Toppliðið heimsækir Newcastle á morgun

Annað kvöld mun lang efsta lið deildarinnar heimsækja lærisveina Eddie Howe í Newcastle í 14.umferð Úrvalsdeildarinnar en Liverpool kom sér heldur betur í þægilega stöðu um helgina þegar Liverpool rústaði Manchester City 2-0 á Anfield. Rústaði og 2-0 hljómar kannski klikkað en þau sem horfðu vita að þetta var rúst.

Liverpool hefur verið á frábæru skriði undanfarið og komust svo sannarlega vel í gegnum þetta tíu leikja prógram í öllum keppnum þar sem ansi margir virtust handvissir um að Liverpool myndi nú fara að fatast flugið en svo var nú aldeilis ekki og Liverpool vann alla leiki nema einn þar sem liðið gerði 2-2 gegn Arsenal á útivelli í mögulega einum versta leik sem liðið hefur spilað í vetur. Það var nú ekki beint glæsibragur yfir leiknum gegn Southampton sem var fyrsti leikur eftir síðasta landsleikjahlé og fóru margir keppinautar eflaust að sleikja út um og bjuggust við að Liverpool færi nú að dala en heldur betur ekki.

Á síðustu viku eða svo lék Liverpool sér að bæði Real Madrid og Man City og vann bæði lið 2-0 og situr nú með níu stiga forskot á Arsenal, Chelsea og Brighton og ellefu stig á Man City sem er bara drullu sæmileg staða til að vera í þegar desember törnin fer af stað og næsta verkefni er útileikur gegn Newcastle.

Newcastle hefur verið svolítið upp og niður á þessari leiktíð, litið mjög flott út í einhverjum leikjum en alls ekki merkilegir í öðrum. Frá síðasta landsleikjahléi hafa þeir tapað gegn West Ham og gerðu jafntefli við Crystal Palace um núliðna helgi. Alexander Isak, þeirra skæðasti framherji, fór meiddur út af í síðasta leik og óvissa hefur verið með þátttöku hans á morgun en það virðist vera að útlitið sé bjartara með hann og að hann verði líklega með.

Oft hafa þeir verið þéttir varnarlega og erfitt að brjóta þá niður, með nokkra grófa leikmenn hér og þar sem er nú ekki skemmtilegt að mæta eins og t.d. Joelinton. Þeir eru nokkuð hávaxið og sterkt lið sem gæti verið ógn í föstu leikatriðunum og þeir hafa nokkra beinskeytta sóknarmenn eins og áðurnefndan Isak og Harvey Barnes og Anthony Gordon – sem var nú nokkuð sterklega orðaður við Liverpool í sumar.

Liverpool verður án leikmanna eins og Alisson, Bradley, Diogo Jota, Konate, Tsimikas og spurning verður hvort að Chiesa verði kominn aftur í leikmannahóp eftir meiðsli en sá ítalski er farinn að hefja æfingar með liðinu að nýju og ætti að vera væntanlegur inn í hóp aftur fljótlega og Harvey Elliott kom inn á í uppbótartíma gegn Man City svo það er að aukast aðeins í breiddina frammi en á móti þá hefur fækkað leiðinlega mikið úr vörninni eftir meiðsli Konate, Bradley og Tsimikas.

Kelleher

Trent – Gomez – Van Dijk – Robertson

Szoboszlai – Gravenberch – Mac Allister

Salah – Nunez – Gakpo

Það er kannski pínu erfitt að spá fyrir um það hvernig Arne Slot ætlar að stilla upp í þessum leik og ekki ósennilegt að hann róteri einhverju svona nokkuð “óvænt” í næstu leikjum. Til dæmis hefur Gravenberch spilað mikið undanfarið en gæti þó verið mjög mikilvægur í þessari viðureign, Trent mun ekki spila tvisvar 90 mínútur gegn Newcastle á morgun og Everton um helgina svo það þarf að finna skiptimann fyrir það – það er því spurning hvort að Quansah gæti spilað annan leikinn í miðverði og Gomez í hægri bakverði eða þá annar þeirra komið inn sem hægri bakvörður seinna í leikjunum eins og Quansah gerði gegn Man City.

Szoboszlai og Jones hafa skipt svolítið á milli sín stöðu á miðjunni líkt og Gakpo og Diaz hafa gert með vinstri vænginn og spurning hverjir þeirra koma til með að byrja en þeir voru allir frábærir gegn Man City, þá gæti Nunez alltaf fengið tækifæri á að byrja og ef hann gerir það ekki þá er það líklega Diaz sem að spilar fremstur.

Sjáum hvað setur. Krefjandi útileikur framundan og á margan hátt allt, allt öðruvísi áskorun heldur en síðustu tveir leikir hafa verið svo Liverpool þarf að halda haus og spila vel til að halda sigurgöngu sinni áfram og vonandi fá hagstæð úrslit á morgun og auka bilið enn meira á toppnum!

Sjáum hvað setur annað kvöld.

7 Comments

  1. Heldur þetta ekki bara áfram á sömu braut og við tökum þetta 0-2?

    Sammála með þetta byrjunarlið, alveg kominn tími á að Gakpo fái að fylgja eftir sinni frammistöðu en mikið afskaplega væri ég líka til í að sjá stabílan Nunez í kvöld – held svei mér þá að ef hann fer ekki að koma sér almennilega í gang þá sé hann hreinlega undir í janúar-glugganum.

    Áfram að markinu – YNWA!

    3
    • Ég held að Nunez geri nú sitt gagn þó hann skori ekki mikið. Menn þurfa að hafa heilmikið fyrir honum í teignum og svo er hann ágætur að pressa. En það kæmi ekki á óvart að hann yrði seldur í sumar. Janúar er ekki málið, með Jota alltaf meiddan.

      9
      • 100% sammála myndi meika 0 sense að hann færi í janúar en ef ekkert gerist allt tímabilið ? þá er alveg séns að hann fari næsta sumar.
        Annars líkar mér hrikalega vel við Nunez og það er gaman að fylgjast með honum á vellinum en hann verður að fara skora mörk líka sem #9.

        Fer svo örugglega að styttast í Jota og það gæti reynst okkur dýrmætt að eiga hann inni þegar hann dettur inn.

        5
  2. Eru eitthverjar fregnir af honum Jota vin okkar ? hans er saknað síðan í oktober mikið væri gott að fara fá hann til baka.

    5
    • Ég var einnig að hugsa það sam með Jota, maður heyrði aldrei hvað hefði komið fyrir þegar hlunkurinn datt ofann á hann.

      Nunez þarf nú heldur betur að fara að hitta í netið

      4
  3. Sælir félagar

    Það verður spennandi að sjá hvernig okkar menn mæta til leiks í kvöld. Liðið okkar er magnað á sínum degi en þó mega menn ekki ofmetnast en verða að bera virðingu fyrir öllum andstæðingum. Newcastle er óútreiknanlegt lið og enginn veit hvernig þeir mæta til leiks. Ég vonast eftir sigri í hunderfiðum útileik. Mikið væri það nú gott.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  4. Nunez tekur mikið til sín þó hann skori ekki nógu mikið ! Sjáið þið t.d. seinna markið á móti shitty. ég á von á erfiðum leik, en vonast eftir sigri. Aðalatriðið er að halda hreinu. KOMA SVO RAUÐIR !

    2

Gullkastið – Olíulaust Man City

Liðið gegn Newcastle