Hálf fullt, hálf tómt eða galtómt?

Nú þegar fyrsta hörmungans landsleikjahléið á þessu tímabili er komið í gang, þá er ekki úr vegi að kíkja aðeins á stöðuna þegar kemur að leikmannamálum hjá stærstu liðunum. Almennt séð var þessi gluggi rólegri en oft áður hjá stærstu liðum Evrópu. Mikil og hávær köll voru frá mörgum stuðningsmönnum Liverpool um alvöru styrkingu. Helstu stöður sem menn vildu styrkja voru sexa, miðvörður, vinstri bakvörður og svo jafnvel ein af sóknarstöðunum. In the end þá var svo sannarlega keyptur mjög svo spennandi sóknarmaður á fáránlega lága upphæð (miðað við prófíl) og svo ákaflega efnilegur/góður markvörður sem er hugsaður til lengri tíma. Svo lokaði bara glugginn og margir alveg sársvekktir og sumir algjörlega brjálaðir yfir niðurstöðunni.

Undirritaður er nokkuð sáttur bara, alls ekkert í skýjunum, en bara sáttur. Það er alveg ljóst að það er nóg af skrokkum á launaskrá hjá Liverpool. Alls ekki færri aðalliðsmenn en hjá helstu samkeppnisaðilum okkar. Margir vilja meina að gæðin á hópnum fyrir utan fyrstu 11, eða fyrstu 15 séu mun minni en hjá samkeppnisaðilunum. Menn geta deilt endalaust um það, en þessi pistill er settur fram til að menn geti séð þennan samanburð meira svart á hvítu. Uppsetningin er einföld, við stillum upp í tvö 11 manna lið fyrir hvert félag fyrir sig í þeirri röð sem þau enduðu í deildinni á síðasta tímabili.

Manchester City

Það velkist enginn í vafa um það að þetta City lið er gríðarlega sterkt og það þarf ekkert að horfa lengra en til allra þeirra titla sem þeir hafa unnið undanfarin ár. Oft hefur maður heyrt sérfræðinga básúna um það að þeir séu framar öðrum út af breiddinni. Jú, þeir eru með ákaflega öfluga menn á bekknum hjá sér, en þeir hafa líka verið alveg fáránlega heppnir með meiðsli. Til að mynda eru þeir ekki með einn einasta eiginlegan bakvörð. Þeir Nathan Aké og Josko Gvardiol hafa fyllt þá stöðu fyrir þá, en þeir eru báðir miðverðir. Þeir eru því í rauninni með 5 miðverði og 2 hægri bakverði en engan vinstri bakvörð. Þeir mættu þar af leiðandi illa við miklum meiðslum í vörninni. Flestir þeirra varnarmanna eru þó oftast heilir, fyrir utan John Stones, sem er ekki langt frá Konaté þegar kemur að því að vera oft fjarverandi.

Þeir eru með 6 reynslumikla leikmenn á miðsvæðinu að berjast um stöðurnar þrjár og svo þar fyrir utan einn ungan leikmann, James McAtee, sem hefur verið á útláni síðustu tímabil. Af þessum miðjumönnum þá er ennþá stórt spurningamerki við Matheus Nunez. En þeir eru með hrikalega öfluga fyrstu 5 miðjumennina. En það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þeir fara í endurnýjun á henni, þar sem hún er aðeins að komast á aldur (Gundogan 34, De Bruyne 33, Kovacic 30, Bernardo 30 og Rodri 28).

Frammi eru þeir svo með fína breidd í þeim Haaland, Foden, Grealish, Savinho og Doku. Þar fyrir utan er svo Oscar Bobb, en hann lenti í vondum meiðslum og verður í fyrsta lagi klár í lok þessa árs. Þeir eru því ekki með neitt eiginlegt backup fyrir Erling Braut Haaland ef hann tæki upp sína Dortmund siði og væri meiddur reglulega. Það er því til staðar skarð sem Julian Alvarez skildi eftir sig, sem ekki hefur verið fyllt.

Það er því erfitt að fylla allar stöður í 2 heil lið með aðalliðsmönnum og stillti ég því Bobb upp í framherjastöðuna, en enginn er í seinna liðinu í vinstri bakverðinum.

Arsenal:

Hópurinn hjá Arsenal er að sama skapi, alveg feykilega sterkur. En persónulega finnst mér drop í gæðum vera talsvert þegar í seinna liðið er komið, í ákveðnum stöðum að minnsta kosti.
Þeir fylla allar stöður í vörninni í báðum liðum og meira að segja er Kieran Tierney fyrir utan þetta val (þeir hafa reyndar verið að reyna að losa sig við hann). Droppið á milli liða í vinstri bakverði og öðrum miðverðinum, er talsvert að mínu mati. Þeir eru þó betur í stakk búnir núna til að takast á við meiðslu hjá t.d. Saliba, en þeir voru fyrir 2 árum síðan.

Á miðsvæðinu er byrjunarliðsmiðjan þeirra ákaflega öflug, 3 reyndir og virkilega góðir leikmenn sem skila alltaf sínu. Þar fyrir aftan koma svo Merino (nýbúið að kaupa hann) og Jorginho. Í mínum huga er því breiddin á miðjunni hjá þeim talsvert frá því að vera mikil og þeir mega illa við skakkaföllum þar. Merino er núna frá í 2 mánuði og svo er Partey talsverður meiðslapési.

Sóknarlega eru þeir svo í fínum málum. Þeir hafa úr 6 leikmönnum að velja þar, þótt í raun er hægt að segja að þeir hafi ekki eiginlega níu, nema ef vera skyldi Jesus. Havertz hefur þó verið að skila frábæru verki í þeirri stöðu undanfarna mánuði. Það hlýtur þó að vera smá spurningamerki við Raheem Sterling, en hann hefur verið langt frá sínum besta undanfarin ár.

Ég sé ekki fram á að geta fyllt allar stöður í 2 heil lið hjá þeim út af miðjunni.

Liverpool:

Já, okkar menn. Við erum klárlega með 2 menn fyrir hverja stöðu í þessum 2 byrjunarliðum. Ef litið er til varnarinnar þá voru auka miðverðirnir okkar tveir báðir í úrtakinu hjá enska landsliðinu fyrir EM í sumar, þó bara Gomez hafi svo farið í lokakeppnina. Quansah er mikið efni og sýndi það svo sannarleg á síðustu leiktíð, þegar hann var búinn að henda Konaté út úr byrjunarliðinu. Gomez hefur svo klárlega gæðin, en hefur verið meiðslahrjáður alltof oft, þótt síðasta tímabil hafi verið flott þegar kom að þeim málum. Konaté er frábær, en hans stærsti galli eru einmitt meiðslin. Margir líta svo á Tsimikas sem veikan hlekk þegar kemur að breiddinni. Í mínum huga er það klárt mál að hægt væri að styrkja hópinn og breiddina með kaupum á mjög öflugum örfættum hafsent sem gæti spilað vinstri bakvörð ef á þyrfti að halda. En gríski landsliðsmaðurinn er fyrst og fremst backup leikmaður og hefur alveg staðið fyrir sínu þegar hann hefur þurft að standa vaktina, til að mynda á síðasta tímabili þegar Robbo meiddist illa. Því miður meiddist hann svo sjálfur þegar hann var búinn að spila fína leiki og hann fékk smá “run” í liðinu.

Miðjan er svo aftur eitthvað sem flestir hafa viljað styrkja. Gravenberch hefur byrjað þessa leiktíð suddalega vel, ekki nokkur spurning, og hefur haft mikinn “potential” í nokkur ár. Það var gerð góð tilraun til að bæta miðjuna enn frekar með kaupum á Zubimendi í sumar, en það fór eins og það fór. Ég er alveg handviss um að ef hann hefði verið keyptur, þá hefði tilboði í Endo/Morton verið tekið. Morton er svo leikmaður sem er fyrir utan þessi 2 lið hér að ofan, strákur sem hefur staðið sig afar vel á láni undanfarin 2 tímabil. Svo vel að meistararnir í Bayer Leverkusen vildu ólmir fá hann í sumar inn á miðjuna hjá sér. Þannig að það má alveg segja að við séum með nægilegan fjölda af leikmönnum inn á miðjuna, en ef við miðum við síðasta tímabil, þá þyrfti liðið að vera með eina 10 miðjumenn til að takast á við slík meiðslavandræði. Ég neita bara að trúa öðru en að það hafi verið meira svona one off season.

Sóknarmennina okkar þarf svo varla að ræða, breiddin þar er þvílík og gæðin einnig.

Niðurstaðan?
Þrír virkilega sterkir leikmannahópar, ekki nokkur spurning. Ég er á því að okkar menn standist algjörlega samanburð þegar kemur að fyrstu 11 mönnunum. En hvað með næstu þar á eftir? Auðvitað sýnist sitt hverjum um það hverjir séu hluti af fyrstu ellefu og hverjir ekki. Eins hverjir það séu sem koma næstir þar á eftir. Þetta er bara til gamans gert og ætla ég að koma með mitt mat á næstu 4 sætunum, þar fer ég ekkert eftir stöðum, bara hverja ég tel vera hluta af sterkasta 15 manna hópnum og svo næstu 4 þar á eftir, og svo þar á eftir:

Er ég alveg ga ga að telja okkur vera með breiddina í að keppa við þessi 2 lið? Jú jú, meiðsli geta alltaf komið upp. Ímyndið ykkur þessa 2 mótherja okkar ef þeir lentu í viðlíka meiðslum og okkar menn áttu í á síðasta tímabili, og það á lykilmönnum. Ég er algjörlega á því að það er vel hægt að bæta gæðin í hópnum, sér í lagi á miðju og í vörn, en það eru engu að síður mikil gæði í þessum stóra og góða hóp. 3 sigrar í fyrstu 3 leikjunum, 7 mörk skoruð og ekkert fengið á sig. Það myndi einhver kalla frábæra byrjun og það undir nýjum stjóra með sínar nýju hugmyndir. Það er auðvitað algjör bónus að sjá menn fara svona úr startblokkunum og því er ég ansi hreint vongóður með að við blöndum okkur í baráttuna þarna á toppnum. Hvort það skili okkur titlinum eftirsótta, það þarf ekkert að vera, en liðið ætti að geta blandað sér í þessa baráttu.

24 Comments

  1. Flottur pistil

    Mér finnst við verða á pari með Arsenal með síðari liðin en aðeins fyrir aftan Man City. Við erum með bestu sóknarmöguleikana af öllum þessum liðum.

    Ég hef verið einn af þeim sem vill bæta Vinstri bak stöðuna hans Tismikas en eftir að hafa horft á hvernig Slot vill spila þá held ég að Tismikas á eftir að njóta sín meira. Hans hlutverk er ekki lengur að vera upp allan kanntinn og taka virkan þátt í sóknarleiknum eins og Klopp vildi láta Andy spila.

    Heldur er hann meira að styðja sóknina, taka eitt og eitt hlaup upp ef þarf en númer 1,2 og 3 að vera sterkur varnarlega. s.s staðan er ekki alveg eins flókin. Svo að ég held að hann sé skára back up undir Slot heldur en undir Klopp.

    Alvöru 6 er það sem maður hefur kallað eftir og ég held en þá að okkur vantar svona 6/8 en Gravenberg hefur skilað þessari stöðu með Mac Allister frábærlega það sem af er og fyrst að við erum að spila með tvo djúpa þá get ég alveg séð Jones skila þessari stöðu vel frá sér að vera djúpur en fá að taka virkan þátt í sóknarleiknum.

    Maður má ekki fara framúr sjálfum sér en það sem af er tímabili þá er Liverpool að spila besta fótboltan af öllum liðunum en þetta var bara að byrja. Vonandi náum við að fylgja þessu eftir.

    YNWA

    9
  2. Frábær pistill, ég er algjörlega sammála þér í einu og öllu.

    Ég held að við séum ekki eins langt frá City og Arsenal og margir vilja halda fram. Ég er ekki viss um að þessi lið hefðu endað ofar en við í töflunni á síðsta tímabili ef þau hefðu lent í jafnmiklum meiðslavandræðum og við lentum í. Að því gefnu að við lendum ekki í meiri meiðslavandræðum en þau í ár þá er það mín skoðun að við séum með vel samkeppnishæft lið til að berjast við þau um titillinn.

    4
  3. Flottur pistill hjá þér. Ég er sammála honum. Einhverra hluta vegna hafa sparkspekingar viljað tala okkar lið niður. Eins og T.d Gary Neville sem hélt því…Td. fram að Man Und væri með miklu betri miðju. En með fullri virðingu, hvernig í ósköpunum dettur honum það eiginlega í hug ?

    En svona er þegar þjálfari tekur við af goðsögn. Það kvikna efasemdir. Auðvitað hefði Zubermendi verið uppfæring á Endo en ég spyr mig hvort hann hefði endilega verið uppfæriing á Gravenberth ? Hópurinn okker er einfaldlega orðinn það sterkur að það getur einfaldlega verið best að bíða rólegir eftir réttu tækifærunum. Endo er þrátt fyrir allt mjög góð varaskrífa. .

    Mér finnst gagnrínistverðast að Mo Salah, Trent Alexsander og Van Dijk séu ekki búnir að fá samning og ég trúi ekki öðru en þeir séu með það í deiglunni. Er allavega minnisstætt að oft komu slíkar gleðifréttir á miðjum tímabilum undir stjórn Klopp, þá á ég við að leikmenn eins og t.d Mo Salah hafi endurnýtt samninginn.

    8
  4. Góð samantekt hjá SS eins og svo oft áður.

    Ég hef fulla trú á liðinu okkar undir stjórn herra Arne Slot enda hefur sá ágæti maður farið vel a stað með liðið og sé ég enga ástæðu til að vera með einhverja minnimáttarkennd gagnvart breiddinni í hópnum okkar en hvort það dugi til að vinna deildina ræðst svolítið af heppni enda vinnur ekkert lið deildina nema að hafa heppnina með sér í liði.

    Það er búið að vera einstaklega gaman að vera Liverpool maður núna síðustu dag og nudda örlitlu salti í sárin hjá aðdáendum ónefnds liðs sem er með hinn síkáta og glaðlinda sköllótta Hollending Ten Hag sem stjóra sem þarf að lúta í það súra gras að annar sköllóttur landi hans heldur upp heiðri okkar skalla popparana svo eftir er tekið um víða veröld.

    3
  5. Mjög svo sammála þessum vangaveltum. Hópurinn hjá LFC er fullur af mönnum sem eru mjög góðir í fótbolta og grjótharðir andlega. Eins og Árni frá Lás (google translate) segir réttilega er ekki mikið framboð af slíkum leikmönnum á lausu. Varðandi samninga við þessa þrjá lykilmenn, þá er staðreyndin einfaldlega sú að Mo og VVD eru komnir á þann aldur að annaðhvort klára þeir sína ferla hjá LFC eða finna einn feitan loka tékka einhversstaðar annarstaðar. 32 og 33 ára leikmaður mun hægt og bítandi gefa eftir þó það sé ekki hægt að sjá á þeim í dag. Trent er síðan að komast á prime aldur fótboltamanns og þarf að ákveða hvaða Stevie hann ætlar að vera, Gerrard og spila allan sinn feril hjá LFC eða McManaman og stinga af til Real Madrid á frjálsri sölu.

    6
  6. Gott að fá þetta svona uppsett og sínir samanburðinn. Auðvitað er City með sterkasta hópinn, fullt af heimsklassa leikmönnum. En Liverpool er ekkert svo fjarri þeim í gæðum og alveg á pari við Arsenal myndi ég segja, ef ekki betri hóp. Þetta mun eins og áður allt velta á meiðslum og dómaramistökum, bæði eitthvað sem við höfðum gegn okkur á síðasta tímabili. Vonandi verður betra ástandið þetta tímabilið og við heppnari með þessa þætti. Slot hefur á sér gott rep að halda mönnum heilum. Kannski er sjúkrateymið hans og man management taktíkin hans þess eðlis að menn meiðast síður. Sést vel á hvernig hann er að hlífa TAA í þessum fyrstu leikjum. Maður var kannski soldið blindur á þetta meðan sumarglugginn var opinn og kallaði því eftir frekari liðasauka. Ef Zubamendi hefði mætt á svæðið værum við örugglega að tala um titilmöguleika nokkuð bjartsýnir. En miðað við þennan hóp þá er ég nokkuð öruggur með CL sæti í það minnsta og verður fróðlegt að sjá hvernig tímabilið þróast og hvort okkar menn séu færir um að berjast um titilinn. Er samt alveg rólegur.

    2
    • Ég leyfi mér að efast um að Zubamendi hefði spilað betur en Gravenberch hefur verið að spila undanfarið og ef Spánverjinn hefði komið þá hefði Gravenberch hugsanlega ekki fengið að láta ljós sitt skína svo skært.

      2
  7. Svo má ekki gleyma einu. Liverpool samdi þetta ár við Rio Ngumoha sem talin er algjört undrabarn í fótboltanum. Ef hann nær þeim hæðum sem hann er talinn geta náð, Chiesa spilar eins og hann gerði upp á sitt besta og nýi markvörðurinn Giorgi Mamardashvili verður eitthvað á móta og Alison þegar hann kemur úr láni, þá er þetta mögulega besti gluggi Liverpool í ansi langan tíma.

    Þetta með gluggana er eftiráhyggja. Eitt er ljóst. Það væri búið að krossfesta Slot, FSG, Michael Edward og Hughes ef byrjunin hefði ekki verið svona frábær hjá Liverpool.

    5
  8. Sælir félagar

    Takk fyrir þennan pistil SSteinn, hann er góður og upplýsandi. Ég hefi sagt í athugasemdum við annað innlegg að ég tel fyrstu 11 til 15 besta leikmannahóp á Englandi í dag. Næstu 3 -4 leikmenn inn eru ekki þar langt frá og ég stend við það. Inn í þetta spilar hvað hópurinn er samansúrraður mikil samkennd í honum. Ég spáði Liverpool meistaratitli í vor ef MC fær þá refsingu sem þeir eiga að fá. Það verður hins vegar afar erfitt að skáka þeim annars en þó er allt hægt. Vonandi er það rétt sem sagt var hér að ofan um Tsimikas að hans hlutverk væri breytt og væri einfaldara og hann réði miklu betur við það núna.

    Hópur Liverpool er gríðarlega sterkur og samstæður og allir gefa sig í viðfangsefnið og allir spila hverjir fyrir aðra. Innkoma Chiesa er líka örugglega styrking og vonandi eru áhyggjur mínar af vinstri bakvarðar stöðunni ástæðulausar. Helstu áhyggjur mínar og ef til vill fleiri eru samningamál við TAA, VvD og Salah. Það virkar einhvernvegin eins og þeir sem sjá um þessi mál séu frekar rólegir yfir þessu sem ég skil ekki. Eftir því sem samningur við TAA dregst því meiri líkur eru á að hann fari til Spánar sem er ekki gott. Samningar við hina tvo munu ganga hægt en örugglega reikna ég með.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  9. Þetta er nefnilega staðan, þegar gögnin eru skoðuð þá erum við með mjög þéttan og góðan hóp. Auðvitað er síðan bara ósanngjarnt að bera einhvern hóp saman við Matardor-peningana í ManCity – megi þeirra dómur falla sem fyrst og sem fastast.

    Þegar hópurinn er skoðaður þá einmitt styður þetta við innkaupastefnu FSG – það er er stuttur listi af leikmönnum og ef sá sem er efstur á listanum er ekki í boði þá er ekki hlaupið upp til handa og fóta til að kaupa bara… bara til þess að kaupa, betur þekkt sem Chelsea-aðferðin.

    Slot þarf að fá sinn tíma sem og Richards og Hughes með að vinna úr leikmannamálunum, semja við þá sem eru með lausa samninga á næstunni og svo verða næstu gluggar nýttir vel til þess að þétta hópinn og bæta við gæðum.

    Gæði umfram magn eins og húsfrúin í Arnarnesinu orðaði það!”

    Áfram að markinu – YNWA!

    3
  10. Ég er kannski sammála hvað varðar gæði byrjunarliðs okkar eða jafnvel 16 manna hóp að við séum á pari gagnvart Shitty og Arse, en það vantar herslumuninn þegar kemur að gæðum eftir það.
    Mér finnst okkur vanta eina sexu og svo einn Guihe. Þá erum við að tala saman !
    En það er rétt hjá mönnum að ef þessi lið hefðu lent í þessum meiðsla pakka eins og við lentum í , þá munu þau ströggla. Það liggur við að ég voni að svindl lið Shitty lendi í að vera með eins og 10 leikmenn meidda þetta tímabil, það liggur við 😉
    Takk fyrir flottann pistil Sigursteinn !

    2
    • Hópurinn semsagt á pari við City og Arsenal?

      Fyrir viku drullaðir þú yfir leikmannahóp Liverpool, sagðir að leikurinn gegn United myndi tapast og “4-6 sætið er okkar”

      4
      • Það getur greinilega margt breyst á einni viku, allt æðislegt þegar við vinnum leik og við með besta hópinn, frábæran stjóra og bestu eigendurnar svo eftir næsta tapleik þá er allt ómulegt selja þennan og gefa hinn, reka stjórann og bölvaðir kanarnir sem ekkert vita um rekstur fótboltaliða mættu fara beint til helvítis.
        Já það getur verið vandratað um gleðina dyr en glasið mitt er fullt af bjartsýni fyrir veturinn.

      • já ansi margir vindhanar hérna. Eiga hvert bein í klúbbnum þegar vel gengur og berja svo hamrinum í borðið þegar á móti blæs.

        2
  11. Það er bara þetta með herslumuninn. Klúbburinn hefur efni á að kaupa en gerir það ekki. Alvöru sexa í fyrra og mögulega deildartitill, fa cup eða euro league cup. Til hvers að komast á toppinn ef það á ekki að halda sér þar. City hefur unnið 4 ár í röð eftir að maður hafði spáð að lfc myndi gera það eftir 19/20 því maður bjóst við að klúbburinn myndi styðja Klopp í kaupum. Annað kom á daginn.

    Liðið er flott í dag, enginn spurning, en ég meika ekki að bölva fsg enn og aftur í vor þegar stór titill var innan seilingar en það vantaði bara herslumuninn; einn miðvörð eða eina sexu eða einn vinstri bakvörð.

    1
    • Fyrir viku sagðiru að FSG væri að gera okkur að fíflum. Nú er liðið flott og vantar bara einhvern herslumun.

      2
      • Já, að kaupa ekki leikmenn. Sagði aldrei að liðið væri ekki flott. Bjóst aldrei við 5-10 nýjum leikmönnum. Bara styrkja liðið svo það vinni einhverja titla. Er svona erfitt að skilja punktinn eða þarftu að grafa upp öll comment og spinna einhverja þvælu?

        1
      • Hvað var ég að spinna?

        Hvers vegna leggur þú mér orð í munn?

        Ég er ekki að reyna að skilja nokkurn punkt heldur einungis benda á það að fyrir nokkrum dögum sagðir þú að FSG hefðu haft okkur að fíflum.

        Hvers vegna ertu farinn að draga svona í land og tala um að nú vanti einungis einhvern herslumun en í sumar átti allt að snúast um að kaupa kaupa og kaupa?

        1
      • Nú ert þú að leggja mér orð í munn. Sagði aldrei kaupa, kaupa, kaupa. Eingöngu ætlast ég til þess að klúbburinn fjárfesti til að styrkja hópinn og hef talað um 2-3 stöður.

        1
  12. Höfum það hálffullt eða jafnvel fleytifullt. Lið er ekki ósvipað líkama. Ef við ætlum okkur að byggja upp skrokkinn standa okkur í megindráttum tveir kostir til boða:

    1. Heilbrigt líferni, sem hvílir á góðum venjum og skynsemi (jájá… smá klisja en þetta er nú engu að síður raunin)
    2. Skyndikúrar og síendurtekin átök.

    Það hvernig við niðurlægðum MU um daginn sýnir í hnotskurn ágæti leiðar #1. Við skulum ekki líta framhjá því að þetta er arfleifð Klopps. Hann mætti til leiks og innleiddi hugarfar, ídeólógíu, sýn – eitthvað sem lifir áfram þótt hann sé nú horfinn á braut.

    Þegar við berum þá saman Klopp og Slot (hvað er málið með þessi ættarnöfn?) mætti ætla að sá síðarnefndi sé á einhvern hátt betri þeim fyrrnefnda. Það er ekki sanngjörn ályktun. Því það hvernig félög dafna eftir að leiðtoginn er horfinn á braut er ein besta vísbendingin um GÆÐI þessa leiðtoga. Klopp skilur við lið sem er vel samstillt, vel byggt upp og byggir á traustri menningu. Slot leggur svo sitt know-how ofan á þann grunn og það virkar svona dæmalaust vel.

    Skyndikúrakúltúrinn hjá erkiféndum okkar er svo skýr vísbending um það hversu léleg sú lausn er. Þeir skila einstaklingnum (liði í þessu tilviki) alltaf á verri stað á endanum þótt tímabundinn árangur náist. Stöðugt er verið að bæta við patent-lausnum, nýir þjálfarar, nýir lykilmenn, nýir eigendur – allt er við það sama eða jafnvel verra. Hlustaði á dr. Football mér til skemmtunar og hann var einmitt að kvarta undan því að nýjasti miðjumaðurinn þeirra væri ekki kominn – ,,þetta hefði sko verið allt öðruvísi með hann í liðinu”

    En það er einmitt ekki þannig og þess vegna skulum við hætta að emja á sexur og fjarka og horfa á heildarmyndina. Hún er nefnilega harla góð.

    Kíkið á J. Collins: Built to last, Good to Great og síðast en ekki síst – How the Mighty Fall!

    6
  13. Rónni Yeats RIp þú varst einn af þeim sem startaði endurkomu Liverpool sem fótboltaliði.

  14. Ef að Slot væri ekki nýtekinn við þá færi maður fram á að liðið væri að berjast um titilinn með þennan hóp. Að því sögðu, þá tel ég sanngjarnt að fara fram á það á næsta tímabili þar sem hann tekur við afar góðu búi. Auðvitað munu samningamál spila inní hvernig við förum inní næsta tímabil.

    Við eigum alveg eftir að sjá hvernig miðjan mun höndla það leikjaálag sem framundan er, já eða ef einhver/jir meiðast. Sóknarlínan mun alltaf skapa færi og skora mörk, sama hvaða 3 byrja af þeim 6 sem munu spila mest þar. Varnarskipulagið virðist mun betra og þéttara en síðustu 2 ár í.þ.m. svo ég hef engar stórkostlegar áhyggjur af vörninni, þó að það þurfi ekki nema 2 meiðsli til að þynna línuna mikið.

    Ég er bjartsýnn og held að við munum berjast við City og Arsenal, gæti m.a.s. trúað því að Arsenal muni ekki halda í við okkur nema kannski fram að jólum.

    1

Gullkastið – Leikhúsveisla

Ron Yeats RIP