Gullkastið – Tvö Töpuð Stig

Liverpool lenti í ótrúlegu mótlæti gegn Fulham og tapaði á endanum ósanngjarnt tveimur stigum í leik þar sem stóru atvikin féllu svo sannarlega ekki með okkar mönnum, ekkert þeirra. Engu að síður sæmilegt stig m.v. að liðið var marki undir þegar Robertson var sendur í bað og því manni færri í 74.mínútur plús 16.mínútur í uppbótartíma. Samtals 90 mínútur og það voru svo sannarlega ekki 10 leikmenn Liverpool sem voru að reyna tefja og halda stiginu á lokamínútunum.

Ögurverk liðið er á sínum stað og sem og fagmaður vikunnar í boði Húsasmiðjunnar.

Næstu verkefni eru stjóralausir Southampton menn í deildarbikarnum þar sem Slot mun klárlega nota hópinn töluvert því að um helgina bíður Tottenham úti, leikur liðanna á síðasta tímabili er í sögubókunum sem sá ósanngjarnasti ever í úrvalsdeildinni enda dómgæslan bókstaflega glæpsamleg. Vonandi er ekki annað fíaskó framundan svona strax í framhaldi af þessu bulli sem við horfuðum uppá gegn Fulham. Lágmark að þau mörk sem okkar menn skora telji allavega og aðeins jafnvægi í rauðu spjöldunum myndi einnig hjálpa!

Happatreyjur.is

Minnum áfram á Happatreyjur.is eru auðvitað jólagjöfin í ár, lesendur Kop.is geta notað afsláttakóðan KOP10

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: SSteinn og Maggi

Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.


Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

MP3: Þáttur 501

11 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir þáttinn, alltaf gott að heyra í Liverpool stuðningsmönnum sem virðast vera þeir einu sem sjá hlutina í réttu ljósi 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    10
  2. Sælir, ég get verið sammála því að meðan leikurinn spilaðist þá var maður ekki mikið að spá í rauða spjaldinu á Robertson. Eftir á að hyggja hins vegar þá var þetta svo langt því að vera “clear and obvious goal scoring opportunity”. Það var bara allt of mikið sem gat gerst, í fyrsta lagi hafði Wilson eiginlega enga stjórn á boltanum, boltinn var á leiðinni í áttina að VVD og Jimenez. VVD hefði líklega náð til hans fyrst ef ekki hefði verið fyrir Jimenez osfrv. Bara einfaldlega rangur dómur.

    9
  3. Þó sárt sé að segja það, þá er þetta bara nokkuð gott að ná 2 jafnteflum í 2 mjög erfiðum leikjum. Getum ekki ætlast til að vinnum alla leiki. Það kemur alltaf að smá lægð. En núna er hún búin!

    Koma svo, YNWA.

    9
  4. Sælir bræður og takk fyrir gott uppgjör sem og góðan þátt.

    Til þess að ræða aðeins fílinn í herberginu, maður að nafni Andy Robertson, þá verð ég að viðurkenna að mér hefur hann verið að slakna aðeins að undanförnu, sérstaklega undir lok síðasta tímabils en í leiknum nú á móti Fulham þá fær hann þessa skelfilegu tæklingu á sig í byrjun leiks, sem með réttu hefði átt að gera Fulham manni færri og við það er maðurinn bara off það sem eftir lifði frammistöðu hans í leiknum. Án efa hefur þetta stuðað hann og valdið einhverjum eymslum en að geta ekki brotið odd af oflæti sínu og flaggað því við Slot þannig að það sé þá gerð skipting skil ég ekki. Niðurstaðan varð þetta ömurlega mark sem hann er að þvælast fyrir þarna og svo stuttu síðar að vera sendur rakleitt beint í sturtu fyrir satt best að segja litlar sakir.

    Hinsvegar þá var þessi frammistaða hjá liðinu svo framar öllum vonum að hálfa væri hellingur og samt ekki nógsamlega lofað hversu góðir þeir voru. Maður fann ekkert fyrir því að við værum einum færri og þessi tvö mörk sem við skorum voru svo yndislega flott. Við vorum mun líklegra að klára þennan leik undir lokin en því miður fór þetta svona og má vel við una, miðað við stöðuna að við næðum stigi.

    Það að lið séu bara að ná einhverjum svona grísa-mörkum á okkur segir manni heilmikið líka um hversu þéttir við erum í vörninni en svo má nefna það að þetta skák-upplegg hjá Slot – að nota fyrri hálfleikinn svona eins og það sé verið að stilla upp og þreifa á andstæðingnum til þess að sjá hvar veikleikar hans eru er farið að verða svolítið þreytt. Ekki að það komi að sök, við náum alltaf að keyra yfir liðin í seinni hálfleik og oftast að klára þessa leiki. Það væri samt oft gott að geta afgreitt þetta í fyrri hálfleik því það þarf ekki alltaf að þreyta bráðina áður en reitt er til höggs – sum af þessum liðum eru ekki það burðug að þola okkur í hálfgírnum sem við erum of oft í.

    Quansah þarf síðan að fá fleiri mínútur, það er deginum ljósara, svo að hann geti hrist þetta slen aðeins af sér. Minni ykkur á að þið voruð ekkert að spara lofsyrðin á hann í fyrra þegar hann átti hverja stjörnuframmistöðuna á fætur annarri – treysti því að hann byrji gegn Southampton og komi sér almennilega í gang.

    Svo þurfum við að finna næsta gír á vegferðinni okkar. Það er farið að verða vel pirrað að missa svona mörg stig á meðan Chelsea nær að saxa þarna á okkur. Það eru engar líkur á því að Man€ity sé að finna sitt fræga run og grunar mann að menn þar á bæ viti í hvað stefnir með kærurnar sem eru á liðinu og að það sé meginástæðan fyrir því að það hriktir svona hressilega í stoðunum hjá olíuliðinu. Megi ógæfa þeirra vara sem lengst um ókomna framtíð.

    Áfram að markinu – YNWA!

    11
  5. Næst veljum við hægri kantmann í Brostnar vonir – Ögurverksliðið. Endilega koma með tilnefningar 🙂

    2
  6. St. Downing = Ekkert mark og engin stoðsending í PL á fyrsta tímabilinu (Andy nokkur Carroll fór víst illa með sumar sendingarnar). Alls 91 leikur, 7 mörk 9 stoðsendingar. Var svona Keita bragur á þessu. Biðum lengi eftir honum, gerðum ítrekuð tilboð áður en nógu há upphæð var sett á borðið. Spilaði reyndar á báðum köntum.

    1
  7. Lazar Markovic
    Oussama Assaidi
    Milan Jovanovic
    Victor Moses
    Fabio Borini

    1
  8. Hér eru nokkrir hægri kantmenn og vonandi hægt að finna sæti fyrir einhvern þeirra í Ögurverks-brostnar-vonir-liðinu. Oft er reyndar erfitt að segja hverjir eru hægri kantmenn og hverjir vinstri kantmenn og einhverjir þessara gætu einnig komið til greina á vinstri kantinn. Ég erði þetta svona eftir minni tilfinningu varðandi hvorn kantinn mér fannst þeir passa betur á. Ég ákvað að geyma Fabio Carvalho, Ben Woodburn, Jordon Ibe og einhverja fleiri fyrir vinstri kantinn.

    Harry Wilson (2005-22) – Hversu lengi biðum við eiginlega eftir Harry Wilson? Einhvern veginn hélt maður alltaf að hann ætti eftir að vinna sig inn í liðið. Var lánaður mikið í neðri deildirnar og átti nokkur flott tímabil á láni, þar af eitt hjá Derby County þar sem hann skoraði 15 mörk og mörg þeirra ansi glæsileg. En það var víst einhver Egypti á undan honum í röðinni hjá Liverpool þannig að hann komst aldrei að. Spilaði bara tvo bikarleiki en var svo seldur fyrir 12 milljónir punda til Fulham þar sem hann er enn og stendur sig ágætlega.

    Rafael Camacho (2016-19) – Portúgali sem kom 16 ára til okkar úr akademíu Manchester City sem tóku hann frá Sporting. Þótti nokkuð efni og fékk tvo leiki fyrir Liverpool, einn í deild og einn í bikar. Var seldur til Sporting fyrir 7 milljónir punda þar sem hann hefur nú ekki náð sér á strik. Fékk ekki nýjan samning frá Sporting í sumar og er í dag 24 ára og án félags.

    Ryan Kent (2004-19) – Uppalinn leikmaður sem var mikið lánaður í neðri deildirar. Spilaði bara einn deildarbikarleik fyrir Liverpool. Síðasta lánið sem hann fór á var til Steven Gerrard og félaga sem keyptu hann í framhaldinu fyrir 7,5 milljónir punda. Þar varð hann lykilleikmaður í liðinu sem vann skoska titilinn 2021. Spilaði með Rangers til ársins 2023 þegar hann fór til Fenerbahce á frjálsri sölu en Jose Mourinho virðist ekki hafa haft mikla trú á honum og fékk hann sig lausan frá félaginu í október. Hann er því 28 ára í dag og án félags.

    Lazar Markovic (2014-19) – Var einn af misheppnuðum kaupum fyrir Suarez peninginn. Kom tvítugur til félagsins frá Benfica og þótti með efnilegri kantmönnum Evrópu á þeim tíma. Náði aldrei að festa sig í sessi hjá Liverpool. Átti nokkur frekar illa heppnuð lán. Liverpool reyndi lengi að selja hann en losnaði ekki við hann fyrr en við gáfum hann til Fulham þegar hann var við það að renna út á samningi. Er í dag 30 ára og spilar með Baniyas í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

    Suso (2010-15) – Spánverji sem kom 16 ára til okkar frá Cadiz. Fékk sæmilega stórt hlutverk í liðinu tímabilið 2012-13 þegar hann var 19 ára. Hlutverkið minnkaði svo með komu Coutinho og var hann lánaður til Almeria næsta tímabil þar sem hann spilaði reglulega og hjálpaði þeim við að halda sæti sínu í La Liga. Hann kom svo til baka en spilaði bara einn bikarleik tímabilið 2014-15 þar sem hann skoraði eina mark sitt fyrir Liverpool. Hann var svo alveg að renna út á samningi og var því seldur fyrir lítinn pening til AC Milan í janúar 2015. Eftir rólega byrjun þar vann hann sig inn í liðið og spilaði yfir 150 leiki fyrir Milan áður en hann var seldur til Sevilla þar sem hann spilar enn í dag. Hefur spilað 5 landsleiki fyrir Spán.

    David Amoo (2007-12) – Englendingur sem kom 16 ára frá Milwall. Fékk einn Evrópuleik undir stjórn Roy Hodgson en eftir að Dalglish tók við taldi hann Amoo ekki nógu góðan og lánaði hann í burtu. Við tóku nokkur lán í neðri deildunum áður en hann yfirgaf félagið á frjálsri sölu til Preston. Flakkaði síðan á milli liða í neðri deildunum en lagði skóna á hilluna síðasta sumar. Síðasta liðið hans var Ebbsfleet United í utandeildinni.

    Tom Ince (2008-11) – Uppalinn leikmaður, sonur Paul Ince og var með nokkuð hæp í kringum sig en væntanlega mest vegna þess að hann er sonur Paul Ince. Spilaði einn deildarbikarleik fyrir Liverpool en náði ekki að brjóta sér leið inn í liðið. Var seldur fyrir 1 milljón til Blackpool. Hefur síðan flakkað á milli liða í Championship deildinni og spilar í dag með Watford.

    Paul Anderson (2006-09) – Kom til Liverpool 18 ára frá Hull City í skiptidíl fyrir John Welsh. Átti víst að vera nokkuð mikið efni og var stór hluti af U18 liðinu sem vann FA Youth Cup titilinn 2006. Hann var nokkrum sinnum í hóp en fékk aldrei að spila fyrir aðalliðið nema í æfingaleikjum. Var svo lánaður til Swansea og Nottingham Forest sem keypti hann svo fyrir lítinn pening. Flakkaði svo á milli liað í Championship og neðri deildum áður en hann lagði skóna á hilluna í sumar. Síðasta liðið sem hann lék fyrir var “stórliðið” Melton Town.

    Richie Partridge (2000-05) – Heimildum mínum greinir á hvenær hann kom til Liverpool. Samkvæmt LFChistory kom hann 16 ára árið 1996 en samkvæmt Transfermarkt og Wikipedia Kom hann tvítugur árið 2000 til Liverpool frá írska liðinu Stella Maris. Hann var fastamaður í yngri landsliðum Írlands. Var jafngamall Steven Gerrard og þótti mikið efni og stóð sig vel þegar Liverpool vann Stoke City 8-0 í deildarbikarnum. Hann glímdi hins vegar við mikil meiðsli og sleit krossband í vinstra hné 1999. Hann stóð sig svo vel á láni hjá Coventry tímabilið 2002-03 en kom svo til baka og sleit þá krossband í hægra hné. Hann fór svo á frjálsri sölu til Sheffield Wednesday og spilaði með nokkrum liðum í neðri deildunum. Lagði skóna á hilluna 2013 eftir að hafa leikið með velska liðinu Airbus UK Broughton. Hann varð síðar sjúkraþjáflari og starfaði fyrir Liverpool sem slíkur í nokkur ár áður en hann fór 2020 til að vinna í Qatar með landsliðinu þar og starfar þar enn.

    David Thompson (1993-2000) – Uppalinn leikmaður fæddur 1977, ári eldri en Jamie Carragher. Hann náði að vinna sér inn sæmilega stórt hlutverk hjá Liverpool tímabilið 1999-2000 en var svo seldur til Coventry City á 3,5 milljónir punda. Spilaði í nokkur tímabil í fyrstu og Úrvalsdeildinni áður en hann þurfti að leggja skóna á hilluna 30 ára eftir þrálát hnémeiðsli.

    Sheyi Ojo (2011-2022) – Enskur unglingalandsliðsmaður sem kom 14 ára til okkar úr akademíu Milton Keynes Dons. Ætli hann eigi ekki einhvers konar met en hann spilaði 169 leiki á láni með 7 mismunandi liðum á meðan hann var á samningi við Liverpool og var orðinn 25 ára þegar hann yfirgaf Liverpool á frjálsri sölu. Hann spilaði samtals 13 leiki, þar af 8 í deildinni fyrir Liverpool. Hann samdi við Cardiff City og átti eitt ágætt tímabil áður en hann var lánaður aftur og spilaði 32 leiki þegar hann aðstoðaði Frey Alexandersson við að halda Kortrijk uppi í belgísku deildinni. Samdi síðasta sumar við Maribor í Slóveníu og spilar þar í dag.

    2

Síðasti leikur kvennaliðsins fyrir jól

Dýrlingarnir á miðvikudagskvöld