Liverpool – Lille (Hákon og félagar)

Þá er það næst síðasti leikurinn í þessari nýju týpu af riðlakeppni, LOSC Lille á heimavelli. “Því miður” er um heimaleik að ræða þannig að við geymum sögu borgarinnar um sinn en þar sem þetta er ekki í fyrsta sinn sem liðin mætast er auðvitað til upphitun frá Einari Matthíasi um félagið frá 2010. En stiklum á stóru um andstæðinginn.

LOSC Lille

LOSC Lille var stofnað árið 1944 með sameiningu tveggja knattspyrnufélaga frá Lille, Olympique Lillois, sem varð fyrsti Frakklandsmeistari atvinnumanna árið 1933 og SC Fives, sem hafði átt farsælan feril í frönsku knattspyrnunni. Þessi sameining varð til þess að félagið varð strax eitt það sterkasta í Frakklandi. Á fyrsta áratuginum eftir stofnun unnu þeir Ligue 1 árið 1946 og 1954 og Coupe de France fimm sinnum.

Eftir sigur í Ligue 1 árið 1954 fór að halla undan fæti og ansi algengt stef sem við höfum skrifað um hér áður hjá öðrum félögum gerði vart við sig. Félagið lenti í fjárhagsvandræðum og féll úr Ligue 1 í neðri deildir og átti erfitt uppdráttar í áratugi. Þrátt fyrir nokkrar endurkomur í efstu deild tókst ekki að keppa við stærri félög landsins. Þess má geta að yfirburðir PSG eru nýtilkomnir og á síðustu áratugum var alvöru keppni í frönsku deildinni. Þess má kannski geta í framhjáhlaupi að franskt lið hefur raunar hampað Evrópubikarnum. En á þessum árum varð Lille helst þekkt fyrir að rækta unga leikmenn og þróa hæfileika þeirra, en hafði ekki burði til að halda þeim eða byggja lið í kringum þá. Segja má að á tíunda áratuginum hafi nýtt blómaskeið hafist hjá félaginu. Með fjárhagslegri hagræðingu, nýjum stjórnendum og áherslu á að rækta sína eigin ungu leikmenn náðu þeir smám saman að styrkja sig í sessi. Eins flutti félagið á nýjan heimavöll, Stade Pierre-Mauroy árið 2012, sem gaf félaginu stöðugleika til framtíðar. Á þessum tíma varð LOSC þekkt fyrir frábært uppeldisstarf og sölur þar sem ungir hæfileikaríkir leikmenn komu til félagsins, sprungu út og voru seldir til stærri liða.

Árið 2011 var stórt ár í sögu félagsins, þegar þeir unnu tvöfalt, bæði deild og bikar undir stjórn Rudi Garcia. Þar skaust einnig upp á stjörnuhimininn leikmaður að nafni Eden Hazard sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan á Englandi og ….Spáni (not so much). Þeir urðu síðan aftur meistarar árið 2021 undir stjórn Christophe Galtier.

Liðið

Lille er sem stendur í þriðja sæti frönsku deildarinnar eftir 2-1 sigur á Nice þar sem Hákon Arnar skoraði annað markið. Þeir hafa ekki tapað 20 leikjum í röð, þar af 14 í frönsku deildinni. Þeir eru samt sem áður að berjast við ákveðna leikmannakrýsu því Tiago Santos, Fernandes Pardo, Ethan Mbappe, Samuel Umtiti og Nabil Bentaleb eru meiddir og Andre Gomes er ekki skráður í Meistaradeildina. Já, það er eitt stykki Mbappe í þessu félagi, litli bróður stóra bróður síns.

Líklegt byrjunarlið þeirra er:

Chevalier í marki,

Mandi, Diakite, Alexsandro, Gudmundsson (hann er sænskur) í varnarlínunni,

André, Bouaddi, Bakker, Cabella, Hákon Arnar Haraldsson á miðjunni/köntunum og loks

Jonathan David frammi.

Þetta er bara Hákon og félagar. Neinei, þeir eru með öflugt lið sem spilar 4-2-3-1 possession fótbolta. Hvort þeir þori því á Anfield á eftir að koma í ljós.

Liverpool

Eins og áður sagði þá léku liðin í Evrópudeildinni árið 2011. Lið Liverpool á Anfield var skipað þessum leikmönnum í 3-0 sigri:

Þetta er nú reyndar alveg nokkuð gott lið, helstu veikleikarnir eru kannski á vinstri vængnum og sennilega hefði þetta lið líka geta notað Salah í stað meistara Kuyt. Rétt eins og við gætum alveg notað Mascherano, Gerrard og Torres í dag. En þegar bekkurinn er skoðaður þá kemur í ljós af hverju liðið náði ekki sérstökum árangri: Cavalieri, Benayoun, Kyrgiakos, Ngog, Degen, El Zhar, Kelly. Ekki merkileg breidd það.

Liðið kemur nokkuð ferskt – óvenju ferskt kannski – inn í þennan leik, núna seinni hlutann í janúar. Óvenju ferskt segi ég og meina þá helst að lítið er um meiðsli og álagið í lok desember og núna í janúar hefur ekki verið brjálæðislegt og hefur dreifst alveg bærilega á hópinn. 2-0 sigur gegn Brentford með frábærum mörkum frá Darwin “okkar allra” Nunez tryggðu þann sigur, tvö síðustu skotin af 512 þann leikinn.

Ég á von á töluverðri róteringu þar sem sigur í þessum leik er eiginlega óþarfur. Nunez fer beinustu leið í byrjunarliðið, vonandi fá síðan leikmenn eins og Bradley, Quensah, Endo, Elliot og Jones þennan leik. Ég vona það, en mér sýnist sem Arne Slot gefi ekki neinu liði, ekki einu sinni Accrington Stanley grið og þess vegna verður ansi sterkt lið sem spilar þennan leik. Berum það saman við bekkinn árið 2011!!

Prófum þetta svona. Fer síðan auðvitað eftir standi leikmanna, hvort t.d. Szobo þurfi að spila sig meira í gang, hvort Jota sé klár á bekk, hvort Slot vilji hvíla Van Dijk eða jafnvel Diaz og Gakpo. Já og Gakpo gæti allt eins verið þarna eins og Diaz.

Ég held síðan að sagan endurtaki sig, Liverpool vinnur 3-0 með mörkum frá Gerrard og Torres (2). Eða bara Nunez, Elliot og Diaz.

YNWA.

6 Comments

  1. Sammála þessu byrjunarliði en það fer að verða hættulegt að láta Van Dijk spila alla leiki í öllum keppnum, biðjum fyrir því að hann fari nú ekki að lenda í meiðslum.
    Spenntur að sjá hvort að Elliot, Chiesa og Bradley fái ekki að spila þennan leik, held að það hljóti nú að vera óhætt enda allt saman góðir leikmenn. Og Endo fyrir Gravenbergh hlýtur að vera skynsamlegt í stöðunni.
    Ég ætla ekki að hafa trú á því að Nunez skori annan leikinn í röð en væri gaman ef hann kæmi á óvart.

    5
  2. Sammála þér Red með fyrirliðann okkar, það yrði hrikalegt að missa hann í meiðsli – vörnin brothætt nú þegar hvað varðar miðverðina! Langt liðið á janúar og brátt lokar glugginn þannig að ekki hægt að bregðast við ef meiðslakrísa í gangi. Þarna er ég kannski að hugsa um leikinn við Everton í febrúar minnugur þess þegar Pickford jólasveinn straujaði Van Dijk og sendi hann á meiðslalistann. Þannig að já……. í bómul með Dijk og spila þeim sem minni hafa spilatímann.

    Þessu ótengt og talandi um janúargluggann – City búið að styrkja sig fyrir nokkra tugi milljóna punda, Foden og félagar komnir í gang að því er virðist eftir að hafa rústað okkar næstu andstæðingum í deildinni. Þetta getur verið fljótt að breytast og mitt mat að City gæti óvænt farið að sýna sínu bestu hliðar og farið að anda ofan í hálsmálið á okkur ef ekki haldið rétt á spilunum.

    En áfram gakk, Lille næst og engin meiðsli takk fyrir!

    ps jú jú, Jota frá í einhverjar vikur en ekki mánuði skv Slot á fréttamannafundi í dag!

    1
  3. Sammála ykkur hér fyrir ofan.

    Ekki misskilja mig, ég er sko alveg til í að Liverpool kaupi leikmenn í þær stöður sem þurfa styrkingu.
    En ég ætla ekki að flippa þó City versli sér fyrir fullt af peningum, þeir halda að það reddi því sem er að hjá sér.
    Raunin að mínu mati er sú að lið eins og City og Chelsea t.d. eru ekki með “hjarta”, og þess vegna er alveg sama hversu sturluðum upphæðum þessi lið eyða þá verður árangurinn ekki í samræmi við eyðsluna.
    Að auki hafa City svo haft dómarasambandið algerlega á sínu bandi og þannig náð þeim titlum sem komið hafa á kostnað Liverpool og Arsenal.
    Ekki hefur heldur vantað upp á peningaeyðsluna hjá Man Utd með litlum sem engum árangri.

    En það eru klárlega nokkrar stöður hjá okkur sem þarf að styrkja, en ég er hræddur um að það verði ekki gert fyrr en í sumar.
    Eins eru þessi samningamál þessara þriggja orðin afar athyglisverð, og kenning Heilags Fowler er að sama skapi athyglisverð.
    https://www.visir.is/g/20252677340d/fowler-med-sina-kenningu-um-tha-samningslausu-hja-liverpool

    YNWA

    3
  4. Sælir félagar

    Þessi Evrópuleikur er aukatriði en gott væri að vinna hann. Ég hefi engu viða að bæta ágæta upphitun Ívars og þakka honum fyrir. Hvað leikmannamál LFC varðar er engin ástæða til bjartsýni né vonar um bætingu fyrr en í sumar. Þá mun fjallið taka jóðsótt og fæða mús eins og síðasta sumar. Þrátt fyrir að liðið sé í dauðafæri að vinna enska meistaratirilinn þá er ekkert að frétta og þær stöður sem sárlega vantar að styrkja liggja í láginni eftir sem áður. Kenning Fowlers er ekkert betri né verri en hver önnur en breytir engu um hálfvitaganginn í samninga- og leikmannamálum liðsins. Hann er sá sami hvað sem öllum kenningum líður.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
    • Varðandi kenningu Fowlers, þá vona ég að hann hafi rétt fyrir sér en það kæmi mér verulega á óvart ef svo væri. Þjóð veit þá þrír vita þ.a. erfitt er að halda svona löguðu leyndu og hvers vegna ætti t.d. Trent að vilja þegja yfir undirskrift í staðinn fyrir að losna við allan skítinn sem hann fær þessa dagana fyrir að vera ekki búinn að semja?

      En varðandi leikinn í kvöld, þá líst mér ágætlega á spá pistlahöfundar. Ég geri samt ráð fyrir færri breytingum. Held að 1-2 miðjumenn sem byrjuðu síðasta leik verði með og 2 sem byrjðu frammi síðast byrji líka núna.

      Liverpool vinnur 2-1. Varnarmenn skora mörkin okkar.

      1
  5. Þessi Evrópuleikur er aukatriði en gott væri að vinna hann. Ég hefi engu viða að bæta ágæta upphitun Ívars og þakka honum fyrir. Hvað leikmannamál LFC varðar er engin https://www.uhmegle.org ástæða til bjartsýni né vonar um bætingu fyrr en í sumar. Þá mun fjallið taka jóðsótt og fæða mús eins og síðasta sumar.

One Ping

  1. Pingback:

Brentford 0 – Liverpool 2

Gullkastið – Ys og Þys Út Af Engu