Úlfarnir heimsóttir

Okkar menn bregða sér örlítið suður á bóginn á morgun og mæta það Wolverhampton Wanderers, eða Úlfunum eins og þeir eru nú alltaf kallaðir í daglegu tali. Merkilegt nokk þá er ekki um hádegisleik að ræða, heldur er þetta síðasti leikur dagsins í deildinni. 16:30 að íslenskum tíma nánar tiltekið.

Andstæðingarnir

Það verður nú seint sagt að andstæðingar okkar í næsta leik komi inn á einhverri blússandi siglingu. Eru í neðsta sæti deildarinnar (jafnir Everton), hafa ekki unnið leik (þar af aðeins gert eitt jafntefli – eins og Everton), og eru það lið sem hafa fengið á sig flest mörk (jújú, rétt eins og Everton). En það segir okkur bara eitt: BANANAHÝÐI.

Til að bæta gráu (eða gulu í þeirra tilfelli) ofan á svart, þá er víst eitthvað um meiðsli, sem og að það er víst einhver vírus að ganga í leikmannahópnum. Þeir gætu því þurft að leita á náðir U21 liðsins síns fyrir varnarmenn. En þetta á þó eftir að koma í ljós á leikdegi, kannski verða einhverjir þeirra hressari í fyrramálið.

Tengsl Úlfanna og Liverpool

Eins og gengur þá hafa einhverjir leikmenn spilað með báðum liðum.

Nærtækasta dæmið í dag er að sjálfsögðu Diogo Jota sem kom þráðbeint frá Úlfunum og hefur heldur betur stimplað sig inn í leikmannahóp Liverpool.

Svo erum við með leikmenn eins og Ki-Jana Hoever sem var seldur til Úlfanna beint frá Liverpool fyrir dágóðan pening, er enn á skrá sem leikmaður Úlfanna en hefur síðustu misserin verið á láni hjá félögum eins og Auxerre í Frakklandi, Stoke, og PSV, og virðist ekki ætla að ná að festa sig í sessi sem aðalliðsleikmaður þar.

Annar fyrrum leikmaður Liverpool sem átti svo eftir að spila með Úlfunum er Conor Coady. Var reyndar lánaður frá Úlfunum til Everton, en er núna kominn til Leicester.

Þessi listi er alveg talsvert lengri, má þar nefna menn eins og Paul Ince, Sheyi Ojo, Robbie Keane, Jermaine Pennant o.fl. o.fl.

Okkar menn

Ef okkur hefði verið boðið að vera í þessari stöðu eftir 5 umferðir: í 2. sæti í deildinni með 12 stig, eitt mark fengið á sig í deild, sigur í fyrsta leik í CL og í fyrsta leik í Carabao, þá hefðum við hrifsað það boð úr höndunum á viðkomandi og sjálfsagt tætt hluta af skyrtuerminni með. Að ekki sé talað um meiðslalistann. Harvey Elliott sá eini sem er meiddur í einhvern lengri tíma – vonandi bara sirka 4 vikur í hann – og þó bæði Curtis og Alisson hafi verið frá vegna meiðsla þá hafa aðrir leikmenn stigið upp í þeirra stað, sérstaklega Kelleher.

En eins og Slot sjálfur benti á, þá hafa þetta vissulega nánast eingöngu verið leikir gegn liðum úr neðri hluta deildarinnar. Reyndar er það svo að leikurinn sem tapaðist var jú akkúrat gegn liði í efri hluta deildarinnar, það eina sem kemur kannski pínkulítið á óvart er að það hafi verið Forest. Og þetta semsagt heldur áfram í næsta leik þar sem Úlfarnir eru neðstir. Þetta ætti því að vera nokkuð einfaldur leikur ekki satt?

Því miður getum við bara ALLS EKKI slegið því föstu. Liðið hefur alveg sýnt ákveðin veikleikamerki, auðvitað sérstaklega í Forest leiknum, en að einhverju leyti líka í öðrum. Bournemouth náðu allnokkrum skotum á mark um síðustu helgi þó svo sigurinn hafi á endanum verið þægilegur 3-0 sigur. Fyrri hálfleikurinn gegn Ipswich var ekki góður, og svona mætti alveg telja eitthvað áfram. En auðvitað er það á endanum þannig að það eru engir auðveldir leikir í þessari deild, og ekki hægt að bóka nokkurn skapaðan hlut gegn nokkru einasta liði.

Nema kannski gegn United.

Nóg um það. Slot mun að öllum líkindum snúa beint í að stilla upp sínu sterkasta liði gegn Úlfunum, hann gat hvílt vörn og miðju vel í miðri viku (jújú Macca fékk nokkrar mínútur, bara til að halda sér heitum), Díaz hvíldi alveg og Salah fékk líka bara sínar hefðbundnu mínútur til að ná inn eins og einu marki eða svo.

Þær gleðifréttir bárust að Alisson væri farinn að æfa aftur, en jafnvel þó svo það verði ákveðið á síðustu stundu að gefa honum ögn meiri tíma þá bara mun maður engar áhyggjur hafa með Kelleher í markinu. Það er alveg ljóst að hann er að fara eftir þetta tímabil, og bara spurning hve hátt hann kemst í töflunni. Manni finnst í raun engin spurning að hann geti labbað í liðið hjá nánast öllum liðunum í neðri hlutanum, og einhver í þeim efri sömuleiðis, þangað á hann auðvitað að stefna. Og við munum sakna hans þegar að því kemur að hann fer, svo njótum þess að sjá hann spila á meðan hans nýtur við. Líklega ekki á morgun samt.

Spáum uppstillingunni svona:

Gakpo gerði stórt tilkall til að byrja með frammistöðunni gegn West Ham, en þar sem Díaz hvíldi alveg og er búinn að vera jafnvel enn heitari en Cody, þá eru nú allar líkur á að Kólumbíumaðurinn byrji. Við verðum nú samt ekkert undrandi á að sjá Gakpo koma inná. Eins er líklegra að Jota byrji frekar en Nunez, þar sem sá síðarnefndi spilaði allan leikinn á miðvikudaginn en Jota var tekinn af velli eftir klukkutíma leik. Eins er Chiesa ekki að fara að byrja tvo leiki í röð verandi í ekki meiri spilaæfingu en hann er. Miðja og vörn velja sig svo gott sem sjálf.

Þrátt fyrir þennan stóra bananahýðisstimpil sem er á þessum leik, þá ætla ég að spá því að liðið haldi uppteknum hætti, og vinni með 2+ mörkum. Segjum 2-0 þar sem Díaz og Szobo setja mörkin.

KOMA SVO!!!!

6 Comments

  1. Væri gríðarlega sterkt að vinna þennan leik og koma okkur í 1 sætið.
    City misstigu sig í fjarveru De Bruyne og Rodri, ætti að vera skellur andlega fyrir city að ná ekki að sigra í fjarveru Rodri og vonandi er þetta það sem koma skal frá þeim enda Rodri einn besti miðjumaður heims.

    Sammála með byrjunarliðið þó það sé erfitt að henda Gakpo á bekkinn en hann heldur þá bara hungrinu áfram og kemur sterkur inn.

    3
  2. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Daníel og reyndar er leikurinn í dag kl. 16:30. En hvað um það, þá er ég sammála um að þetta er alvöru banana hýði og vissara að okkar menn mæti frá fyrstu sek. og fái ekki á sig byrjunarmark eins og stundum vill brenna við, Ef Liverpool leikmenn halda einbeitingu frá upphafs flautinu til lokaflautsins þá tylla þeir sér í efsta sætið með stigi meira en City sem gerði jafntefli við Newcastle áðan. Það er sem sé möguleiki á efsta sætinu ef okkar menn vinna þennan leik og ég spái 1 – 2 í hunderfiðum leik sem bara verður að vinnast.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  3. Getur enginn náð Liverpool ef þeir vinna þennan leik algjörlega í þeirra höndum að taka 1. sætið.
    Væri hrikalega gott að vinna þetta og halda hreinu.
    Verð á Paddys að horfa í kvöld á La Zenia sendi hlýja strauma til ykkar : )

    YNWA

    4
  4. City tapar stigum svo toppurinn er okkar ef allt fer vel.

    Vona að Slot haldi fólkinu við efnið. 100% einbeitningar er þörf innan um bananahýði..!

    2
  5. Ekki tengt Liveepool en shit hvað þessi Cole Palmer er góður fótboltamaður, kominn með 4 mörk í fyrri hálfleik á móti Brighton..

    2

Liverpool – West Ham

Wolves – Liverpool