Vertu sæll kæri vinur, ég kveð þig nú

Liverpool-Wolves

Þá er komið að kveðjustundinni. Jurgen Klopp er að stjórna Liverpool í síðasta sinn.

Við á kop.is erum þegar byrjaðir að kveðja Jurgen Klopp og ég bendi á þráð frá síðastliðnum fimmtudegi þar sem lesendur síðunnar geta ritað sitt um Klopp. Þessi upphitun snýst því að mestu um leikinn sjálfan. En…Jurgen Klopp er samt og verður miðpunkturinn í upphituninni eins og hann verður í leiknum sjálfum.

Wolves

Ef einhvern tímann hefur verið spilaður leikur sem skiptir engu máli þá er það þessi leikur. Liverpool er öruggt í 3. sæti deildarinnar hvernig sem leikurinn fer, Wolves eru í 13.sæti deildarinnar með 46 stig, geta því komist upp í 10. sætið með sigri og geta dottið niður í 14. sæti með tapi og ef Fulham vinnur gegn Luton Town á útivelli í síðustu umferðinni. 10. sætið kann alveg að hljóma ágætt fyrir Wolves en til að ná því þurfa Brighton og Bournemouth að tapa sínum leikjum og Crystal Palace má ekki vinna sinn. Þannig að, ef 10.sætið er eitthvað spennandi þá reyna Úlfarnir að ná því, en ég hef það á tilfinningunni að þetta skipti þá engu gífurlegu máli. Þeir hafa raunar tapað fjórum af síðustu fimm leikjum og það segir mér að þeim sé orðið drull um hvar þeir enda. Eða að meiðslin í hópnum hafi gert það að verkum að þeir hafi ekki náð sér á strik, en José Sá, Craig Dawson, Noha Lemina, Pedro Neto og Leon Chiwome eru allir meiddir. Ég veit ekki hvenær þeir meiddust og hvort þetta sé ástæðan fyrir slöku gengi þeirra undanfarið en ólíklegt er að þessir leikmenn verði með á Anfield.

Byrjunarliðið þeirra er líklegt svona:

Bentley

Doherty – Kilman – Toti Gomes – Semedo – Ait Nouri

Joao Gomes – Mario Lemina – Traore

Cunha – Hwang

Þetta er vissulega alveg lið sem hefur gert okkur skráveifu í gegnum tíðina og ég var allaveg mjög hrifinn af Pedro Neto í upphafi tímabils. En hann er ekki með.

En að okkar mönnum.

Þetta mun allt snúast um Jurgen okkar allra. Anfield mun heiðra hann á ógleymanegan hátt. Anfield mun syngja alla söngvana hans og leikmenn munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera þetta að ógleymanlegum leik. Stundin eftir leik verður mjög tilfinningarík, ekki bara fyrir hann, heldur stuðningsmenn, starfsfólk, leikmenn, þjálfaraliðið, mömmur og pabba leikmanna, börnin þeirra, okkur á Íslandi og púllara í Malasíu, Kenýa og Noregi svo eitthvað sé nefnt. Við verðum bara örugglega flest öll skælandi eða allavega með ryk í augum. Það sem þessi maður hefur fært okkur, gert fyrir okkur, hvernig honum hefur tekist að láta okkur líða…ég á bara erfitt með að stoppa.

Ég mæli þó með allt of stuttu en mjög áhugaverðu og skemmtilegu viðtali við Jurgen frá Anfield Wrap:

Allt þetta, og svo myndböndin öll með minningunum munu hjálpa okkur og ylja okkur sama hvað gerist næst.

Byrjunarliðið verður líklega einhvern veginn svona:

Leikurinn verður frábær veisla, endar 4-2 fyrir okkur og Jurgen fær þá kveðjugjöf sem hann á skilda.

Ljúkum þessu með ljóðstúf frá hinni frábæru hljómsveit Hjálmum, Spor eftir Þorstein Einarsson.

Vertu sæll kæri vinur ég kveð þig nú
Með sorg í hjarta og tár á kinn
Þótt fenni í sporin þín þá lifir lag þitt enn
Þú löngum spannst þín draumaljóð
Á hverjum morgni rís sólin
Og stafar geislum inn til mín

Hún lýsir upp daginn
Og þerrar öll mín tár
Breiðir úr sér um bæinn og heilar öll mín sár

Þó að nóttin klæðist myrkri
Sem móðir dagsins hún þér ann
Og þegar skuggar leita á þig
Kæri vinur mundu að
Á hverjum morgni rís sólin
Og stafar geislum inn til þín

Hún lýsir upp daginn
Og þerrar öll mín tár
Breiðir úr sér um bæinn og heilar öll mín sár

2 Comments

  1. Margir puntidar, sér í lagi stuðningsmenn hinna liðanna, keppast nú við að halda því fram að Klopp sé ekki Premier league goðsögn því hann hafa “bara” unnið einn PL titil.
    Mér gæti ekki verið meira sama, í mínum huga er hann það og hann verður goðsögn hjá stuðningsmönnum Liverpool um aldur og ævi.
    Takk fyrir allt, gríðarlega þakklátur fyrir allt sem hann hefur gert fyrir klúbbinn og borgina.
    Minn maður.

    8

Stuðningsmenn tjá sig um Jurgen Klopp

Lokaleikur tímabilsins hjá stelpunum