Hveitibrauðsdagar Hughes á enda

Það að Martin Zubimendi snúist hugur og gangi á bak orða sinna á elleftu stundu er alls engin heimsendir fyrir Liverpool. Auðvitað ákaflega pirrandi, lélegt hjá honum gagnvart Liverpool og nokkuð vandræðalegt fyrir félagið og ekki síst nýjan yfirmann knattspyrnumála sem hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut í sumar til að gera stuðningsmenn Liverpool spennta og byrjar svo á svona hressilegri þrumu skitu. Skítur skeður, Liverpool hefur sannarlega tekist á við stærri áföll en þetta.

Vandamálið er bara að þetta er alls ekki í fyrsta skipti undanfarin ár sem Liverpool virkar allt of svifaseint og máttlaust á leikmannamarkaðnum. Það vantar ekki magnið af afsökunum en staðreyndin er að núna þrjú ár í röð hefur félagið klúðrað því að kaupa miðjumenn sem hefðu augljóslega styrkt byrjunarliðið. Þeir virðast núorðið aðeins ná að finna einn varnartengilið á ári sem hugsanlega gæti styrk byrjunarliðið og ef það klikkar er allt ónýtt.

Það er ekkert eðlilega lélegt að bráðvanta djúpan miðjumann árið 2022 og enda með Arthur Melo á láni sem spilar tæplega korter allt tímabilið. Hvað þá að selja Fabinho sumarið eftir, kaupa þrjá miðjumenn sem ekki eru varnartengiliðir og klúðra skrautlega kaupum á þeim fjórða aðeins til að enda aftur á panic valkosti, 30 ára japana frá Stuttgart sem bókstaflega enginn hafði heyrt um áður. Núna erum við þriðja árið í röð að horfa upp á svipað pirrandi sumar og höfum alveg í huga að Zubimendi alls ekki eins spennandi profile af leikmanni og augljós styrking og maður sá fyrir sér í bæði Tchouaméni eða Caicedo.

Þetta er líka bara svo mikilvæg staða fyrir liðið, þegar Endo var kominn betur up to speed í deildinni um mitt síðasta tímabil og fór að byrja leiki var loksins hægt að færa Mac Allister framar og sjá fyrir alvöru þann heimsklassa leikmann sem hann er. Er í alvöru enginn annar en Zubimendi sem getur bætt Liverpool umfram það sem Endo gerir og jafnframt frelsað þær áttur sem við höfum verið að nota sem sexur?

Ef og hefði en hversu mikið hefði t.d. Declan Rice sem dæmi styrkt Liverpool liðið síðasta vetur? Hann fór síðasta sumar til Arsenal, það félag hefur hreint ekki verið að gera merkilegri hluti en Liverpool undanfarin ár, nýkomnir í Meistaradeildina en samt miklu öflugri og beinskeyttari á leikmannamarkaðnum. Liverpool var á endanum bara níu stigum frá City, fékk á sig 41 mark á síðasta tímabili og gerði 10 jafntefli. Hversu mikið hefði bara eðlilegur arftaki Fabinho í sambærilegum gæðaflokki getað minnkað þetta bil og þétt liðið varnarlega? Þó að Caicedo hafi alls ekki átt gott tímabil hjá Chelsea er auðvelt að sjá fyrir sér hvernig hann hefði passað í Liverpool liðið og styrkt fyrir alvöru.

Það kemur upp nýtt nafn á hverju ári sem við höfum ekki heyrt um áður en er alveg “ómissandi”, bæði Tchouaméni og Caicedo eru dæmi um slíka leikmenn en hvorugur var til umræðu 12 mánuðum áður en þeir voru +€100m leikmenn. Liverpool á að vera með nógu þétta greiningadeild og traust á tölfræði til að finna þennan mann og taka í gikkinn.

Eins og áður þá er ekki ástæða til að panikka alveg strax, klárum þennan glugga en það er nokkuð augljóst að liðið sem endaði í þriðja sæti er ekki líklegt til að enda ofar með því að selja nokkra unga og mjög efnilega leikmenn, losa eldri menn af samningi og út sjúkrarúmunum en kaupa ekkert í staðin. Það er nógu erfitt verkefni fyrir Slot að taka við af Jurgen Klopp þó hann fengi að eyða eins og Chelsea í leikmenn. Það eru líka nokkrar stöður í liðinu sem sannarlega er hægt að styrkja.

Liverpool var að missa Jurgen Klopp og er með þrjá af sínum helstu lykilmönnum á síðasta ári af sínum samningum. Það þarf að gera eitthvað alvöru stórt á leikmannamarkaðnum til að sýna fyrir bæði stuðningsmönnum og ekki síður helstu stjörnum liðsins að markmiðið er að berjast áfram á toppnum. Richard Hughes er yfirmaður knattspyrnumála en kemur inn sem beintenging við Michael Edwards sem er yfir knattspyrnuhluta FSG. Orðspor Edwards er mjög gott eftir árin sem hann tók með Klopp en gleymum ekki að Liverpool var líka oft mjög varkárt og pirrandi á leikmannamarkaðnum á hans tíma. Hann er sagður koma til baka til að sjá um kaup á öðru knattspyrnuliði og ekki byrjaði hann mikið betur þar en Hughes ef Bordeaux var liðið sem átti að bæta við FSG samsteypuna!

Arsenal endaði í öðru sæti tímabilið 2022-23 og bætti við sig Rice, Havertz, Timber og Raya. Leikmannakaup sem fara upp í €270m núna eftir að þeir klára kaupin á Raya formlega. Allt leikmenn sem styrkja byrjunarliðið/hópinn þó Timber hafi vissulega verið óheppinn með sín meiðsli. Liverpool hefði að lágmarki þurft að eiga sumar eitthvað í líkingu við þetta núna. Hvað þá í kjölfar þess að hafa misst af nokkrum stórum skotmörkum sem félagið var tilbúið að greiða rúmlega €100m fyrir.

Það er aðeins millivegur á því að vilja kaupa leikmenn til þess eins að kaupa leikmenn og að vera of varkárir og halda því fram að það sé nánast ekkert hægt að gera á leikmannamarkaðnum sem styrkir núverandi hóp. Það að núverandi hópur Liverpool er hálft tímabilið meira og minna hjá sjúkraþjálfara er ein helvíti góð vísbending sem dæmi að það er ekkert mál að styrkja núverandi hóp.

Chelsea er öfga dæmið í hina áttina, þeir hafa núna undanfarin tvö ár keypt 35 leikmenn, ef þessi fjöldi er heimfærður á Liverpool erum við að tala um Bobby Firmino og Joe Gomez sem komu sumarið 2015 til Liverpool. Það er auðveldara að vera með gott track record á leikmannamarkaðnum ef þau kaupir nánast aldrei leikmenn en er t.d. síðasta tímabil ekki ágætt dæmi um að það að styrkja ekki hópinn nóg kostaði á endanum? Sumarið 2022 kostaði klárlega Meistaradeildarsæti árið eftir, Liverpool hefði sannarlega betur verið með plan B klárt það sumar. Það eru ekki einu sinni eftiráfræði að halda því fram, það blasti við þá um sumarið.

Hvaða stöður mætti styrkja

Varnartengiliður

Það er jákvætt að félagið er ennþá með varnartengilið eða svona aftari miðjumann á stefnuskránni þó fréttir eftir Zubimendi fíaskóið séu ekki jákvæðar, félagið virðist ekki vera með plan B í þá stöðu.  Stefan Bajcetic er m.a.s. sagður mega fara á láni og Tyler Morton virðist ekki heldur eiga að verða lausnin.

Ryan Gravenberch gæti verið innanhús lausn sem Liverpool getur horft til sem var lítið sem ekkert notað af viti á síðasta tímabili. Eins má alveg spyrja hvaða hlutverki var honum ætlað ef ekki sem djúpur miðjumaður? Hann kom á sama tíma og Mac Allister og Szoboszlai og félagið var fyrir með Elliott og Jones á miðjunni.

Tölfræðilega er hann ekki með síðri tölur en Zubimendi en hann þarf þá í fyrsta skipti í einhver ár að sýna smá stöðugleika og festa sig í sessi í liðinu. Hann byrjaði gegn Sevilla sem er kannski vísbending fyrir helgina um að hann verði fyrstur til að fá tækifærið hjá Slot. Þegar maður ímyndar sér varnartengilið sem Liverpool vantar helst núna er maður alls ekki með Gravenberch týpu í huga, ekki ennþá allavega.

Wataru Endo hefur sjálfur talað um þröfina á að kaupa alvöru sexu sem er áhugavert! Komi ekki nýr leikmaður er hann auðvitað áfram ágætur squad möguleiki en þetta bara er ekki leikmaður sem þú byggir lið í kringum og treystir til að binda saman miðjuna heilt tímabil.

“Ef að það er hægt að kenna Curtis Jones að verjast er hægt að kenna öllum að verjast” sagði Jurgen Klopp um Jones sem segir kannski það sem þarf um hversu mikið hann er ekki náttúrlegur varnartengiliður. Hann hefur þó vissulega spilað vel sem annar af tveimur aftari miðjumönnum á U21 árs levei fyrir enska landsliðið. Þá reyndar þyrftum við líka að treysta á að hann haldist heill, eitthvað sem engum hefur ennþá tekist að kenna honum.

Mac Allister er auðvitað einnig líklegur kostur og mögulega Szoboszlai sem myndi færa okkar bestu miðjumenn úr stöðu, aftur. Það hefði í raun átt að vera stærri umræða síðasta vetur, hver var tilgangurinn með Gravenberch úr því Mac Allister spilaði alltaf sem aftasti miðjumaður frekar en t.d. hann?

Sóknarmaður

Liverpool skoraði 86 mörk á síðasta vetur sem bendir til að sóknarleikurinn var ekkert afleitur en engu að síður endaði maður tímabilið þannig að það var enginn úr framlínunni sem var ómissandi. Færanýting liðsins öskraði á ferskt bóð í framlínuna og jafnvel tvo frekar en einn. Sérstaklega vantar okkur alvöru hraða sem hræðir andstæðinga Liverpool. Ef að félagið er búið að klúðra kaupum á varnartengilið og hefur enga hugmynd um annan leikmann sem gæti styrkt þá stöðu væri ekki úr vegi að koma með alvöru statment annarsstaðar á vellinum.

Miðvörður

Örfættur miðvörður / bakvörður er annað augljóst sár sem blasir við að hægt sé að styrkja en eins og staðan er núna finnst manni líklegra að frekar verði treyst eitt ár enn á Gomez (og jafnvel van den Berg) til að bakka upp Van Dijk, Konate og Quansah.

Vinstri bakvörður

Andy Robertson er +30 ára og spilaði 50% af deildarleikjum síðasta tímabils. Það ætti að kveikja á öllum sírenum um að finna þarf arftaka hans og gera það helst 1-2 árum áður en Robbo kveður félagið. Tsimikas er enganvegin maðurinn í það, hvorki hvað gæði varðar og því síður heilsufarslega.

Endurnýjun Liverpool 2020

Liverpool liðið 2020 vann deildina með 99 stigum og árið áður Meistaradeildina auk þess sem þeir voru með 97 stig í deildinni. Þetta er besta lið félagsins og ætti að vera viðmiðið þegar hópurinn er endurnýjaður jafnt og þétt. Skoðum í gamni hvernig Liverpool gengur að endurnýja þetta gullaldarlið.

Markmaður

Alisson árið 2020 var líklega á hátindinum en er aðeins meira áhyggjuefni núna enda missti hann rúmlega 1/4 úr af síðsta tímabili. Varamarkmaðurinn er hinsvegar öflugri. Ekki þörf á breytingum hvað aðalmarkmann varðar.

Hægri bakvörður

Líklega best mannaða staða liðsins og stærsta verkefni Richard Hughes í sumar er sannfæra Trent um nýjan samning, það er mikilvægara en öll leikmannakaup. Hann er núna á besta aldri en var á aldur við Bradley í 2020 liðinu. Bradley nýtti fjarveru Trent á síðasta tímabili vel og er núna á mörkum þess að vera of góður til að vera ekki í liðinu.

Miðverðir

Van Dijk var einn besti leikmaður í heimi árið 2020. Ekki bara langbesti miðvörður í heimi. Hann er ennþá okkar langmikilvægasti varnarmaður en maður óttast að leikjaálag undanfarin ár fari að segja til sín. Konate er að taka hlutverk sitt sem arftaki Matip allt of bókstaflega á meðan Quansah er að þróast í leikmann sem verður betri en Lovren. Gomez var í miklu stærra hlutverki árið 2020 en hann er í dag. Þessi staða var bara miklu ferskari og betur mönnuð árið 2020 en hún er núna og þarna er kominn tími á ferskt blóð sem getur spilað +80% leikja liðsins ár eftir ár. Quansah verður vonandi annar þeirra en það er erfitt að sjá Konate eða Gomez fyrir sér gera það og mætti alveg losa burt leikmenn sem eru fjarverandi a.m.k helminginn af hverju tímabili.

Vinstri bakvöður

Robbo er ennþá mjög góður vinstri bakvörður og engin aðkallandi þörf á að skipta honum út en draumurinn væri að fá inn strax leikmann sem er nógu góður til að veita honum samkeppni og phase-a hann út jafnt og þétt. Ekki ósvipað og hann gerði við Moreno.

Varnartengiliður

Fabinho fékk aðrar stöður til að tikka og var á hátindi ferilsins á þessum tíma. Að fara úr honum í að vita ekki almennilega hver er hans eiginlegi arftaki í liðinu er gríðarleg veiking. Endo er sá eini af fjölmörgum miðjumönnum liðsins yfir utan unga leikmenn eins og Bajcetic og Morton sem er eiginleg sexa líkt og Fabinho var. Augljósasti veiki blettur liðsins og hefur verið í nokkur ár núna.

Miðjumaður

Mac Allister hefur alla burði til að vera uppfærsla á Henderson þó ekki megi vanmeta mikilvægi fyrirliðsins fyrir Liverpool þegar hann var upp á sitt besta. Sérstaklega sóknarlega er Mac Allister meira spennandi auk þess sem hann er með þær fersku lappir sem við vorum farin að sakna óskaplega hjá Henderson.

Szoboszlai er sömuleiðis meira spennandi leikmaður en Wijnaldum en Hollendingurinn var rosalega drjúgur á miðjunni og þá sérstaklega í skítverkum sem hjálpuðu leik liðsins í heild. Henderson og Wijnaldum ásamt auðvitað Fabinho gáfu Trent og Robbo miklu meira frelsi en núverandi miðja gerir.

Gravenberch og Endo eru gríðarleg bæting á Naby Keita bara fyrir það eitt að vera heillir heilsu mikið oftar. Sömuleiðis er Harvey Elliott að skila liðinu miklu meira en Lallana og Ox fyrir það eitt að vera heill heilsu. Hann hefur auk þess mun hærra þak.

Curtis Jones er sömuleiðis miklu öflugri leikmaður en hann var sem unglingur árið 2020, mikið meira alhliða miðjumaður en þarf að sanna að hann ráði við smá leikjaálag ef hann ætlar að eiga mikið lengri framtíð hjá Liverpool.

Miðjan fyrir utan varnartengilið hefur því verið uppfærð nokkuð vel

Vængmenn

Mo Salah er ennþá eini alvöru valkosturinn hægra megin og hann er ekki jafn góður núna og hann var árið 2020 þegar hann var bókstaflega talinn meðal bestu leikmanna í heimi. Salah ætti að eiga töluvert meira inni en hann sýndi síðasta vetur líkt og aðrir í framlínu Liverpool. Rétt eins og Van DIjk og Robbo verður hann ekki eilífur og þarf félagið að fara hugsa út í það hvernig þeir fylla hans skarð þegar að því kemur.

Luis Diaz er góður leikmaður en hann er bara alls ekki nálægt því jafn drjúgur og Sadio Mané var. Hann skortir end product til þess auk þess sem hann hefur ekki sama sprengihraða og Mané og Salah höfðu árið 2020. Diaz skoraði sem dæmi níu mörk í deildinni síðasta vetur (bara átta þeirra töldu reyndar) og lagði upp fimm mörk. Til samanburðar skoraði Anthony Gordon tólf mörk og lagði upp tíu í mun verra Newcastle liði. Það gæti verið ein ástæða þess að hann hefur verið orðaður við Liverpool og hinn í burtu. Gordon sem er fjórum árum yngri og enskur er auk þess með þennan sprengihraða sem vantar í framherja Liverpool.

Cody Gakpo hefur nánst ekkert spilað á vinstri vængnum hjá Liverpool þrátt fyrir að vera nánast bara þar sem leikmaður PSV og hjá Hollandi. Hann hefur ekki heldur þennan sprengihraða en spurning hvort félagið væri ekki betur sett að halda honum frekar en Diaz og bæta við öðrum fljótari með sem tæki þá stöðuna af Diaz? Það er a.m.k. ljóst að Liverpool á töluvert inni miðað við hvað Gakpo getur, meira en Diaz á kannski inni?

Sóknarmenn

Diogo Jota er einn af fjölmörgum frábærum leikmönnum Liverpool sem bara er ekki nógu oft með og ætti að vera vel hægt að uppfæra hann með leikmanni sem er ekki alltaf meiddur. Takist Slot og co að halda honum frá þessum endalausu meiðslum getur það skilið á milli titlasöfnunar og ekki því þegar hann er heill heilsu er hann einn af bestu sóknarmönnum deildarinnar.

Darwin Nunez er kominn á síðasta séns og jafnvel umfram það hjá mörgum stuðningsmönnum. Það verður mjög spennandi að sjá hvort Slot nær að fínpússa hann betur í vetur því það er erfitt að ímynda sér leikmann sem vantar meira bara herslumuninn.

Salah – Mané – Firmino var miklu öflugra tríó en þessir fimm sem við erum með núna en við gætum enn átt töluvert inni frá núverandi sóknarlínu.

Aðrir

Það er að rætast vel úr Elliott, van de Berg og Kelleher sem voru meðan ungu strákanna árið 2020. Núverandi hópur er að fá töluvert af mínútum og ljóst að síðasta tímabil var góður skóli. Jaros er núna á svipuðum stað og Kelleher var. Trey Nyoni er engu minna efni en Harvey Elliott var á svipuðum aldri. Bajcetic gæti hafa misst af Liverpool lestinni vegna meiðslanna í fyrra en gæti að sama skapi allt eins sprungið út þegar líður á tímabilið. Hans leikstíll er í raun það sem félagið er helst að reyna kaupa. Fabio Carvalho er farinn, Bobby Clark virðist vera að fara, Doak, Gordon og Koumas eru sterklega orðaðir burt á láni eða jafnvel að þeir verði seldir. Tyler Morton er mjög líklega að fara í Úrvalsdeildarlið verði hann ekki áfram hjá Liverpool. Það eru mun meiri gæði og verðmæti í akademíunni núna ern voru 202 og átti Liverpool þá engu að síður góða leikmenn líka.

Þannig að

Það er engin heimsendir ef félagið gerir ekkert en á sama tíma er vel hægt að koma með alvöru statment með kaupum á alvöru sprengju sem styrkir hópinn strax.

18 Comments

  1. Ég gæti ekki verið meira samála þér. meðvirkni er aldrei gott fyrirbæri.
    Og það er nefnilega munur hvernig þú kaupir inn og óþarfi að kaupa bara til þess að kaupa.
    menn benda öllum puttum í átt að Chelsea og segja sjáið!

    Það má benda á City líka, ef þeir missa mann þá reyna þeir sem fyrst að fylla upp í það
    Fernandinho fer árið 2022 og Rodri er hugsaður sem arftaki og er keyptur á 80p árið 2019

    Við erum ekki að bera okkur saman við City fjárhagslega en við erum heldur ekki að bera okkur saman við Chelsea!

    En Liverpool er vel rekið félag og ef mér skjálast ekki er met hagnaður spáð hjá félaginu eftir tímabilið sem er að hefjast.

    Ég skil að erfitt sé að semja við Van Dijk gæi sem er á háum launum og er 34 ára eftir núverandi tímabil. og hversu langur á þessi samningur á að vera og hvað eiga laun að vera há.

    Bendi ég á Tihago samningin sem var mjög hár og skilaði félaginu ekki miklu þar sem hann var mikið frá. En mögulega áhætta sem var þess virði að taka. hann var um 30ára þegar hann kom?

    Sama má segja um Salah, þetta eru flóknir samningar.

    TAA það á að vera auðvelt að semja við hann ef vilji er fyrir hendi frá honum og félaginu.
    við vitum að við þurfum að blása út budduna. en ef hann er eins Loyal og vinur okkur á spáni sem hafnaði félaginu og samndi á minni launum en við hefðum boðið honum. þá skrifar hann undir hjá Liverpool á Salah launum? framyfir gullið sem Real eða aðrir klúbbuar munu koma með að borðinu.

    Það að félagið muni ekki blása smá lífi í nýja tíma með smá statement kaupum sem munu rífa upp smá bjartsýni inn í félagið er bara ekki nógu gott og bara alls ekki.
    Það er enginn að ræða það núna hvort LIverpool séu meistara kandidandar er heldur ekki gott.

    Öll umræða um nýjan stjóra og nýtt hitt og þetta, skiptir bara engu máli. Liverpool er félag sem á að stefna á titla. og þeir sem stjórna eiga að ráða stjóra sem getur viðhaldið þeir árangri sem hefur verið unnin en til þess þarf hann að fá að keppa á sömu línu og aðrir stjórar og það er að fá inn menn sem hann telur að hann þurfi.

    en glugganum er ekki lokið og menn hafa en tíma til þess að sýna okkur að þeim sé alvara. og enginn ástæða til þess að fresta því að ná árangri.
    Og það að segja að það séu ekki til nægjanleg kæði þarna úti til þess að bæta við leikmannahóp sem endaði í 3 í PL og vann Carling cup er svo ótrúlega hlægileg og vonandi að menn trúi því bara ekki!
    Það á að vera krafa okkar að FSG og það fólk sem það ræður til vinnu sé nógu hæft til þess að búa til lið sem er samkeppnishæft við þau bestu.

    8
  2. Það er auðvelt að verða bara REIÐUR OG PIRRAÐUR þegar kemur að leikmannakaupum Liverpool þessa dagana. Eða öllu heldur engum kaupum Liverpool. Manni fallast bara hendur. En eftir að hafa andað smá verður maður aðeins rólegri.

    Ég sé samt ekki Liverpool kaupa sexu í sumar fyrst að Zubimenda klikkaði. Ætli það verði ekki bara notast við Gravenberch þar með Endo og Bajcetic/Nyoni sem backup. Það hefur allavega sýnt sig að Liverpool undir stjórn Michael Edwards kaupir ekkert í bræði. Þegar Liverpool reyndi að kaupa Ben Chilwell og það klikkaði þá biðu menn í ár eftir að finna Robertsson og Milner spilaði í vinstri bak heilt tímabil. Þegar kaupin á VVD klikkuðu var haldið sig við Lovren í hálft ár þangað til VVD var fáanlegur á ný. Svona vinnur bara ME og Hughes fylgir í hans fótspor.

    Það verður pottþétt keypt eitthvað, það verður bara ekki þessi frægi varnartengiliður. Ég þori að leggja undir að svo verði ekki.

    4
    • Þeir eru nú ekkert að kaupa í bræði Haukur minn, þeir hafa haft ALLAN gluggann til þess að versla leikmenn og það vita allir og amma þeirra hvaða stöður þarf að styrkja.
      Það er ekki eins og Liverpool sé eitthvað fullkomið lið, laaangt frá því. Nú á eitthvað að fara að máta hinn og þennan í sexuna, eins og eitthvað þróunarstarf.
      Ég er skíthræddur um að það verði “rude awakening” hjá okkur á móti Ipswich í fyrsta leik, og fyrst þá verði miðlungs panic kaup gerð.

      3
  3. Það eru samt greinilega til nægir peningar fyrst það á að kaupa markvörð fyrir 30mp frá Valencia.
    Við erum að fá Giorgi Mamardashvili sem líklegast verður lánaður í 1-2 ár til Bourmouth líklegast.
    Sennilega sú staða sem minnst þarf að styrkja akkurat núna.

    5
    • Það er samt nær þessu forward planing sem maður hefði viljað sjá á miðjunni undanfarin ár. Ekki losa Henderson, Fabinho, Keita og Milner alla á einu bretti og kaupa þá um sumarið arftaka þeirra. Thiago var ekki beint framtíðarlausn heldur þegar hann kom er einn af þeim sem félagið þurfti basicly líka að skipta út síðasta sumar.

      3
      • Ég er mjög hlynntur því að það sé verið að gera ráðstafanir varðandi markvarðastöðuna og þá sérstaklega ef að Kellegher er að fara. Ég var bara að benda á að þá hljóti að vera til nægur peningur til að kaupa í þær stöður sem vantar nauðsynlega í núna strax.
        Hefði kannski kosið ef það hefði verið hægt að fá markvörð með þægilegra nafn heldur en Mamardashvili 🙂 en hann virðist vera hörkumarkvörður þannig að ég verð sáttur með hann.

        2
      • Ég er mjög hrifinn af þessari pælingu með að tryggja sér leikmanninn áður en vöntunin verður öskrandi vond.
        Held samt að hann verði áfram hjá Valencia þangað til að hann kemur til okkar.
        Hörkuflottur markmaður fyrir framtíðartímabil.

        4
  4. Flottur pistill og meira og minna sammála því sem kemur þar fram.

    Kannski helst þetta með Wijnaldum en Szobo er að mínu mati frekar langt frá því ná sama standard og Wijnaldum náði þó ég telji Szobo flottan leikmann.

    Reyndar hefur mér alltaf fundist eins og að við höfum aldrei fyllt í skarðið sem Wijnaldum skyldi eftir sig.

    Áfram Liverpool!

    5
  5. Fínasti pistill og margt sem ég er sammála.
    En það er þetta með þennan blessaða varnartengilið. Alveg sammála því með síðasta ár þegar Fabinho fór. En erum við ekki að horfa fram á breytt leikkerfi, þ.e. að Slot sé ekki að spila með einn djúpan miðjumann?
    Hann er meira að nota double pivot kerfi, þar sem tveir miðjumenn eru neðar og svo ein “tía” fyrir framan þá. Miðað við það sem maður hefur lesið um (og séð eitthvað) Zubimendi, þá er hann ekki þessi ryksuga fyrir framan vörnina, heldur meiri svona playmaker.
    Ef við værum að spila gamla kerfið, þá já, algjörlega nauðsynlegt að bæta við djúpum miðjumanni. En í þessu kerfi?
    Persónulega myndi ég allavega setja kaup á örfættum miðverði ofar á listann.
    Er því nokkuð slakur yfir þessu…í bili.

    13
    • Ótal köll úr öllum áttum eftir varnartengilið.

      Það er eins og menn taki því sem gefnu að Slot muni spila sama kerfi og Klopp.

      Slot hefur alltaf spilað double pivot og allt bendir til að helst sé verið að leita af afturliggjandi leikstjórnanda, einhvers konar Alonso týpu.

      Gravenberch hefur komið vel út í þessu hlutverki.

      1
  6. Af því að reglur deildarinnar segja að það megi ekki lána leikmann til annars liðs í sama glugga og hann er keyptur í liðið þá er þetta staðan.

    Fabrizio Romano
    @FabrizioRomano
    ·
    4m
    ?? Liverpool potential plan for Giorgi Mamardashvili, already clear: he’d join Bournemouth for one season from Valencia.

    Mamardashvili would only formally join #LFC from 2025 after #AFCB season ?

    Giorgi already accepted Liverpool plan and contract terms.

    Up to the clubs.

    2
  7. Það er líka statement ef Liverpool kaupir engan leikmann ! Það þýðir þá bara að menn sætta sig við að vera ekki að berjast um titlinn, heldur bara að ná 4-6 sæti.

    9
    • Þessi hópur náði þriðja sæti í vor. Voru langt fyrir ofan liðið í fjórða.

      Hvers vegna þá að sætta sig við 4-6 sæti?

      2
      • Mér sýnist FSG vera með það statement. ÖLL liðin í topp 6 NEMA Liverpool eru að styrkja sig. Ég get alveg séð Chelsea, Newcastle, Tottenham og Villa fyrir ofan okkur í maí. Hvað þá shitty sem vinnur, Arsenal sem endar nr. tvö, og svo Man Utd eða Chelsea nr 4.
        Það eru fleiri leikir í CL, svo eru tvær bikarkeppnir þar sem við notuðum mikið guttana, en erum að sópa þeim út núna. Glæsilegt, MIKILL metnaður !

        3
      • þú nefnir að City vinni þetta.

        Alvarez út á 90m og Savinho inn á 25.

        Þeir hafa engan veginn styrkt liðið heldur veikt það (gæti svosem breyst fyrir gluggalok).

        Liverpool með óbreyttan leikmannahóp hrynur niður töfluna á meðan veikara City lið mun halda áfram að bæta sig?

        1
  8. Merkilegt að sjá hversu mörg kaup virðast ekki ætla að ganga eftir (sbr.t.d. Gallagher og Athletico) og er það ekki merki um að fjárhagsstaða liðanna sé erfið? Það getur þýtt að leikmaður bjóðist óvænt og Liverpool nýti sér það þegar líður að lokum gluggans.

    2

Gullkastið – Afleit byrjun hjá Richard Hughes

Spá Kopverja – fyrri hluti