Bournemouth menn komu flestum á óvart í sumar þegar þeir ráku Gary O’Neil sem hafði tekið við liðinu á miðju tímabili og bjargað þeim frá falli. Í stað hans var Andoni Iraola ráðinn sem hafði verið að gera áhugaverða hluti á spáni en var lítt þekktur á Englandi og voru því þessi skipti frekar harðlega gagnrýnd. Það hjálpaði ekki þegar Bournemouth byrjaði svo tímabilið afleitlega og allt leit út fyrir að Iraola yrði fyrsti stjórinn til að missa starf sitt í ár. Þá loksins small þetta hjá Bournemouth sem hafa unnið sjö af síðustu níu leikjum sínum og aðeins tapað stigum í jafntefli gegn Aston Villa og tapi gegn Tottenham. Bournemouth liðið situr nú í tólfta sæti deildarinnar og er að horfa upp fyrir sig og mætir í leikinn á morgun fullir sjálfstrausts.
Þeir eiga þó í smávægilegum vandamálum en hópurinn þeirra er að þynnast hratt. Marcos Senesi, þeirra besti varnarmaður á tímabilinu verður í banni á morgun vegna uppsafnaðra spjalda en auk hans er Lloyd Kelly frá vegna meiðsla. Ungi ungverjinn Milos Kerkez meiddist í lok desember og mun líklega ekki spila á morgun en staðgengill hans Dango Ouattara er farinn á Afríkumótið ásamt Semenyo og því stórt spurningamerki hverjir verða í vörn Bournemouth á morgun.
Í hægri bakverði verður líklega Max Aarons sem þeir keyptu frá Norwich í sumar og í vinstri bakverði reynsluboltinn Adam Smith, sem er þó vanari því að spila hægra meginn. Hann er þó einnig tæpur fyrir leikinn og ef hann nær heldur ekki að vera með gætum við séð hinn tvítuga Ben Greenwood byrja sinn fyrsta leik fyrir Bournemouth í vinstri bakverði. Miðverðir verða svo líklega Zabarnyi og Chris Mepham, sem hefur mest megnis verið á bekknum í ár.
Það verður því laskað Bournemouth lið sem mætir til leiks á morgun en það virðast þó flest lið deildarinnar vera eiga við svipuð vandamál þessa dagana.
Okkar menn
Við fengum vondar fréttir í gær þegar meiðsli Mo Salah voru staðfest en vonandi reynist það rétt að þetta séu lítil meiðsli.
Á morgun fáum við tækifæri á að laga ansi slæma tölfræði en okkur hefur ekki tekist að sigra fyrsta deildarleik ársins á útivelli síðustu þrjú ár og vonandi að það breytist á morgun. Á hinn boginn hefur Mo Salah misst af tíu deildarleikjum síðan hann gekk í raðir Liverpool og okkar menn hafa aldrei tapað þegar hann er fjarverandi og vonandi helst það.
Þessa dagana er varnarlínan okkar frekar sjálfskipuð ef enginn kemur snemma tilbaka úr meiðslum. Maður hefði getað séð að Owen Beck sem var kallaður tilbaka úr láni myndi deila leikjum með Bradley en Bradley hefur bara nýtt sitt tækifæri vel og sé ekki annað en að hann byrji á morgun. Hins vegar hefur tilraunin að láta Elliott spila í stöðu Salah á hægri kantinum ekki gengið sérstaklega vel og býst við að sjá hann á miðjunni á morgun og vonast til að Diaz verði hægra meginn. Stóra spurningin er þó að Bournemouth er með ansi hávaxið lið og Klopp gæti viljað koma Gravenberch inn á miðjuna upp á hæðina að gera.
Spá
Geri ekki ráð fyrir öðru en sigri á morgun og bæta forskot okkar á toppi deildarinnar. Ætla að spá 3-1 sigri þar sem Nunez, Jota og Diaz setja allir eitt mark og láta okkur um stund gleyma því hversu mikið við söknum Salah.
Spennandi verður að sjá hvernig okkur gengur gegn spútnikk-kirsiberjunum.
Hefðin vinnur ekki beint með okkur. Langt hlé að baki = alltaf ryðgaðir, nýtt ár hafið = alltaf slappir úti.
Nema að tveir mínusar geri..?
Sælir félagar
Takk fyrir upphitunina Hannes. Ég hefi ekki góða tilfinningu fyrir þessum leik og reiði mig á að besta vörn deildarinnar haldi og við komumst upp með að skora jafnvel bara eitt mark í hunderfiðum leik. Miðað við uppstillinguna skorum við því annað hvort bara eitt mark eða fimm og verður Darwin í aðalhlutverki þar hvort sem verður.
Það er nú þannig
YNWA
Þrátt fyrir erfitt spáerí og nokkurn kalsa að undanförnu þá spáum við hér á Ystu Nöf nú samt 48.