Merseyside Derby helgi (Everton á Goodison á laugardag – Upphitun)

Það er svolítið merkilegt hve svekktur maður var eftir jafnteflið gegn Newcastle. Í leik þar sem maður hefði líklega þegið jafntefli fyrir leik, í hálfleik og um miðjan síðari hálfleik en vera svo virkilega svekktur með jafnteflið þegar flautað var til leiksloka. Líklega vegur þar hvað þyngst hvernig og hvenær jöfnunarmarkið kom en þau úrslit setja þennan leik í svolítið annað samhengi. Sigur er orðinn nauðsynlegur ef við ætlum ekki að sjá forskotið hverfa á innan við viku – en það sýnir kannski hve stutt getur verið á milli í þessu sporti. Meiðslin sem við urðum fyrir gegn Real telja nú þungt og höfðu klárlega áhrif á leik liðsins á miðvikudaginn. Við náum vonandi vopnum okkar aftur á morgun enda verða helgarnar ekki mikið stærri – Það er Merseyside derby helgi!

Það er ekki mikill tími til að hvíla sig, fara á kaffibarinn á æfingarsvæðinu og ræða málin. Eftir að hafa spilað á miðvikudagskvöld hefjum við 15 umferðina í hádeginu á laugardag (12:30). Við minnum á gullkastið frá því fyrr í vikunni þegar Einar, Maggi og Sigursteinn hituðu m.a. fyrir þessa veislu.

Það er vert að geta þess að það er spáð vitlausu veðri í Liverpool á morgun. Engin ákvörðun sem liggur fyrir að svo stöddu en það er alveg möguleiki á að leiknum verði frestað – en það er búið að fresta leikjum morgundagsins í Wales til dæmis. Við sjáum hvað setur.

Form & sagan

Það er nákvæmlega ekkert að marka formið eða stöðuna þegar kemur að einvígum þessara liða, við þekkjum það bara frá því í apríl þegar okkur var snýtt á þessum velli og endanlega gert út um titilvonir okkar manna.

Það er samt forvitnilegt að skoða hvernig liðunum hefur vegnað í þessu einvígi og hvernig þeim hefur gengið í síðustu leikjum. Liverpool hefur þar verið með talsverða yfirburði og unnið 28 leiki af 64 á meðan að 25 sinnum hefur verið jafntefli og þeir bláklæddu gengið í burtu með öll stigin í 11 skipti. Eins og búist var við hefur Liverpool gengið betur heima fyrir en það kom mér samt á óvart að þeir hafa unnið 11 leiki á Goodison á meðan að Everton hefur ekki unnið nema 8 sinnum þar.

.

Að því sögðu. Þegar við skoðum síðustu leiki á Goodison þá hefur Liverpool bara einu sinni sótt sigur á þennan völl síðan 2018, en það kom einmitt í desembermánuði fyrir þremur árum þegar við unnum 1-4 sigur. Síðan þá höfum við spilað þarna í tvígang án sigurs (0-0 jafntefli í apríl 2022 og 2-0 tap í apríl 2024).

Everton létti aðeins pressunni með góðum sigri á miðvikudaginn eftir hörmulegt gengi síðustu vikurnar. Það var jafnframt þeirra eini sigur í síðustu 5 leikjum þar sem þeir hafa ekki náð nema 5 stigum af 15 mögulegum. Liverpool er aftur á móti að koma inn í þennan leik með 13 stig af síðustu 15 eftir 4 sigra og jafntefli í síðustu 5 leikjum.

Everton

Heimamenn elska fátt meira en að eyðileggja atlögu Liverpool að titlinum. Þeir munu eflaust syngja um 2-0 sigurinn síðasta vor á morgun og jafnvel gefa út DVD disk ef hann er ekki kominn út nú þegar (DVD er ennþá notað einhversstaðar er það ekki annars?). Það er því alveg ljóst að þeir verða klárir í þennan slag og ef Liverpool ætlar að byrja leikinn svipað og þeir gerðu á St James Park þá erum við í vandræðum.

Þeim hefur gengið afskaplega erfiðlega upp við mark andstæðingana. Ekki skorað nema 14 mörk og voru þessi 4 mörk gegn Wolves að sama skapi einu og fyrstu mörk liðsins í deildinni síðan í lok október. Öll mörkin komu eftir fast leikatriði (í raun skoruðu þeir 5 eftir föst leikatriði en 1 var dæmt af sökum rangstöðu). Slot talaði einmitt um það á blaðamannafundi í dag að við þurfum að vera á tánum, vera aggressívir en að sama skapi klókir – enda virðumst við alltaf brjóta oftar á okkur og skiptir þar engu máli hvort við séum 30% eða 70% með boltann.

Everton er ekki að glíma við nein meiðsli lykil leikmanna sem stendur utan Michael Keane sem hefur verið frá undanfarið vegna hnémeiðsla en gæti jafnvel náð leiknum á morgun.

Ég efast um að Dyche muni leggja upp með að pressa okkur jafn ofarlega og Newcastle gerðu. Þeir munu eflaust sætta sig við að þurfa liggja aðeins til baka en leggja mikið uppúr því að senda langa bolta á Dominic Calvert-Lewin, sem mun án nokkurs vafa halda sig Gomez megin í vörninni, og reyna að vinna eins mikið af auka- og hornspyrnum og þeir mögulega geta.

Liverpool

Hjá okkar mönnum er meiðslalistinn örlítið lengri og hann styttist því miður ekkert frá því fyrr í vikunni.

  • Alisson er ekki klár í þennan leik en það er víst orðið mjög stutt í hann skv Slot á blaðamannafundi fyrr í dag. Ekki ólíklegt að við sjáum hann annað hvort gegn Girona eða Fulham (næstu helgi).
  • Konate, Bradley og Kostas eru enn fjarverandi og verða það líklega út árið, þó það sé líklega eitthvað styttra í það síðastnefnda. Við fundum fyrir því á miðvikudaginn þegar varnarleikur og sóknarleikur liðsins riðlaðist við þessi meiðsli – vonandi er TAA tilbúinn til að byrja á morgun og við sjáum Gomez halda áfram að stíga upp og gera alvöru tilkall í miðvarðarstöðuna.
  • Mac Allister er í banni eftir að hafa fengið 5 gul spjöld á leiktíðinni. Virkilega slæmt að vera án hans í þessum leik en miðað við spilamennsku hinna þriggja undanfarið þá eigum við að ráða við fjarveru hans, og vel það. Breiddin aftur á móti er orðin ansi lítil þarna, eins og á öðrum svæðum svo sem.
  • Jota og Chiesa spila ekki þennan leik, þó það sé smá möguleiki á að sjá Chiesa á bekknum eftir að hann spilaði 60 mínútur með U21 fyrr í vikunni (og skoraði). Það er farið að styttast í Jota – en hve lengi við fáum að njóta hans þá verður að koma í ljós. Eins frábær og hann er þá er þetta orðinn leiðinlegur vani, að vera ekki til taks yfir stóra og mikilvæga kafla hvers tímabils.

Utan þessa 7 þá eru aðrir eru heilir. Eins og var nú rætt og skrifað um meiðsli Arsenal fyrr á leiktíðinni þá komst það ekki einu einni nálægt því sem við erum nú að eiga við.

Ég ætla að skjóta á að það verði þrjár breytingar frá því í leiknum gegn Newcastle og inn komi Szoboszlai (Mac Allister), TAA (Quansah) og Diaz (Darwin). Þetta yrði þá s.a. svona:

Kelleher

TAA – Gomez – Virgil – Robertson

Gravenberch – Curtis
Szoboszlai
Salah – Diaz – Gakpo

 

Spá

Ég er stressaður en temmilega bjartsýnn. Við erum komnir inn að beini hvað meiðsli varðar og getum lítið gert til þess að deila álaginu þessa daganna. Við þurfum því að treysta á að það sem maður skynjaði sem þreytu á miðvikudaginn hafi bara verið off dagur og við sjáum sama Liverpool lið og við höfum séð síðustu vikur. Við þurfum að byrja strax á fyrstu mínútu og megum ekki við því að gefa heimamönnum og stuðningsmönnum mark í forgjöf. Horfandi á síðustu 5 leiki þessara liða þá er 2-0 algengustu úrslitin – ég ætla því að skjóta á 0-2 sigur okkar manna þar sem að Diaz og Gakpo skora bæði mörkin.

Koma svo!

YNWA

24 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Býst við erfiðum leik á morgun. Við erum að keyra mikið á sömu mönnunum í gegnum glórulaust álag. Á morgun verðum við með Quansah og svo krakka líklega til að koma inn í vörnina. Á miðjuna geta Endo, Morton og krakkar komið inn. Frammi er það Darwin og… krakkar. Vonandi getur Elliot leyst af einhverjar mínútur. Hvað gerist ef Robertson dettur út?? Eða Salah??? Það virðist vera langt í Chiesa. Liðið má varla við neinum skakkaföllum til viðbótar og vont að geta ekki róterað aðeins meira. Konate, Bradley og Tsimikas meiðslin að koma á afleitum tíma. Vonast eftir 0-2 sigri og að Liverpool byrji leikinn af krafti

    2
  2. Held að þessi frestun sé ekkert það versta sem gerðist meðað við leikjaálag og meiðsli.
    En auðvitað súrt að fá ekki leik !

    8
    • svo ætti að vera hægt að rótera talsvert gegn Southampton í deildarbikar og Girona í Cl þannig að desember lítur ekki svo illa út.

      8
  3. Svekkjandi fyrir þá sem fóru langa leið og með dýra miða í höndunum, hvernær er þá áætlað að leikurinn fari fram ?
    Er það um helgina eða bara eftir áramót ?

    1
  4. það er nákvemlega ekkert að veðrinu þarna .. samkvæmt windy .. djöfulsins svekkelsi

  5. Held þetta sé nú bara ágætt. Leikmenn enn stirðir og súrir eftir newcastle rússíbanann og þessi töf eykur líkur á að einhverjir fari af meiðslabekknum. Verður einmitt gaman að sjá hvort Chiesa fái ekki að spreyta sig í CL eiknum í vikunni og eins hvernig þeir stilla upp á móti Southampton.

    Eitt tap það sem af er móti og tvö jafntefli er glæsilegur árangur en tekur sinn toll af leikmönnum. Nú þarf að stilla saman strengi og safna kröfum. Everton er með alla heila og vann stórt í síðasta leik. Getum alveg mætt þeim á betri tíma!

    Þetta er súrt fyrir fólkið sem var mætt á svæðið en yfir það heila ætti þetta að vera jákvætt fyrir liðið.

    4
  6. Ég lít á frestun nágrannaslagsins sem blessun. Sönnun þess að veðurguðirnir haldi með Liverpool Fc og You never walk alone sé uppáhalds lagið þeirra. Ég nam þreytu í síðasta leik gegn Newcastle , það var ekki sama eljan í liðinu og gegn Real Madrid og Man City og því er þetta frí kærkomið.

    7
      • Já maður skilur ekkert hvað er að gerast hjá þeim. Og hversu miklu skiptir 1 leikmaður hjá þeim. Maður hélt þeir væru með það mikil gæði á bekknum að það myndi ekki hafa áhrif. Ótrúlegt hrun hjá þeim.

        4
  7. Ja hérna, það er ástand í Manchesterborg!

    Það eru ýmis lið að tapa fyrir Nottingham Forest um þessar mundir. Og ekki voru milljónastjörnurnar í stuði. Besti maður Utd var varamaðurinn Harry fucking Maguire…

    4
  8. Onana fór á kostum á lokamínútunni, eyddi 30 sek. í að reyna stela metrum í aukaspyrnu langt frammi á velli en dómarinn rak hann alltaf til baka. Meira að segja einhvern Utd gaur kvartaði undan því við dómarann að Onana mætti þetta ekki.
    Ég hefði öskrað á minn mann að drulla tuðrunni inn í teig.
    Veit ekki um ykkur…

    8
    • Sama saga segir líka að TTA og VvD séu líka komnir í samningaviðræður.
      Vonandi verður þessari óvissu lokað sem fyrst.

      3

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Newcastle 3 – 3 Liverpool

Stelpurnar okkar heimsækja United