Lokaleikur tímabilsins hjá stelpunum

Það er alveg ljóst að þessi helgi er undirlögð undir þá staðreynd að Klopp er að stýra Liverpool í sínum síðasta leik á morgun. Auk þess reiknum við með því að það hafi allir frétt af því að Klopp er kominn með Instagram reikning.

En í millitíðinni munu stelpurnar okkar spila sinn lokaleik á tímabilinu, þegar þær heimsækja Leicester núna kl. 14. Staðan hjá okkar konum er þannig séð svipuð og hjá strákunum: þær munu nánast örugglega enda í 4. sæti – ekki nema það verði mjög óvænt úrslit í leik Chelsea og United, ÁSAMT því að okkar konur nái ekki í stig gegn Leicester. Aðal spennan er sú hvort það verði City eða Chelsea sem verði meistarar, liðin tvö fara inn í lokaumferðina með jafnmörg stig en Chelsea með betra markahlutfall sem nemur tveim mörkum. En okkur er svosem drullusama um það hvaða olíulið vinnur fyrst það eru ekki stelpurnar okkar.

Þetta verður líka kveðjuleikur hjá stelpunum – bara ekki jafn dramatískt og hjá Klopp – því í gær var tilkynnt að 4 leikmenn séu á förum þar sem samningar þeirra eru að renna út:

  • Melissa Lawley er búin að vera hjá félaginu í allnokkur ár, og er komin yfir 100 leikja markið. Hennar tækifæri hafa verið í færri kantinum á þessari leiktíð, alveg klárt mál að Roman Haug, Kiernan og Enderby eru á undan henni í goggunarröðinni, plús það að hún er nýorðin þrítug. Svosem ekkert agalegur aldur fyrir knattspyrnuleikmann… en skiljanlegt að hennar tími sé kominn, líka í ljósi þess að hún hefur verið svolítið meiðslahrjáð síðustu misserin þó hún sé líklega búin að ná sér af þeim meiðslum núna.
  • Shanice van de Sanden kom fyrir tveimur árum eftir að hafa verið áður hjá félaginu á árunum 2016 – 2017. Hún verður 32ja ára í haust, hefur verið meidd eins og Lawley, nú og svo var hún að eignast barn með kærustunni sinni svo kannski vill hún bara vera nær þeim. Líka skiljanlegt að endurnýja ekki við hana.
  • Miri Taylor kom bara síðasta haust, og fór svo á láni til Aston Villa í janúarglugganum. Það er því mjög skiljanlegt að hún sé á förum, bara fullt af öðrum miðjumönnum sem eru á undan henni í goggunarröðinni. En hennar mun líklega alltaf verða minnst fyrir sigurmarkið gegn Arsenal á Emirates í opnunarleik tímabilsins í haust. Ekki slæmt að eiga svoleiðis á ferilskránni.
  • Að lokum er svo kannski óvæntasta nafnið á listanum, en Finninn fljúgandi Emma Koivisto mun líka yfirgefa félagið í sumar. Hún hefur byrjað flesta leiki þar sem hún hefur verið leikfær, svo þetta kemur því ögn flatt upp á fólk, en hún verður svosem líka þrítug í haust, og greinilegt að stefnan er að yngja upp í liðinu. Lucy Parry er búin að vera á kantinum, yngsti leikmaður Liverpool Women frá upphafi, mögulega á núna að gefa henni alvöru séns, en svo getur líka vel verið að það sé annar hægri bak í sigtinu.

Eins og áður sagði, þá dugar okkar konum að ná í stig í dag, og það er aðeins ef United vinnur Chelsea og okkar konur tapa að United myndu skjótast aftur upp í 4. sætið. Fyrri leikur Liverpool og Leicester í deildinni í vetur endaði með sigri hjá okkar konum, svo nú þarf bara að bíta í skjaldarrendur og gulltryggja sætið. En eitthvað segir mér að Emma Hayes vilji ekki enda sinn Chelsea feril með tapi gegn United. Í öllu falli eru líkurnar með okkar konum, og auðvitað best að þær tryggi þetta bara sjálfar en séu ekki að stóla á úrslit annarra leikja.

Liðið sem byrjar núna á eftir lítur svona út:

Laws

Clark – Bonner – Fisk

Koivisto – Nagano – Hinds

Holland – Höbinger

Roman Haug – Enderby

Bekkur: Spencer, Parry, Daniels, Missy Bo, Kiernan, Shaw, Heath, Lawley

Ungur varamannabekkur: Eva Spencer er varamarkvörður í dag, og þetta er held ég í fyrsta skiptið sem Zara Shaw er á skýrslu. Væri gaman að sjá hana fá mínútur. Mia Heath er svo farin að sjást oftar á bekk og er þar í dag.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player, Viaplay vilja greinilega einbeita sér að leikjum City og Chelsea.

KOMA SVO!!!

3 Comments

  1. 0-1 í hálfleik, Sophie Roman Haug með skallamark (hakan fór ekkert í gólf við þær fréttir).

    Chelsea eru annars yfir 0-4 gegn United, svo þetta 4. sæti er nú orðið ansi líklegt. Sé ekki þetta drasl United lið ná að skora 5 mörk í seinni hálfleik.

    4
  2. Lokatölur 0-4, þar sem Leanne Kiernan ákvað að henda í þrennu í seinni hálfleik. Zara Shaw fékk sínar fyrstu mínútur, og Lawley og Koivisto sínar síðustu fyrir félagið.

    Semsagt, 4. sætið gulltryggt, sem verður nú að teljast bara helvíti góður árangur. Verður spennandi að sjá hvaða ný andlit við sjáum bætast í hópinn í sumar.

    6
  3. Vel gert stelpur.
    Frábær árangur.
    Nú þarf bara að bæta í og stefna hærra.

    5

Vertu sæll kæri vinur, ég kveð þig nú

Lokaleikur Klopp – byrjunarliðið klárt