Fyrsta viðtal Arne Slot

Með litlum sem engum fyrirvara mætti Arne Slot á internetið.

Fyrsta viðtalið er að finna hér á opinberu síðunni og er það ferskt að hann gat sagt frá fyrsta leiknum við Ipswich. Sólbrúnn og flottur eftir fríið!

Slot var mjög auðmjúkur varðandi sína ráðningu og virðist hinn viðkunnalegasti í alla staði, algerlega reiprennandi á enskunni og í raun með sterkari orðaforða núna í upphafi en Klopp átti við lok ferilsins hjá LFC. Við Íslendingar munum læra vel að segja nafnið hans, Hollendingar nota r-ið eins og við svo að við bara köllum hann Arne á íslensku, ekki “Arnie” eins og Tjallarnir virðast þurfa að gera. Hann tilkynnti að hann og Richard Hughes væru búin að vera í daglegum samskiptum um langa hríð, fór yfir það að símtölin áttu sér stað á ströndinni og annars staðar þar sem hann hefur verið frá því að hann lauk störfum hjá Feyenoord.

Eins og við var að búast þá hrósaði hann Klopp út í eitt þegar hann gat og vísaði sérstaklega til rígsins milli hans og Pep, á sama hátt staðfesti hann það sem við vissum um að Hollendingar fylgjast afskaplega vel með Premier League. Búinn að ræða oft við Jurgen og fengið alls konar samtöl um liðið og umgjörð þess. Vísað var til líkindanna, sérstaklega þegar kemur að ástríðu fyrir verkefninu og því hversu vel honum hefur gengið að vinna með unga leikmenn. Hann vísar í það að hann geti nýtt sér ýmislegt sem Jurgen gerði og byggt á en sé að horfa til atriða sem hann vill setja inn í liðið.

Hann þekkir titilinn aðalþjálfari (head-coach) og er sáttur við það, telur sinn styrkleika vera á æfingavellinum og það verði í höndum Richard Hughes að vinna með styrkingu liðsins, auðvitað í samstarfi við Slot og aðra í þjálfarateyminu. Hugsun hans var að vera út næsta tímabil hjá Feyenoord en þegar Liverpool bankaði þá var það verkefni sem hann gat ekki sleppt. Hann talaði mikið um jákvæða orku sem lykil í því að ná árangri, þar þyrftu allir að vera á sama báti, eigendur, þjálfarar, leikmenn og aðdáendur. Hann hefur horft mikið til afreksfólks í íþróttum varðandi andlega þáttinn þegar kemur að “winning mentality” sem er að hans mati lykilþáttur í árangri. Þar er hann ekkert síður að horfa á þá sem ná árangri í einstaklingsíþróttum.

Hann staðfesti sinn aðstoðarmann formlega, Sipke Hulshoff en einnig er búið að ráða líkamsstyrksþjálfarann Ruben Peeters sem var með þeim hjá Feyenoord en stærsta fréttin varðandi þjálfarateymið var að búið er að sækja Fabien Otte sem hefur verið markmannsþjálfari Borussia Moenchengladbach og bandaríska landsliðsins. Þar er á ferð Þjóðverji sem hóf þjálfaraferilinn hjá Burnley og Slot lýsti honum sem stórum þætti í því sem þá langar að gera.

Markmið hans er klárt, halda áfram í toppslag og fyrsta skrefið er að bæta við stigafjöldann frá því í vetur, ná í meira en 82 stig og keppa við City og Arsenal um titlana. Hann hefur rætt við nokkra af leikmönnunum eftir að Jurgen var formlega hættur. Hann byrjaði á að spjalla við fyrirliðann Virgil en vildi ekki gefa upp hverja fleiri. Það hins vegar verði að litlu leyti hans undirbúningur, leikmennirnir muni kynnast honum þegar þeir mæta til æfinga. Þegar hann var spurður út í upplegg æfingatímabilsins þá segir hann það verði strax farið að aðlaga leikkerfið að því sem hann vill, það verði lagt upp með leikmönnunum sem mæta strax og þeir vonandi muni svo hjálpa leikmönnunum sem snúa síðar úr fríinu að skilja áherslubreytingarnar sem hann telur muni verða einfaldara í ljósi líkinda við leikstíl LFC síðustu ár. Hann benti líka á líkindi Liverpool og Rotterdam, fólk vant að vinna mikið og með algera ást á liðinu sínu.

Það er augljóst að hér er á ferð mjög metnaðarfullur einstaklingur sem líst vel á verkefnið og það virkaði bara vel á mig að sjá hann með merkið á brjóstinu, kom mér aðeins á óvart svona út frá því að þessi stjóri hét ekki Jurgen Klopp. Talaði um það að lokum að hann myndi leggja sig allan fram og treysti því að fólk þjappi sér á bakvið liðið. Fínt viðtal á allan hátt…en það er þarna eins og alltaf í boltanum, það verða ekki viðtölin sem virka. Núna er það árangurinn og við treystum á endalausa gleði krakkar!

YNWA.

18 Comments

  1. Frábært viðtal. Mér lýst rosalega vel á hann. Skil vel að Liverpool var að sækjast eftir honum. Hann er dálítið í anda þess sem FSG er að leita að. Þjálfari sem vill frekar láta verkin tala á æfingasvæðinu og vinna með leikmönnum en vilja kaupa alla dýrustu bitana á markaðnum. Hann er að nálgast þetta nákvæmlega eins og ég vil að hann geri það. Byggi frekar á því sem Klopp hefur gert í stað þess að gera hallabyltingar.

    Ég hef á tilfinningunni eftir þetta viðtal að það verði reynt að þróa áfram ungu strákana og gera þá hluta af aðalliðinu í stað þess að fara í dýr leikmannakaup. Það verða líklega einhverjir keyptir en það kæmi mér ekkert á óvart að það væru kaup sem eru dálítið í anda þess þegar Andy Robertson eða Endó voru keyptir, góð kaup þó þau virki það ekkert endilega þannig á augnabliknu þegar þeir voru keyptir.

    Ég er að sjálfsögðu með mínar efasemdir en þær minnkuðu við þetta viðtal. Arne virðist algjör þekkingarbrunnur og hundrað-prósent fagmaður í fótbolta. Það veit á gott.

    7
  2. Mér líst þrusu vel á kappann þó ég sé nú samt alveg með báðar fætur á jörðinni samt sem áður. Það er samt augljóst í því sem hann sagði í þessu viðtali að þetta hefur greinilega verið útpælt af hálfu Liverpool. Hann er maðurinn sem þeir vildu fá í starfið og Alonso eða Ruben Amorin hafa ekki fengið nein samtöl um starfið þó þeir hafi eflaust verið á einhverjum lista. Klopp hefur svo einnig gert allt sitt til þess að láta þessi umskipti ganga smurt í gegn og auðvelda honum starfið fyrstu mánuðina til muna.

    Hann byrjar ekki með tvær hendur tómar eins og Klopp gerði svo mikið er víst. Það gerði Paisley ekki heldur þegar hann tók við af Shankly eða þegar Dalglish tók við af Fagan. Það er sterkur strúktur, góður leikmannahópur, heimsklassa æfingasvæði og bestu stuðningsmennirnir. Þegar sjokkið kom í janúar að Klopp ætlaði að hætta tók það sinn tíma að melta það. En núna er maður bara bjartsýnn á að sagan endurtaki sig og titlarnir og árangurinn verði enn meiri.

    YNWA

    10
  3. “þá vonandi meira í anda Robertson en Endo” …

    Já kannski að því leitinu til að Andy kom mjög ungur og við fengum það allra besta úr honum. Hann er einn besti bakvörður í heiminum og það kom eiginlega fyrst í ljós undir stjórn Klopp..

    En kaupin á Endo. 20 m pund voru einfaldlega snilld því svona til upprifjunar, þá yfirbauð Chelsea okkur í tvígang, Keypti Moseis Caicedo og Romeo Lavia, samanlegt á um 200 m punda og af þessu tímabili að dæma var einfaldlega augljóst að Endo var ekkert verri en þessir gaurar í fótbolta. Hann vann sig hægt og bítandi inn í byrjunarliðið og var oft á tíðum með okkar betri mönnum. Endo er ekki ástæða þess að Liverpool varð ekki Englandsmeistari. Það var miklu frekar aragrúi meiðsla og skortur á breidd.

    11
    • Við þurfum menn sem sýna stöðugleika. Ekki nóg að koma til í desember og fjara svo alveg út í april eins og Endo

      Þó Caicedo sé ekki 115 mp leikmaður og þá er hann mikið betri en Endo. Það má alveg deila um stöðugleika Caicedo fyrstu mánuðina með Chelsea en um leið og Chelsea liðið fór að spila eins og lið þá var Caicedo fyrir utan Palmer þeirra besti leikmaður síðustu mánuðina.

      Lavia er meira spurningamerki enda spilaði hann ekkert sl. vetur.

      Fyrir utan meiðslin hugsa ég að helsta ástæða þess að LFC varð ekki meistari í fyrra var að mörkin frá sóknarlínunni þornuðu upp í april.

      1
    • Nico var rosalegur í leiknum í kvöld! En örugglega alltof dýr fyrir níska Jón.

      2
      • De hvide og røde voru samt betri en tjallarnir og markið hans Hjulmand var glæsilegt og ég vildi nú fá hann í sexuna frekar en Endo þó hann sé alveg ágætur líka svo það sé sagt.

        1
  4. Enska dómarateymið að gera algjörlega í buxurnar! Taka löglegt mark af Hollandi. Ætli þetta tengist því nokkuð hvað Anthony Taylor elskar Liverpool og van Dijk heitt?

    2
  5. Þetta er til skammar. Varsjáin tekur allllllltof langan tíma, ekkert teymi nema Englendingar hefur verið svona lengi að skoða VAR. Síðan er Taylor ekki sendur í skjáinn heldur er markið bara tekið af og engar útskýringar. Nú hefðum við þurft að heyra samskipti dómara í hátalarakerfinu. Simon Atwell og Anthony Taylor, the team from hell!

    2
    • Fór ekki skotið í varnarmann og þaðan í markið ef svo er þá held ég að markið hefði átt að stand en er svo sem ekki viss.

  6. Svo er ég að vona í laumi að England lendi á móti Austurríki Ralfs Rangnick í 16 liða úrslitum. Það yrði hressandi fyrir vesalingana hans Southgate.

    2
    • Ólíklegt að maður taki áskrift nema að þeir geri þetta öðruvísi en áður. Í fyrsta lagi ódýrara því með einhv 15 til 20k á mánuði íþróttapakka er ekki samkeppnishæft við iptv pakka. Ì annan stað ekki vera með mismunandi pakka. Það var fáránlegt. Að þurfa kaupa tvo pakka frá sama company til að horfa á enska og CL.

      Hvað væri sanngjarnt að rukka? Sérstaklega þegar iptv pakkar eru svo rosalega ódýrir. Hvernig er hægt að keppa við það?

      1
  7. Mér líst ekkert á hann. Hann verður fyrst að sanna áður en ég legg blessun mína yfir hann.

    1

Leikjaplanið – Ipswich úti fyrsti leikur

Er varnartengiliðurinn útdauður?