Það er ógnvekjandi að hugsa sér Liverpool án Jurgen Klopp, hann er svo afgerandi í uppáhaldi að það er erfitt að sjá fyrir sér að annar stjóri komist nálægt þeim stalli sem Klopp er á. Hann er augljóslega Bill Shankly okkar tíma. Að því sögðu er ágætt að hafa í huga að þegar Bill Shankly hætti sem stjóri Liverpool eftir 15 ár í starfi var tilfinning flestra svipuð og hjá okkur núna, margfaldað með fimm. Sá sem tók við starfinu af honum er ennþá sigursælasti stjóri Liverpool frá upphafi. Það er ekkert lögmál að næsti stjóri á eftir stórum karakter verði David Moyes eða Roy Hodgson, vonlaus stjóri í starfi sem hann ræður ekkert við skugga forvera síns.
Þegar Klopp tilkynnti að hann ætlaði að hætta eftir tímabilið kom upp frekar snúin staða, það er hreinlega engin knattspyrnustjóri starfandi í dag sem maður vill fá frekar en Jurgen Klopp. Fyrir níu árum var Klopp afgerandi heitasti bitinn á markaðnum og hinn sem kom til greina var Ancelotti. Það þurfti engan kjarneðlisfræðing á launaskrá hjá FSG til að reikna út að Jurgen Klopp væri augljós besti mögulegi valkostur ættum við séns á honum, þó hann hefði aldrei þjálfað annarsstaðar en í Þýskalandi.
Landslagið er aðeins annað núna og því fögnuðu flestir stuðningsmenn Liverpool því að Michael Edwards væri aftur komin á launaskrá FSG áður en félagið tæki þá gríðarlega stóru ákvörðun hver væri bestur til að taka við af Jurgen Klopp. Hvort það er hann eða Richard Hughes sem fer fyrir teyminu sem ræður næsta stjóri skiptir kannski ekki alveg öllu, við getum líklega ekki bent á neinn yfirmann knattspyrnumála sem við treystum betur til að finna næsta stjóra.
Það að fá Edwards til baka gaf líka sterklega til kynna að FSG ætlaði að styðjast við öfluga gagnavinnu við þessa ákvarðanatöku. Ekki endilega bara horfa á hvaða stjórar eru í toppliðunum núna óháð því hvort þeirra leikstíll og persónuleiki passi við núverandi hóp Liverpool.
Endurkoma Edwards bendir einnig til að FSG ætlar aftur með félagið nær Evrópska módelinu að yfirmaður knattspyrnumála sér meira um að stjórna rekstri félagsins á meðan yfirþjálfari liðsins stjórnar æfingum og leikjum. Að sjálfsögðu hefur þjálfarinn sterka rödd þegar kemur að leikmannamálum en þá meira sem partur af teymi frekar en einvaldur. Þegar Klopp tók við árið 2015 var það líka uppleggið og hann staðfesti sjálfur á fyrsta blaðamannafundi að þannig vildi hann vinna. Michael Edwards varð heimsþekkt stærð í kjölfarið. Hvort það hafi eitthvað breyst eftir því sem árin liðu er erfitt að segja.
Arne Slot
Afrakstur þessarar vinnu virðist hafa nokkuð afgerandi skilað þeirri niðurstöður að besti valkosturinn í boði fyrir Liverpool er Arne Slot. Hans nafn hefur verið frá upphafi verið nokkuð ofarlega á listum hjá veðbönkum en lítið sem ekkert hjá stuðningsmönnum og lítið hjá blaðamönnum, hvorki hér né á Englandi.
Þegar kafað er dýpra ofan í hver Arne Slot er og hvað hann hefur verið að gera undanfarin ár sér maður fljótlega að rörsýn okkar á enska boltann er mun frekar vandamálið. Arne Slot er bara alls ekkert eins óþekkt stærð í Evrópu og virðist í fyrstu og það hefur verið vitað í tvö ár að hann var klárlega að fara í stærri deild og alvöru klúbb þegar hann telur það vera rétt. Þetta er miklu meira spennandi ráðning virðist vera en flestir átta sig á og erfitt að sjá hvernig hann er eitthvað minna spennandi en t.d. Robert Amorim sem hefur einnig verið mikið í umræðunni undanfarið. Þeir eru með frekar svipað CV og koma úr álíka sterkum deildum. Báðir eru ungir og ferskir á mælikvarða þjálfara og hvorugur er mengaður af því að hafa mistekist hjá einhverjum af hinum stórliðunum. Stjórar sem virka tilbúnir í að taka stórt skref uppávið.
Arne Slot sjálfur er ástæðan fyrir því að hann er ekki löngu kominn í enska boltann. Crystal Palace og Leeds reyndu bæði að sannfæra hann um að koma í byrjun síðasta árs þegar þau voru að skipta um stjóra en hann taldi þeirra verkefni ekki rétt fyrir sig og valdi að vera áfram hjá Feyenoord.
Tottenham reyndi sömuleiðis um að sannfæra hann um að koma til Englands síðasta sumar og töldu sig vera að fá hann er hann hafnaði þeim einnig og skrifaði frekar undir nýjan samning við Feyenoord. Hann kom Feyenoord í Meistaradeildina um vorið eftir sigur í Eredivisie og vildi frekar spreyta sig í þeirri deild en taka við Tottenham. Þetta sýnir ágætlega að hann sannarlega meinar það að hann er tilbúinn að bíða eftir réttu tækifæri fyrir sig og er tilbúinn að hafna töluvert betri tilboðum. Eins hefur hann þannig trú á sjálfum sér að hann taldi að annað tækifæri kæmi síðar þó hann héldi áfram hjá Feyenoord. Kannski ekki ósvipað því sem Xabi Alonso er að gera hjá Leverkusen?
Liverpool er síður en svo eina liðið sem hefur áhuga á að fá Slot núna og Feyenoord hefur sannarlega engan áhuga á að missa manninn sem reif félagið upp fyrir þremur árum. Til að fá hann frá Hollensku meisturunum þarf Liverpool að greiða um €11m sem er töluvert.
Hversvegna er hann svona eftirsóttur
Dirk Kuyt sem er ennþá meiri goðsögn hjá Feyenoord en Liverpool þekkir Arne Slot vel og segir að hann hugsi um fótbolta 24/7. Hann leggur upp með jákvæðum sóknarfótbolta. Fyrrum liðsfélagar hans frá því hann var leikmaður sem og þjálfarar vissu snemma að hann yrði alltaf þjálfari eftir ferilinn og þegar hann hætti að spila fór hann strax að vinna sem þjálfari í yngri liðum.
Slot byrjaði þjálfaraferilinn hjá Cambuur í 2.deild þegar hann og Sipke Hulshoff voru fengnir til að taka við liðinu til bráðabirgða eftir að stjóri liðsins var rekinn. Þeir stóðu sig hinsvegar það vel að þeir kláruðu tímabilið, liðið fór úr 14.sæti í 3.sæti en rétt missti af því að komast upp eftir tap í umspili. Í bikarnum unnu þeir frábært lið Ajax áður en þeir féllu úr leik í undanúrslitum eftir tap í vító gegn AZ Alkmaar. Sipke Hulshoff er einmitt aðstoðarstjóri Slot í dag og kemur með honum til Liverpool.
Slot hélt þó ekki áfram hjá Cambuur heldur réði sig sem aðstoðarstjóra hjá einmitt AZ Alkmaar í Eredivisie sumarið 2017 þar sem hann var með Alberti Guðmunds og félögum. Fyrir tímabilið 2019/20 var tilkynnt að hann tæki við liðinu sjálfur.
Ef að 2019/20 var pirrandi fyrir okkur stuðnigsmenn Liverpool vegna Covid þá var það ekkert í samanburði við stuðningsmenn AZ. Þeir voru búnir að vinna Feyenoord 0-3 og PSV 0-4 og Ajax 0-2, allt á útivelli þegar deildin var ekki bara stöðvuð heldur aflýst í mars 2020. AZ var jafnt Ajax að stigum, níu leikir eftir og allt momentum með AZ en deildinni var bara slaufað án sigurvegara. Svipað og grunsamlega margir vildu sjá gerast á Englandi líka.
AZ byrjaði næsta tímabil á eftir á svipuðum nótum og voru ekki búnir að tapa leiki í byrjun desember þegar samstarf Slot og AZ sprakk í háaloft. Feyenoord hafði þá tilkynnt að gamla kempan Dick Advocaat myndi hætta eftir tímablið, ekki ósvipaður fyrirvari og hjá Klopp núna. Slot var mjög augljós arftaki væri það möguleiki og þegar AZ komst að því að Slot væri í viðræðum við Feyenoord ráku þeir hann frekar en að láta hann klára tímabilið. Hann fékk því óvænt hálft ár í frí í byrjun árs 2021 sem hann notaði til að undirbúa sig. Þannig að þegar hann tók loks við Feyenoord árið eftir hafði hann aldrei klárað heilt tímabil sem knattspyrnustjóri.
Feyenoord hefði vissulega átt að skoða það að gefa Slot bara strax starfið því tímabilið 2020-21 voru þeir 29 stigum frá toppnnum eða jafn langt og það var niður í botnsætin. Dick Advocaat sem var þarna í sínu 25. starfi sem stjóri bauð upp á drepleiðinlegan bolta og stemmingin í Rotterdam var bara alls ekki góð. Slot tók við Feyenoord við ekkert ósvipaðar aðstæður og kannski Amorim tók við hjá Sporting.
Eyjólfur tók strax að hressast undir stjórn Slot, liðið spilaði mun skemmtilegri bolta, vann fleiri leiki, þétti vörnina og náði alla leið í úrslit Europa Conference League þar sem þeir lágu gegn hundleiðinlegu Roma liði Jose Mourinho sem pakkaði í vörn og slapp með sigurinn. Strax eftir fyrsta heila tímabil Slot sem stjóri var öllum í Hollandi ljóst að þarna væri mjög spennandi stjóri á ferðinni og árangur liðsins gerði það að verkum að flestar stjörnur liðsins voru seldar í stærri deildir í kjölfarið. Markahæsti leikmaður liðsins Luis Sinisterra var seldur til Leeds (og er núna kominn til Bournemouth). Malacia fór til Man Utd og Marcos Senesi til Bournemouth. Reiss Nelson sem var á láni frá Arsenal fór til baka og norski miðjumaðurinn Fredrik Aursnes fór til Benfica. Guus Til sem var lánsmaður fór til PSV. Þetta voru allt lykilmenn hjá Feyenoord sem byrjuðu í úrslitaleiknum gegn Roma.
Slot er ekki eini maðurinn á bak við uppgang Feyenoord ekki frekar en Klopp á einn heiðurinn af gengi Liverpool. Það voru gerðar stórar breytingar á öllum strúktúr hjá félaginu 2020 og var Slot ein af þeim breytingum sem þeir gerðu. Þeir elfdu t.a.m. mjög njósnarateymi félagsins og stækkuðu þann markað sem þeir voru áður að vinna með. PSV og Ajax voru árin áður með töluvert mikið forskot fjárhagslega, ekki síst þar sem þeir seldu sýna lykilmenn fyrir mun hærri fjárhæðir og vildu forráðamenn Feyenoord jafna þann leik.
Eitthvað voru þeir að gera rétt því liðið hélt áfram að bæta sig þrátt fyrir selja megnið af lykilmönnum liðsins. Slot er sagður vinna gríðarlega vel með ungum leikmönnum og hefur stórbætt leik flestra sinna leikmanna. Vonandi heldur hann þeim eiginleika á stærra sviði öfugt við t.d. landa sinn hjá Man Utd. Feyenoord keypti mikið til unga óþekkta leikmenn sumarið 2022 í bland við unga stráka sem Slot tók upp úr akademíunni. Það skilaði sér í fyrsta titli félagsins í sex ár og aðeins annars titils Feyenoord á þessari öld. Þeir töpuðu aðeins tveimur leikjum allt tímabilið.
Gengi liðsins núna er nánast eins og það var titil tímabilið í fyrra, munurinn nú er hinsvegar sá að PSV er að eiga ofur tímabil þar sem þeir hafa tapað aðeins einum leik og gert þrjú jafntefli í 31 leik. Þeir eru níu stigum frá því að vera með fullt hús! Undirliggjandi tölur hjá Feyenoord benda raunar til að þeir séu að bæta sig því xG munurinn yfir 90 mínútur hjá þeim núna er 1,9 mörk að meðaltali (xG – xA) en var 1,1 mörk að meðaltali í fyrra. Þ.e.a.s. þeir eru að skora tveimur mörkum meira að meðaltali í ár en þeir fá á sig.
Það er ekki erfitt að sjá á þessari byrjun Slot sem þjálfari að hann veki áhuga stærri liða. Þetta er alveg áður en við kynnum okkur persónuleika hans nánar sem fær ekki síður góð meðmæli. Annað sem heillar klárlega eigendur Liverpool er sú staðreynd að hann bætir leikmenn og er góður að þróa og móta unga leikmenn og fá þá til að kaupa það sem hann er að selja þeim. Allir hans leikmenn og fyrrum leikmenn bera Slot vægast sagt vel söguna. Eins er hann vanur að keppa við félög sem hafa miklu miklu stærra budget og vinna slík lið.
Arne Slot hefur aldrei á sínum ferli þjálfað lið sem kemur ekki út í plús á leikmannamarkaðnum eða í besta falli er alveg við núllið. Viðskiptamódel hollenskra liða er að selja sína bestu menn með hagnaði og Slot missti alltaf sína bestu menn. Feyenoord hefur aldrei keypt leikmann fyrir meira en €8m. Hann er sjálfur að kosta meira en félagið hefur borgað fyrir leikmann.
Tvö sumur kom Feyenoord út í mínus en bæði skiptin minna en €10m. Eftir að Slot kom og fór að ná meiru út úr liðinu fóru þeir líka að fá meira út úr leikmannasölum. Það er magnað að bera Feyenoord saman við Ajax á þessum tíma, ekki síst í ljósi þess að Feyenoord hefur verið mikið öflugra lið.
Leikstíll
Dirk Kuyt vill meina að Arne Slot sé ekkert eins og einhver annar stjóri, ekki eins og t.d Klopp eða Guardiola. Hann er hinsvegar gríðarlega mikill aðdáandi Guardiola og notar City oft sem kennsludæmi fyrir sín lið. Eins er hann sagður mikill aðdáandi De Zerbi. Hann hefur mörg svipuð grunngildi og Klopp. Hann er engu minna krefjandi á að sínir menn séu í formi en þessir stjórar og er Feyenoord liðið alltaf í mjög góðu formi. Honum hefur engu að síður tekist vel að halda mönnum frá meiðslum og stýra álagi í samráði við læknateymi og gagnavinnu þeirra. Þarna er klárlega eitthvað sem hann getur vonandi bætt frá tíma Jurgen Klopp.
Feyenoord hefur jafnan spilað 4-2-3-1 leikkerfið, svipað og Klopp gerði áður en hann tók við Liverpool. Tveir aftari miðjumenn sem eru töluvert flæðandi eru lykilmenn hjá Slot og t.a.m. vel hægt að sjá fyrir sér að Trent Alexander-Arnold verði miðjumaður hjá Slot, kannski ekki ósvipað og hann hefur verið að gera í vetur. Slot vill spila út úr vörninni og sýna hugrekki við það ekki ósvipað og Brighton og City gera t.d. Úr því að Matip er að fara er ekki ósennilegt að miðvörður sem er góður á boltann verði ofarlega á óskalista sumarsins. Heilsufar Konate og það hversu takmarkaður hann er við að koma boltanum frá sér gætu verið vandamál hjá Slot.
Einhverjir fjölmiðlar hafa haldið því fram að Slot hafi verið ofar á lista hjá Liverpool en t.d. Alonso og Amorim þar sem hans leikstíll fellur betur að núverandi hópi Liverpool og hugmyndafræði félagsins. Tökum öllum slíkum fréttum auðvitað með fyrirvara en það er frekar auðvelt að heimfæra leikstíl Slot á megnið af leikmönnum Liverpool.
Hollenska deildin
Louis van Gaal sagði einhverntíma
‘When you’re ready, you’re ready.’ It doesn’t matter what age you are or how much experience you have — it’s about your qualities.
Liverpool er klárlega að taka töluverða áhættu með því að ráða 45 ára stjóra sem eingöngu hefur þjálfað og spilað í heimalandinu. Það er töluverð pressa sem fylgir því að stýra Feyenoord og það félag er með verulega kröfuharða og öfluga stuðningsmenn, það er klárlega öflugur vettvangur fyrir nýja stjóra til að öðlast reynslu rétt eins og sama level er fyrir leikmenn sem svo stíga upp og spila á hærra leveli. Engu að síður er það heljarinnar stökk að fara frá Feyenoord sem aldrei hefur keypt leikmann sem kostar meira en €8m til Liverpool sem keyptu Luis Alberto og Thiago Ilori sem unglinga á slíkar fjárhæðir fyrir rúmlega áratug.
Þetta skiptir samt engu máli ef Slot hefur karakter og hæfileika til að selja leikmönnum Liverpool það sem hann hefur verið að selja leikmönnum Feyenoord. Tungumálið verður klárlega ekki vesen, Slot talar betri ensku en Klopp og hefur talað við Feyenoord liðið á ensku í þrjú ár.
Sagan er kannski ekki alveg með Slot hvað varðar hollenska þjálfara í enska boltanum en hluti af ástæðunni er kannski sú að bestu hollensku stjórarnir fóru jafnan ekkert í enska boltann nema undir lok ferilsins. (Hiddink, Van Gaal, Advocaat góð dæmi um það)
Erik Ten Hag er auðvitað alls ekkert að hjálpa Arne Slot, hann tók við United liði sem er og hefur verið í alls konar vandræðum og hefur ekki náð nógu góðum tökum á félaginu. Það er mikið bent á Ten Hag í öllum samræðum við hollenska blaðamenn og aðra sérfræðinga nú í tengslum við komu Arne Slot og ljóst á þeim öllum að þetta eru afar ólíkir menn fyrir utan hárgreiðslu og þjóðerni.
Koeman hefur stýrt stóru liðunum í Hollandi sem og landsliðinu, Valencia og Barcelona á Spáni en endaði einhvernvegin hjá Southampton og Everton þegar hann kom til Englands, það er enginn að fara bæta ímynd sína þar!
Flestir hollenskir stjórar sem komið hafa í enska boltann tóku við liðum sem voru ekkert að fara vinna til verðlauna eða voru búnir með sín bestu ár annarsstaðar. Ten Hag er kannski sá sem fékk stærsta tækifærið og virðist ekki vera að nýta það þar til nú þegar Arne Slot fær Liverpool.
Eredivisie er skv. UEFA 6.sterkasta deild í Evrópu í dag og er eins og við þekkjum nokkuð stökk frá stóru fimm deildunum niður í næstu fyrir neðan sem eru Eredivisie og Liga Portugal þó stærstu liðin í þessum deildum gætu vel spilað í stærri deildum. Deildin í Portúgal var talin sterkari þar til á síðasta tímabili og er nokkuð áhugavert að bera þær saman, sérstaklega í ljósi þess að við höfum núna í nokkrar vikur verið að spá í Robert Amorim stjóra Sporting.
Samanlagt mæta mun fleiri á völlinn í Hollandi en báðar deildir eru svipað upp settar, þrjú lið sem eru sögulega afgerandi best. Tvö sem hafa dóminerað þessa öld og svo þriðja besta liðið sem hefur verið að stíga upp núna undanfarin ár (Feyenoord / Sporting). Það eru öllu fleiri lið í Hollandi sem geta unnið deildina og hafa gert það á undanförnum árum á meðan það koma bara max þrjú lið til greina í Portúgal.
Heildarmarkaðsvirði leikmanna í Hollandi er 1,32 BN skv Transfermarket á móti 1,45 BN í Portúgal. Þessum tölum verður þó að taka með vægast sagt miklum fyrirvara í báðum löndum. Eru þó nokkuð svipaðar þarna eins og annarsstaðar, a.m.k. á pappír.
Auðnum er svo svipað “jafnt” skipt milli liða á báðum deildum.
Portúgalskir stjórar í enska boltanum eru svo töluvert mikið Jose Mourinho og fimm aðrir. Engu minna öruggt að ráða stjóra frá Portúgal en Hollandi. Hinir eru Nuno Espírito Santo, Bruno Lage, Marco Silva, Carlos Carvalhal og Villas-Boas.
Stjóraskipti ensku liðanna
Blessunarlega er það er ekki algengt að Liverpool skipti um stjóra og fylgir því óvissutilfinnig, líklega sjandan meiri en einmitt nú. Þróunin á þessari öld hefur hinsvegar verið á einn veg og ef þú ert ekki að stýra öðru af toppliðunum er starfsöryggið lítið sem ekkert. Það jafnvel er ekki alltaf nóg núorðið.
Það er erfitt fyrir okkur að meta núna hvar Arne Slott er á skalanum frá Roy Hodgson til Jurgen Klopp, líklega aðeins fyrir ofan Brendan Rodgers og vonandi með þak til að ná miklu hærra. Ef hann er framtíðarstjóri Liverpool þíðir það að félaginu gengur vel og vonandi verður það raunin.
En skoðum svona til gamans hvernig þróunin hefur verið á þessari öld:
Klopp, Guardiola og Arteta þeir einu sem tolla í starfi enda árangur þeirra liða þannig að þeir stjórna hvenær þeir hætta. Ten Hag verður farinn í sumar rétt eins og Pochettino. Gangi sá spádómur eftir verður það 17. stjórabreyting Chelsea á þessari öld og áttunda stjórabreyting United frá því Ferguson hætti fyrir rétt rúmlega áratug. Tottenham hefur 15. sinnum skipt um stjóra frá aldamótum. Vonandi sleppur Liverpool við slíka þróun.
Frá því FSG tóku við hafa þeir í raun bara ráðið tvo stjóra, Rodgers tók rúmlega þrjú tímabil og Klopp níu. Dalglish telur eiginlega ekki með enda kom hann bara til að hreinsa risaskitu fyrri eigenda.
Helstu verkefni Arne Slot / Richard Hughes í sumar
Arne Slot er 45 ára og kemur vonandi með mjög ferska vinda í Krikby sem ekki er vanþörf á. Endurnýjun á leikmannahópi Liverpool hófst fyrir alvöru síðasta sumar og klárlega góður grunnur til staðar fyrir Slott að vinna úr. Engu að síður er vel hægt að sjá tækifæri til að gera nokkuð stórar breytingar á hópnum í sumar, þ.e.a.s. kveðja enn fleiri lykilmenn sem hafa þjónað Liverpool vel í tíð Klopp en eru búnir að toppa. Slot hefur hingað til helst viljað vinna með ungum orkumiklum leikmönnum en það er auðvitað ekkert lögmál. Hjá Liverpool fær hann vonandi eins og Klopp að halda þeim leikmönnum sem hann vill halda, öfugt við starfsumhverfi hans hjá Feyenoord.
Markmenn
Liverpool verður að eiga tvo mjög góða markmenn m.v. hversu oft Alisson er frá. Kelleher þarf einnig að fara annað til að spila og þarna gæti vel verið tækifæri til að ná í smá aur. Alls engin þörf samt á að gera neitt ef Kelleher fer ekki fram á sölu.
Vörnin
Van Dijk hefur lýst yfir mikilli ánægju með að fá landa sína og verður vonandi áfram fyrirliði Liverpool. Það þarf að fara huga að arftaka hans samt enda 33 ára í sumar
Stóra tækifærið er að losna við Matip af launaskrá. Einhverjir sem þekkja leikstíl Feyenoord draga í efa að hann sé spenntur fyrir Konate þegar kemur að því að bera boltann út úr vörninni og hvað þá meiðslasögu hans. Það er mjög erfitt að sjá Joe Gomez fyrir sér sem bakvörð áfram hjá Slot svo vonandi fer hann aftur í miðvörðinn, ekki að hann sé betri á boltann en Konate! Quansah er svo að springa vel út í sumar og verður vonandi framtíðin hjá Liverpool í þessari stöðu. Liverpool á svo ennþá Sepp van den Berg, samlanda Slot, spurning hvor það sé einhver sem hann vill skoða?
Hér myndi maður ætla að Liverpool verði að styrkja sig um a.m.k einn leikmann. Mögulega t.d. Hancko frá Feyenoord, slóvaka sem hefur sprungið út hjá Slot. Eða Inacio 22 ára miðvörð Sporting.
Bakverðir
Andy Robertson er einn af þeim þjónum Klopp sem væri kannski ekki óhugsandi að sjá fara í sumar ef félagið er með ungan ferskan arftaka. Andy Robertson 22-28 ára er reyndar ideal leikmaður fyrir leikstíl Slot og vonandi nær Slot að nýta skotann nokkur tímabil í viðbót. Tsimikas mætti þá endurnýja, varamaður sem eru svona oft meiddur þegar á reynir eru ekki spes valkostur.
Hægra megin verður mjög spennandi að sjá hvar hann hugsar Alexander-Arnold. Haldi Slot sig við 4-2-3-1 blasir við að Trent komi á miðjuna og Bradley verði í bakverði. Þetta er reyndar eitthvað sem Klopp hefur ekki fengið tækifæri til að láta á reyna í vetur enda hafa þeir verið meiddir til skiptis. Eins gæti Slot vel haldið Trent áfram í svipuðu hlutverki og hann hefur verið nú þegar hjá Liverpool, bakvörður sem leitar inn á miðju.
Miðjumenn
Liverpool þarf ennþá að kaupa heimsklassa djúpan miðjumann, hvort sem það er tilbúin vara eins og Rice eða yngri leikmaður með þak til að stíga hratt upp. Bajcetic er kannski smá wild card hérna, hvernig hann kemur undan meiðslum og hvaða álit nýr stjóri hefur á honum. Endo verður vonandi áfram en það þarf meira stál í hópinn og færri leiki með Mac Allister sem varnartengilið.
Thiago fer af launaskrá og skapar svigrúm fyrir leikmann með stóran launapakka í staðin.
Curtis Jones hefur aldrei tekið heilt tímabil þar sem hann var stöðugur mest allt mótið og hvað þá nálægt því að vera heill heilsu. Hann er að spila tæplega 1.200 mínútur (35%) í deild á hverju ári í liði sem hefur alltaf verið í meiðslavandræðum í þessari stöðu. Hann er rosalega mikið að verða arftaki Ox og Keita.
Það verður svo spennandi að sjá hvað Slot gerir með Gravenberch, Szoboszlai, Elliott og Clark. Allt strákar rétt eins og Jones og Mac Allister á frábærum aldri með mun hærra þak en þeir hafa verið að sýna í vetur.
Frammherjar
Af mismunandi ástæðum er enginn sóknarmaður sem ekki má missa sín fyrir ferskari vinda í sumar. Auðvitað fara þeir ekki allir í einu en það er ekki heimsendir eftir 1-2 af þeim fara og þá sama hver.
Salah virkar bara kominn yfir sinn hátind sem leikmaður og ef enn er hægt að fá risafjárhæð fyrir hann fá Saudi er líklega réttur tími í sumar að taka slíku boði. Það er ekki síst varnarlega sem maður saknar Salah enda alveg óþolandi stundum að horfa á hann á jogginu varnarlega þegar Liverpool missir boltann, eins bara hvað varnarleik frá fremsta manni varðar. Hann er svo að klikka litlu færri færum en Darwin Nunez. Auðvitað vill maður ekki missa Salah samt nema fyrir einhverjar bull fjárhæðir sem hægt er að nota til að styrkja og yngja sóknarlínuna.
Diogo Jota má svo bara fara ekki nema Slot vinni kraftaverk með hann heilsufarslega. Meiðsli Jota eru mjög líklega að kosta Liverpool titilinn í ár. Þetta er bara svo einfalt. Gaurinn er gjörsamlega alltaf meiddur. Það er raunar með ólíkindum hvað lykilmenn Liverpool á besta aldri (24-28 ára) eru oft meira og minna á nuddbekknum meiddir.
Darwin Nunez í núverandi formi er svo brjálað pirrandi leikmaður. Hann er að slá einhverskonar met í að hitta í tréverkið og skapar sér sannarlega mikið af færum en færanýtingin er hreint galið léleg, það sem er verra er og öfugt við Jota (þá sjaldan hann er með) þá versnar tölfræði Nunez til muna þegar mest liggur við. Ef Liverpool er undir eða staðan er jöfn versnar færanýting Nunez til muna. Held að hann fari ekki í sumar og það er alveg spennandi að sjá hvort öðruvísi leikstíll gæti hentað honum þar sem hann yrði meira afgerandi nía upp á topp. Slot hefur verið að fá mikið á sínum sóknarmönnum hingað til.
Cody Gakpo, fínn sem fimmti valkostur en ekki mikið meira en það hingað til. Virkar of soft. Hann er á móti líklega sá sóknarmaður Liverpool sem Slot þekkir best.
Luis Diaz hefur verið hvað skástur undanfarið og sýnt mest hjarta af leikmönnum liðsins en honum gengur líka oft alveg voðalega illa að nýta helvítis færin.
Það má samt ekki gleyma því að Slot er að taka við verulega góðu búi og mikið af því sem er að pirra okkur stuðningsmennn Liverpool núna undir lok þessa tímabils gæti vel lagast með nýjum ferskum vindum og áherslum á æfingasvæðinu í sumar. Megnið af þeim leikmönnum sem Slot fær hjá Liverpool eru ungir og ættu að vera móttækilegir fyrir hans hugmyndafræði. Það þarf alls enga byltingu á leikmannamarkaðnum í sumar.
Það verður spennandi að sjá hvernig Slot veldur stjórastöðunni hjá Liverpool og bara hvað félagið gerir meira í sumar. Það er ljóst að andlega eru leikmenn komnir með nóg af þessu tímabili og bíða þess að þetta verði flautað af, ekki frá því að maður sér þar líka.
Virkilega fræðandi og flottur pistill.
Kop.is eru forrétindi fyrir okkur Liverpool menn.
En að innihaldinu sjálfu. Fyrir mig sjálfan sem er bara venjulegur sófa áhorfandi sem reynir að lesa sér til er Arne slot mjög spennandi kostur.
Sem og Amorin og Alonso voru líka.
Ég var minna spenntur fyrir stærri nöfnum eins og Móra og Tuchel og álíka gæjum. Þjálfurum sem vilja búa til módel sem ná skyndi árangri með tilheyrandi stórkostaði og sködduðu umhverfi þegar þeir fara.
En að Hollandi.
Nú er ég að fylgjast með Hollenskum fótbolta aðeins. Horfi á leiki í sjónvarpi og hef farið á leiki úti og er í Hollandi í þessum skrifuðum orðum á leið á 2 leiki. Hvorugur með Feyenoord að vísu en keyrði þar framhjá í fyrradag leikvanginum þar að segja.
Arne Slots er maður fólksins rétt eins og Klopp.
En það þarf ekki að tala við marga knattspyrnumenn og manna sem til þekkja
Að Hollendingar séu óþolandi agaðir og reglu óðir með reglur sem mönnum finnst svo galnar og mikill óþarfi að þær skemma út frá sér.
Oft finnst mönnum hreinlega betra að hafa erlenda þjálfara.
Og ánn þess að ég viti það en þá finnst mér það ansi líklegt að það sé stóra vandamálið hjá Ten hag hans sýn hafi hreinlega stuðað þessa leikmenn svo voru fyrir.
Allt í kringum æfingarsvæðið þá meina ég allt motuneytið og allan pakkan. Það eru litlar reglum í kringum allan djöfulin hjá þessum mönnum.
Gæti trúað að Belgía sé ekki með ólíka sýn á þessa hluti og þá getum við séð nærtækt dæmi fyrir okkur Íslendinga Arnar Þ Viðarson sem vildi spila skemmtilegan bolta en átti erfitt með samskipti við menn sem kannski voru ekki alveg innrammaðir í ákveðinn ramma. Minnum lika á að Slot var með mann eins og Albert Guðmundsson hjá AZ. Albert þótti gríðarlegt efni en sló aldrei að neinu viti í gegn í Hollandi.
Liverpool til tekna eru vonandi Dijk og Gakpo menn sem eru mjög pro gæjar sem þekkja hvað er í vændum og klefinn örugglega farinn að ræða nýjan stjóra.
Að öllu þessu sögðu og vonandi drap ég ekki stemminguna varðandi Arne Slot.
Gleymum því heldur ekki að dæma einstaklega út frá eitthverri held.
Ég tel núverandi leikmannahóp mun klárari að fá Hollenskan stjóra inn heldur en hóp Manutd sem manni sýnist úr fjarlægð vera stjórnlausir margir hverjir og það mun taka Ten Hag tíma að hreinsa til þar og koma með sitt inn. Hann er alls ekki slæmur stjóri fyrir ykkur sem haldið það.
Og Arne Slot er það heldur ekki.
Báðir hollenskir og skollóttir og góðir stjórar ekki halda neitt annað spurningin er bara verðum við Poolarar fljótari að aðlagast hollenskri aðferðarfræði.
YNWA
Frábær pistill, takk.
Stóra áskorunin er að vinna á þessum endalausu meiðslum. Það er ekki einleikið. hvað leikmenn hafa verið laskaðir í tíð Klopp. Virkilega væri nú gaman að fá einhverja greiningu á því hvað kann að búa þar að baki. Er það leikstíllinn eða æfingarnar? Álagið er vissulega mikið en við sjáum hin liðin tvö í efsta pakkanum – aldrei teljandi vandamál þar. Vissulega var De Bruyne meiddur framan af vetri en maður sæi fyrir sér hvernig piltur hefði verið útleikinn hefði hann spilað fyrir Klopp, lykilmaður í liðinu undir öllu þessu álagi.
Svo er það auðvitað færanýtingin. Ef þeir hefðu nú aðeins skilað miðlungsárangri fyrir framan markið, þessir sóknarmenn okkar, á þessu tímabili værum við á góðri leið með að landa titlinum núna. Hér hlýtur að vera hægt að greina hvað býr að baki, svo ótrúlega hefur gengið illa að skora. Takist Slot að breyta hugarfari sóknarmanna (og vonandi fá inn nýtt blóð) þá gæti það lyft okkur upp um nokkrar tröppur.
Svo er það auðvitað djúpi miðjumaðurinn. Költ-hetjan Endo hreif okkur lengst af tímabilinu, en álagið er augljóslega gríðarlegt og hann hefur dalað mikið. Hugsa með mér að ef við hefðum haldið Fabinho amk þetta tímabil, hvað það hefði nú getað hjálpað okkur ef hann hefði staðið vaktina ásamt Endo. Aftur – mögulega hefði það riðið baggamuninn.
En ég ætla ekki að endurtaka pistilinn! Játa, að ég er mjög spenntur fyrir Slot, miðað við það sem ég hef lesið. Takist honum að laga ofangreind þrjú vandamál gæti hann byggt á fyrri styrkleikum og komið okkur aftur á toppinn.
Já, alveg frábær pistill, sem fyllir mann af tilhlökkun. Það eru ekki bara likamlegu meiðslin sem hafa hrjáð leikmenn Liverpool, heldur líka andlega hliðin sem er orðin svo bágborin núna að hræðilegt er að fylgjast með. Jurgen Klopp sem hefur svo oft náð góðum árangri með liðið að maður hefur fyllst af gleði og stolti, hefur núna á lokametrunum misst klefann og er líklega bara að bíða eftir lokaflautinu.
Þurftum ekki lærða grein til að hylma yfir úrslitin í gær. Takk samt!
Held að það sé óþarfi hjá þér að tala um þig í fleirtölu og hér er hvorki verið að tala um leikinn í gær (sjá leikskýrslu um hann) né verið að reyna hylma yfir eitt eða neitt. Bore off.
Frábær grein, takk fyrir mig
Nunez og Salah mættu taka Einar Matthías sér til fyrirmyndar – þrumufleygur í vinkilinn, algjör bomba sem þessi pistill er með fróðleik og tölfræði – takk EH!
Maður er aðeins léttari eftir lesturinn, þriðja sætið nokkuð öruggt ef okkar menn halda rétt á spilunum í þessum þremur leikjum sem eftir eru. Spennandi sumar framundan, núllstillum og byrjum ferskir í haust – we go again!
YNWA
Sælir félagar
Takk fyrir þennan magnaða pistil Einar Matthías, frábærlega fræðandi og skýr. Ég var að vísu búinn að kaupa það að Slot komi og þessi pistill staðfestir tilfinningu mín fyrir þessum manni. Ég held að Slot sé miklu betri í samskiptum við leikmenn en ETH og það verði gæfumunurinn. Vertu velkominn Arne Slot og megir þú eiga farsælan tíma hjá Liverpool.
Það er nú þannig
YNWA
Takk fyrir frábæran pistil.
Salah varpar skugga á glæstan feril sinn hjá félaginu með þessum hálfvitagangi gagnvart Klopp og eftir á að hyggja hefði hann átt að fara fyrir tímabilið. Reyndar var ég á því líka þegar hann fór fram á nýja risasamninginn sem hann fékk að lokum. Það eru meiri kröfur gerðar til hans en annarra leikmanna liðsins um að vera fyrirmynd og draga vagninn þegar á þarf að halda. Hvorugt hefur hann gert á þessu ári.
Mér líst vel á Slot m.v. það sem ég hef lesið og vona að hann geri góða tiltekt í hópnum þannig að við getum mætt ferskir til leiks á nýju tímabili.
Arne Slot er örugglega spennandi kostur eins og Einar nefnir og gerir góða grein fyrir í pisli sínum hér að ofan, hann spilar skemmtilegan bolta og vonandi ræður hann við verkefnið.
Enn eitt þurfum við að hafa í huga og það er það að góður þjálfari einn og sér er ekki að fara að vinna stóru titlana sem Liverpool á alltaf að berjast um. Við þurfum að hafa eiganda í samræmi við stærð Liverpool Fc. FSG eru það ekki og það vandamál hverfur ekki á meðan þeir eru eigendur Liverpool Fc.
Ég er að vona að Liverpool Fc fari á sölu og við fáum öflugari eigendur í samræmi við stærð klúbbsins því fyrr því betra..
Ari nefndu okkur betri eigendur en FSG í Premier League?
Eigendur Arsenal, Man City, Newcastle og Man Utd allt eru þetta eigendur með mun meira fjármagn enn FSG og hafa þar með mun meiri getu til að styðja við sýna klúbba.
Ég nefni ekki Chelsea eigendurna sem eru bara á einhverju eyðslu fylleríi, það er ekki það sem ég er að biðja um.
Það sem ég er að benda á er að stjórinn fái þá leikmenn sem hann vanta hverju sinni hvort sem þeir séu ódýrir eða hágæðaleikmenn sem kosta úr efstu hillunni, þetta er það sem hæfir stórklúbb eins og Liverpool Fc. FSG getur ekki veitt okkur það.
Gerðu þér og okkur þann greiða að finna þér olíuklúbb til að styðja.
Þú færð þitt eyðslufyllerí og við losnum við þig.
Allir græða.
DJ20, Þú ert ansi málefnalegur!
Ekki ætla ég að banna nokkrum manni að halda með Liverpool vegna þess að þeir séu ekki sammála mér!
Ég held að þú ættir að hafa hana mömmu þína þér við hlið næst þegar þú ert að berja á lykklaborðið!
Ég er ekki sannfærður þrátt fyrir þennan fína pistil sem er þó að stórum hluta um leikmenn Liverpool og styrk hollensku deildarinnar.
Það er verið að selja okkur þjálfara sem í raun hefur lítið gert nema vinna hollensku deildina einu sinni með lang næst stærsta liðið í hollensku deildinni í sögulegri lægð Ajax.
Einnig minnist enginn á ömurlegan árangur í Meistaradeildinni sem ég hefði haldið að væri lykilþáttur í ráðningu þjálfara Liverpool. Kannski er það vegna þess að samanburðurinn við Ten Hag er sláandi þegar kemur að þessum þætti.
Þá hefur hann aldrei þjálfað elítu leikmenn en það er mikið rætt um að hann geti búið til góða leikmenn úr lélegum. Það er einmitt þetta sem hræðir mig mest. Slot er líklega að taka við besta búi sem nokkur þjálfari hefur tekið við í sögu PL og það eina sem þarf er að eigendurnir setji alvöru pening í leikmenn.
Svo ætla ég að fá að setja stórt spurningamerki við að þarna sé á ferðinni frábær persónuleiki. Hann var rekinn með skömm frá AZ af því að hann fór á bak við eigendur, leikmenn og stuðningsmenn liðsins. Þið fyrirgefið en svoleiðis gera bara skíthælar.
Það er einfaldlega verið að taka einhverja mestu áhættu í sögu Liverpool og ég bara get ekki sætt mig við það. Nýji þjálfarinn þekkir ekkert til klúbbsins eða einhvers klúbbs sem við viljum bera okkur saman við. Þá þekkir hann heldur ekkert til ensku úrvalsdeildarinnar hvorki sem leikmaður eða sem þjálfari.
Svo spyr ég mig eins og margir. Af hverju var þessi þjálfari ekki í umræðunni fyrr en rétt áður en hann var ráðinn? Ég held að það hafi verið af þeirri einföldu ástæðu að flestum þótti hann of lítið númer fyrir stórveldið Liverpool.
Svo langar mig að vita hvaða stórlið voru á eftir honum? Hann var orðaður við Tottenham í fyrra sem er ekki stórlið og Bayern Münich eftir að hann var orðaður við Liverpool. Hef ekki heyrt að annað stórlið væru á eftir honum.
Var ekki verið að tala um að Chelsea hafi verið að spá í honum áður enn þeir réðu Mauricio Pochettino síðasta sumar, einhverstaðar heyrði ég það?
Svona að einum ljósum púnkti, þá virðist Arsenal vera gott sem búið að tryggja að Liverpool haldi allavega þriðja sætinu með sigrinum á Tottenham áðan.
Jú Chelsea reyndu líka að fá hann en hann sagði þvert nei.
Hossi, segðu mér hvaða þjálfar eru á lausu sem þér finnst passa betur í starfið?
Úff hvar á ég að byrja.
Arne Slot var ekkert á lausu frekar en aðrir þjálfarar. Liverpool er að kaupa upp samninginn hans.
Vissulega er það rétt hjá þér að Liverpool kaus að kaupa upp samninginn hans
Enn hverjir aðrir eru betur til þess fallnir að taka við liðinu?
Fínt að fá hinn vinkilinn á þessu. Mér persónulega lýst ekkert á þetta.Þessi þjálfari er að fara ráða engu um kaup á leikmönnum skilst mér og líklega einn af fáum sem var tilbúin í það. FSG money ball er að fara á full time aftur.
Hvar kemur fram að hann hafi ekkert að segja um leikmannakaup Liverpool? Það er ekki eins og félagið kaupi bara leikmenn sem mæta allt í einu á æfingu án þess að stjórinn, þjálfarinn eða hvaða titil hann hefur svo mikið sem viti af því.
Hugmyndafræði FSG er að treysta á teymisvinnu bæði innan sem utan vallar. Ekkert rosalega byltingakennt þannig séð og líklega ekkert rosaleg breyting frá því sem Liverpool hefur verið að gera í tíð Klopp, sérstaklega þegar Edwards var hjá félaginu. Þetta var líka svona hjá Dortmund (og er enn).
https://www.liverpool.com/liverpool-fc-news/features/fsg-liverpool-slot-michael-edwards-29074677#amp-readmore-target
Verður team þjálfari en ekki Manager. Samkvæmt þessu. Edwards mun líklega hafa player kaup power og meiri völd eins og hefur komið áður fram. Hver veit Edwards var með fín kaup hingað til kannski verður þetta fínt.
Það er ekki þar með sagt að hann hafi ekkert með leikmannakaup að gera. Að sjálfsögðu er hann ein af þeim lykilröddum sem hlustað er á þegar kemur að þvi að ákveða leikmannakaup og leikmannahópinn.
Það var alls ekkert betra þegar Rodgers fékk að ráða sínum leikmannakaupum að því er virðist í andstöðu við rest af teyminu og ég held að Klopp hafi ekki náð betri árangri heldur eftir að félagið byrjaði að hringja með DoF stöðuna?
Hössi þú verður að koma með eitthvað af nöfnum sem þú telur betri kost en Slot. Ég skil alveg að menn hafi efasemdir, þetta er nýtt tímabil í sögu Liverpool sem er að hefjast. Oft hafa þau farið illa en líka vel.
Ef ég á að svara þessu með hvort það sé einhver betri sem er mögulega fáanlegur þarna úti þá sé ég bara enga góða kosti. Eina stóra nafnið sem er á lausu er Mourinho og hann vill ENGINN alvöru Liverpool maður fá til liðsins nema honum þyki leiðinlegur fótbolti skemmtilegur. Tuchel er heldur ekki málið því hann kemur sér stanslaust upp á kant við stjórnendur eða leikmenn. Hverjir eru þá eftir? Það er nefnilega enginn annar.
En ég skil vel að menn séu misspenntir fyrir Slot. En gefum honum smá séns allavega.
Takk fyrir flottan pistil.
Þjálfaraskipti eru alltaf áhætta, sama hvort nýr þjálfari er þekktur og reynslumikill eða ekki.
Það er komin augljós þreyta í Klopp og leikmannahópinn og því verður að bregðast við.
Arne Slot þarf tíma til að taka Liverpool í hæstu hæðir.
YNWA
Takk fyrir frábæran pistil, mér líst bara vel á þann hollenska..
Það eru blendnar tilfinningar.
Við erum að missa besta stjóra í heimi en kannski þarf nýja rödd = Vill ekki missa Klopp en gefum næsta manni tækifæri.
Er Slot rétti maðurinn ? Það kemur í ljós en maður er bara temmilega spenntur eða réttara sagt pínu kvíðin fyrir því sem er framundan.
Það er ómögulegt að koma inn og fá samanburð við Klopp alltaf og allstaðar. Slot þarf að koma inn með sjarma og segja öllum strax að hann sé ekki kominn til að vera næsti Klopp heldur bara hann sjálfur.
Slot þarf að byrja ferilinn vel hjá Liverpool til að fá stuðningsmenn á sitt band. Hann er með sterkt lið í höndunum og hjá Liverpool er krafa um árangur.
Enginn á að vera lengur en 8 ár við stjórn…ríki og sveit mættu byrja leiðangurinn ….gerist því miður ekki þar….Klopp er að skila GEGGJUÐU búi….
Takk fyrir góða samantekt.
Vertu velkominn Arns Slot og megi þér farnast vel með mitt ástkæra félag.
Það litla sem ég veit um þennan þjálfara og eftir lesturinn á samantekt Einars um Arne Slot þá er ég þess fullviss að eigendur Liverpool viti hvað þeir eru að gera.
Ég sé að menn eru en að kalla eftir því að fá nýja eigendur að Liverpool, ég er ekki í þeim hóp þar sem ég tel eigendur Liverpool vera með þeim betri sem í boði eru, við sjáumst hvað nýjir eigendur Chelsea eru að gera viljum við svoleiðis eigendur, ég held ekki.
Viljum við svona eigendur eins og City sem eru með ca 115 ákærur hangandi yfir sér fyrir að hafa farið á svig við reglur.
Newcastle þarf að selja leikmenn til að geta keypt nýja og haldið sér innan reglna.
Ég er ekki viss um að margir aðdáendur man utd sé ánægðir með þá sem eiga meirihlutan í man utd og allt það þjálfara fargan sem hefur mætt á svæðið með mjög svo takmörkuðum árangri.
Ég þekki ekki nóg til eigenda Arsenal til að vita hvernig þeir eru en miðað við hvað þeir eru búnir að eiða í leikmenn undanfarið þá hljóta þeir að vera á grensunni um að standast reglur.
Ég man hvernig var komið fyrir Liverpool áður en þessir eigendur keyptu klúbbinn, hann var á leiðinni í gjaldþrot.
Þessir eigendur hafa rekið Liverpool skynsamleg og þeir sóttu Klopp sem er búinn að gera Liverpool ásamt eigendunum aftur að því stórveldi sem Liverpool á að vera eftir nærri þrjátíu ára eyðimerkur göngu með örfáum undantekningum.
Hvort að Arne Slot nær að fylla í fótspor Klopp eða gera betur veit ekki nokkur maður en ég kem til með að styðja hann eins og Liverpool og vona það besta.
Spot on Tryggvi…
Bara svo það sé á hreinu þá hef ég aldrei verið þeirrar skoðunar að við þurfum nýja eigendur en verð þó að viðurkenna að hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þá að undanförnu.
Ég tel þá t.d. 100% bera ábyrgð á hringavitleysunni síðasta sumar sem ég tel að hafi valdið því að Klopp fékk sig fullsaddan fyrr en vonir stóðu til.
Svo er það því miður staðreynd að níska þeirra þrátt fyrir mikinn gróða hefur bitnað á gengi liðsins.
Frabær pistill takk.
Eg er miður mín að vinna engann stórann bikar þetta árið, en er það kannski bara best fyrir nýjan stjóra???
Hann tekur við liði sem er pínu brotið, ju i meistaradeildinni samt sem aður.
Slot þarf ekki að verja neinn bikar heldur sækja i þa.
YNWA Klopp
Frábært pistill hjá þér Einar og hafðu þakkir fyrir.
Ég held að við séum svolítið að fara að ganga út í óvissuna og framtíðin ein mun leiða það í ljós hvernig þetta mun ganga. Því miður þá er ekkert nafn þarna út eins og Klopp var á sínum tíma. Þá er ég ekki að meina eins og Klopp heldur fremur af sama pedigree eða standard. Sá eini í dag sem gæti verið af sama standard er Pep og ekki erum við að fara að fá hann sem stjóra. Nema honum langi kannski að stýra liði sem er með áhangendur sem mæta á leiki 🙂
Alonso vildi ekki koma núna og þannig fór um sjóferð þá. Rétt eins og við púllarar vorum vissir um að vera að fá Bellingham vorum við vissir um að Alonso væri að koma. Segir okkur hversu lítið við vitum hvað gerist í þessum heimi.
Slot lúkkar bara nokkuð vel á pappír þó það sé ekkert gefið í þessum efnum. Hann mun þurfa að sanna sig og kannski….. bara kannski mun hann gera það. Hann hefur allavega margt til að bera til þess að sannfæra okkur um að hann sé og verði rétti maðurinn í starfið.
Sjáum til, ég ætla að gefa honum séns enda ekkert annað í stöðunni. Ekki er ég að fara að finna mér annað lið.
Það eru ekki margir á síðunni sem hafa reynt að kryfja lélegt gengi okkar ástkæra liðs að undanförnu. Liverpool átti í raun aldrei að vera í titilbaráttu í ár miðað við ástandið á liðinu eftir síðasta tímabil. Þess vegna er sársaukinn svo mikill núna eftir slakt gengi síðustu tvær vikurnar. Liðið náði í raun og veru miklu betri árangri á haustmánuðum og fram yfir jól og einnig í janúar og febrúar, en innistæða var fyrir, með stóran hluta af burðarstólpunum langtímum saman fjarverandi vegna meiðsla ( Jota, Salah, Alisson, Trent, Sobo, Jones, Robertsson, Konate, Thiago). Varaskeifur og kornungir leikmenn stigu upp drifnir áfram af andagift Klopp og náðu þeir oft á tíðum ótrúlegum og á köflum lygilegum árangri og úrslitum þvert á væntingar og á raunverulega getu liðsins, mjög oft seint í leikjum, sem í raun lítil eða engin innistæða átti að vera fyrir. Við stuðningsmenn vorum í raun ofdekraðir. Munið þið ekki hvernig algert B eða C lið Liverpool keyrði yfir City í seinni leiknum á heimavelli. Ótrúlegir yfirburðir og ráðgáta hvernig sá leikur vannst ekki. Endurkomu sigrar í lok leikja á heimavelli gegn Fulham og útivelli gegn Newcastle og Nottingham Forest. Þegar síðan burðarstólparnir komu til baka hver af öðrum voru þeir í lélegu leikformi og því fór sem fór. Liðið varð allt í einu mjög ósamstillt, andlaust og óöruggt í leik sínum þvert á það sem maður hafði reiknað með og ofan á það bættist við stress hjá þessum leikmönnum að þurfa að standa undir titilkröfum stuðningsmanna. Arsenal og City hafa aftur á móti keyrt á sama mannskapnum í allan vetur sem gerir gæfumuninn nú á lokametrunum. Þetta sýnir bara hvað Klopp er frábær þjálfari og ég efast um að nokkur annar þjálfari gæti leikið þetta tímabil eftir. Hvílík forréttindi að hafa fengið að njóta krafta hans. Engin veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Hann er og verður goðsögn í lifanda lífi. Klopp á eftir að verða lengi saknað. Ég býð hins vegar nýjan stjóra velkominn.
Elsku Klopp. Takk fyrir mig. Takk fyrir ferðalagið sl. 9 ár.
Frábær pistill og mjög ítarleg greining. Var ekki viss um Slot, en eftir lesturinn er maður bara nokkuð spenntur. Eini fyrirvarinn sem maður hefur er að það er einhver þoka yfir því hvernig hann hætti hjá AZ og orðrómur um að hafa notað t.d. Tottenham til að hækka launin hjá Feyenoord, en kannski eru báðir punktar bara hear-say og notað til að sverta orðspor Slot.
En aftur frábær pistill og það eru forréttindi að fá að koma inn á jafn góða síðu og kop.is er.
Sælir félagar
Ég tek undir með Hossa um eigendurna að hluta. Þeir hafa rifið upp fjáhag félagsins og þeir hafa komið félaginu, með Klopp; á þann stall sem því hæfir. Það breytir samt ekki því að níska þeirra er stundum óskiljanleg og hefir verið Klopp ansi erfið á stundum og örugglega á það sinn þátt í því að Klopp hætti. Að berjast við lið eins og City sem hefur endalausa peninga (og 115 kærur), Arsenal sem eyðir eins og vindurinn og reyndar virðast flest félög í deildinni fá að eyða meiru en Liverpool. Það hefir verið Klopp erfitt að þurfa að vinna í þessum aðstæðum.
Ég vil líka taka undir með G. Einars um greiningu á hruni liðsins í vor. Hann minnist á að lykilmenn koma inn í liðið eftir meiðsli og hafa ekki skilað nema litlu af því sem búist er við af þeim. Þar með erum við komin að fílnum í herberginu. Arsenal sérstaklega og einnig City að mestum hluta hafa spilað á sömu 12 – 14 mönnunum alla leiktíðina. Nánast engin meiðsli í þeirra hópi sem heitið geti. Á meðan er hálft lið Liverpool í meiðslum meiri hluta leiktíðar og lykilmenn eins og Jota nánast alla leiktíðina. Það þarf að krefja stjórnendur liðsins skýringa á þessu því þetta er ekki eðlilegt.
Ef til vill er skýringin sú að Liverpool er að kaupa meiðslapésa sem fást ódýrt vegna þess að þeir eru meiðslapésar og allir vita það. Síðustu misseri hefur MU verið að kaupa á stundum leikmenn sem fengust ódýrt (t. d. Varane;Casemiro) en vitað var að þeir eru meiðslapésar og MU hefur ekki haft peninga til að kaupa dýra alvöru leikmenn undanfarið. Meiðsli í þeirra röðum hafa verið mikil líka. Nei ég veit þetta sosum ekki en svona til umræðu sem ekki er vanþörf á.
Það er nú þannig
YNWA
Daginn, frábær pistill. Forréttindi að hafa svona síðu eins og þessa og aðila sem halda henni gangandi með þessum glæsibrag.
Að eigendum félagsins þá er rétt að halda því til haga að þeir hafa ekki tekið krónu (eða pund) útúr félaginu heldur hefur allt runnið aftur í leikmenn eða fjárfestingar. Geggjað nýtt æfingasvæði, uppbygging ackdemíunnar og endur/viðbætur á Anfield allt greitt með fjármunum sem þeir hafa búið til með félaginu frá því að þeir björguðu því frá gjaldþroti. Þetta er alvöru rekstur og strangheiðarlegur. Það er held ég ekki hægt að gera þetta betur á eðlilegum viðskiptalegum forsendum og ég persónulega kýs þetta módel allan daginn umfram olíupeninga eða “heiðarlega” stolna rússneska fjármuni.
kv,
Síðustu 2 tímabil er liðið búið að eyða um 310m vera í leikmenn en fengið 140m vera inn á sölum. Er það lítil eyðsla?? Ég veit það ekki. 85m vera á ári umfram sölur er dágott. Hins vegar var vitað að það þurfti mikla endurnýjun. Með sölu á Salah, Tsimikas, Diaz/Nunez/Jota og mögulega fleirum væri hægt að ná inn um 175m evra. Manni finnst vanta að styrkja liðið verulega um 5-7 leikmenn. Manni finnst vanta DL, DC, DMC, AMR, AMC og alvöru senter. Yrði svekktur enn eitt sumarið ef við sjáum ekki klók og alvöru leikmannaskipti fyrir um 250-300m evra ef við ætlum okkur að vera nálægt Arsenal og City næsta vetur.
Edwards er auðvitað ekki í sama hlutverki og áður. Hann gerði ýmsar bommertur sem virðast furðu oft gleymast. Við vorum með mjög marga á alltof háum launum og áttum erfitt með að losna við þá beinlínis útaf Edwards (Keita sennilega besta dæmið).
Mér finnst alveg ástæðulaust að gera lítið úr því hvaða leikkerfi þjálfarar vilja spila. Auðvitað hefði maður viljað Alonso en eins og staðan er þá myndi ég halda að betra væri að fá Slot sem getur haldið áfram með okkar konsept en Amorin sem hefði heimtað töluverða fjárfestingu í leikmönnum sem passa í 3-4-3. Það hefur þess fyrir utan augljóslega eitthvað stórkostlegt gerst í atvinnuviðtalinu fyrst Amorin fór að tala við West Ham.
Loks þá þarf að ræða eitthvað um Diaz. Það er auðvelt að hrífast með baráttunni í honum en við verðum að horfast í augu við það að hann skorar alltof lítið. Mane yfir ferilinn var með ca. mark í öðrum hverjum leik. Diaz er næstum því með mark í fjórða hverjum leik. Ef hann skorar ekki meira og ef pabbi hans ætlar að halda áfram að röfla um að hann vilji fara til Spánar þá er bara tímaspursmál hvenær maður segir bara “góða ferð”.