Stelpurnar taka á móti Chelsea

Það er komið að 3ja síðasta leik kvennaliðsins á þessari leiktíð, en núna kl. 18 mæta meistarar Chelsea á Prenton Park.

Það er alveg full ástæða til að beina kastljósinu aðeins að andstæðingunum fyrir þennan leik. Emma Hayes gaf það út að hún myndi yfirgefa liðið í lok leiktíðar og mun taka við landsliði Bandaríkjanna í sumar. Emma er vissulega búin að vera mjög sigursæl með Chelsea… en á þessari leiktíð hafa þær:

  • farið í úrslit Continental Cup – sem er nokkurnveginn systurkeppni Carabao bikarsins í karlaflokki – og töpuðu þar gegn Arsenal.
  • farið í undanúrslit FA bikarsins, þar sem þær töpuðu fyrir United
  • farið í undanúrslitin í CL, þar sem þær spiluðu 2 leiki gegn Barcelona – þann seinni núna á laugardaginn – þar sem þær töpuðu 0-2 á heimavelli eftir að hafa unnið 0-1 á Spáni

Semsagt, þær hafa farið langt í öllum keppnum á leiktíðinni en hafa ekki krækt í neina bikara fyrir ómakið. Þá eru þær núna 6 stigum á eftir City í deildinni, eiga vissulega tvo leiki til góða (leikurinn í kvöld annar þeirra), en við vitum að það getur verið erfitt að elta. Leikjaálagið í kvennaboltanum er vissulega ekki það sama og hjá strákunum – en þær hafa samt klárlega þurft að díla við meira álag heldur en okkar konur, og það er smá séns að það geti komið stelpunum okkar til góða í kvöld.

Okkar konur mæta inn í þennan leik eftir 0-1 útisigur gegn Bristol í síðasta leik. Taylor Hinds spilar sinn 100. leik fyrir félagið í kvöld, og Gemma Bonner spilar leik númer 150, hún verður sú fyrsta til að ná slíkum leikjafjölda fyrir kvennaliðið. Þá er hin 16 ára Zara Shaw farin að æfa aftur eftir að hafa slitið liðbönd í æfingaleik síðasta ágúst. Auðvitað eru litlar líkur á að 16 ára leikmenn fari að hafa mikil áhrif í þessari deild… en það gerðist nú samt bara um síðustu helgi í leik Everton og Arsenal, þar sem hin 16 ára Isabella Hobson skoraði jöfnunarmark Everton í uppbótartíma, og varð þarmeð yngsti leikmaður Everton til að skora.

Meiðslalistinn er heldur að lengjast, þannig er Rachael Laws ekki leikfær og því þarf að sækja varamarkvörð í akademíuna. Shanice van de Sanden verður ekki meira með á leiktíðinni, og Niamh Fahey er líka frá. En svona verður stillt upp á eftir:

Micah

Clark – Bonner – Fisk

Koivisto – Nagano – Hinds

Holland – Höbinger

Enderby – Roman Haug

Bekkur: Spencer, Daniels, Matthews, Missy Bo, Lawley, Chadwick, Leath

Semsagt, þrjár stelpur úr akademíunni, þar af Mia Leath sem fékk mínútur gegn City í sínum debut leik. Spurning hvort Chadwick sjáist á grasinu í kvöld? En það er ljóst að Zara Shaw á eitthvað í land með að komast í leikform.

Leikurinn ætti að vera á Viaplay, og mögulega víðar.

Við skulum orða það þannig að við yrðum ánægð með eitt stig, og himinlifandi með þrjú. Öll stig í baráttunni um 4. sætið við United eru vel þegin, en auðvitað verður leikurinn við United á sunnudaginn sannkallaður 6 stiga leikur í þeirri baráttu.

KOMA SVO!!!

2 Comments

  1. Staðan er 1-1 eftir að Chelsea komust yfir snemma leiks, en Sophie Roman Haug var að jafna eftir hornspyrnu. Nánast allur seinni hálfleikur eftir!

    1
  2. 2-1! Aftur mark úr hornspyrnu og það var Gemma Bonner í þetta skiptið.

    FLAUTA ÞETTA AF!

    2

Hverjir fara í sumar?

Liverpool 4 – 3 Chelsea