Á morgun mæta suðurstrandastrákarnir í Bournemouth á Anfield. Bournemouth enduðu síðasta tímabil í tólfta sæti eftir afleita byrjun þar sem var mikið rætt um hvort þjálfari þeirra Iraola myndi missa starfið en hann náði að snúa því við og enda um miðja deild.
Í fyrstu tveimur umferðunum gerðu þeir jafntelfi við Nottingham Forest og Newcastle áður en þeir unnu ævintýralegan 3-2 sigur á Everton í leik sem þeir voru 2-0 undir á 87.mínútu. Í síðustu umferð mættu þeir svo Chelsea og voru óheppnir að tapa leiknum 1-0 og alveg ljóst að Bournemouth eru engir muggar.
Bournemouth misstu sinn hættulegasta mann í sumar þegar Solanke fór til Tottenham og hefur eftirmaður hans Evanilson ekki náð að heilla eins og er og klúðraði meðal annars víti í síðasta leik. Það þýðir þó ekki að Bournemouth hafi enginn vopn því þeir hafa hættulega menn á miðsvæðinu. Helst ber að nefna Semenyo sem hefur verið flottur í byrjun tímabils og Justin Kluivert ásamt Sinistera sem kom inn af bekknum gegn Everton og bjargaði þeim leik. Við höfum stundum verið orðaðir við vinstri bakvörð þeirra, ungan Ungverja, Milos Kerkez.
Okkar menn
Eftir svekkjandi tap gegn Nottingham Forest um síðustu helgi svöruðu okkar menn því vel með frábærum leik á San Siro og vonandi að við sjáum framhald að því á morgun. Vikan hefur þó ekki verið eintóm hamingja því í morgun hafa verið að berast fréttir af því að Alisson hafi meiðst lítillega og verði ekki með á morgun og fáum við þá að sjá Kelleher í rammanum. Kelleher fínasti markmaður og hef í raun ekkert á móti honum en þessi síendurteknu meiðsli hjá Alisson fara að verða virkilega pirrandi.
Sáum Slot rótera liðinu sínu í fyrsta skipti gegn Milan þar sem Tsimikas og Gakpo komu inn í liðið fyrir Jota og Robertson og eigum á næstu vikum líklega eftir að sjá ansi oft eina til tvær breytingar á liðinu til að halda mönnum ferskum. Gakpo stóðst prófið með glæsibrag og ef Diaz hefði ekki líka byrjað tímabilið vel væri enginn spurning að frammistaða hans hefði gefið honum sæti í byrjunarliðinu. Tsimikas átti kaflaskiptan leik, leit mjög illa út í markinu sem við fengum á okkur en lagði einnig upp mark.
Ég sem sagt geri ráð fyrir að hann fari aftur í byrjunarliðið sem hann hefur haldið sig við fyrstu leikina, fyrir utan Alisson. Gakpo bankar fast á dyrnar og gæti alveg byrjað frekar en Diaz en ég á ekki von á því. Fer einnig að styttast í að menn fari að hvíla af miðsvæðinu en held að menn eins og Curtis Jones þurfi aðeins fleiri mínútur inn af bekknum áður en ég þori að spá honum byrjunarliðssæti.
Spá
Ég held að menn komi á miklu flugi inn í þennan leik og vilji ekki sjá neina endurtekningu af síðustu helgi og við skorum snemma og siglum heim 3-0 sigri með mörkum frá Salah, Szoboszlai og McAllister.
Ég væri alveg til í að sjá Salah sem fremsta mann með þá Diaz v/m og Gakpo h/m
Mér finnst Nunes bara vera mjög slakur leikmaður og fer að gefast upp á honum og Jota hefur ekki alveg verið nægilega góður fyrir framan markið það sem af er en gott að eiga hann inni af bekknum.
Þá værum við með flottan hraða á öllum 3 fremsu leikmönnum og Gakpo fær tækifæri í byrjunarliðinu eftir stórgóðan leik á móti Milan og það væri glatað að henda honum á bekkinn.
Sælir félagar
Ég er ekki búinn að gefast upp á Nunez og hefi trú á að Slot komi honum í gang. Hann hefur allt nema það þarf að taka til í hausnum á honum og ef það tekst þá verður hann skrímsli í teig andstæðinga okkar. Jota hefur verið áhyggjuefni því hann virðist vera búinn að missa “tötsið” amk. í bili. En ég hefi trú á að hann komi til baka því fáir leikmenn í deildinni hafa annað eins markanef og hann. Ég á von á hunderfiðum leik en vonast eftir sigr að lokum og að á Anfield verði skoppandi tryllt stemming. Mí spá 2 – 0
Það er nú þannig
YNWA
Sammála þér með Nunez hann á eftir að komast í gang og verða góður fyrir okkur, hann hefur varla fengið nema nokkra mínútur það sem af tímabilinu og því lítið að marka það sem af er.
Hann var einstaklega óheppninn í fyrir með öll sín skot í tréverkið en kom að mér minnir ca 18 mörkum (stoðsendingar og mörk) á síðasta tímabili án þess að eiga fast sæti í byrjunarliðinu sem ég tel vera fínasta árangur.
Þetta verður erfiður leikur á morgun en ég spái okkar mönnum sigri 2-1 Salah með bæði eftir stoðsendingar frá Trent.
Bara til gamans: Ég bjó í Bournemouth um stundarsakir áður en Bournemouth komust í efstu deild og tók eftir því hvað margir íbúar þar héldu með Liverpool, t.d. allir leigubílstjórar sem ég hitti. Ég sem poollari hafði gaman af þessu.
Þetta gæti orðið þungur leikur og ég er með smá mótþróaröskunarkvíða fyrir leiknum. Bournemouth hafa verið að taka seint í leikjum og komu flottir til baka á móti neverton. Vonandi brjótum við þá niður snemma svo þetta fari ekki í eitthvað flandur og rugl.
3 stig eru krafa það er ekkert annað í boði eftir slysið gegn N.Forrest.
Ég vill sjá sömu spilamennsku eins og gegn AC Milan fyrir utan fyrstu 3 mín takk fyrir.
Annars er ég bara helvíti góður.
3 stig og hreint lak væri allavega gott start að koma okkur aftur á beinu.
YNWA !