Upphitun: Nottingham Forest mætir á Anfield

Eftir langt og strangt landsleikjahlé sem kemur alltof snemma á tímabilinu er loks komið aftur að ensku úrvalsdeildinni og í þetta skiptið fáum við Skírisskógsmenn í Nottingham Forest í heimsókn.

Forest hefur byrjað tímabilið vel og eftir fyrstu þrjá leikina eru þeir enn ósigraðir með einn sigur og tvö jafntefli. Andstæðingarnir hafa kannski ekki verið þeir sterkustu í deildinni en þeir unnu Southampton og gerðu jafntefli við Wolves og Bournemouth og fá sitt fyrsta stóra próf á morgun en hafa gert vel og hafa Chris Wood og Morgan Gibbs-White náð vel saman í sóknarlínunni.

Það eru þó einhverjar fréttir að Cris Wood hafi meiðst lítillega í landsleikjahléinu og gætum við því séð fyrrum Liverpool-manninn Taiwo Awoniyi leiða línuna en hann er einnig að stíga upp úr meiðslum og hefur verið á bekknum í síðustu leikjum.

Leikir þessara liða í fyrra voru alveg svart og hvítt. Í leiknum á Anfield voru Forest mjög slakir og unnum við auðveldan 3-0 sigur, en við fórum á City Ground í mikilli meiðslakrísu og buðum upp á þriggja manna miðju með Joe Gomez, Bobby Clark og Alexis MacAllister. Þrátt fyrir það tryggði Darwin Nunez Liverpool sigur með marki á 99. mínútu.

Okkar menn

Nottingam Forest hafa reynst okkur afar vel á Anfield í gegnum tíðina en við höfum ekki tapað þeirri viðureign í síðustu 28 skipti eða síðan í febrúar 1969.

Fyrstu þrír leikir tímabilsins hafa farið nánast eins vel og hægt var að óska eftir og ef liðinu tekst að vinna á morgun og halda hreinu yrði Slot fyrsti þjálfarinn til að afreka það að vinna fyrstu fjóra leiki sína í starfi án þess að fá á sig mark og Liverpool yrði fimmti liðið í sögunni til að afreka það. Ágætis leið til að stimpla sig inn.

Slot var mjög tryggur sínu byrjunarliði í fyrstu þremur leikjunum og ef allir snúa vel tilbaka úr sínum landsliðsverkefnum er enginn ástæða til að búast við breytingum en bráðum fara leikir að hrannast upp og þá verður áhugavert að sjá hvernig hann róterar sínu liði til að koma í veg fyrir þessa meiðslamartröð sem einkenndi síðustu ár Klopp.

Ansi margir af okkar mönnum áttu gott landsleikjahlé. Gravenberch hélt áfram að spila vel og Trent heillaði loksins ensku þjóðina með þjálfara sem var tilbúinn að treysta honum. Hinsvegar eru stóru fréttirnar í hléinu meiðali Harvey Elliott. Hann hefur vissulega ekki spilað stórt hlutverk í fyrstu leikjunum en nú koma sjö leikir á 22 dögum og við erum fámennir á miðsvæðinu. Þar á meðal er Curtis Jones sem ég hef miklar mætur á en hann er gerður úr postulíni.

Býst sem sagt ekki við breytingum en leikurinn í miðri viku gegn AC Milan gæti haft áhrif á það. Darwin Nunez fór ekki með Úrúgvæ í landsleikjahléinu vegna leikbanns og hann gæti því fengið að byrja sinn fyrsta leik í ár en get ekki séð Slot sleppa Jota, bæði vegna þess að Jota hefur litið vel út og því hann elskar að spila við Forest. Hann hefur skorað sex mörk í fimm leikjum gegn Forest fyrir Liverpool og Wolves og hefur nú komið að sextán mörkum í síðustu tuttugu leikjum sem hann hefur spilað á Anfield þannig það væri galið að byrja honum ekki. Helst hefði ég búist við því að Elliott fengi sénsinn en hann meiddist eins og áður kom fram. Áhugaverðast verður að sjá hvort við fáum mínútur frá nýja manninum Chiesa af bekknum.

Spá

Held að við sjáum áframhald af því sem við sáum í fyrstu þremur leikjunum. Stýrum leiknum lítið af áhyggjum og öruggur 2-0 sigur með mörkum frá Jota og Salah.

 

3 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Vona innilega að við vinnum þetta 3-0. Byrjunarliðið okkar er hrikalega sterkt og megi það halda áfram með fullt hús stiga og með hreint skjal sem allra, allra lengst.

    4

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Alvaran tekur við á ný

Liðið gegn Forest