West Ham á sunnudag (Upphitun)

Það er skammt stórra högga á milli. Leikurinn gegn Leicester er vart búinn og það er komið að þeim næsta. Ekki kvarta ég, það er nákvæmlega svona sem maður vill hafa það þegar vel gengur.

Form & sagan

Það er óhætt að segja að Liverpool hafi verið með yfirhendina í viðureignum þessara liða í ensku úrvalsdeildinni. Í 56 leikjum hefur Liverpool unnið 35 sinnum á móti 10 sigrum Hamranna. Eðli málsins samkvæmt er árangurinn á útivelli lakari en heima fyrir en við höfum samt 14 útisigra gegn 9 heimasigrum West Ham.

.

Að því sögðu, okkur hefur gengið bærilega gegn þeim í síðustu 5 deildarleikjum eða svo. 4 sigrar og 1 jafntefli, en við gerðum einmitt jafntefli á London Stadium á síðustu leiktíð eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik en náð að snúa leiknum við í þeim síðari áður en Michail Antonio jafnaði metin.

Ef við skoðum aðeins aftar þá töpuðum við á London Stadium í Nóvember 2021 sem er jafnframt eina tap Liverpool gegn West Ham á hinum nýja heimavelli en eftir að Hamrarnir fluttu þangað af Upton Park þá höfum við spilað þar 8 sinnum, unnið 5 leiki, gert 2 jafntefli og tapað 1 sinni.

Eftir hörmulega byrjun þar sem það var orðið ansi heitt undir Julen Lopetegui þá hefur liðið tekið við sér síðustu vikurnar og er form þessara liða ekki svo ólíkt komandi inn í þennan leik. West Ham er með 8 stig af 15 mögulegum á meðan að Liverpool er með 11 stig af 15, en heimamenn eru taplausir í síðustu 4 leikjum.

West Ham

Það mun líklega vanta nokkra leikmenn hjá heimamönnum í þessum leik.

  • Fabinaski þurfti að fara útaf í sigrinum gegn Soton vegna höfuðmeiðsla svo það er ekki ólíklegt að Areola byrji þennan leik.
  • Kilman meiddist á öxl í sama leik og þurfti einnig að fara af velli og er tæpur fyrir morgundaginn, en hann hefur spilað flestar mínútur af varnarmönnum West Ham það sem af er leiktíðar.
  • Soucek og Rodríguez náðu sér báðir í sitt 5 gula spjald á leiktíðinni í títt nefndum leik gegn Soton og missa því báðir af þessum leik sökum leikbanns.
  • Antonio lenti í bílslysi fyrir nokkrum vikum og verður frá út leiktíðina.

Liverpool

Hjá okkar mönnum er meiðslalistinn alltaf að styttast og það er orðið stutt í að við getum valið úr öllum hópnum eins og hann leggur sig (veit að það er ekki að fara að gerast):

  • Konate og Bradley eru enn frá vegna meiðsla, en það er víst orðið stutt í þá og þeir gætu jafnvel komið inn í hóp um næstu helgi sem væri kærkomið!
  • Það var stutt gaman hjá Szoboszlai í vikunni þegar hann kom af bekknum en náði sér í gult spjald, sem var það fimmta á leiktíðinni, örfáum mínútum eftir að hafa komið inná. Hann missir því af þessum leik.

Það eru svo þrír leikmenn hjá okkur sem eru einu gulu spjaldi frá banni, sem myndi þá þýða að þeir myndu missa af heimaleiknum gegn Man Utd um næstu helgi. Þetta eru Darwin Nunez, Gakpo og Gravenberch. Þetta verður það erfiður leikur að þetta mun eflaust ekkert spila inn í liðsvalið á morgun, sérstaklega í ljósi fjarveru Szobo.

Það eru nokkrir möguleikar. Við gætum séð Tsimikas koma inn í stað Robertson og mögulega sér Slot þetta sem leik þar sem að Jota gæti byrjað. Ég held samt að þessir leikmenn (ásamt Elliot ofl.) þurfi að bíða þar til í bikarleikjunum sem eru handan við hornið til að fá að byrja. Ég er á því að Tsimikas sé ekki klár í að byrja og liðið verði nánast óbreytt frá því í leiknum gegn Leicester. Eina breytingin verður að Diaz komi inn í stað Nunez. Þetta yrði þá s.a. svona:

Alisson

TAA – Gomez – Virgil – Robertson

Gravenberch – Mac Allister
Curtis
Salah – Diaz – Gakpo

 

Spá

Ég held að þetta verði erfiður leikur en er samt bjartsýnn á sigur. Heimamenn eru sterkir á pappír, sérstaklega framarlega á vellinum og þetta er ekki leikur sem við getum leyft okkur þann lúxus að gefa ódýrt mark og lenda undir. Við þurfum að mæta til leiks frá fyrstu mínútu og skora fyrst, við vitum svo öll að þegar lið þurfa að koma framar á völlinn þá getum við meitt þau.

Ég ætla að skjóta á að við sækjum öll þrjú stigin og leikurinn endi 0-2 þar sem að Diaz og Mac Allister skora mörkin í þetta skiptið.

Þar til næst.

YNWA

13 Comments

  1. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Eyþór og svo sem ekki miklu við nhana að bæta. Sigur er það eina sem ég bið um í hunderfiðum leik. Slæmt hvað uppsöfnuð gul spjöld eru að þynna hópinn.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  2. Nyjustu fréttir að Alexander T. Ætli að semja við rm. Ef svo er henda honum út strax um áramótin, eða lána hann til Derby.

    4
    • Veit ekki um fréttir og veit ekki hvað TAA ætlar að gera. En það sem spænska íþróttapressan skrifar um kaup og sölu á leikmönnum er “fréttir”, ekki fréttir. Þeas., þetta er hluti af aðferð sem RM og Barca hafa notað í langan tíma til að undirbúa jarðveginn fyrir leikmenn sem þeir eru að vonast til að fá til sín. Við erum engu nær um hvað TAA og LFC eru að ræða.

      Ef ég væri TAA þá myndi ég vilja fá klásúlur sem tryggja að hann verði næsti fyrirliði liðsins. Þar sem Euro XX milljón söluklása er í samningnum. Og ekki síst vilja vera viss um að FSG haldi áfram að fjárfesta í leikmönnum en ekki bara velli og þjálfunarsvæðinu.

      Það er mjög, mjög ólíklegt að þessi ákvörðun hans byggist á því að hámarka laun (þó hann vilji auðvitað fá sitt eins og hann á heimtingu á)—en hann vill það sem RM og Barca hafa gert fyrir aðra: að vera Galactico. Vandinn er að bæði þessi lið eru í fjárhagslega erfiðri stöðu og ekki víst að þau séu í stöðu til að gera það lengur. Eins þá er spænska deildin ekkert spennandi sem slík.

      Ég hræðist mest að hann er ungur maður sem vill fá að sjá meira af heiminum en Liverpool. Skiljanlegt. Ef hann gæti myndi hann líklega frekar vilja vera í London en Madrid og kannski er það nóg að það er styttra að fara frá Liverpool til London en frá Madrid…

      En hann skuldar LFC ekkert. Ef hann fer þá fer hann. Félagið hefur ekki hækkað við hann í launum eða gert annað til að tryggja áframhaldandi viðveru hans. Ég held ekki að fólkið í borginni muni púa á hann. En það mun vera vonsvikið og það mun aldrei gróa um það sár, þó að það fari kannski ekki í að hann sé púaður.

      Enginn er stærri en félagið. Ef við höldum VVD og Salah, þá er það nóg til að halda dampi eftir þetta ár — segi ég sem einhver sem elska að horfa á Trent spila — nóg til þess að ég myndi jafnvel horfa á RM leik (lið sem stendur fyrir flestallt sem ég hata í fótbolta) með honum.

      15
    • Jájá, hef svosem hraunað yfir klúbbinn að klúðra þessu. Gjörsamlega fáránlegt að missa hann frítt en mögulega hefur það verið planið hans að fara 2025 og lítið hægt að gera í því og fsg frekar viljað njóta krafta hans eins lengi og hægt er. Þeim vantar ekkert pening enilega, tilboðið í Caicedo sannaði það. Trent er búinn að vinna allt og vill kannski nýja áskorun. Ég lái honum ekki. Nokkur ár í Madríd og koma svo aftur heim. Gera það sem Owen ætlaði að gera (pælið í því að Owen spilaði fyrir 5 klúbba og öll fanbase gæti ekki verið meira sama um hann, það er afrek) *þessum var stolið af internetinu hehe*. Held samt í vonina að hann kroti undir hjá lfc auðvitað en mun aldrei púa á hann og það ætti hann ekki skilið frá lfc fans.

      2
      • Merkileg þessi þörf fyrir að finna sökudólga þegar hlutirnir fara ekki eins og maður vonast eftir.

        Ég stórefast um að RM séu að fara að bjóða TAA hærri laun eða betri samning.

        Liverpool er búið að bjóða TAA eins stóran samning og þeim finnst hann eiga skilið og kjósi TAA að fara til RM er það einfaldlega hans val.

        Ég stórefast um að TAA eigi endurkomu til LFC frekar en aðrir leikmenn sem kosið hafa að yfirgefa LFC á þessari öld (mínus Fowler en Fowler vildi aldrei fara).

        Þess utan er TAA leikmaður sem hægt er að finna staðgengil fyrir. Þó enginn sé öflugri fram á við, þá hefur TAA stóra varnarlega veikleika auk þess að vera frekar óstöðugur leikmaður.

        6
      • Þess utan þá er þetta bara enn einn orðrómurinn sem kemur frá blaðamönnum.

        Staðan er þó þannig að maður telur það ansi líklegt að TAA sé að fara í viðræður við Real Madrid strax í janúar.

        2
      • Trent er klárlega með tilboð í höndunum frá RM nú þegar. Þó að hann geti ekki skrifað undir samning fyrr en 1. janúar, er enginn klúbbur að bíða þangað til þá með að hafa samband við umboðsmanninn hans.

        2
  3. Klopp sagði við Coutiho, vertu afram hja okkur og þu munt verða legend. Farir þu til Barca, verður þu bara einn af einhverjum, sem varð, og minna en það. TAA veit þetta fullvel, hann veit að hann verður ekki tekinn i satt af kjarna stuðningsmanna LFC. Svona gerir engin, bara af þvi hann er svo ofsalega goður vinur einhvers. það var ekkert oeðlilegt að Bellingham færi til RM. Stora malið er, ef Mo og VVD haldi afram. 0-2 i næsta leik.

    YNWA

    5
  4. Ég hlakka til 5. janúar. Hvað er Liverpool búið að steypa mörgum Man U stjórum af stóli?

    3
    • Efast nú reyndar um að Amorim verði sparkað eftir þetta stuttan tíma… jafnvel þó hann tapi næsta leik og svo á Anfield. A.m.k. væri yfirstjórn United að ná einhverjum nýjum og óþekktum hæðum í heimsku ef það myndi gerast. Í ljósi sögu þess félags er nú kannski ekki hægt að útiloka neitt samt!

      7
      • Mér finnst ansi líklega að Newcastle sigri Man Utd. Tap í næstu 2 leikjum ofan á hræðilega spilamennsku þá fara væntanlega að renna 2 grímur á stjórnarmenn varðandi þessa ákvörðun.

        Þess utan þarf að umbylta leikmannahópnum og finna leikmenn sem henta undarlegu leikkerfi sem alls er óvíst að virki í EPL.

        1
      • Allt getur gerst þarna á Gamla Vaði, sbr. nýbúnir að kasta Dan Ashworth út um gluggann eftir fimm mánaða starf. Ratcliffe er ekkert að hugsa um fótboltann og hefur heldur ekkert vit á honum. Þegar fallsvæðið er farið að nálgast hratt hljóta aðdáendur að ókyrrast. Þetta var náttúrulega glapræði að skipta ekki um stjóra í sumar. Amorim spilar allt öðruvísi kerfi svo fæstir af leikmönnunum passa fyrir hann. Að taka hann inn á miðju hausti er algjört rugl. Hann er búinn að ná að æfa hópinn 4-5 sinnum og er með kannski fjóra nothæfa menn. Þetta á eftir að versna áður en það batnar. Sannaðu til.

        5

Liverpool 3 – 1 Leicester

Lokalið ársins gegn West Ham