hvað segirðu Einar, er hann út tímabilið núna?

    Er eitthvað að marka þessa Mbappe orðróma eða er þetta smoke-screen til að pumpa Madrid meira?

    Er svo kominn með 2ja manna óskalista fyrir næsta tímabil. Estupian frá Brighton og Olise frá Palace.

    3
  5. Skemmtileg upptalning, en hvar er Rhys Williams, á hann ekki heima þarna?

    2
    • Hafði hann ekki með vegna þess að ég efa stórlega að hann eigi framtíð fyrir sér hjá Liverpool né að félagið fái mikið fyrir hann. Sama með Phillips (hann er reyndar ekki uppalinn).

      En eins og Daníel bendir á er þetta alls ekki tæmandi listi, bara þeir sem hvað helst hafa staðið framúr undanfarið. Ekki viss um að við hefðum talað um Quansah í sambærilegum pistli fyrir ári síðan.

      5
      • Svo sýnist mér á öllu að Rhian Brewster hafi steingleymst í þessari umræðu. Einhverjum krónum skilaði hann nú í kassann.

        1
  6. Þegar raddir hafa verið hvað háværastar að kaupa, kaupa, kaupa, hef ég stundum spurt eins og ábyrgur sósjaldemókrati: ,,En hvað verður um börnin?”

    Það er nefnilega það. Það hlýtur að vera súrt að vera efnilegur, eiga framtíðina fyrir sér og allt það – en svo er fenginn einhver rándýr spaði í sömu stöðu og næsta víst að tækifærin að spila á stóra sviðinu gufa upp.

    Vonandi verður næsta stórstjarna liðsins uppalin í félaginu. Þarna er greinilega margt góðra leikmanna og þjálfarateymin hljóta að geta mótiverað þá rétt!

    7
  7. strákar úr einu í annað , er að fara á leik í febrúar, hvar er besta gistingin í Liverpool

    1
    • Mjög margt i boði svosem
      – Stay Apartments íbúðarhótel á Consert Square er mjög gott. Slatti til af svona íbúðarhótelum í miðbænum sem er ansi þægilegt.
      – Vorum með hópferðina á Marriott hótelinu á móti lestarstöðinni, heitir reyndar Delta hotel by Marriott í dag. Fínt herbergi og mjög vel staðsett.

      Tókum þetta annars ágætlega saman hér en eigum svosem eftir að uppfæra þetta m.v. daginn í dag. https://www.kop.is/liverpoolborg/

      1

Seinni umferð tímabilsins – Game On

Gullkastið – Seinni hálfleikur tímabilsins