Stelpurnar mæta London City Lionesses í bikarnum

Það er ekkert spilað í deildinni hjá stelpunum um þessa helgi, í þess stað er umferð í bikarnum. Okkar konur eru mættar til London og spila gegn London City Lionesses.

Þetta er lið úr næstefstu deild, þannig að stelpurnar okkar mættu þeim fyrir tveim árum. Síðan þá hefur aðeins hallað undan fæti hjá Lundúnarstúlkunum, sem svo endaði með því að þjálfarinn var látinn fara núna í vikunni. Mögulega þurfum við því að glíma við endurnært lið með nýjum stjóra, við vitum öll hvaða áhrif slíkt getur haft. Hefur ekkert lið prófað að skipta bara um stjóra fyrir hvern leik? Það væri nú reynandi.

Hjá andstæðingunum hittum við fyrir Jade Bailey sem áður spilaði með Liverpool (hún byrjar á bekk), nú og svo er Megan Campbell nýgengin í raðir þeirra eftir stutta viðkomu hjá Everton, en hún er “bikarbundin” (e. cup tied) og mun því ekki koma við sögu í dag.

Okkar konur rótera örlítið, en þó er nokkuð greinilegt að Matt Beard vill annars vegar að liðið haldi rythma og svo langar hann líka að komast í 8 liða úrslit.

Liðið sem byrjar lítur svona út:

Laws

Fisk – Fahey – Clark

Parry – Nagano – Matthews

Holland – Höbinger

Lawley – Roman Haug

Bekkur: Spencer, Bonner, Koivisto, Lundgaard, Kiernan, Enderby, van de Sanden, Daniels

Teagan Micah er enn eitthvað hnjöskuð svo aftur þarf að sækja varamarkvörðinn í unglingaliðið. Taylor Hinds er sömuleiðis enn frá eftir að hafa meiðst á æfingu, og ekki ljóst hvar Missy Bo er. En það er klárt mál að liðið er vel skipað þegar kemur að framlínunni, og væri hægt að skipta fjórum framliggjandi leikmönnum inn ef þess þarf.

Leikinn má sjá á The FA Player. Nú væri gaman ef bæði strákarnir og stelpurnar komist í 8 liða úrslit í FA bikarnum.

KOMA SVO!!!!!

4 Comments

  1. Góður 0-2 sigur með mörkum frá Sophie Roman Haug og Melissu Lawley.

    Liðin sem verða í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslitin verða City, Brighton, Chelsea, United, Leicester, Spurs, og svo annaðhvort Forest eða Everton sem eru að spila akkúrat í þessum skrifuðu orðum.

    4
  2. Alvöru mörk!! Móttakan á kantinum var líka af dýrari gerðinni.

    1
  3. Það var svo dregið í kvöld, og andstæðingarnir í 8 liða úrslitum verða Leicester. Vel vinnanlegur leikur en langt í frá auðveldur.

    2

Liverpool 3-1 Burnley

Gullkastið – Ekkert svigrúm fyrir mistök