Chelsea á sunnudag (upphitun)

Þá er þessu frábæra landsleikjahléi lokið og alvaran tekin við. Verkefnið er stórt í þetta skiptið, þau eru það alltaf þegar Chelsea kemur í heimsókn. Í þetta skiptið koma gestirnir í talsvert betra formi en þeir hafa gert undanfarin misseri. Annars er alveg merkileg umræðan í kringum þetta Chelsea lið, þeir ná að tengja saman nokkra sigra og menn tala um þá eins og spútnik lið en ekki eins og lið sem hefur eytt tæpum einum og hálfum MILLJARÐI punda í leikmenn á síðustu 2 árum eða svo.

Herlegheitin hefjast kl. 15:30 og við minnum á gullkastið frá því fyrr í vikunni þegar Einar, Maggi og Sigursteinn hituðu m.a. upp fyrir þessa veislu.

Form & sagan

Þessi tvö lið eru alveg merkilega jöfn þegar horft er á fyrri viðureignir þessara liða, ekki bara síðustu viðureignir heldur einnig frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

Áður en Liverpool valtaði yfir þá í lok Janúar á þessu ári, í leik sem hefði frekar átt að enda 8-1 en 4-1 þá höfðu liðin gert fjögur jafntefli í deildinni í röð – ásamt því að mætast í einum úrslitaleik í deildarbikarnum, sælla minninga.

Ég held samt að við séum að fá allt annað Chelsea lið í heimsókn í þetta skiptið. Þeir hafa verið frábærir sóknarlega það sem af er leiktíðar, skapað mikið og skorað 3 mörkum fleiri í deild en Liverpool, en að sama skapi hafa þeir verið að leka inn talsvert af mörkum og fengið á sig 8 mörk, 6 stk fleiri en okkar menn.

Gestirnir náðu þremur deildarsigrum í röð áður en þeir gerðu jafntefli við Nottingham Forest fyrir landsleikjahlé, eitthvað sem þeim hefur ekki tekist að gera í háa herrans tíð svo það er ljóst að Maresca er að gera eitthvað rétt.

Chelsea

Gestirnir mæta til leiks á sunnudaginn nokkuð lausir við meiðsli, meira að segja R. James er kominn til baka og mun að öllum líkindum spila sinn fyrsta leik þetta tímablið (af bekknum). Þeir verða samt sem áður án Fofana og Cucurella sem eru báðir í leikbanni. Alltaf óheppilegt að þurfa að hræra í öftustu línu en þeir eiga að hafa mannskapinn í að takast á við það – ekki ólíklegt að Veiga og Adarabioyo komi inn í stað þeirra.

Annars eru aðrir heilir og ekki ólíklegt að við fáum að sjá Jackson á toppnum með Palmer fyrir aftan sig og Madueke og Sancho á könntunum á meðan að Enzo og Caicedo verða meira í baráttunni þar fyrir aftan. Það er uppstillingin sem að Maresca hefur leitað í það sem af er leiktíðar og mér finnst hæpið að hann ætli sér að breyta nálguninni á Anfield.

Liverpool

Hjá okkar mönnum er meiðslalistinn örlítið lengri, þó vissulega sé ekki útilokað með þáttöku nokkra leikmanna á morgun.

  • Alisson verður frá næstu vikurnar eins og við var búist. Við fáum líklega ekki að sjá hann aftur fyrr en seint í nóvember/snemma í desember.
  • Mac Allister fór meiddur útaf gegn Crystal Palace fyrir landsleikjahlé – var þó kallaður upp og náði að spila seinni leikinn. Hann æfði víst ekki með liðinu í gær svo það er spurning hvort hann verði klár.
  • Endo er að glíma við einhver veikindi.
  • Tsimikas missti af leiknum gegn Englandi og kom eitthvað tæpur til baka. Hann myndi að öllum líkindum ekki byrja þennan leik en spurning hvort hann nái bekknum.
  • Elliot og Chiesa eru ennþá frá vegna sömu meiðsla og þeir voru að glíma við fyrir landsleikjahlé – það styttist samt í þá báða, líklega á sá fyrrnefndi aðeins lengra í land en þeir ættu vonandi að geta hjálpað til eftir næstu helgi.

Aðrir eru heilir, sumir meira að segja nokkuð vel hvíldir eftir óvænta hvíld í landsliðsverkefnum sínum (VVD fékk rautt spjald með Hollendingum og var því í banni í síðari leiknum og Salah fékk einnig frí í seinni leiknum en af öðrum ástæðum). Slott hefur sýnt það hingað til að hann er ekki að rótera að ástæðu lausu. Ég ætla því að skjóta á að liðið verði mjög svipað því sem við höfum verið að sjá nema að Kelleher komi í markið og Curtis Jones komi inn á miðjuna í stað Mac Allister – það er þá spurning hvort að Szoboszlai komi aftar í stöðuna hans Mac Allister og Curtis spili þá aðeins framar. Jafnvel þó það væri hægt að spasla Mac Allister saman þá erum við að fara inn í rosalegt prógram þar sem við þurfum á öllum okkar kannónum að halda:.

Kelleher

TAA – Konate – Virgil – Robertson

Gravenberch – Curtis
Szoboszlai
Salah – Jota – Diaz

 

Spá

Ég er bjartsýnn en á sama tíma er það einmitt það sem hræðir mig hvað mest. Ég sé þetta Chelsea lið ekki koma á Anfield og halda hreinu og þurfi því að skora nokkur á okkur ef þeir ætla sér að hirða öll stigin. Á sama ´tima held ég að opinn leikur henti okkar liði betur. Það bítur mig oftast í rassinn þegar ég er þetta bjartsýnn fyrir leik Liverpool en ég ætla að skjóta á 3-1 sigur þar sem að Salah skorar tvö og Jota eitt!

Koma svo!

YNWA

3 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Á Ystu Nöf er vaknað snemma á leikdegi. Ræst var út kl. 03.00 og veðurspá send. Slátra þurfti einu nauti og senda með trukki í áskrift beint frá býli til höfuðborgarsvæðisins. Safnaðarmeðlimir munu flykkjast um hádegi í Hlöðuna og horfa síðan á leik Liverpool vs Chelsea kl. 15:30. Fyrir þann tíma þarf að sjóða sviðahausa og nautatungu sem og taka til aðrar veigar. Það ríkir mikil gleði og spenna hér á Ystu Nöf. Fólk brosir óræðum brosum og gantast hvert við annað. Mín spá er 4-2 þó svo að Gunna spákona segi annað.

    24
    • Ég ætla rétt að vona að Vegir liggja til allra átta verði spilað á grammifóninum. Annað væri óráð.

      5
  2. Sælir félagar

    Þetta verður hunderfitt eneg vonast eftir sigri. Þori ekki að spá neinu. Er í Liverpool og það er þegar komið gott stuð á mannskapinn.

    Það er nú þannig

    YNWA

    10

One Ping

  1. Pingback:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Þyngra prógramm

Stelpurnar fá Palace í heimsókn