Stelpurnar okkar heimsækja United

Ekkert varð af Merseyside derby á Goodison vegna veðurs, en það lítur allt út fyrir að stelpurnar okkar muni spila gegn United í dag kl. 12:00 (sunnudaginn 8. desember) í sínum fyrsta leik eftir síðasta landsleikjahlé ársins.

Merkilegt nokk þá var þeirra síðasti leikur gegn Newcastle, rétt eins og hjá strákunum. Hins vegar spilar kvennalið Newcastle í næstefstu deild – leikurinn var semsagt í Continental bikarnum – og okkar konur unnu öruggan 6-1 sigur þrátt fyrir að vera með allnokkuð róterað lið. Zara Shaw skoraði þar sitt fyrsta mark fyrir félagið með góðu langskoti, Mia Enderby setti tvö og sýndi enn og aftur hvað hún er hættulegur leikmaður þegar aðstæður eru henni í hag. Hún er jú – rétt eins og Zara – enn ung og er eðliðega aðeins að ströggla gegn sér eldri og sterkari leikmönnum.

Nóg um síðasta leik. Nú er það leikur gegn Manchester United. Lið United hefur verið á góðri siglingu í haust, og hefur verið að gera betri hluti en í fyrra, þrátt fyrir að hafa misst leikmenn eins og fyrirliðann Katie Zelem og markvörðinn Mary Earps ásamt fleirum. Það er semsagt þannig að hann þarna Ratcliffe er mest að einbeita sér að karlaliðinu – ekkert skrýtið svosem enda allt á rú og stú þar – og kvennaliðið þeirra hefur litla athygli fengið á síðustu misserum. Þetta varð til þess að þær Zelem og Earps vildu fara annað, lái það þeim hver sem vill (mögulega var fleira sem spilaði inn í en þetta hjálpar klárlega ekki). En einhvernveginn tókst þeim að snúa bökum saman og hafa bara staðið sig óþægilega vel á þessum síðustu mánuðum.

Okkar konur koma ögn lemstraðar inn í leikinn. Nöfnunar Sophie Roman Haug og Sofie Lundgaard eru báðar frá – sú danska út tímabilið væntanlega – þá er Marie Höbinger líka að glíma við eitthvað hnjask, og Rachael Laws er tæp í besta falli. Eins fengu bæði Gemma Evans og Hannah Silcock heilahristing með sínum landsliðum og verða því tæpast með. Að lokum er Lucy Parry líka frá. Matt Beard gaf því út á fréttamannafundi fyrir helgina að Zara Shaw myndi byrja sinn fyrsta deildarleik, og jós hana reyndar lofi. Sagðist hefði viljað setja hana í liðið 15 ára – en rétt áður en til þess kom þurfti hún endilega að slíta liðbönd og var því frá í heilt ár. En nú fáum við loksins að sjá hvað í henni býr.

Til að bæta gráu ofan á svart þá munu stelpurnar spila 3 leiki í þessari viku; þennan leik gegn United, spila svo gegn Everton í bikarnum í miðri viku, og fá svo Arsenal í heimsókn á St. Helens um næstu helgi. Þetta er því alversti tíminn til að vera í meiðslakrísu. Eitthvað hljómar það nú kunnuglega…

Liðið sem byrjar lítur svona út:

Micah

Fisk – Bonner – Matthews – Hinds

Holland – Nagano – Shaw

Smith – Kapocs – Enderby

Bekkur: Spencer, Clark, Fahey, Daniels, Duffy, Kiernan.

Þetta er klárlega með alþynnstu bekkjum sem við höfum séð hjá stelpunum.

Leikinn má svo sjá á Youtube rás deildarinnar.

KOMASO!!!!!

5 Comments

Skildu eftir athugasemd
      • Og sporting director Dan Ashworth hættur eftir aðeins fimm mánaða starf! Það var til einhvers allur þessi bardagi að rífa hann upp með rótum frá Newcastle fyrir stórfé. Vopnafjarðarsörinn Ratcliffe er greinilega í mestu vandræðum með að koma skikki á rekstur karlaliðsins.

      • Það er svona næstumþví eins og þessi blessaði United klúbbur sé bara rotinn að innan…?

        1
  1. Við gleymum þessum leik eins fljótt og mögulegt er. Nú þurfa stelpurnar bara að safna liði og kröftum fyrir leikinn gegn Everton í bikarnum sem verður kl. 18 á miðvikudaginn.

    1

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Merseyside Derby helgi (Everton á Goodison á laugardag – Upphitun)

Girona-Liverpool í Meistaradeildinni