Dýrlingarnir á miðvikudagskvöld

Rétt eins og farfuglarnir leita suður á bóginn á veturna, þá gera okkar menn það sama núna í miðri viku enda bíður þeirra bikarleikur í suðrænna loftslagi (mögulega er ég örlítið að ýkja hversu mikið sunnar Southampton er heldur en Liverpool).

Þessi leikur er í 8 liða úrslitum deildarbikarsins, og fer fram á St. Mary’s leikvangi Southampton. Það vill svo skemmtilega til að við höfum verið í nákvæmlega þessum sporum áður, þ.e. að spila við þetta lið á þessum velli í 8 liða úrslitum deildarbikarsins. Þá var Klopp nýtekinn við, leikurinn fór 6-1, og Divock Origi nokkur skoraði fullkomna þrennu. Daniel Sturridge setti tvö, og Jordon Ibe átti svo eitt fáséð mark. Jafnframt var það Brad Smith sem átti stoðsendingu í síðasta marki Origi, ætli við getum ekki þakkað þeirri sendingu fyrir það hvað Bournemouth keyptu hann svo fyrir mikinn pening? Þetta var leikurinn þar sem Travelling Kop söng hástöfum:

He’s winning five-one
He’s winning five-ooooooone,
Adam Lallana
He’s winning five-one

Svo skoraði Origi sjötta markið, og þá breyttist söngurinn (í miðju erindi):

He’s winning six-one
He’s winning six-ooooooone,
Adam Lallana
He’s winning six-one

Þetta fannst mönnum tilhlýðilegt að minna Southampton á, enda var téður Lallana þá nýkominn yfir til Liverpool frá Southampton. Lallana er nú einmitt kominn aftur til Southampton eins og kom berlega í ljós í síðasta deildarleik liðanna þegar hann var ekki fjarri því að fótbrjóta einn af okkar mönnum, en nóg um það.

Nú svo má rifja upp að Sadio Mané og Virgil van Dijk spiluðu þennan leik sömuleiðis, og Mané meira að segja skoraði, en þeir voru reyndar hjá suðurstrendingum á þessum tíma. Ekki var nú langt í að þeir væru svo báðir orðnir rauðklæddir.

Það hvort við sjáum Virgil spila leikinn á morgun verður svo bara að koma í ljós. Við skulum nú eiginlega vona að svo verði ekki, og að Slot leyfi kjúklingunum sem mest að spila þennan leik. Sama ætti að gilda um Salah, Gravenberch, Szoboszlai og fleiri sem liðið má alls ekki við að missa í einhver meiðsli. En meira um það á eftir.

Andstæðingarnir

Af einhverjum orsökum þá reynist það oft falla í skaut Liverpool að mæta liði sem er nýbúið að losa sig við knattspyrnustjórann sinn. Southampton létu Russell Martin fara eftir síðasta leik, reyndist 0-5 tapið gegn Spurs vera dropinn sem fyllti mælinn. Það er ekki alveg ljóst hver tekur við eða hvort nýr stjóri verði kominn til starfa fyrir leikinn.

Þá eiga þeir leik um helgina rétt eins og önnur lið í deildinni – heimsækja Fulham nánar tiltekið – og ef þeir ætla að hanga uppi í deildinni á þessari leiktíð þá er eins gott að þeir fari að safna stigum. Og þá er nú kannski ekki gott að vera búnir að jaska út leikmönnunum í miðri viku. En svo er það nú líka þannig að þeir eru nú þegar afgerandi neðstir, en eru vissulega komnir í 8 liða úrslit í deildarbikarnum og ef þeir ætla sér að ná í einhverja dollu á þessu tímabili þá er þetta kannski besta tækifærið til þess. Svo það er í raun engin leið að spá fyrir hvort þeir stilli upp sínu sterkasta liði, eða spili B-liðinu og stefni á að vera með óþreytt aðallið á sunnudaginn (þess má geta að Fulham spila ekki núna í miðri viku).

Það eru þó ágætar líkur á að hvort sem nýji stjórinn verði kominn eða ekki, að þá gætum við séð a.m.k. snert af “new manager bounce”. Munum líka að Southampton voru engin lömb að leika sér við þegar liðin áttust við í lok nóvember, og við skulum bara gera ráð fyrir því sama í þessum leik.

Okkar menn

Eins og gengur þá halda meiðslin áfram að hrjá hópinn. Diogo Jota fann fyrir einhverju eftir leikinn gegn Fulham, og æfði ekki í gær, en spurning hvort hann hafi æft í dag. Þá var mögulega ákveðin vísbending fólgin í því að U23 liðið spilaði í gær, og þar vantaði leikmenn eins og Trey Nyoni, Nallo, Morton, McConnell og Danns. Það eru því ágætar líkur á að þeir verði flestir eða allir í hóp, og ekki útilokað að einhverjir þeirra byrji.

Annars er Kostas Tsimikas farinn að æfa, þó svo leikurinn á morgun komi líklega of snemma fyrir hann til að byrja. En mikið væri gott ef hann verður orðinn klár í að vera a.m.k. á bekk á móti Spurs á sunnudaginn.

Nú og svo verður jú Arne Slot okkar ekki á hliðarlínunni, þar sem hann verður í banni eftir gula spjaldið um helgina. Það má því leiða líkum að því að Sipke Hulshoff stýri sínum fyrsta leik fyrir Liverpool við þetta tækifæri. Mögulega verður fyrrum Everton maðurinn John Heitinga honum við hlið. Nú og ef “The Travelling Kop” vantar hvatningarsöng fyrir þann síðarnefnda, þá þarf bara að kynna þann hóp fyrir íslenskum dægurlögum frá 9. áratugnum: “Fyrirtaks Heitinga, fjólublátt ljós við barinn”.

Það hvernig uppstillingin verður er í sjálfu sér ágætis skot í myrkri. Slot gaf það í skyn að einhverjir akademíuleikmenn gætu byrjað, og e.t.v. myndu einhverjir leikmenn spila í framandi stöðum. Við skulum prófa að stilla þessu upp svona – en búum okkur alveg undir það að Slot og félagar stilli upp sterkari hóp:

Kelleher

Endo – Quansah – Nallo – Gomez

Morton – Nyoni

Chiesa – Elliott – Gakpo

Danns

Ef þessi spá reynist vera með, tja, segjum 60% hlutfall af réttum leikmönnum, þá held ég að það verði bara ágætis hlutfall. Því kannski langar Slot til að hirða sinn fyrsta bikar fyrir félagið, og 8 liða úrslit með leik gegn neðsta liði deildarinnar er nú alveg ágætis tækifæri.

Ef Einar Matthías fær einhverju ráðið þá munu leikmenn eins og Alisson, Virgil, Trent, Gravenberch, Szoboszlai, Salah og Díaz ekki koma nálægt þessum leik. Af þeim leikmönnum sem hafa verið að byrja fyrir aðalliðið þá er kannski einna helst að MacAllister byrji þennan leik, enda ekki búinn að spila núna í einhvern hálfan mánuð og þarf mögulega bara að fara að hreyfa sig aftur.

Hvernig sem fer þá er númer eitt, tvö og þrjú að leikmenn komi heilir út úr þessum leik. Ég held að það séu ekki margir Liverpool aðdáendur sem verði óhuggandi þó liðið falli úr leik á morgun, enda vitað að það að komast í úrslit í þessari keppni eykur álagið á hópinn. Við sáum hvernig það fór á síðustu leiktíð.

Semsagt, fögnum ef liðið sigrar og kemst í undanúrslit, en fögnum ögn léttari dagskrá ef þessi leikur vinnst ekki.

Það verður því engin spá í þetta skiptið.

Que sera, sera.

8 Comments

  1. Tilvalið tækifæri á að henda ungu strákunum í djúpu laugina, vona að Danns og Nyoni fá tækifæri, einnig vonast til þess að þessi Chiesa fari nú að koma sér í spilform til að létta aðeins álagið á Salah.
    Spái þessu 1-2 með 2 mörkum frá Harvey Elliot.

    5
  2. Ég spái nú helst ekki tapi. En ég ætla að henda í 4-3 sigur Southampton.

    Flott upphitun!

    3
    • Margir kölluðu líka eftir Gerrard, jafnvel fyrir komu Klopp.

      Þó að Slot hafi ekki verið þekktasti kandidatinn í vor, var hann búinn að vera stjóri í 8 ár ( fyrstu 2 árin Sipke Hulshoff) áður en hann tekur við LFC og fengið boð um að taka við liðum eins og Spurs, Leeds og eitthvað var talað um Chelsea.

      2
  3. Alltaf jákvæður fyrir svona bikarmótum. Þarna fá loksins undirhundar að spila og möguleikinn á brassi er alltaf fyrir hendi.

    3
  4. Ég skil ekki alveg þetta byrjunarlið. Eru þeir með tyler morton sem bakvörður ?

    Nunes- Gakpo – Elliot

    Nyoni – Endo – Macalester

    Morton – Quansah – Gomez- Trent Alexsander.

    Nyoni og Morton fá stóra tækifærið. Báðir eru þegar orðnir nöfn innan unglingaakademiunnar og hafa þá líklega verið að standa sig vel á æfingum.

    Ég er ekki alveg að átta mig á byrjunarlðinu, hver spilar hvaða stöðu en ég tel þetta líklegustu uppstillinguna.

  5. Alveg sáttur að komast áfram í þessari keppni ef breiddin er notuð í liðsuppstillingu.

    1

Gullkastið – Tvö Töpuð Stig

Byrjunarliðið gegn Southampton