Núna í dag kl. 13 ætla stelpurnar okkar að mæta stallsystrum sínum hjá Everton í stórleik dagsins í kvennaboltanum, leikurinn fer fram á Goodison Park og mér skilst að það sé uppselt í stúkuna þar sem stuðningsfólk Liverpool situr. Enda kemur ekkert annað til greina en sigur í dag. Staðan í deildinni er svona:
Einum leik í umferðinni er lokið, þar sem City unnu United í borgarslag Manchester í gær. Það er því gullið tækifæri til að komast upp fyrir United og hirða 4. sætið, en líka ljóst að það verður ekkert auðvelt. Þrátt fyrir að okkar konur séu með helmingi fleiri stig heldur en hinar bláklæddu, þá er staðan einfaldlega þannig að það hefur gengið bölvanlega gegn þeim í síðustu leikjum. Báðir leikirnir á Anfield hafa tapast, og leikurinn á Goodison á síðustu leiktíð endaði með jafntefli. Reyndar hefði sá leikur alls ekkert átt að enda með jafntefli því Leighanne Robe skoraði fullkomlega löglegt mark upp úr hornspyrnu en það var dæmt af fyrir litlar sakir, mögulega hafði Ceri Holland andað full harkalega ofan í hálsmálið á markverðinum.
Okkar konur eru nálægt því að mæta með sitt sterkasta lið, en þó er Taylor Hinds ennþá fjarverandi. Hún ætti þó að geta farið að æfa í næstu viku. Þá meiddist Sofie Lundgaard á hné í síðasta leik, og verður frá það sem eftir lifir tímabils. Grátbölvað fyrir hana, enda var hún farin að byrja leiki og var einfaldlega að spila mjög vel. Semsagt, líkur á því að afmælisbarn dagsins – Jasmine Matthews – haldi áfram að leysa af í vinstri bakverðinum. Fuka Nagano ætti hins vegar að vera komin til baka eftir að hafa meiðst aftan í læri.
Liðið sem byrjar lítur svona út:
Clark – Fahey – Fisk
Parry – Nagano – Matthews
Holland – Missy Bo
Kiernan – Roman Haug
Bekkur: Micah, Bonner, Daniels, Höbinger, Lawley, van de Sanden, Enderby
Lucy Parry kemur inn í stað Emmu Koivisto, og Missy Bo Kearns byrjar frekar en Marie Höbinger sem er á bekk. Bekkurinn er reyndar sterkur og allar sem eru þar gætu komið inn og a.m.k. ekki veikt liðið.
Leikurinn verður sýndur á The FA Player, og sjálfsagt verður hægt að sjá hann víðar, látið endilega tengla fylgja með í athugasemdum ef þið rekist á leikinn einhversstaðar.
KOMA SVO!!!!!
Fyrsti 0-0 leikurinn milli kvennaliða Liverpool og Everton í einhverjum 18 leikjum staðreynd, og með þessu eina stigi er liðið komið upp fyrir United og er því eitt í 4. sætinu!