Girona-Liverpool í Meistaradeildinni

18. dag júnímánaðar árið 1979 kom út popplag sem átti eftir að gera það ansi gott. Hljómsveitin hét The Knack og kom frá Los Angeles. Lagið hét My Sharona og var svokallaður one-hit wonder því fátt markvert gerðist það sem eftir lifði hjá hljómsveitinni en væntanlega hafa meðlimir lifað bærilegu lífi út af þessum smelli. En hvað kemur þetta lag Girona við? Akkúrat ekki neitt, nema hvað alltaf þegar ég heyri þetta lag heyri ég söngvarann syngja My Girona. Og af hverju? Jú, vegna þess að árið 2004 kom ég til þessarar borgar, sem ég hefði annars ekki vitað að væri til. Og fæstir kannski vita neitt um. Ástæðan var einföld, Ryanair notaðist við Girona-flugvöll sem “Barcelona-flugvöll”. Sem er nokkuð fjarri lagi enda um 100 km á milli borganna. En nóg um það.

Á þeim tíma vissi ég akkúrat ekkert um þessa borg og gisti bara nálægt flugvellinum til að halda síðan áfram til Barcelona. En saga borgarinnar er hins vegar alveg ágæt og kannski rétt að stikla aðeins á stóru um hana, þar sem liðin hafa ekki mæst áður og því er ekki til nein Evrópu-Einars-upphitun fyrir sögu borgar og félags. Og hefst þá lesturinn.

Borgin

Girona er staðsett eins og fyrr segir í Katalóníu á Spáni við ána Onyar um það bil 100 km norður af Barcelona. Borgin er höfuðborg Girona-héraðs, og er hluti af sjálfstjórnarhéraðinu Katalóníu. Í borginni búa um 100.000 manns.

Saga borgarinnar nær yfir 2000 ár. Uppruna hennar má rekja til stórveldistíma Rómar, þegar borgin var stofnuð undir nafninu Gerunda. Hún var hluti af Via Augusta, sem var mikilvægur vegur sem tengdi saman Miðjaðarhafsborgir Íberíuskagans en náði einnig yfir á Atlantshafsströndina í suðri þar sem nú er borgin Cadiz. Undir stjórn Rómverja gegndi borgin mikilvægu hlutverki sem miðstöð og virki nyrst á Íberíuskaganum.

Á miðöldum varð Girona mikilvæg borg og var eins og flestar miðaldaborgir Evrópu oft bitbein konunga og þjóða sem girntust völd yfir fólki og auðlindum. Karlamagnús Frankakonungur náði borginni árið 785 af Márum. Márarnir létu þó ekki segjast og réðust reglulega á borgina á næstu öldum. Alls lenti borgin í umsátrum 25 sinnum og í sjö af þeim umsátrum skipti borgin um “eigendur”. T.d. réðst Napóleon á borgina árið 1809 og náði henni á sitt vald eftir hetjulega varnarbaráttu heimamanna.

Í nútímanum eru það þó viðskiptaveldi sem gera sig líklega til að vera “eigendur” borgarinnar. Eða a.m.k. þess hluta hennar sem skiptir máli í fótboltalegum skilningi, því félagið FC Girona er hluti af City Football Group, sem á meðal annars Manchester City.

Félagið

Girona FC var stofnað árið 1930. Fyrstu áratugina lék Girona í 3. og 4.deildinni á Spáni, sem eru raunar deildir sem eru landshlutaskiptar. Aðeins tvær efstu deildirnar eru landsdeildir á Spáni.

Í Katalóníu er risinn auðvitað Barcelona og Espanyol kemur þar á eftir. Girona hefur ekki fyrr en á síðustu árum átt roð í þau, því liðið komst upp í 2.deild (Segunda) árið 2008 eftir 49 ára fjarveru. Við erum að tala um síðan 1959. Árið 2010 keyptu síðan fjárfestar frá borginni 72% hlut í félaginu. Liðið hélt sér í 2.deild í nokkur ár og byggði smátt og smátt upp sterkara lið og eftir að hafa tapað í umspilum um sæti í La Liga árin 2015 og 2016 komst liðið í fyrsta sinn í efstu deild árið 2017. Á sínu fyrsta tímabili lenti liðið í 10.sæti en árið eftir féllu þeir aftur í aðra deild. Aftur komust þeir upp árið 2022 og eru núna á þriðja tímabili sínu í röð í efstu deild. Á fyrsta tímabilinu lentu þeir í 10. sæti, á síðasta tímabili í 4. sæti, sem gaf þeim í fyrsta sinn sæti í Evrópukeppni og þeir sitja nú í 9. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 16 leiki. Þeir spiluðu við Real Madrid á heimavelli núna um helgina og töpuðu 0-3.

Eins og fyrr segir eru eigendur félagsins meðal annarra City Football Group. CFG eiga 44,3% í félaginu og Pere nokkur Guardiola á önnur 44,3%. Já, það passar, nafnið er kunnuglegt og Pere þessi er bróðir Pep, þjálfara Man City. Það þarf enginn að segja mér annað en að CFG hafi stutt hann vænlega í því að eignast þennan hlut – einfaldast er að segja að hann sé leppur eða fulltrúi CFG sem á þá 88,6% í félaginu.

Liðið

Markvörður liðsins er Argentínumaðurinn Paulo Gazzaniga. Hann er reyndur og góður markvörður sem hefur leikið fyrir Tottenham og Southampton, ásamt Fulham og mína menn í Elche.

Varnarmenn eru Miguel Gutierrez, Daley Blind eða Ladislav Krejci, David López og Arnau Mártinez. Daley Blind ættum við að kannast við, Gutierrez er vinstri bakvörður, 23 ára Spánverji sem fær það hlutverk að kljást við Mo Salah. López verður síðan miðvörður við hlið Blind eða Tékkans Krejci og Mártinez verður í hægri bakverðinum.

Það er aðeins erfiðara að spá í miðjuna en líklega verða Iván Martin, Oriol Romeu og Donny Van De Beek á miðjunni. Við ættum að kannast við Romeu og Van De Beek, sem feilaði hjá Man Utd. Martin er 25 ára Spánverji sem verður líklega í mesta sóknarhlutverkinu á miðjunni hjá þeim. Ég held að þeir spili með Romeu og Van De Beek í dýpri hlutverkunum á miðjunni.

Í sókninni fáum við svo líklega að kljást við Yáser Asprilla, Bojan Miovski og Bryan Gil. Mögulega Arnaut Danjuma. Ég veit ekki hvernig þjálfarinn róterar, hann er búinn að spila ansi mörgum sóknarmönnum í haust en fyrrum Spursarinn Bryan Gil verður líklega vinstra megin, Makedóninn Miovski í níunni og Kólombíumaðurinn Asprilla hægra megin. Markahæstur á tímabilinu er hins vegar Úrúgvæinn Stuani en hann er orðinn 38 ára og er bara varamaður. Stuani þessi er fyrrum landsliðsmaður Úrúgvæ og er markahæstur í sögu Girona.

Þjálfarinn er Míchel. Hann er fæddur árið 1975 og hann lék nánast alla sína hunds- og kattartíð á miðjunni hjá Rayo Vallecano. Hann hefur þjálfað Girona frá árinu 2021 með þeim árangri sem fjallað er um hér að ofan. Liðið spilar uppspilsbolta sem ég held að nánast öll lið á Spáni spili. Gæti orðið pressuveisla fyrir Liverpool á Municipal Montilivi.

Gengi Girona í Meistaradeildinni er einfaldlega hörmulegt. Þeir eru ekki líkegir til að komast áfram, sitja nú í 30. sæti deildarinnar með þrjú stig eftir fimm leiki, hafa tapað öllum nema einum, unnu Slovan Bratislava 2-0. Þeir byrjuðu á að tapa 1-0 fyrir PSG á útivelli, því næst 2-3 fyrir Feyenoord á heimavelli, í þriðja leik kom loks sigurinn en í fjórða leik töpuðu þeir 4-0 gegn PSV á útivelli. Í síðasta leik töpuðu þeir 1-0 á útivelli gegn Sturm Graz. Þannig að þeir ættu ekki að eiga séns í topplið ensku deildarinnar og Meistaradeildarinnar. En þetta er jú fótbolti og allt getur gerst. Eða hvað?

Liverpool

Það er vissulega gaman að fjalla um og spekúlera í liði Liverpool þessa dagana. Liðið fékk óvænta hvíld á laugardaginn þökk sé storminum Darragh. Helgin spilaðist síðan heldur betur vel því allir keppinautar Liverpool nema Chelsea töpuðu stigum.

Gengi Liverpool hefur verið nánast óaðfinnanlegt í vetur. Jú, segjum bara óaðfinnanlegt. Það er ekki hægt að fara í gegnum heilu tímabilin án þess að tapa stigum og því eru leikir eins og gegn Newcastle hluti af óaðfinnanlegu gengi og spilamennsku. Næsta fórnarlamb ætti ekki að vefjast fyrir liðinu, sérstaklega ekki eftir að hafa fengið hvíld um helgina. Ég hef grun um að Arne Slot róteri áfram eins og hann hefur gert, frestunin kemur á góðum tíma og lykilmenn eru smátt og smátt að snúa til baka. Ég held að hann byrji með sterkt lið og geri svo stórtækar breytingar, jafnvel í hálfleik, ef allt gengur að óskum í leiknum. Að sama skapi vill hann eflaust ekki taka neina sénsa með fyrrnefnda lykilmenn sem eru að koma úr meiðslum. MacAllister er í banni.

Ég spái þessu svona:

Nunez fær áfram sénsinn, einn af hans síðustu í byrjunarliði myndi ég halda. Jota er að koma til baka og tekur níuna um leið og hann er klár. Nunez hefur áfram valdið miklum vonbrigðum og virðist bara alls ekki komast í markaskorunargír þótt hann fái sannarlega tækifærin til að skora. Það dugar bara ekki ef við ætlum okkur alla leið alls staðar. Við þurfum striker sem skorar og gerir allt hitt líka, þar á meðal sleppur við meiðsli.

Skiptingar verða Trent út fyrir Quensah, Gravenberch og Szoboslai fyrir Endo og Elliot, Gakpo og Salah fyrir Diaz og Jota (vonandi). Staðan verður 0-3 eftir 55 mínútur og liðið á cruise control í seinni hálfleik.

Spá, 0-4, Salah með 2, Gakpo og Díaz með sitthvort.

YNWA 

 

 

 

11 Comments

  1. Er þetta ekki tilvalinn leikur fyrir Waturu Endo að spila, gefa Gravenbergh verðskuldað frí frá þessum leik.
    Vonandi er þetta svo seinasti leikur Nunez í byrjunarliðinu í langan tíma, orðinn vel þreyttur á að reyna að hafa trú á honum, hann er bara ekkert góður.
    Væri flott að sigra þennan leik og halda áfram sem eina liðið með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en ég væri frekar til í að taka sá áhættu og reyna að gefa algjörum lykilmönnum pásu en úrvalið sem er til taks er ekkert spennandi vegna meiðsla.

    9
    • Gravenberch hefur hvílt í viku. Hugsa að hann þurfi varla 10 daga hvíld. Auk þess er mikið í húfi að tryggja eitt af 8 efstu sætunum sem fyrst.

      Væri samt til í að sjá Endo eða Morton gegn Southampton í deildarbikar.

      2
  2. Um að gera að hvíla alla sem hægt er að hvíla. Okkar b-lið getur mjög trúlega náð í góð úrslit hvort eð er.

    5
  3. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Ívar og er hún af dýrari gerðinni. Hvað liðin, uppstillinguna og skiptingar varðar þá sé ég ekki ástæðu til athugasemda. Ódýr sigur væri kærkominn og mikil og góð nýting á varamönnum væri frábær.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  4. Takk.

    Var að pæla í einu um daginn. Hvernig geta tvö lið sem eru í eigu sama aðila spilað í sömu keppni? Hef ekki heyrt neina útskýringu af hverju þetta sé í lagi.

    8
  5. Ég komst ekki lengra niður pistilinn en My Girona, þá feitaði ég út og fór að raula þetta lag í hausnum 🙂

    4

Stelpurnar okkar heimsækja United

Liðið gegn Girona – Alisson er kominn aftur