Spá Kopverja – fyrri hluti

Þá er komið að því.

Framundan 9 mánuðir þar sem maður mun láta hóp leikmanna hafa áhrif á daglegt líf sitt og mynda með manni skoðun á hollenskum manni sem maður mun sannarlega ekki hitta í sundi eða á öðrum vettvangi. Nett klikkun vissulega, en staðreynd samt. Fyrsti leikur í Premier League er framundan og við vitum að fólk er farið að frísa eins og hross í veðhlaupabásnum eftir að fá lífsbreytanlegan lestur um okkar spá fyrir deildina í vetur.

Þetta er orðin klassík, pennarnir raða upp liðum í sæti 1 til 20 þar sem liðin fá “öfug stig”, þ.e 1.sætið gefur 20 stig og 20.sætið gefur 1 stig. Að þessu sinni er eilítið “twist” á spánni sem verður útskýrt betur í síðari hlutanum en lendingin verður sú að það eru níu pennar sem taka þátt í heildarpakkanum, en ein “fráviksspá” verður birt í heild sinni á morgun, fimmtudag.

Þetta þýðir að mest geta lið fengið 180 stig en minnst 9 stig, í þessum fyrri hluta tölum við um liðin í 11. – 20.sæti.

20.sæti Southampton 20 stig

Nýliðarnir unnu playoffsleikinn gegn Leeds og það er nú eiginlega orðin regla að við setjum þann leikmannahóp reglulega neðstan í spánni okkar. Það er þó frétt að neðsta liðið fái þó þetta mörg stig og er því ávísun á að stigadreifing í allra neðstu sætunum sé breiðari en oft áður. Stjórinn Russell Martin fær nú að stýra liði í efstu deild eftir góðan árangur í neðri deildunum, sá er klókur og vill að sín lið spili góðan fótbolta með jörðinni og pressi hátt. Þegar Soton féll síðast misstu þeir marga leikmenn og komust upp í fyrra með frekar ungt lið og leikmenn með reynslu af Championshipdeildinni. Í sumar hafa þeir bætt í hópinn leikmönnum af svipuðum meiði, leikmönnum með árangur í neðri deildunum og síðan keyptu þeir tvo unga í þeim Harwood-Bellis frá Man City og Flynn Downes frá West Ham. Spennandi var svo að sjá þá sækja Adam Lallana sem hyggst enda meistaraflokksferilinn þar sem hann hóf hann og þeir keyptu líka Brereton-Diaz frá Villareal eftir fína frammistöðu með Sheffield United. Við teljum þetta bara ekki verða nóg, bilið á milli deilda þarna eykst stöðugt og Soton fara neðstir niður.

19.sæti Ipswich 20 stig

Nú þarf að útskýra reglur, sami stigafjöldi tveggja neðstu, þá ræður fjöldi “hæstu punkta”. Einn penni telur annað hvort þeirra halda sér uppi en fleiri telja semsagt Ipswich verða í 18.sæti en Soton. Við leggjum þetta þá út þannig að Ipswich verður í 19.sæti á markatölu. Stóra fréttin er auðvitað að þetta fornfræga lið frá Suffolk héraði fór upp tvær deildir á tveimur árum sem er ansi magnað afrek við mikinn fögnuð aðdáenda sinna, hvort sem var á heimasvæðinu þar sem Ed Sheeran gladdist ósegjanlega eða á Íslandi hvar liðið á öflugan stuðningshóp. Verkefnið er risastórt en það skipti miklu máli fyrir þá að stjórinn Kieran McKenna valdi sér það að halda starfinu áfram frekar en að horfa til annarra stærri liða, hann hefur náð eftirtektarverðum árangri og líkt og Soton byggt sinn leik á því að sækja frekar en verjast, nokkuð sem gæti nú reynst ansi erfitt í efstu deild. Í sumar hafa þeir ekki bætt við sig mörgum leikmönnum, stærst var að kaupa Omari Hutchinson frá Chelsea en hann var í láni hjá þeim í fyrra. Líkt og Soton sóttu þeir sterka leikmenn úr Championship deildinni, (Jacob Greaves frá Hull stærstur þar) og ungling frá City, Liam Delap. Það er sannarlega nostalgía að fá bláklædda Ipswich menn upp og hvað þá að eiga þá í fyrsta leik fyrir framan troðfullan 30000 manna völl á Portman Road. Liðið mun sannarlega vera spennandi, en fellur þó að lokum.

18.sæti Leicester 29 stig

Bestir af nýliðunum þetta árið eru Leicester sem koma beint upp eftir eitt ár í Championship en það skyggði vissulega á að stjórinn Maresca yfirgaf bátinn fyrir Chelsea-sirkusinn og þeirra besti maður Dewsbury-Hall valdi að fylgja honum. Nýja stjórann þekkum við ágætlega, Steve Cooper var lengi í yngri liðum LFC og náði fínum árangri með Forest á þeirra fyrsta ári svo hann veit hvað þarf. Yfir liðinu vofir dómur vegna fjármálavanda sem gæti hæglega endað með refsingu upp á 4 – 10 stig sem ekki mun hjálpa til. Félagið auðvitað náði stórkostlegum árangri um langa stund fyrir ekki of löngu en vofeiflegt dauðaslys eigandans hafði augljóslega áhrif á félagið. Leicester hafa verið mjög hljóðlátir á leikmannamarkaðnum, ungir menn að koma frá Evrópu og enn bara Cordova-Reid með úrvalsdeildarreynslu en að öðru leyti er yfirstandandi rannsókn sannarlega að hafa áhrif á þá og stjórann. Cooper keypti heilt nýtt lið fyrir Forest svo hann gæti alveg hoppað til í lok mánuðar ef peningar verða fyrir hendi en heilt yfir teljum við Leicester einfaldlega ekki hafa það sem þarf til að halda sér uppi.

17.sæti Nottingham Forest43 stig

Eins og sést af stigamun liðanna sem við spáum falli og því sem sleppur við fallið má sjá að það er töluverður munur að okkar viti, semsagt þá eru nýliðarnir nokkuð slakastir liðanna 20 en Skírisskógspiltar verða þeir sem líklegastir verða til að detta niður utan þeirra. Liðið sigldi nokkuð lygnan sjó að lokum í fyrra en okkur fannst þeir í raun eiga meira inni en lokaniðurstaðan sýndi. Við höfum trú á stjóranum og það eru sterkir leikmenn í þessum hópi sem eiga að geta stýrt liðinu enn ofar í deild þeirra bestu, leikmenn sem þekkja sín takmörk og spila á sínum styrkleikum sem eru þéttur varnarleikur, öflugar skyndisóknir og uppsett atriði. Þeir hafa verið rólegri á markaðnum en undanfarin ár (enda bara Chelsea sem geta haft 8000 leikmenn i hóp) en stjórinn Santos vill nú bæta við áður en tímabilið hefst. Stærstu kaupin voru á Elliott Anderson frá Newcastle og er honum ætlað að bæta enn við stálið á miðjunni. Þeir misstu öflugan hafsent og eru enn frekar þunnir fram á við þegar risinn Wood er ekki með og við teljum þá leikmenn verða sótta og við fáum áfram drulluerfiða og aggressíva útileiki á City Ground eftir þetta tímabil. Það gæti þó breyst ef að þeir verða dæmdir í stigamissi vegna fjármálavanda.

16.sæti Everton 50 stig

Nágrannar bráðum no more! Everton fara inn í síðasta tímabilið sitt á síðasta “gamaldags” vellinum í ensku úrvalsdeildinni og munu halda stöðu sinni þar nokkuð örugglega. Það eru þó skiptar skoðanir, tveir pennar telja þá falla og þá ekki síst í ljósi þess að fjármálin eru enn alls ekki á kláru og eigendahaldið er út um allt. Stóra ástæðan fyrir því að hópurinn telur það að Everton haldi sætinu er Sean Dyche. Það er klárt mál að hann náði ansi miklu út úr liðinu í fyrra byggt á því sem hann kann best, búa til óþolandi fótboltalið sem “grind-a” út úrslit með bardaga, þolinmæði og uppsettum atriðum. Í sumar hefur hann notað peninga sem hann fékk fyrir að selja Onana og Ben Godfrey til að sækja efnilega hafsentinn O’Brien frá Lyon, framherjann Ndyiaye frá Marseille og danska miðjumanninn Lindstrom í láni frá Napoli. Everton eru enn í ólgusjó og jafn leiðinlega glæsilegur sem völlurinn þeirra í miðbænum mun verða er líka alveg ljóst að bygging hans mun hafa áhrif á rekstur félagsins og Dyche þarf að halda vel á spöðunum til að halda liðinu á réttu róli. Við teljum honum takast það, þó við sannarlega þiggjum annað!

15.sæti Bournemouth 55 stig

Minnsta félagið í deildinni mun sigla áfram lygnan sjó. Það mun þó standa og falla með tvennu, annars vegar því að stjórinn Iraola haldi áfram sinni öflugu vegferð á suðurströndinni og því hvernig þeim tekst að fylla í skarð Solanke sem var seldur fyrir 65 milljónir nú rétt fyrir mót. Slúðrið segir Tammy Abraham verða svarið, sá er sannarlega góður en mikið meiddur og Bournemouth verða að finna leiðir til að skora mörkin sem Dominic skilur eftir. Leikstíll Iraola er mjög skemmtilegur og ljóst að mörg lið eru forvitinn um hann og alls ekki ólíklegt að hans nafn verði skoðað þegar brottrekstraröldur stærri liðanna leggja af stað. Þeir hafa sótt tvo unga varnarmenn frá Juve og Barca og framherjinn Sinisterra gekk í þeirra raðir eftir að hafa verið í láni þar í fyrra. Iraola hefur verið lofað að peningar fari í að styrkja hópinn áður en glugginn lokast og það mun verða. Afraksturinn sá að þessi stórmerkilegi klúbbur verður áfram á meðal risanna!

14.sæti Wolves 57 stig

Úlfarnir eru að verða rótgróinn Úrvalsdeildarklúbbur þó mjög óvanalegt sé að þeir séu ekki okkar síðasti keppnisleikur næsta vor á Anfield. Hvað er það eiginlega? Ráðning þeirra á Gary O’Neil kom einhverjum á óvart en hann sannaði sig algerlega með solid frammistöðu liðsins í fyrra og hefur fullt traust portúgalskra eigenda félagsins. Þangað og til Brasilíu hefur hann sótt stærstu leikmannakaupin en verkefnið fram að gluggalokun verður að losa frá félaginu leikmenn sem þeir hafa verið að lána undanfarin ár og styrkja miðju liðsins og framlínuna, styrkurinn klárlega varnarleikurinn. Tvö risaskörð hafa verið hoggin í leikmannahópinn þar sem að Miðjumaðurinn Pedro Neto fór til Chelsea og Max Kilman fyrirliði félagsins fór til West Ham. Það er alveg klárt að þeir eiga eftir að koma inn á markaðinn áður en hann lokar og O’Neil hefur verið lúnkinn að finna leikmenn sem uppfylla þær kröfur sem Úlfarnir gera um duglega leikmenn sem ná fram úrslitum með miklu vinnuframlagi og ansi sterkir líkamlega. Það mun takast og þeir sigla lygnan sjó.

13.sæti Brentford 65 stig

Það er auðvitað stór frétt að við erum bara búnir að ramma Brentford inn sem stöðugan Úrvalsdeildarklúbb. Býflugurnar eru að ná ótrúlegum árangri á svo marga vegu, þeir eru sannarlega litla liðið í Londonborg og hafa undanfarin ár náð ótrúlegum árangri á leikmannamarkaðnum, bæði þegar kemur að því að kaupa leikmenn en líka halda hjá sér lykilmönnum. Það virðist hreinlega ætla að gerast að Ivan Toney og Nathan Collins verði áfram þrátt fyrir að það sé fullkomlega ljóst að þeir geta spilað í mun sterkari liðum en í miðjuslagnum og þeir hafa krækt í tvo spennandi bita, annars vegar í Carvalho frá okkur en líka í framherjanum Igor Thiago, sem var upphaflega ætlað að leysa Toney af en þeir saman eru ansi hávaxið og kraftmikið senterapar sem við mögulega munum sjá á Anfield í annarri umferð. Stjórinn Thomas Frank hefur verið nefndur við stærri lið og það gæti vel gerst, hann hefur skipt miklu máli en þó er stemmingin í félaginu að verða sterkari en svo að það verði lykilatriði. Auðvitað vonum við að landsliðsmarkmaðurinn okkar stígi upp og slái Flekken úr markinu, löngu kominn tími á íslenskan markmann í EPL.

12.sæti Fulhan 77 stig

Það er nokkuð bil frá Brentford og upp í næsta Londonlið, hvítklædda Fulham menn við Thamesána. Þar fer annað lið á þessum risamarkaði sem hefur komið ár sinni vel fyrir borð á meðal stórliðanna. Stjórinn Marco Silva að hefja sitt fjórða tímabil með liðið sem er nú bara býsna gott á enskan mælikvarða og hefur leiðrétt hans stöðu eftir brasið hjá Everton. Hann lagði mikið á sig til að fá Emile Smith-Rowe frá Arsenal og ætlar honum að stýra sóknarleik liðsins á næsta tímabili. Það verður fróðlegt að sjá í ljósi þess að eftir miklar flugeldasýningar Emile í byrjun hafði hann alveg dottið niður í varaskeifuhlutverkið hjá Arsenal og hefur mikið að sanna. Þeir þurfa að fylla í skörð Palinha sem fór nú til Bayern og Adarabioyo til Chelsea áður en glugginn lokar og það eru alls konar nöfn á lofti. Sóknarleikurinn hefur verið sterkur síðustu ár og því verður lykillinn að því að þeir verði um þennan lygna sjó sem við spáum er að þeir verði klókir að sækja menn í varnarleikinn og umferðarstjórinn Smith-Rowe muni virka.

11.sæti Crystal Palace 91 stig

Enn erum við í London, förum nú suður fyrir Thames í Croydon hverfið sem hefur síðustu ár verið að ganga í gegnum mikla andlyftislyftingu bæði efnahags- og félagslega með dyggri þátttöku þessa litla félags með stóra hjartað. Þeir virðast hafa dottið í mikinn lukkupott þegar þeir sóttu Austurríkismanninn Glasner til að stýra félaginu því hann náði á ótrúlegum hraða bæði að færa leikstíl Palace meira inn í nútímann en líka safna fullt af stigum í leiðinni og gera Selhurst Park aftur að þeirri gryfju sem er sannarlega reglulega rædd á meðal stóru liðanna. Gamaldags völlur sem býr til mikinn hávaða á “hostile” hátt sem blæs heimamönnum eld í maga og hvetur til dáða. Stóra breytingin í leikmannahópnum var að missa Olise til Bayern – en liðið segist hafa verið undirbúið undir þá sölu og eru að nota hana m.a. til að reyna að gera nýjan samning við aðra unga stjörnu, Eze, sem sprakk út síðasta tímabil. Glasner hefur ekki bætt miklu við enn, Sarr er kominn frá Marseille og kemur aftur í enska boltann eftir fína frammistöðu með Watford og svo bættu þeir við hafsentinum Riad frá Real Betis, sá var undir smásjá stærri liða. Palace verða efsta liðið á síðu tvö í Textavarpinu og meistarar neðri hlutans. Mest Glasner að þakka, það verður mjög spennandi að fylgjast áfram með honum!

Þá lýkur fyrri hluta spárinnar okkar sem greinir frá því hvaða lið falla og hver verða í miðjupakkanum. Á morgun er það efri hlutinn, evrópusætin öll, meistaratitillinn…og síðast en ekki síst hvar við ætlum að sjá okkar lið. Meistarar í vor???

Endilega henda inn kommentum eða ykkar spá um sæti 11 – 20

9 Comments

  1. Sælir félagar

    Mér er nokkuð sama um hvaða lið falla og hvað lið hanga uppi svona þannig séð. Því ætla ég engu að spá að svo stöddu um þennan hluta deildarinnar. Ég hefi samt smá áhyggjur af leiknum við liðið í 19. sætinu hjá ykkur sem leikum við á laugardaginn. Þessir leikir hafa stundum verið stórliði Liverpool erfiðir og ekki alltaf áfallalausir. Nýliðar mæta til leiks með það í huga að sanna sig í deild hinna bestu og og berjast af lífi og sál og sjást ekki alltaf fyrir í baráttu gleðinni og látunum. Við skulum samt vona að það verði áfallalaus leikur fyrir bæði lið og betra liðið vinni sanngjarnt.

    Áhyggjur mínar núna eru líka framganga LFC á leikmanna markaðnum. Látum það vera þó Zebimendi hafi gengið úr skaftinu. Skítur skeður og líklega hefði hann aldrei unað sér almennilega í kuldanum og trekknum í Liverpool og því aldrei orðið nema hálfur maður fyrir vikið. Nei áhyggjur mínar snúa að því hvernig Liverpool hagar sér á leikmannamarkaðnum ár eftir ár. Gríðarleg áhersla lögð á einn leikmann og ef hann kemur ekki eru menn bara blankir og tómir í framan og segja eitthvað hafi klikkað sem þeir réðu ekki við.

    Auðvitað getur það gerst og gerist að fyrsta valið næst ekki en þá er eðlilegt að annað valið og jafnvel það þriðja sé klárt og jafnvel undirbúið ef svo vill til. Þannig hefur það ekki verið hjá LFC og FSG. Stundum bjargast þetta (eins og með VvD á sínum tíma) en oftast standa LFC gaurarnir eins og álfar eftir og vorðnir aðhlátursefni um allan fótbolta heiminn og allir spyrja: hvað er í gangi þarna í Liverpool. Við stuðningsmenn spyrjum auðvitað líka: HVAÐ ER Í GANGI ÞARNA Í LIVERPOOL????

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  2. Nokkuð fyrirsjáanleg spá fyrir topp 4.
    1. 115 FC
    2. Arsenal
    3. Man Utd
    4. Chelsea
    5. Liverpool
    6. Aston Villa
    7. Tottenham
    8. NewCa$tle

    Allt hitt skiptir ekki máli. Guð hjálpi okkur ef við lendum í sömu meiðslavandræðum og Man Utd og Chelsea lentu í síðasta tímabil.

    1
    • Liverpool lenti í sömu meiðslavandræðum og United í fyrra.

      Manchester United 233 leikir sem leikmenn misstu af, Liverpool 221. Síðan misstu Salah og Endo af fleiri leikjum vegna álfukeppna.

      Samt endaði Liverpool 22 stigum fyrir ofan Man Utd.

      Ansi mikil bjartsýni að spá að þeir lyfti sér út 8. sæti í 3. þó þeir hafi bætt við sig meðalgóðum varnarmönnum og backup fyrir Hojlund

      4
      • De Light fyrir Varane. Ekki viss um að það sé styrking.

        Mazraoui kostaði svipað og Bissaka var seldur á. Alls óvíst hvort um styrkingu sé að ræða.

        Yoro er 18 ára og fótbrotinn. Væntanlega einhver tími í að hann vinni sér sæti í liðinu.

        Zirkzee skoraði 11 mörk í Seria A. Mun minna en Albert og var í 15-19 sæti yfir markahæstu menn. Kemst auk þess ekki í byrjunarlið Hollands þrátt fyrir að þá vanti framherja. Væntanlega hugsaður sem varamaður fyrir Hojlund.

        Liðið að fara að rjúka upp töfluna?

        4
  3. Mín spá um 6 efstu.

    11FC
    Liverpool
    Arsenal
    Tottenham
    Chelsea
    Man. U.

    Ég man ekki hvort ég var eini maðurinn í heiminum í fyrra sem setti MU ekki í fjögur efstu. Þó MU sé búið að kaupa haug af meðal leikmönnum þá ná þeir ekki Meistaradeildar sæti svo einfalt er það. Eini leikmaðurinn sem ekki er meðal skjóni í leikmannahópi MU verður meiddur í þrjá mánuði og verður ekki almennilega leikfær fyrr en eftir fjóra mánuði. Spár spekinga um MU eru bara þetta endalausa MU rúnk sem viðgengst hér því annars verða menn fyrir aðkasti og leiðindum stuðningsmanna sem eru þeir leiðinlegustu á landinu og þó víðar væri leitað.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  4. Ég er nokkuð sammála spánni fyrir neðri hlutan.
    En mín spá fyrir tíu efstu.
    1. Arsenal
    2. Liverpool
    3. City
    4. Tottenham
    5. Aston Villa
    6. West ham
    7. Newcastle
    8. man utd
    9. Chelsea
    10. Brighton
    Ég held að málaferlin gegn city eigi eftir að hafa áhrif á liðið og því missa þeir flugið eftir áramót, það verður allt í skrúfunni hjá Chelsea og þeir verða búnir að reka stjórann fyrir áramót sem gæti reyndar líka orðið raunin með Ten Hag ef man utd verða að strögla í deildinni fram undir áramót sem ég á passlega von á meðan þeir hafa þennan markvörð.
    Liverpool gæti náð Arsenal og unnið deildinni ef og aftur ef þeir sleppa við meiðsli hjá lykilleikmönnum og bæta við einum eða tveim leikmönnum sem passa liðinu hans Arne Slot eða þá að Darwin Nunez fari að nýta færin örlítið betur sem hann er endalaust að koma sér í áður en ég verð endanlega búinn að reyta þessi fáu hár sem ég á eftir á hausnum.
    Ég hef reyndar aldrei getað spáð fyrir einu eða neinu svo rétt sé en nú hlýtur að koma að því að ég hafi rétt fyrir mér í það minnsta er fjandans glasið mitt hálf fullt af bjartsýni um gott gengi okkar manna í vetur eins og það er reyndar búið að vera þessi tæplega sextíu ár sem ég hef haldið með Liverpool.
    YNWA

    3
    • Sælir aftur

      Ef svo fer sem Tryggvi segir að MCity missi flugið þá mun Liverpool taka efsta sætið samkvæmt minni spá. Mér líkar líka vel hvar Tryggvi raðar MU þó það sé ef til vill ekki raunhæft – og þó. 🙂

      Það er nú þannig

      YNWA

      1
  5. Sammála þessari spá nema ég held að Ipswich lendi lang neðstir. Þeir hafa ekki verið vanir að tapa fótboltaleikjum undanfarin tvö ár og því gæti mótlætið sem þeir verða fyrir núna erfitt fyrir þá. Southampton og Leicester hafa meiri nýlega reynslu af úrvalsdeild þannig menn vita meira þar hvernig þeir eiga að bregðast við mótlæti. Ég er ekki mikill spámaður en mín spá fyrir tímabilið er eftirfarandi:

    1. Arsenal
    2. Liverpool
    3. United
    4. City
    5. Chelsea
    6. Aston Villa
    7. Tottenham
    8. Newcastle
    9. West ham
    10. Brighton
    11. Wolves
    12. Fulham
    13. Bournemouth
    14. Crystal Palace
    15. Everton
    16. Brentford
    17. Nottingham Forest
    18. Leicester
    19. Southampton
    20. Ipswich

    Ipswich taka stig af Liverpool í fyrsta leik eflaust en svo fer allt í skrúfuna. Enda með 13 stig í deild.

    1

One Ping

  1. Pingback:

Hveitibrauðsdagar Hughes á enda

Spá Kopverja – síðari hluti