Svigrúm til bætinga

Sumarið 2024 er að mörgu leiti mjög spennandi hjá Liverpool þrátt fyrir afskaplega rólega byrjun á leikmannamarkaðnum í ljósi þess mjög mörgum spurning er ósvarað og töluverð óvissa um flest allt tengt liðinu.

Æfingatímabilið er alltaf stórt tækifæri fyrir unga leikmenn að minna á sig, sérstaklega þegar það eru stórmót í gangi sem tefur endurkomu lykilmanna og líklega hefur Liverpool aldrei í seinni tíð verið með eins marga leikmenn sem uppaldir eru hjá félaginu (eða komu sem unglingar) í liðinu eða að banka á dyrnar hjá aðalliðinu. Liverpool hefur átt fjölmarga mjög efnilega leikmenn sem fengu aldrei tækifærið.

Nokkur nýleg dæmi um góða atvinnumenn sem voru hjá Lierpool sem unglingar en komu lítið sem ekkert við sögu í deildarleikjum eru Solanke (583.mín), Coady (1.mín), Wilson (0.mín), Grujic (52.mín), Canos (9.mín), Alberto (135.mín). Leikmenn með fínan feril en fengu aldrei tækifæri til að spreyta sig á stóra sviðinu. Frá 2010-2020 voru fyrir utan Raheem Sterling aðeins Joe Gomez og Trent Alexander-Arnold sem náðu að festa sig í sessi sem lykilmenn af ungu leikmönnunum, leikmenn sem voru á mála hjá Liverpool frá því þeir voru 18 ára eða yngri.

Trent dæmið

Það er áhugavert að skoða færslur Kop.is aftur í tímann þá leiki sem Trent Alexander-Arnold var að stíga sín fyrstu skref. Hann var alls ekkert frekar næsta ofurstjarna þegar hann var að fá sína fyrstu sénsa 18 ára. Solanke, Ojo, Grujic, Ejaria, Brannagan, Woodburn og fleiri voru engu minna spennandi. Þó má ekki misskilja sem svo að það hafi ekki legið fyrir að Alexander-Arnold væri alvöru efni, hann var fyrirliði 18 ára liðsins og var að spila t.d. sumarleikina árið 2017 svipað og við erum að fara sjá í næstu viku. Conor Coady, Brannagan, Spearing, Hobbs o.s.frv. voru líka fyrirliðar U18 ára liðsins og jafnvel U21 árs liðsins en náðu aldrei í gegn hjá Liverpool. Trent fékk sénsinn sem hægri bakvörður aðallega vegna þess að Clyne meiddist. Almennt álit eftir feril hans upp yngri flokka var að þetta væri mjög góður bakvörður en klárlega sterkari sem miðjumaður og frekar framtíðar miðjumaður.

Áður en Clyne meiddist var hann bókstaflega búinn að spila mest allra útileikmanna Liverpool tvö tímabil í röð og hafði varla misst úr leik í 5-6 ár. Alexander-Arnold kom ekki einu sinni beint í liðið fyrir Clyne heldur var hann back-up fyrir aftan Gomez. Fyrir tímabilið með áhyggjur af meiðslum Clyne var velt upp mögulegum hægri bakvörðum eins og t.d. Danilo sem var ekkert að spila hjá Real Madríd eða Mattia De Sciglio frá Milan.

Trent kom við sögu í nokkum leikjum 2016-17 (18 ára) eða 165.mínútur samtals í deild. Árið eftir var hann vara hægri bakvörður þar til Joe Gomez meiddist eftir áramót 2018. Trent spilaði bikarleiki og einstaka leiki í deild en Gomez var klárlega númer eitt. Það var því ekki bara koma Van Dijk sem stökkbreytti varnarleik Liverpool eftir áramót 2018, Alexander-Arnold fékk líka sénsinn og eignaði sér stöðuna loksins, þá tæplega tvítugur.

Leikmenn sem eru nothæfir í hóp þurfa ekki allir að verða ofurstjörnur eins og Alexander-Arnold en hversu margir ungir leikmenn ætli hafi farið í gegnum akademíu Liverpool sem aldrei fengu þennan séns? Stefna félagsins er auðvitað alltaf að reyna fækka slíkum tilvikum og maður veltir fyrir sér nú hvort við séum að “missa okkur” í umræðu um einhverja Danilo og De Sciglio sem eru ekkert betri en það sem við eigum fyrir?

Við höfum sem dæmi séð Liverpool undanfarin ár reyna að styrkja liðið aftast á miðjunni, Tchouaméni og Caicedo voru klárlega spennandi nöfn en þegar við skoðum listann yfir spennandi valkosti er ekkert sem öskrar á mann. Værum við sem dæmi með kaupum á Ugarte (PSG) eða Luis (Benfica) að hindra leið Bajcetic í byrjunarliðið og þannig að missa af næstu ofurstjörnu?

Hefðu kaup á álíka leikmanni og Klavan eða Toure hindrað innkomu Quansah í fyrra? Sumarið 2023 fór mest allt í vangaveltur um miðvörð frá Chelsea sem hafði fengið sénsinn (hjá Brighton reyndar) en við höfðum bókstaflega ekki hugmynd um okkar eign leikmann sem hefur farið upp öll sömu yngri landslið Englands og Clowill, spilaði við hliðina á honum í þeim öllum.

Hvaða leikmenn sem við sjáum koma við sögu í sumar gætu verið næstu Alexander-Arnold eða Quansah þessa tímabils?

Svigrúm til bætinga innan núverandi leikmannahóps.

Áður en Arne Slot og Richard Hughes byrja að kaupa (eða selja) leikmenn vilja þeir eðlilega fá tækifæri til að meta það sem þeir hafa. Auðvitað eru þeir með góða grunnhugmynd um leikmannahópinn en nýr stjóri og þá sérstaklega stjóri sem er þekktur fyrir að gefa ungum leikmönnum mikið traust er gríðarlega stórt og spennandi tækifæri fyrir unga leikmenn. Jurgen Klopp gaf gríðarlega mörgum ungum leikmönnum sénsa á seinni hluta ferilsins hjá Liverpool og skilur við félagið með gríðarlega efnilegan hóp.

Við fórum aðeins yfir hvar helst ætti að vera svigrúm til bætinga í síðasta Gullkast þætti. Greinum hópinn aðeins betur.

Markmenn

Alisson verður að spila meira en 74% af deildarleikjum Liverpool. Hann þarf að vera klár nánast alla leiki í deild og Meistaradeild. Takist það er hellings svigrúm til bætinga í þessari stöðu. Kelleher stóð sig vel og er of góður til að vera varamarkmaður en hann er enginn Alisson.

Þriðji markmaður (og helst líka varamarkmaður) á ekki að skipta máli. Ef að Jaros hefur samþykkt að vera hjá Liverpool í vetur finnst mér það benda til þess að hann verði varamarkmaður í stað Kelleher. Jaors er landsliðsmarkmaður og var að spila alvöru fótbolta síðasta tímabil.

Hægri bakverðir

Fyrir það fyrsta þarf Liverpool að fara staðfesta framtíð Alexander-Arnold. Síðasta tímabil var hræðilegt hjá honum enda missti af hann 37% af deildarleikjum Liverpool sem er rándýrt. Við viljum fá að lágmarki 20% meira frá Trent.

Bradley styrkir svo breiddina gríðarlega og hver veit hvort hann verði jafnvel aðal hægri bakvörður Liverpool þegar líður á veturinn. Framtíð Alexander-Arnold er ekki bara í óvissu heldur hlutverk hann innanvallar einnig. Bradley var í byrjunarliðinu í 10 leikjum síðasta vetur þrátt fyrir að vera meiddur fram yfir áramót. Meiðsli Trent voru gríðarlegt tækifæri fyrir Bradley sem greip það með báðum höndum ekki ósvipað og Trent gerði sjálfur.

Hér er akademían algjörlega að spara Liverpool ein leikmannakaup sem annars þyrfti að gera.

Miðverðir

Liverpool verður að læra af mistökunum sem gerð voru á miðjunni, Henderson og Fabinho var leyft að brenna út hjá Liverpool án þess að félagið væri tilbúið með arftaka þeirra. Aukaleikararnir voru allir verulega meiðslagjarnir og ótraustir þannig að kaupa þurfti nýja miðju á einu og sama sumrinu.

Quansah gerir það vonandi að verkum að a.m.k. önnur miðvarðastaðan er nokkuð solid til framtíðar en núna er klárlega tíminn til að byrja að huga að framtíð Van Dijk auk þess sem taka þarf stórar ákvarðanir varðandi Konate og Gomez.

Takmarkið verður að vera að finna miðvarðapar sem getur spilað saman +80% af leikjum tímabilsins og það helst nokkur ár í röð. Hyypia og Carragher hjarta í vörnina. Sjáið t.d. hvað slíkt þéttir vörn Arsenal.

Van Dijk verður ekki endalaus og var að klára fáránlega langt og strembið tímabil þar sem hann spilaði yfir 5.000 mínútur með Liverpool og Hollandi. Hann varð 33 ára núna í þessum mánuði og er að fara inn í síðasta árið sitt á núverandi samningi. Vonandi endar hann hjá Liverpool svipað og Hyypia og Carragher, missti sætið sitt hægt og rólega en hvernig sem saga hans hjá okkur endar þarf að byrja að huga að þeim endi. Ef slúðrið er rétt var Edwards alls ekki sammála Klopp varðandi nýjan samning Jordan Henderson og jafnvel velt fyrir sér hvort slíkir árekstar hafi leitt til þess að Edwards hætti á sínum tíma, erfitt að segja en það er talað um Richard Hughes sé ekki síður tölfræðimiðaður og kaldur þegar kemur að slíkum ákvörðunum.

Konate má fara áður en við finnum arftaka Van Dijk. Ekki nema Slot og nýtt læknateymi Liverpool vinni kraftaverk þurfum við að hætta að treysta á Konate sem byrjunarliðsmann og helst reyna losna við hann fyrir leikmann í sama gæðaflokki sem actually getur spilað. Hann er að fara inn í sitt áttunda tímabil sem atvinnumaður og tölfræði yfir spilaðar mínútur í deildarleikjum er vita vonlaus. Mest hefur hann spilað 2.400 mínútur í deild á tímabili og það var fyrir 5 árum. Þetta litla sem hann spilaði á síðasta tímabili var samt meira en árið á undan. Konate er ekki nálægt því að vera arftaki Van Dijk, þetta er bókstaflega arftaki Matip.

Joe Gomez var lítið treyst sem miðverði undir stjórn Klopp eftir 2019-20 tímabilið, hann er fínn sem alt mulig varamaður í vörninni. Vonandi hugsar Slot hann samt aðallega sem miðvörð og takmarkar alveg spilatíma hans sem bakvörður. Gomez verður aldrei miðvörður sem spilar +80% tímabilsins og þess vegna mætti alveg endurnýja hans pláss í miðvarðahópnum. Ekki endilega í sumar samt.

Sepp Van Den Berg er að æfa með Liverpool núna í sumar en fær vonandi félagsskipti í bráðlega sem henta honum og Liverpool. Fari svo er í raun vel hægt að kaupa nýjan miðvörð án þess að selja nokkurn hinna strax. Helst þá miðvörð sem er nógu góður til að veita Konate og Quansah samkeppni strax og taka við af Van Dijk með tíð og tíma. Auðvitað er örlítill séns að Berg sé dæmi um akademíu leikmann sem getur brotið sér leið inn í Liverpool liðið. Hann er með töluvert meiri reynslu en Quansah sem dæmi en líklega ekki með jafn hátt þak.

Vinstri bakverðir

Erum við að fara í svona miðvarðar vinstri bakvörð undir stjórn Arne Slot? Andy Robertson er sannarlega kominn á svipaðan aldur og við fórum að sjá fjara undan hjá Wijnaldum, Henderson, Fabinho o.fl. og átti alveg ömurlegt tímabil í fyrra. Hans meiðsli voru þó blessunarlega impact slys frekar en vísbending um að hann sé kominn vel yfir hæðina. Ef Liverpool bara endurheimtir Andy Robertson í þann +80% vinstri bakvörð sem við höfum getað treyst á styrkir það liðið all verulega.

Tsimikas er hinsvegar ekki nógu góður og úr því Gomez var talin betri valkostur en hann á síðasta tímabili er nákvæmlega enginn tilgangur að láta hann taka pláss í hópnum. Eins er hann of mikið meiddur þá sjaldan Robertson er frá. Selja hann og fá inn örfættan miðvörð sem getur leyst bakvörðinn? Mögulega er einhver í akademíunni ekkert síðri en Tsimikas en það allavega blasir ekki við. Beck, Scanlon og Chambers hafa fengið sénsa en öskra ekkert á fleiri eftir það.

Djúpur miðjumaður  

Bestu varnartengiliðir deildarinnar spila ekkert sem eiginlegir varnartengiliðir, ekki þetta Didi Hamann eða Macsherano DMC hlutverk eins og við þekkjum það. Rodri og Rice eru jafnan með einhvern úr varnarlínunni við hliðina á sér sem dæmi og eru báðir mikið meira alhliða miðjumenn. Fabinho og Casimerio voru mun meira varnartengiliðir sem dæmi

Með því að stilla þessu upp svona eru Bajcetic, Endo og Morton helstu kostir á pappír sem öftustu miðjumenn Liverpool í dag. Hinsvegar eru allar líkur á að þegar á reynir séu Mac Allister, Jones, Gravenberch og jafnvel Trent og Szoboszlai á undan í goggunarröðinni í þessu hlutverki.

Bajcetic er eitt mesta spurningamerkið fyrir þetta tímabil, hann er gríðarlega spennandi leikmaður í nákvæmlega þetta nútíma DMC hlutverk ef skrokkurinn á honum þolir það. Mjög góður á boltann, les leikinn mjög vel, stór og með fínan sprengikraft. Öll leikmannakaup í þessa stöðu held ég að taki mið af því að sá sem kemur inn tekur pláss Bajcetic. Leikmannakaup eins og Endo í fyrra er nákvæmlega dæmi um leikmann sem tekur sæti frá ungum leikmanni sem gæti vel verið mikið betri langtíma lausn (þetta átti auðvitað ekki við í fyrra).

Bajcetic vann sig inn í liðið tímabilið sem miðjan hjá Liverpool bræddi úr sér og var 18 ára að spila nokkuð reglulega en í liði sem var í mjög miklum vandræðum. Hann sýndi potential sem er ekkert víst að verði meira en það, hann hefur jú bara komið við sögu í rétt rúmlega 1.000 mínútur hjá aðalliði Liverpool.

Tyler Morton er á móti núna búinn að spila rúmlega 6.000 mínútur af fullorðins fótbolta og hungraður í meira. Það að hann hafi spilað alla leiki hjá nokkuð góðum Championship liðum 19 og 20 ára gefur til kynna að þetta er töluvert efni, hvort hann sé Liverpool efni er erfitt að dæma, hann er t.a.m. enn eitt dæmið um fyrirliða upp yngri flokka félagsins. Af því sem við höfum séð frá þessum strákum hjá Liverpool finnst manni Bajcetic mun meira spennandi með hærra þak en á sama tíma hef ég ekki séð mínútu af Morton undanfarin tvö tímabil.

Miðjumenn (Áttur)

Mac Allister er nokkuð afgerandi orðin leiðtogi liðsins á miðsvæðinu og getur spilað allar þrjár stöðurnar vel. Hann nýtist mun betur í 3. til 5. gír og nær marki andstæðinganna en marki Liverpool og við sáum um miðbik síðasta tímabils afhverju hann er lykilmaður í liði Heimsmeistaranna og Ameríku meistaranna. Sem átta og ofar er hann í alvöru heimsklassa. Sem sexa virkar hann aðeins í handbremsu.

Curtis Jones spilaði hjá frábæru U23 ára landsliði Englendinga sem álíka varnartengiliður og Mac Allister var að spila í byrjun síðasta tímabils og gæti alveg átt framtíð í slíku hlutverki hjá Liverpool takist að stýra álaginu á honum þannig að hann geti spilað reglulega. Jones hefur klárlega hæfileikana og hausinn til að verða lykilmaður hjá félaginu en hann er með meiðsla record á við Lallana, Keita, Ox, Thiago, Gomez og Konate. Held því miður að þetta muni aldrei smella hjá honum.

Gravenberch er annað stórt spurningamerki fyrir þetta tímabil, leikmaður með alla hæfileikana en spurning með hausinn/hungrið til að festa sig í sessi hjá elítu liði. Hann er ennþá bara 22 ára en gjörsamlega verður að fara standa betur undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans. Hjá Ten Hag í Ajax var hann 18 ára að spila 2.600 mínútur í deild og 2.200 árið eftir auk leikja í Meistaradeildinni. Hann fór of snemma (20 ára) til Bayern og fékk bara 560.mínútur í deildinni þar. Árið eftir hjá Liverpool spilaði hann bara 1.100 mínútur í deildinni. Mögulega var Liverpool líka of stórt skref fyrir hann en miðað við síðasta tímabil hjá Liverpool átti Gravenberch að gera tilkall til fleiri mínútna en þetta. Hann fær núna hollenskt þjálfarateymi sem vonandi hefur góða hugmynd um hvernig hægt er að ná sem mestu út úr honum.

Stóra sprningin er svo hvort Trent verði hugsaður meira sem partur af miðjunni því líklega ættum við þar strax einn besta miðjumann deildarinnar. Já og nei, tökum nákvæmlega ekkert mark á því hvernig Southgate tækniundrinu tókst að vinna úr hæfileikum Trent.

Sóknartengiliður

Arne Slot þvertók hressilega fyrir að stilla upp 4-2-3-1 leikkerfi eitthvað frekar en 4-3-3 á sínum fyrsta blaðamannafundi, en ef hann stillir miðjunni upp með einn miðjumann meira í holunni en við þekkjum frá tíma Klopp er ljóst að Liverpool er ákaflega vel mannað fyrir það hlutverki.

Ef að Mac Allister virkaði í handbremsu á köflum síðasta vetur á það ennþá betur við um Szoboszlai. Það má koma honum töluvert nær markinu. Liverpool var ekki bara að skipta um miðju síðasta sumar heldur voru leikmenn eins og Szoboszlai, Gravenberch og Endo að skipta um deild og það getur vel tekið tíma að aðlagast enska boltanum. Endo var sem dæmi mjög opinn með það. Szoboszlai spilaði bara 62% af deildarleikjum Liverpool í fyrra sem má eins bæta töluvert.

Harvey Elliott spilaði bara 40% af leikjum Liverpool síðasta vetur en hann spái ég að verði leikmaðurinn sem við höfum verið að vonast eftir að Curtis Jones yrði. Síðasta tímabil var mjög stórt skref uppávið hjá Elliott sem er að breytast úr gríðarlega efnilegum leikmanni í alvöru góðan miðjumann. Það verður mjög spennandi að sjá hvar Slot hugsar Elliott og ég spái því að hann verði miklu stærri partur af byrjunarliðinu í vetur. Hann er nú þegar kominn með töluverða reynslu en er ennþá bara 21 árs. Þessir ungu og upprennandi leikmenn eins og Quansah og Bradley eru jafn gamlir og Elliott!

Bobby Clark er bara 19 ára og var 18 ára farinn að fá mínútur hjá Klopp. Hann hefur í 2-3 ár verið talinn meðal efnilegustu leikmanna Englands. Samkeppnin hjá Liverpool er þannig að líklega þyrfti hann svipað break og Alexander-Arnold til að festa sig í sessi en félagið hefur væntanlega leikmann eins og Clark alveg í huga áður en keypt er enn frekar í hans stöðu.

Fabio Carvalho er svo enn eitt spurningamerkið fyrir þetta tímabil. Carvalho er sem dæmi ári eldri en Elliott og líklega verður hann ekki partur af framtíð Liverpool.

Hægri kanntur

Eitt af stóru spurningamerkjum sumarsins er hvernig Arne Slot sér fyrir sér hlutverk hægri kanntsins því Feyenoord spilaði öðruvísi en Liverpool hefur verið að nota Salah. Eins hefur Salah alls ekki verið sama sprengjan undanfarin ár og hann var þegar hann kom fyrst. Því er spurning hvort Slot þurfi ekki ferskari fætur þarna og hlutverk Salah breytist og færist nær markinu?

Salah er augljóslega ennþá í toppstandi og virðist koma flottur til leiks í nýtt æfingatímabil og er einn af fáum lykilmönnum sem Slot nær að vinna með mest allt sumarið. Hann spilaði bara 74% af síðasta tímabili sem helgast meira af meiðslum en AFCON sem er verulega óvanalegt fyrir Salah. Hann hefur verið einn af örfáum leikmönnum Liverpool sem sloppið hefur við meiðsli og eru meiðsli hans síðasta vetur ágætt dæmi um tímabilið í heild. Meira að segja Robbo, Trent og Salah voru á meiðslalistanum.

Áður en Liverpool kaupir kantmann þarf að hafa leikmann eins og Ben Doak í huga því sá væri alltaf að fara takmarka möguleika Doak. Skotinn er auðvitað enn eitt helvítis dæmið um leikmann sem missti meira og minna af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Hvað það og stjóraskipti hefur mikil áhrif á framtíð hans er erfitt að segja en staða hans í byrjun síðasta tímabils var þannig að hann kom 18 ára inná fyrir Salah þegar korter var eftir í leik gegn Chelsea þegar staðan var ennþá 1-1. Salah er eiginlega aldrei tekinn af velli og ALDREI sáttur við það en strax í fyrsta leik sá Klopp Doak fyrir sér sem mögulega lausn frekar en Salah í leik gegn Chelsea. Þetta var ekkert besta ákvörðun Klopp sem stjóri Liverpool en segir kannski eitthvað um áltið sem félagið hefur (eða hafði) á Doak.

Vinstri kanntur

Diaz átti eitt öruggasta sætið í liðinu þegar hann var heill eða þegar ekki var verið að ræna af honum fjölskyldumeðlinum! Öflugur leikmaður á besta aldri sem Slot er að öllum líkindum spenntur að vinna með. Hann er engu að síður okkar “rebound” eftir Mané og bara ekki jafn góður. 8 mörk og 5 stoðsendingar í deildinni er bara ekki nærri því nógu gott.

En áður en Liverpool kaupir nýjan mann (eins og Anthony Gordon) í þessa stöðu þarf líklega að selja Diaz og eins taka tillit til þess að Liverpool var allt síðasta tímabil með frábæran vinstri kantmann en að spila honum sem Bobby Firmino “rebound-ið”. Cody Gakpo spilaði nær eingöngu sem vinstri kanntur hjá PSV og ástæðan fyrir því að Liverpool keypti hann var sú að hann var að spila sturlað vel sem slíkur í Hollandi, 9 mörk og 14 stoðsendingar fyrir áramót í 14 leikjum. Eigum við ekki að prufa hann aðeins í sínu besta hlutverki áður en við kaupum fleiri vinstri kantmenn?

Sóknarmenn

Darwin Nunez þarf að bæta sig svo lítið hlutfallslega til að þetta smelli hjá honum. Tímasetja hlaupin örlítið betur og hann er ekki bókstaflega alltaf rangstæður, stilla miðið örlítið betur og annaðhvert dauðafæri fer ekki í tréverkið. Hann er að gera þetta meira og minna fyrir landsliðið og hann gerði þetta hjá Benfica. Hann hefur verið tvö og hálft tímabil hjá Liverpool og fær líklega ekki fleiri sénsa en næsta tímabil.

Ágætt að hafa í huga að Nunez er bara 25 ára, samlandi hans Luis Suarez var 24-25 ára tímabilið sem hann sprakk út hjá Liverpool eftir rólega byrjun þar sem hann leiddi deildina í rangstöðum og skotum í tréverkið.

Diogo Jota er álíka pirrandi leikmaður og Thiago var. Hann er svo ógeðslega góður þegar hann er heill og “on it” en bara alltof alltof mikið meiddur til að hægt sé að stóla á hann og taka frá svona stórt hlutverk í hóp. Undanfarin sex tímabil hefur hann náð að spila þrjú nokkuð eðlilega. Kringum 2.500 mínútur í deild og minniháttar fjarvera vegna meiðsla. Verra er að tvö af þessum þremur tímabilum var hann leikmaður Wolves og aðeins eitt hjá Liverpool.

Ég hef litla trú á töfralækningum og því eru góðir leikmenn eins og Jota, Jones, Konate og jafnvel Gomez dæmi um leikmenn sem mér finnst að Liverpool ætti að reyna endurnýja fyrr en seinna. Á móti er ég virklega tilbúinn að borða sokkinn ef enhver af þeim afsannar þennan ótta. Ef næsta tímabil verður eitt af þessum árum sem Jota er heill gæti það vel skilið milli þess að Liverpool vinnur eitthvað eða ekki. Síðsta vetur spilaði hann sem dæmi 1.100 mínútur eða um 33% af tímabilinu sem eru um andvirði 13 leikja samanlagt. Hann skoraði 10 mörk á þessum tíma og lagði upp þrjú.

Hann var eini sóknarmaður liðsins með fleiri mörk en xG tölfræðin gaf tilefni til. Skoraði 10 mörk en var bara með xG 6.28. Til að setja þetta í samhengi við Darwin Nunez þá hefði hann skorað 27 mörk með 37% fleiri mörk en xG gaf tilefni til (sem er nokkuð normal fyrir elítu sóknarmann). Hann var með xG19,9 en skoraði bara fokkings 11 mörk úr þessum dauðafærum. Ef við setjum sama dæmi fyrir Salah þá hefði hann skorað 30 mörk með jafn góðri nýtingu og Jota en skoraði í raun bara 18 mörk úr sínum dauðafærum.

Jayden Danns er einn af mörgum ungum leikmaönnum sem bönkuðu fast á dyrnar síðasta vetur og það er líklega ekki langt í að Danns verði hugsaður sem partur af aðalliðshópnum.

Aðrir

Leikmannahópur Liverpool í dag er skipaður leikmönnum í öllum stöðum sem voru hjá félaginu þegar þeir voru 18 ára eða yngri. Sumir lykilmenn eða partur af hópnum og nokkrir sem byrjaðir eru að banka á dyrnar. Varamarkmennirnir, hægri bakverðirnir, þrír af fimm miðvörðum og helmingurinn af miðjunni. Það er helst í sóknarlínunni og vinstri bakverði sem akademían hefur ekki skilað sér alveg í hópinn.

Þetta eru samt bara þeir sem hafa skilað sér upp í aðalliðið, það er annað eins rétt fyrir neðan í akademíunni. Jamal Quansah er ekki partur af þessari færslu fyrir ári síðan sem dæmi. Clark og Danns ekki heldur.

Trey Nyoni (17 ára) og Amara Nallo (18 ára) eru báðir gríðarleg efni sem Liverpool fékk úr öðrum akademíum. Þeir spiluðu gegn Preston í vikunni og verða líklega partur af sumartúrnum hjá Liverpool.

Eins höfum við fengið að sjá aðiens af  Koumas, Scanlon, Chambers og Kadie Gordon , einhver af þeim gætu átt svona Quansah break-trough. Auk þess eru t.d. Figeruoa og Kone-Dogherty sem báðir eru sagðir mikil efni. Þeir sénsar sem þessir strákar hafa verið að fá undanfarin ár virðast líka vera skila sér í að félaginu gengur betur að sannfæra næstu Harvey Elliott, Joe Gomez o.s.frv. að veðja á Liverpool.

Að lokum

Þessi upptalning er ekki mikið frábrugðin stöðunni á svipuðum árstíma undanfarin ár. Nánast allir þessara ungu leikmanna sem ekki hafa nú þegar náði í gegn koma ekki til með að gera það. Það er t.a.m. ekkert öruggt að Quansah byggi ofan á síðasta tímabil hjá nýjum stjóra, óstöðugleiki getur verið kostnaðurinn við að gefa ungum leikmönnum séns og það er ástæða fyrir því að flest elítu liðin gera þetta mjög takmarkað. Liverpool virðist þó í alvörunni sjá hag í því að ala upp leikmenn sem þekkja leikstíl liðsins óháð því hvaða liði þeir eru að spila með (U16 / U18 / U21 / Aðalliðið) og vilja fá aðalliðið frekar en að reyna bara að ala upp leikmenn til að selja fyrir gróða. Liverpool er að fara gefa Cole Palmer sénsinn frekar en að selja hann til þess eins að kaupa Jeremy Doku.

Auðvitað viljum við að lið eins og Liverpool sé með á leikmannamarkaðnum í samkeppni um bestu leikmenn í boði. Staða Akademíunnar virðist engu að síður vera verulega góð núna og maður þarf stundum að tóna sig aðeins niður og passa sig að vera ekki óska þess að verið sé að sækja vatnið yfir lækinn. Töluvert af þeim nöfnum sem verið er að orða við Liverpool og blásin upp sem ómissandi púsluspil gætu vel verið “Danilo eða De Sciglio” sem verða til þess að Alexander-Arnold verður líklega aldrei lykilmaður hjá Liverpoool.

18 Comments

  1. Eg hef nu hreinlega aldrei skilið þetta Bajcetic dæmi. Það er alltaf verið að tala um að hann sé svona og svona en ég er kanski blindur en ég sé nákvæmlega ekki neitt sem bendir til þess að hann sé eitthvað að fara að springa út hjá liverpool. Ju ju hann átti fína spretti fyrir löngu síðan en annars eiga allir leikmenn sína spretti en það þýðir ekki að það þeir eru eða verða leikmenn sem liverpool getur notað. Vonandi hef ég rangt fyrir mér og Bajcetic verður þessi flotti miðjumaður en ég efast um það.

    6
    • Kannski sástu ekki þá 11 leiki sem hann spilaði tímabilið 22/23.

      12
  2. Takk fyrir þessa samantekt Einar Matthías.

    Það er þetta með væntingarnar, að sjálfsögðu vil maður helst að Liverpool sé að þróa unga leikmenn sem gætu gengið upp í aðalliðið en á sama tíma heimtum við árangur í öllum keppnum og höfum takmarka þolinmæði fyrir því að ungir leikmenn geri sýn mistök sem er fylgifiskur þess að fóta sig í hörðum heimi fótboltans.
    Ég er hlynntur því að gefa ungum leikmönnum sénsinn í staðin fyrir að stökkva af stað og eiða fúlgum fjár í fullt af leikmönnum sem er alls óvíst að smelli inní liði og bæti það eitthvað eins og við höfum sé bæði hjá Chelsea og man utd.

    Miðja og sókn eru nokkuð vel mannaðar en það er helst vörnin sem gæti orðið að styrkja með kaupum á nýjum mönnum held ég sem sérstakur sófasérfræðingur sem hefur skoðun á öllum hlutum sem snúa að Liverpool en líklega talsvert minna vit á fótbolta heldur en þeir sem stjórna hjá Liverpool þótt ég efist stundum um þá sem stjórna en aldrei um eigið ágæti.

    YNWA

    6
  3. Ef Liverpool ætlar sér að keppa við betri liðin í deildinni eins og City og Arsenal þarf að styrkja hópinn með kaupum á leikmönnum sem styrkja byrjunarliðið, ekki bara að halda í vonina um að þessi og hinn ungi leikmaðurinn verði góður einn daginn. Staðreyndin er að flestir af þessum ungu leikmönnum munu ekki komast í aðallið Liverpool vegna getu sinnar í fótbolta og enda í meðalliði í úrvalsdeild eða í neðri deildum Englands. Hjá bestu liðum deildarinnar koma upp einn til tveir leikmenn á nokkra ára fresti sem festa sig í sessi sem lykilmenn, t.d Foden, Saka, Trent.

    Það var öllum ljóst að Liverpool vantaði djúpann miðjumann á síðast tímabili, liðinu tókst að klúðra kaupum á slíkum leikmanni með glæsibrag og endaði næstum í panik kaupum á 110 milljón punda leikmanni. Til að redda sér var fenginn 31 árs gamall Japani sem spilaði yfir getu enda var Klopp að þjálfa hann. Muna menn eftir því að hann var seldur okkur sem lykilmaður Stuttgart, en eftir að þeir seldu þennan lykilmanna endaði liðið í 2 sæti þýsku deildarinnar :). Að ætla inn í nýtt tímabil án þess að kaupa leikmann í þessa stöðu væri hræðilegt. Liverpool vantar djúpan miðjumann, Endo væri ágætur varamaður fyrir þann leikmann. Ekki tala um Bajcetic sem lausn okkar mála, hann er langt frá því að vera nógu góður í dag til að byrja leiki sem DM. Enda voru hans bestu leikir fyrir meiðsli með Fabinho á miðjunni, hans besta staða er því framar á miðjunni.

    Á síðast tímabili var miðjan hjá Liverpool veikasti hlekkurinn, enda var hún verr mönnuð en hjá þeim liðum sem skipuðu tvö efstu sætin í deildinni. Persónulega finnst mér vanta tvo leikmenn á miðjuna til að bakka upp okkar langbesta miðjumann Mac Allister. Það var grátlegt að horfa upp á þann heimsklassa miðjumann spilað úr stöðu sem DM leik eftir leik.

    Þegar ákvörðun var tekinn um að semja ekki við Matip var ljóst að kaupa þyrfti miðvörð, fyrir meiðsli á síðasta tímabili var Matip byrjunaliðsmaður við hlið VD. Hér þarf því að kaupa miðvörð sem fer beint inn í liðið og styrkir það fyrir komandi tímabil. Eins og Einar kemur inná þá er ekki hægt að stóla á Konate vegna meiðsla. Quansah er mjög efnilegur og mun fá marga leiki þrátt fyrir að vera kostur númer 3 eða 4 í miðvarðarstöðuna. Gomez á aldrei aftur að spila sem miðvörður enda ekki nógur góður í þá stöðu ef liðið vill keppa um titla, hann var fínn á síðasta tímabili sem varamaður fyrir Robertson og líka sem möguleiki í hægri bakvörðinn. Van Den er ekki nógu góður, punktur.

    Þannig að ef Liverpool vill færast nær topp 2 í deild og jafnvel ná árangri í meistaradeildinni þarf að kaupa miðvörð og djúpan miðjumann sem styrkja byrjunarliðið. Hugsanlega þarf tvo miðjumenn þannig að miðjan okkar sé samkeppnishæf við þær bestu eins og ég tala um hér að ofan.

    En ef Liverpool vill fjarlægjast meira City og Arsenal er best að sleppa því að kaupa betri leikmenn inn í liðið og spila bara á þeim leikmönnum sem eru til staðar í dag. Kannski er bara fínt fyrir framtíðina að enda ekki í topp 4 í deild og detta snemma út úr meistaradeildinni.

    17
  4. Áhugaverð og yfirveguð samantekt. Takk.

    Mér finnst þessi grein sýna vel hvað þessi “kaupa einhvern af því að annars vinnum við ekkert” hugmyndafræði er takmörkuð. Auðvitað þurfa lið að kaupa — ekki að mótmæla því — en ef maður er með púsluspil heima hjá sér sem vantar einn eða tvo bita í, þá fer maður ekki bara út í Hagkaup og kaupir tvo bita úr dýrasta púsluspilinu og heldur að heildarmyndin verði góð.

    Með nýjan þjálfara—í raun algerlega nýja stjórn knattspyrnumála — þá virðist mér miklu skynsamlegra að Slot vinni með þekktar stærðir og setji stefnuna í upphafi tímabils á að vera sterkt topp 4 lið og komast vel áfram í UCL. Ef undir jól liðið er að taka á sig mynd, þá er eðlilegt að fara að skipuleggja langtíma innkaup sem falla að hans leikstíl. En að reyna það núna þegar við erum með stutt sumar og þjálfara sem hefur varla hitt flesta af byrjunarliðsmönnunum nú í lok júlí væri áskrift á að fara í einhvern svona ManU eða Chelsea vítahring. Kaupa, kaupa, kaupa. Og ekkert virkar.

    Sjáum hvernig Slotaal Voetbal þróast — það er hættulegt að setja pressu á félagið í byrjun þessa tímabils að keppa um deildina. Auðvitað erum við alltaf að keppa um deildina. En stundum er í lagi að gefa hlutunum tíma og rými til að þroskast áður en maður fer í froðufellingar.

    Ást og friður — YNWA

    8
    • Liverpool er alls ekkert langt frá því að vera með nógu góðan hóp til að gera atlögu strax og markmiðið í sumar á að vera að fylla inn í eyður og hefja endurnýjunarferli á lykilmönnum. Liverpool fór langleiðina á síðsta tímabili með þennan hóp þrátt fyrir helmingi meiri meiðslavandræði en City og Arsenal voru að glíma við.

      Arne Slot er auðvitað óvissu factor líkt og margt annað en byrjaði t.d. nokkuð kröftuglega hjá sínum liðum í Hollandi og kemur vonandi með ferska vinda í Liverpool liðið sem gerir það óútreiknanlegra og þéttara en það hefur verið undanfarin ár.

      Hópurinn er alveg nógu sterkur á pappír og klárlega nógu stór ef félagið nær einhverjum tökum á endalausum meiðslum.

      5
  5. Rétt hjá Krizza. Við þurfum heimsklassa djúpan miðjumann og alvöru hafsent. Þá á þetta lið að geta keppt um alla titla.

    Mesta óvissan er Slot sem á eftir að sýna og sanna að hann sé heimsklassa þjálfari.

    Áfram Liverpool!

    3
    • Sælir félagarí

      Takk fyrir frábæra samantekt Einar og þar er flestu til skila haldið að venju. Ég er sammála flestu sem Krizzi segir hér fyrir ofan en einnig að hluta til því sem Hossi segir líka hér fyrir ofan. Það er augljóst að ef Liverpool ætlar að halda í við hin stóru félögin þarf að kaupa einn til tvo alvöru og tilbúna leikmenn á hverju ári. það er nefnilega munur á að kaupa allt sem hreyfist eins og Chelsea gerir eða 4 – 5 rándýra leikmenn eins og MU er yfirleitt að gera eða kaupa einn til tvo leikmenn sem passa inn í hópinn og skila því sem slika þarf.

      Nú er þörf á alvöru miðverði sem styrkir vörnina til framtíðar og einnig varnarsinnuðum miðjumanni sem kemur tilbúinn til leiks. Með þeim kaupum ætti Liverpool að halda í við hin liðið og með svipuðum gæðakaupum næsta sumar gæti liðið farið að ógna toppnum verulega. Þannig kaup reglulega án þess að eyða gríðarlegum upphæðum í leikmannahóp (4 til 5) með ára fresti sem eru svo hver úr sinni áttinni og falla ekki inn í leikmannahópinn og taktikina.

      Markviss árleg kaup á einum eða tveimur gæðaleikmönnum sem styrkja liðið afgerandi á hverju ári ættu ekki að vera klúbbnum ofviða og við sáum hvað kaupin á VvD og Alisson gerður fyrir liðið. Þannig kaup gera útslagið. Sölur á leikmönnum sem ná ekki alveg máli ásamt góðum rekstri ætti alveg að ráða við það.

      Það er nú þannig

      YNWA

      3
  6. Takk fyrir þessa firnagóðu umfjöllun Einar Matthías og ég tek undir mjög margt af því sem hefur komið hér fram. Mjög flottar umræður. Ég tel að það þurfi alltaf að fríska eitthvað uppá liðið á milli ára. Það þýðir ekki að við þurfum að kaupa marga leikmenn en ég tel að 2-3 nýjir sem styrkja hópinn séu nauðsynleg viðbót, þ.e. ef við ætlum að gera kröfu um titlabaráttu.

    Það er mjög jákvætt að leyfa ungum leikmönnum að fá tækifæri en þó ekki á kostnað þess að við verðum ekki í titlabaráttu. Þá held ég að það fari fljótt að heyrast óánægjuraddir og það getur tekið stuttan tíma að hitna undir Slot – og ég held hann geri sér grein fyrir þessu og vilji því versla eitthvað. Það sem ég er að segja er að við eigum að leyfa ungum og upprennandi leikmönnum að aðlagast aðalliðinu en það tekur tíma – við getum ekki gert þá kröfu að þeir brilleri strax og nái stöðugleika.

    Ég tel að grunnurinn hjá okkur sé virkilega góður og með því að nota og þróa ungu leikmennina skynsamlega ásamt því að bæta við 2-3 þremur sterkum leikmönnum getum við keppt um allar dollur á næsta tímabili. Hvar þarf að styrkja? Mér finnst nokkuð augljóst að okkur vantar ennþá topp varnarmiðjumann. Við höfum ekki ennþá fyllt í skarð Fabinho. DMC staðan er heilt yfir veik hjá okkur og það yrði mikil áhætta að ætla að treysta á Endó, Bajcetic og Morton.

    Mér finnst ágætis mælikvarði að hugsa; ,,hvað fyndist okkur um ef að eitthvað af hinum toppliðunum væri með þessa varnarmiðjumenn? Ég hugsa að þeir kæmust ekki í byrjunarlið topp 6 liða í Englandi. Nú er ég t.d. ekki að gera lítið úr Bajcetic sem var frábær þegar hann fékk sénsinn á sínum tíma. En, hann er að koma úr langtíma meiðslum og er ennþá ungur og já frekar óreyndur. Ekki gleyma að hann fór fram úr væntingum okkar á sínum tíma en hvernig mun hann bregðast við með auknum væntingum og þegar pressan að standa sig eykst? Þegar hann skaust fram á sjónarsviðið fékk hann afslátt þ.s. hann var ungur og óskrifað blað. Hann stóð sig vel og er greinilega mikið efni en við getum ekki lagt svona mikla ábyrgð á hann strax. Það er haugur af leikjum framundan í öllum þessum keppnum næsta vetur og við þurfum sannarlega að bjóða uppá meira en Endó-Bajcetic-Morton í þessari DMC stöðu. Ég segi, þetta er mikilvægasta ráðningin hjá okkur í sumar.

    Auk þess gæti vinstri bakvarðarstaðan orðið vandamál ef Robertson missir úr marga leiki. Spurning hvort hægt væri að styrkja með því að kaupa miðvörð sem gæti líka smellt sér í vinstri bakvörðinn ef á þarf að halda. Gomez stóð sig reyndar firnavel í þessari stöðu síðasta tímabil… en bara að muna að banna honum að skjóta á markið! (Það á auðvitað við hvaða stöðu sem hann spilar).

    Að lokum, og það hefur auðvitað áhrif á hvað þarf að versla. Liverpool verður að skipta út leikmönnum sem er alltaf á sjúkrabeddanum og fá menn inn í staðinn sem ,,geta mætt í vinnuna” og hlaupið um grænar grundir á leikdegi. Einar Matthías fer vel yfir hvaða leikmenn þetta eru. Það er ekki raunhæft að skipta þeim öllum út í einu en einhverjir þurfa að fara.

    2
    • Aðeins að árétta varðandi að stilla upp Endo – Bajcetic – Morton sem helstu DMC valkostum þá finnst mér mikið líklegra líkt og á síðsta tímabili að enginn af þeim verði ofar en 5. til 9.valkostur á miðjuna og einhver af hinum frekar að spila dýpra. Hjaranlega sammála að vilja fá inn okkar Rice, Rodri eða Caicedo.

      Miðað við markaðinn finnst mér enginn blasa við sem uppfyllir þær kröfur en það er líka starf tölfræðinördanna sem greina hvað félagið á að kaupa að finna þá leikmenn og helst áður en þeir eru orðnir jafn augljós valkostur og t.d. Rice og Caicedo sem kostuðu báðir yfir 100m.

      Miðvörður er samt meira aðkallandi að mínu mati

      3
      • Ég er bara hræddur um að við verðum að hafa alvöru varnarmiðjumann inná. Við lákum mörgum mörkum á síðasta tímabili og ekki ólíklegt að ástæðan sé m.a. að vörnin var ekki að fá næga hjálp frá miðjunni. En ég tek undir, vonandi finna tölfræðinördarnir svona leikmann. Svona svipað og þegar Fabinho kom á sýnum tíma. Það var ferlegt að hann skyldi ,,bræða úr sér” ennþá á besta aldri. Varðandi miðvörð þá er ég sammála að það sé aðkallandi, sérstaklega þ.s. við getum hreinlega ekki treyst á Konate. Eins frábær leikmaður og hann er.

  7. Afsakið þráðránið, en hvernig er best að nálgast Liverpool TV hér á Íslandi? Er það með því að kaupa áskrift í gegnum https://video.liverpoolfc.com/?

    Og til að þetta sé ekki 100% þráðrán þá þakka ég Einari fyrir stórgóðan pistil og eins eru hér margar góðar athugasemdir við pistilinn.
    Mér líst vel á að kaupa heimsklassa varnarsinnaðan miðjumann og helst miðvörð sem getur leyst vinstri bakvörðinn líka.

    2
    • Man ekki alveg en er þetta ekki partur af ákskriftinni á enska boltanum hjá Símanum?

      En Liverpool Go er annars málið já, sérstaklega á sumrin

      1
  8. Er Kubo á leiðinni? Þá hlýtur Salah að vera á leiðinni í sandinn.

Gullkastið – Logn Á Undan Stormi?

Gullkastið – Lífsmark á leikmannamarkaðnum?