Liverpool er á þessu tímabili búið að endurheimta Michael Edwards inn í FSG fjölskylduna, hann fékk inn Richard Hughes yfirmann knattspyrnumála hjá Bournemouth og í sumar tekur Arne Slot við þjálfarastöðunni af Jurgen Klopp. Þar að auki er meira og minna allt nánasta starfslið Klopp á æfingasvæðinu að kveðja. Það þarf ekki byltingu á leikmannahópi Liverpool en allar þessar breytingar utan vallar gera það ansi líklegt að ráðist verði í töluverðar breytingar innan vallar líka. Þessir menn vilja að öllum líkindum innleiða sínar hugmyndir með breytingum á leikmannahópnum.
Innkaupadeildin er þó ekki öll að breytast, Dave Fallows og Barry Hunter eru áfram lykilmenn bakvið tjöldin þegar kemur að því að vinna upplýsingar frá njósnaraneti félagsins og hafa verið frá því Brendan Rodgers var stjóri félagsins (sælla minninga um Transfer Comittee). Þeir viðhalda smá stöðugleika og hugmyndin með ráðningu Slot er auðvitað að viðhalda að stóru leiti því sem Klopp hefur verið að byggja upp og betrum bæta án þess að umbylta öllu kerfinu.
Liverpool liðið hefur sýnst gríðarleg þreytumerki núna tvö tímabil í röð sem bregðast þarf við og halda áfram endurnýjun liðsins.
En áður en Liverpool fer að kaupa leikmenn þarf að ákveða hvaða leikmenn megi fara í sumar. Hópurinn er allt of stór og ef Slot á að fá fleiri leikmenn þarf að kveðja einhverja. Skoðum aðeins hópinn m.t.t. aldurs leikmanna og hversu mikið þeir hafa komið við sögu í deildarleikjum Liverpool í vetur. Það má t.d. spyrja sig hvort “lykilmenn” sem ekki ná að spila meira en 50% af heilu tímabili megi ekki bara vera á sjúkrabekknum annarsstaðar? Hvað þá leikmenn sem ár eftir ár ná ekki að spila 50% af leikjum liðsins.
Samningslausir
Það blasir við að Thiago og Matip kveðja í sumar þegar samningur þeirra rennur út. Þeir kveðja félagið báðir á afskaplega viðeigandi hátt í takti við feril þeirra hjá Liverpool. Matip hefur verið meiddur frá 14.umferð og Thiago spilaði án gríns 5 mínútur í 23.umferð.
Þarna losnar um launapakka eins launahæsta leikmann félagsins (Thiago) sem og Matip sem er sem dæmi sagður vera á svipuðum launum og Robertson. Hrikalega dýrir farþegar hreint út sagt sem spiluðu samanlagt 877 mínútur í vetur. Spáið í því hversu mikið nákvæmlega eins leikmenn og Thiago og Matip myndu styrkja þetta Liverpool lið? Það er einmitt verkefni Richard Hughes og félaga í sumar.
Adrian fer að öllum líkindum líka í sumar og losar við það eitt sæti fyrir erlendan leikmann í hópnum. Þá er eins spurning hvort leitað verði að öðrum Adrian í staðin eða treyst á yngri markmenn félagsins. Það eru oft fróðleg nöfn þegar maður skoðar hverjir eru þriðju markmenn stórliðanna.
Markmenn
Síðasta sumar hélt maður að Kelleher þyrfti að fara til að staðna ekki sem leikmaður og í byrjun tímabilsins virtist hann hafa gert einmitt það. Hann náði sér hinsvegar vel á strik og hefur spilað 26% af deildarleikjum Liverpool í vetur og megnið af öllum bikarleikjum tímabilsins.
Fjarvera Alisson í vetur sýnir mikilvægi þess að Liverpool annaðhvort haldi Alisson eða fái inn nýjan álíka góðan í staðin. Alisson er eins orðin 32 ára og styttist alltaf í að einhver markmaður telji sig geta tekið af honum stöðuna.
Hér erum við samt vonandi ekki að breyta neinu nema mögulega 2. og 3. markmanni.
Miðverðir
Liverpool hefur núna í nokkur ár lagt upp með Matip, Konate og Gomez sem þrjá af fjórum miðvörðum félagsins. Áður en Konate kom var m.a.s. tekið eitt tímabil með bara þrjá miðverði og þeir meiddust auðvitað allir.
Það sem af er þessu tímabili er Matip búinn að vera meiddur síðustu 21 umferð og verður út tímabilið. 25 ára Ibrahima Konate hefur samt ekki afrekað að spila meira en 53% af deildarleikjum Liverpool. Þetta hefur verið eins hjá honum ár eftir ár núna. Er þetta framtíðarleikmaður Liverpool?
Joe Gomez er aldrei þessu vant ekki búinn að vera meiddur, hann hefur spilað 52% af deildarleikjum Liverpool sem er nokkuð eðlilegt þar sem hann er meira rotation leikmaður í dag en þar af er hann bara búinn að spila nokkrar mínútur sem miðvörður. Megnið af mótinu hefur hann verið takmarkaðasti bakvörður deildarinnar sóknarlega og jafnvel poppað upp inni á miðju. Fínt að halda Gomez en þá helst sem miðverði aftur, auðvitað er samt ekkert hægt að treysta á heilsufar hans.
Virgil van Dijk er svo 33 ára núna í sumar, eini leikmaðurinn í hópnum sem er að spila rúmlega 90% af deildarleikjum tímabilsins.
Quansah er ein af jákvæðu fréttum tímabilsins og vonandi framtíð félagsins í þessari stöðu, en er hann klár í að taka byrjunarliðssæti strax frá næsta tímabili?
Smá wild card gæti mögulega verið Sepp van den Berg sem hefur verið að spila í Bundesliga núna í vetur. Hann er alin upp hjá PEC Zwolle og var eitt mesta efni Hollands þegar hann kom upp í akademíu þeirra á sama tíma og Arne Slot var að ljúka ferlinum hjá PEC Zwolle þaðan sem hann fór beint í þjálfarateymi yngri flokka félagsins. Hvort þeir hafi unnið beint saman er óljóst en þeir þekkjast væntanlega.
Hérna þarf byltingin að verða og helst bara strax í sumar. Liverpool þarf að fá loksins aftur miðvarðapar sem spilar saman rúmlega 80-90% af deildarleikjum liðsins og það ár eftir ár.
Hverjir?
Fyrir 2-3 árum var erfitt að finna miðverði sem maður sá fyrir sér styrkja Liverpool liðið en það er alls ekki raunin í dag. Það er t.a.m. miðvörður hjá öllum stjórunum sem orðaðir hafa verið við Liverpool sem hafa einmitt líka verið mátaðir við Liverpool liðið. Hancko frá Feyenoord sem dæmi, Inacio frá Sporting eða Piero Hincapié frá Leverkusen. Eins er Liverpool nokkuð sterklega orðað við varafyrirliða Slot hjá Feyenoord sem er fjölhæfur alhliða varnarmaður, Lutsharel Geertruida.
Ef við skoðum t.d. valkosti á góðum aldri í Úrvalsdeildinni (ekki endilega alla spennandi eða mögulega fyrir Liverpool) mætti sem dæmi nefna Marc Guéhi hjá Palace sem er líklegur til að fara í stærra lið í sumar. Hvernig er (fjárhags)staðan hjá Chelsea upp á að endurvekja Lewis Colwill áhuga? Adarabioyo frá Fulham hefur verið orðaður við Liverpool. Aðrir eru t.d. Hecke frá Brighton, Kilman frá Wolves, Zabarnyi frá Bournemouth, Murillo frá Forest, Branthwaite frá Everton (ég veit), Collins frá Brentford eru önnur dæmi.
Bakverðir
Er Andy Robertson búinn að toppa sem leikmaður? Er málið að selja hann í sumar til að koma í veg fyrir að horfa upp á hann dala jafn hressilega og Fabinho, Henderson og Wijnaldum gerðu á sama aldri og Robbo er núna? Hann er heldur betur búinn að hlaupa fyrir félagið. Persónulega vill maður auðvitað ekki missa Robbo og vonandi á hann 2-3 góð ár eftir. Hann er bara 30 ára á þessu ári. En það er helvíti stór viðvörunarbjalla að allt í einu er hann bara að spila 50% af deildarleikjum Liverpool. Ekki að meiðslin hans í vetur hafa ekkert með leikjaálag að gera heldur hreina og endalausa óheppni Liverpool.
Tsimikas er svo ekki nógu heilsuhraustur til að vera varamaður fyrir hann, óháð því hvort hann hafi svo gæðin í það. Það þurfti bara meira frá Tsimikas en 21% af deildarleikjum Liverpool á tímabili þar sem Robertson er bara búinn að spila 49%. Það þíðir að einhver annar hefur spilað 30% af leikjum Liverpool í vinstri bakverði. Ef að Joe Gomez er betri vinstri bakvörður en Tsimikas þá þarf að selja grikkjann og styrkja þessa stöðu. Helst með leikmanni sem ógnar sæti Robertson.
Hægra megin er stóra spurningin hvort Trent verði færður inn á miðjuna. Ef að orðrómur um Lutsharel Geertruida er réttur gæti það verið vísbending í þá átt. Eins væri ágætt ef við næðum einum leik á næsta tímabili þar sem Conor Bradley og Trent eru heilir heilsu á sama tíma. Það tókst ekki í vetur.
Það er hinsvegar jákvætt að Bradley stimplaði sig inn í vetur og hlítur að verða partur af hópnum áfram hjá Slot. Eins er spurning hvort Calvin Ramsey geti stigið upp líkt og jafnaldri sinn. Það er ekki langt síðan Ramsey var keyptur og fór framfyrir Bradley í goggunarröðinni.
Miðjumenn
Síðasta sumar var byrjað á byltingu á miðjunni sem vonandi verður kláruð í sumar. Liverpool vantar ennþá Caicedo leikmannakaupin. Ekki bókstaflega hann en hinn raunverulega arftaka Fabinho. Okkar Declan Rice eða Rodri. Wataro Endo hefur staðið fyrir sínu í vetur en þetta er stop gap leikmaður sem er ekki endanlega svarið. Flottur rotation möguleiki í elítu liði.
Liverpool var manni færri allt mótið með Thiago á meiðslalistanum en ofan á það kom Bajcetic aldrei til baka heldur, hann var Conor Bradley tímabilsins á undan. Endurkoma Bajcetic og álit Slot á honum gæti haft áhrif á möguleg innkaup í DMC stöðunni í sumar.
Curtis Jones hefur svo misst af 12-13 deildarleikjum vegna nokkurra mismunandi meiðsla og leikbanns sem var reyndar brot sem virðist bara refsivert í hans tilviki en annars almennt ekki. Þetta er gjörsamlega alltaf sagan hjá Jones og álíka gott að treysta á hann og Matip, Gomez, Keita, Ox, Thiago o.s.frv. Þetta er uppalinn leikmaður sem hefur tekið flottum framförum en þolinmæði félagsins á ekki að vera endalaus. Kálar rosalega rythma að vera endalaust að spila svona leikmenn í gang aðeins til að missa þá aftur loksins þegar þeir eru farnir að spila vel. Efast um að Jones hafi verið heill meira en 10 deildarleiki í röð frá því hann komst upp í aðallið Liverpool. Best væri auðvitað ef Slot nær að draga þannig úr álagi á Jones að hann meiðist ekki svona reglulega.
Mac Allister, Szoboslai, Gravenberch og Elliott myndi maður ætla að Slot sé mjög ánægður að fá að vinna með.
Sóknarlínan
Lið sem skapar svona mikið af færum á bara að skoða fleiri mörk. Arsenal er með 9,5 mörk umfram xG tölfræði vetrarins. Man City er með 5 mörk umfram það sem xG gefur tilefni til. Þetta eru auðvitað ekkert heilög vísindi en Liverpool er með sjö mörkum minna en xG tölfræði liðsins gefur til kynna, þetta er 16 marka sveifla milli Arsenal og Liverpool og slíkt sker úr um hvort þú endar í Meistaradeild eða vinnur Meistaratitlinn. Sýning sóknarmanna Liverpool fyrir framan markið undanfarið gerir það að verkum að maður myndi ekki gráta brottför neins þeirra, treysti félaginu til að finna annan góðan kost í staðin. Á móti er Liverpool með fimm góða sóknarmenn sem allir gætu sprungið miklu betur út.
Mo Salah er auðvitað stóra spurningin, eftir síðasta leik var auðvelt að sjá fyrir sér að hann væri að fara en strax í kjölfarið láku fréttir þess efnis að hann færi ekkert. Hvað svosem gerist þarf Slot að finna betra hlutverk fyrir Salah og hann þarf heldur betur að reima á sig skóna. Salah hefur verið hörmulegur eftir áramót, færanýting er afleit en varnarlega er hann jafnvel verri.
Þegar heilaga þrenningin Salah – Mané – Firmino var upp á sitt besta var Salah að skila töluverðu af sér í pressunni líka, vörnin byrjaði á fremstu mönnum. Núna eftir áramót hefur hann bara einfaldlega verið farþegi varnarlega. Hvort sem hann verður áfram eða fer er flott að fá það á hreint núna strax, áður en Slot tekur við. Hann er ennþá allt of góður til að hætta í fótbolta og fara til Saudi.
Darwin Nunez er vonandi að bæði þroskast og ná betri tökum á ensku deildinni í vetur því að það er vonandi ekki hægt að vera svona pirrandi mikið lengur. Hann hefur gjörsamlega allt til þess að verða geggjaður framherji og það er vel hægt að sjá hann skora 35 mörk á einu tímabili ef þetta smellur aðeins hjá honum. Vonandi fær hann afmarkaðara hlutverk hjá Slot sem hentar honum enn betur.
En þetta hefur líka bara alls ekki verið að detta hjá honum í vetur, hann er með 11 mörk og 9 fokkings skot í tréverkið, auk þess hefur hann oftast allra verið rangstæður og er með xG upp á 18,8 mörk. Eðlilegur framherji væri með svona 20-25 mörk með svona xG tölfræði.
Luis Diaz skuldar líka 4 mörk m.v. xG og bæði þarf og getur betur fyrir framan markið. Hann hefur þó verið hvað jákvæðastur í framlínu Liverpool í vetur. Eins má ekki horfa framhjá því að það er búið að taka af honum eitt fullkomlega löglegt mark, taka af honum lykilmoment í Man City leiknum og já auðvitað ræna pabba hans! Það hefur mögulega aðeins áhrif á andlega heilsu, Diaz var lítið sem ekkert með á þeim tíma í átta deildarleikjum. Hveru dæmigert Liverpool var það fíaskó btw!
Diogo Jota er í sama hópi og Jones, Thiago, Keita, Ox og endalaust margir fleiri. Ef að hægt er að losa hann af launaskrá ætti félagið að gera það samstundis þrátt fyrir að þetta sé líklega besti sóknarmaður liðsins hvað færanýtingu varðar. Ef að Jota væri líkamlega jafn hraustur og Salah hefur verið hjá Liverpool væri hann nánast alltaf í byrjunarliðinu, hann er það ekki og er núna búinn að spila 35% af deildarleikjum Liverpool eða bara svipað og venjulega. Hann kom til baka á síðasta tímabili líka eftir mjög langvarandi meiðsli. Er þetta ekki bara komið gott?
Cody Gakpo verður fróðlegt að sjá hvað Slot gerir við. Hann er fimmti kostur í framlínu Klopp og því öllu eðlilegra að hann hafi bara spilað 42% af deildarleikjum tímabilsins. Slot þekkir þennan leikmann vel og hefur Gakpo spilað sérstaklega vel á móti Slot.
Ungir leikmenn / Leikmenn á láni
FSG er klárlega ekki að fara draga úr mikilvægi þess að fá leikmenn upp úr akademíunni og Slot er ráðinn m.a. út á hæfileika hans við að taka leikmenn úr yngri flokkum í Meistaraflokk. Aðeins annað samt að gera það hjá Liverpool en Feyenoord.
Ramsey og van den Berg fá mögulega tækifæri í sumar til að sanna sig fyrir Slot þó líklegra sé að hvorugur eigi mikla framtíð á Anfield.
Bajcetic og jafnvel Morton gætu hinsvegar átt meiri séns, Morton hefur fengið reynslu núna í Championship deildinni yfir tvö tímabil en var áður að spila fyrir aðalliðið ekki ósvipað því sem Bajcetic var að gera í fyrra. Spánverjinn virkaði hinsvegar mun líklegri til að verða (heims)klassa leikmaður í framtíðinni heldur en Morton.
Félagið sagði fyrr í vetur að Fabio Carvalho væri alls ekki til sölu og kæmi aftur til Liverpool eftir lánsdvölina hjá Hull. Fróðlegt að sjá hvernig Slot tekur honum því þetta er eitt mesta efni Englands í sínum aldurshópi.
Af ungu strákunum er Bobby Clark er mjög hátt skrifaður innan félagsins og partur af aðalliðshópnum aðeins 18-19 ára. Jayden Danns átti mjög skemmtilega innkomu í Liverpool liðið og gæti vel bankað hressilega á dyrnar næsta vetur.
Ben Doak er svo enn einn sem meiddist meira og minna allt mótið, hann kom inná fyrir Salah í fyrstu umferð þegar töluvert var eftir af leik gegn Chelsea og staðan jöfn, það segir kannski eitthvað um hvaða álit Klopp hafði á honum.
Alls eru þetta 32 leikmenn á mynd ofar í færslunni yfir leikmannahóp Liverpool. Eigum við að segja að um 10 þeirra verði seldir eða lánaðir í sumar?
Hvað kemur inn í staðin?
300.000 pund í launakostnað á hverja snertingu Thiago á boltann þetta tímabil.
Eitt stærsta flop í sögu LFC.
Einar, þetta er bara nokkuð góð yfirferð hjá þér á hópnum hjá Liverpool.
Það er alveg ljóst að það þarf að styrkja öftustu viglínuna verulega eins og sést hefur í mörgum leikjum okkar í vetur, við erum að leka inn alltof mörgum mörkum. Eins og þú nefnir vantar Casiedo týpuna á miðjuna.
Ég er á því að það hafi verið farið að fjara undan þessu hjá okkur fljótlega eftir að við urðum meistarar tímabilið 2019 – 20. Í stað þess að hamra járnið var endurnýunin lítil. Við þurfum að kaupa úr efstu hillunni, við þurfum stjörnu leikmenn í bland við unga og efnilega leikmenn.
Þú segir að Fabio Carvalho sé mesta efni England í sínum aldurshópi, er hann ekki portugali?
Fabio Carvalho er vissulega Portúgali en hefur búið í Englandi síðan hann var barn. Spilaði eitthvað með Englandi í yngri landsliðum en er búinn að velja Portúgal, sýnist mér. Hann telst engu að síður vera enskur í skilningi fótboltans.
Takk fyrir þennan pistil.
Allir þessir ólíku leikmenn með öll þessi ólíku hlutverk, en eiga það sameiginlegt að haldast ekki heilir: Stórir sem smáir, þéttir eða liprir, allt frá markmanni og yfir í fremstu sókn – meiddir, meiddir, meiddir.
Gaman væri að fá tölfræði til samanburðar yfir hin liðin í deildinni um meiðsli. Og eins að sjá hver staðan var hjá Dortmund þegar okkar allra besti var þar við stjórnvölinn. Mig grunar að þá blasi við einhver óþægileg vísbending um að ósköpin megi rekja til þjálfunar og leikstíls. Það er okkur jú ljóst að hér var magnarinn stilltur á ellefu í öllum leikjum og gladíatorarnir okkar gáfu sig alla fyrir málstaðinn (þangað til núna í lokin reyndar).
Spurningin er svo auðvitað – hver hefur áhuga á svona meiðslapésum? Keita er að mínu mati fulltrúi þessa ástands – og ekki hefur hann nú blómstrað eftir endurkomuna til Þýskalands. Lallana held ég að hafi verið lengi frá að sama skapi. Það gæti verið þraut að koma þessum 30-50% leikmönnum sem hér eru upptaldir á markað!
Og svo er það færanýtingin og varnarleikurinn. Ef til vill má rekja hana að sama skapi til spennustigsins. Allir marineraðir í kordísól og ákvarðanatakan eftir því!
Hver veit nema að Slottarinn færi svolítið vit og yfirvegun í hópinn, svona eins og við sjáum hjá Pep, fyrirmyndinni hans?
Sársaukalaust af minni hálfu; Adrian út, Matip, Konate (meiðslapési og óstöðugur), Tsimikas, Thiago, Jones (meiddur og hangir á boltanum), Szobozlai (skilar allt of litlu) , Salah (búinn), Nunez (ekki góður í fótbolta), Gakpo (linur). Fá slatta af pening inn, nýja yngri menn inn með meiri gæði sem nýr stjóri vill vinna með. Mér finnst einmitt vandamál Liverpool ekki minni sóknarlega en varnarlega og þörf á breytingum þar. Salah, Firmino, Mané voru ljósbrún á undan núverandi sóknarmönnum og því miður höfum ekki hitt á það í kaupum síðustu ár.
Ljósár ekki ljósbrún! Skemmtilegur spellerinn..
Mjög góð yfirferð líkt og venja er frá EM, og verður spennandi að sjá hvort Slottarinn verði naskari en Klopparinn að halda mönnum heilum. Mögulega er ekki málið að spila allar æfingar eins og um keppnisleiki sé að ræða, líkt og sagan segir að hafi verið aðferðafræði fráfarandi þjálfarateymis. Það má viðhalda þoli og liðleika með hlaupum og jóga, leggja on-pitch æfingar í tækni, samspil og föst leikatriði, án þess að gjöréta upp skrokkana með tilheyrandi tíðum meiðslum.
Að því sögðu er auðvitað erfitt að gagnrýna Jurgen Klopp sem kann þetta allt miklu betur en við sófaspekingarnir samanlagðir. Hann hefur náð stórkostlegum árangri með liðið og getur farið sáttur frá borði við þakklæti stuðningsmanna. Vonandi tekst þessi mikla breyting á aðstæðum félagsins vel. Megi ferskir vindar blása Liverpool til heilla. Takk Klopp, og áfram Slot!
VvD er því miður á förum skv. Romano.
Call next season off!
Vantar allan drama í þetta…..
Miðað við hvernig þeim leikmönnum hefur vegnað sem hafa farið frá LFC eftir að Klopp tók við liðinu, þá verður fróðlegt að sjá hvernig þessum leikmannahópi mun vegna undir nýjum þjálfara næsta tímabil. Ég man í fljótu bragði ekki eftir að neinn leikmaður hafi haldið sama krafti hjá nýju lið eins og hann gerði undir Klopp. Mane, Wijnaldum, Fabinho, Bobby, Henderson osfrv. Flestir hafa bara horfið af sviðinu. Auðvitað erfitt að setja Saudadraslið í einhvern samanburð við eðlilegar deildir, en samt.
Ég er í það minnsta undir það búinn að næstu ár verði mögur en vonandi veit ég ekkert hvað ég er að tala um.
Það er eitt í þessu öllu sem ég tel að þurfi að taka með í reikningin og það er hver verða áhrifin á nýju þjálfarateymi á mannskapinn okkar. Þó svo að allir hafi t.d. tröllatrú á Pep Lijnders og telja margir að hann sé heilinn á bakvið margt það góða sem hefur verið í gangi hjá liðinu að undanförnu að þá velti ég því hreinlega fyrir mér hvort hann sé að skilyrða leikmenn of mikið eftir einhverri einni formúlu, fremur en að leyfa þeim hreinlega að spila sinn leik og reyna að byggja upp þjálfun og leikkerfi eftir því.
Gott dæmi er Nunez. Það er svo mikill kraftur í honum en stundum finnst mér eins og það sé verið að fá hann til þess að vanda sig of mikið og þá fer allt í skrúfuna. Vissulega þarf að hemja sig stundum í neglunum og hætti að hitta svona í tréverkið en ef það er verið að skilyrða hann of mikið í hina áttina, þá mögulega fer hann frekar í að skjóta yfir af 1 metra færunum eins og dæmin sýna.
Mun nýr þjálfari og teymi í kringum hann breyta æfingafyrirkomulaginu þannig að meiðsli leikmanna munu minnka? Ég veit að það er rosalegt gamble að gefa kannski leikmönnum sem hafa verið meiðslapésar einhverja líflínu vs. að selja þá bara ‘as is’ og fá inn nýjan mannskap sem má veðja á.
Þið vitið það allir að þessi hópur, sé hann heill og á 100% afköstum, er gersamlega óstöðvandi. Það væri bara svo virkilega gaman að sjá hann alveg heilan í lengri tíma svo það væri hægt að sjá gott run og árangurinn í samræmi við það.