Vestur-London býður – Heimsókn til Fulham (Upphitun)

Jólin eru að koma og fótboltaleikir eru spilaðir oft á viku á Bretlandseyju. Um síðustu helgi fengu okkar menn óvænta pásu sökum illviðris í Liverpool, áður en þeir skelltu sér til hinnar yndislegu Girona borgar og sóttu þrjú stig í Meistaradeildinni. Ef ég er að lesa töfluna rétt þá þarf Slot að tryggja sér eitt stig í viðbót til að gulltryggja topp átta sæti í evrópukeppninni. Svo fer tvennum sögum um hversu miklu skiptir að vera ofarlega í topp átta pakkanum, en það er seinni tíma umhugsunarefni. Um helgina bíða hinir geðþekku Fulham í vesturhluta Lundúna, sem sigla nú nokkuð lignan sjó um miðja deild, láta sig dreyma um að vinna evrópusæti í ár og spila hörku fótbolta undir stjórn Marco Silva.

Andstæðingurinn

Fulham er elsta fótboltalið höfuðborgarinnar. Félagið var stofnað árið 1879 og varð að atvinnumannaliði rétt fyrir aldarlok. Þeir gengu til liðs við fótboltadeildina (undanfara nútíma Úrvalsdeildarinnar) árið 1907. Það eru nokkrir gullmolar í sögubókunum frá þessum tíma, til dæmis var einn fyrsti útlendingurinn til að spila á Englandi, egyptinn Hussein Hegazi, var leikmaður Fulham (í einn heilan leik).

Í seinni tíð hafa Fulham rokkað á milli efstu tveggja deildana. Árið 1997 var sögulegt ár fyrir Fulham og enska boltann, þegar egypski milljarðarmæringurinn Mohamed Al-Fayed keypti félagið. Þetta var í fyrsta sinn sem erlendur aðili eignaðist lið í efstu hillu enska boltans. Nokkrum árum seinna upplifði liðið gullöld sína undir stjórn Roy Hodgson. Þeir tóku þátt í evrópukeppni í annað sinni í langri sögu félagsins og einhvernveginn stýrði Roy þeim alla leið í úrslit evrópudeildarinnar. Við ræðum ekki hvað hann gerði eftir þetta ár.

Síðasta ferð Fulham í b-deildina átti sér stað 2021, þegar liðið féll nokkuð sannfærandi eftir eitt ár í efstu deild. Þeir snýttu Championship deildinni undir stjórn núverandi þjálfarans, Marco Silva, tímabilið 21-22 og héldu sér örruglega uppi næstu tvö ár.

Þeir hafa verið hrikalega öflugir í vetur. Bakvörðurinn Antonee Robinson er að eiga frábært tímabil, sem og markmaðurinn Bernd Leno og miðjumaðurinn Alex Iwobi. Þeir verða þó án lykilmanna á morgun, varnarmennirnir Calvin Bassey og Joachim Andersen eru báðir frá, sem og fyrirliðinn Tom Cairney.

Á góðum degi geta þeir unnið hvaða lið sem er en eiga það til að basla gegn liðunum neðar í töflunni. Í síðustu þrem leikjum hafa þeir náð jafnteflum gegn Spurs og Arsenal, ásamt því að vinna Brighton, eftir að hafa náð að tapa stórt gegn botnliði Wolves.

 

Craven Cottage er völlur af gamla skólanum, opin í hornunum með stúkur sem geta búið til alvöru læti. Til að vinna Liverpool þurfa þeir að gera eins og Newcastle og hleypa leiknum upp í einhverja vitleysu, berja frá sér og pirra okkar menn. Á pappír eiga þeir ekki að eiga séns í Liverpool, en það er fátt hættulegra en vanmat í ensku deildinni.

Okkar menn

Pásan um síðustu helgi breytti jólaáætlunum Arne Slot líklega töluvert. Hann fékk líka þær góðu fréttir að líklega gætu Jota og Chiesa spilað um helgina, sem er rosalegur liðsauki ef rétt reynist. Tsimikas og Konate gætu líka komist aftur á lappir fyrir áramót, en við þurfum samt að lifa með því í nokkrar vikur að það eru ekki nema fjórir leikmenn færir í fimm stöður aftast á vellinum. Hversu ánægðir ætli mennirnir bakvið tjöldin séu yfir að hafa haldið Joe Gomez?

Aftasta lína er því nokkuð sjálfvalinn. Robbo, Trent, Gomez og Van Dijk. Þó Kelleher hafi staðið sig eins og hetja er maður afar ánægður með að brassinn sé komin aftur í markið. Á miðjunni er Gravenberch auðvitað á sínum stað, en MacAllister tekur út bannið sem hann átti að vera í á móti Everton í þessum leik í staðinn. Þá er nokkuð víst að Jones byrjar með Szoboszlai.

Það hefur verið mikið ritað og rætt um Nunez síðustu vikur. Mikilvægasti punkturinn kom frá Salah, sem kallaði Darwin besta liðsfélaga sinn síðan Firmino. Þó hann sé greinilega farin að ofhugsa það að skora í döðlur, þá er hann risastór hluti af sóknarlínunni og á að halda stöðunni, allavega þangað til Jota er klár að byrja. Ég spái að Slot vilji nota stærð Gakpo frekar en æsinginn í Diaz í þessum leik. Í öðrum orðum verður þetta svona:

 

Spá

Okkar menn vilja hefna fyrir þetta litla klikk á móti Newcastle og koma vel gíraðir inn í þennan leik. Þeir koma til með að vinna 0-2, þar sem Gakpo skorar eitt og Trent poppar upp með góða neglu. Þetta gerist á meðan Liverpool aðdáendur blóta því að árið 2024 ríghalda bretar ennþá í að sýna ekki laugardagsleiki klukkan 3, sem er ótrúlegt.

5 Comments

  1. Reyndar er þetta heimaleikur LIVERPOOL þannig að ég vona að þeir komi og heimsækji okkur. Spái þessi 3-1. SALAH heldur áfram að hrella andstæðingana, með tvö kvikindi og GAKPO eitt stykki.

    8
  2. Söfnuðurinn hér á Ystu Nöf mun koma saman í hlöðunni fyrir leikinn og skrifa jólakort og horfa svo á leikinn. Af því tilefni sendum við öllum Liverpoolurum, nær og fjær, hugheilar jóla og nýárskveðjur með þökk fyrir gömulu árin og megi nýja árið vera gjöfult og færa okkur bikara. Guð blessi ykkur.

    Hvenær skoruðum við 4 mörk í leik?

    23
  3. Ætlunin var að mæta á Anfield í dag og horfa á leik þar svo ég vona svo sannarlega að pistlahöfundur fari rangt með leikstaðinn

    8
  4. Er logandi smeykur við þennan leik (hey rímar, næstum…). Finnst liðið hafa verið svolítið höktandi og hvílt um of á framtaki Salah. Hinir framherjarnir þurfa að stíga upp og skapa hættu á hinum kantinum og miðri sókn. Diaz þarf að endurheimta fyrra form í markaskorun og sennilega fær Nunez enn eitt tækifærið á að sýna eitthvað. Þessi Robinson bakvörður er öflugur og okkar besti gæti átt í vandræðum með að komast framhjá honum.

    2

Annar Merseyside derby hjá kvennaliðinu

Byrjunarliðið gegn Fulham