Liverpool 2 -1 Lille

1-0 Mohamed Salah (’34 )
1-1 Jonathan David (’62 )
2-1 Harvey Elliott (’67 )

Það voru ekki mikil gæðin þegar okkar menn mættu Lille á Anfield í dag. Fátt marktækt gerðist í fyrri hálfleik þar til að Mo Salah kom Liverpool yfir á 34. mínútu leiksins. Tsimikas náði þá að vinna boltann og koma honum á Curtis Jones á vallarhelmingi Liverpool sem átti frábæra stungusendingu inn á Salah. Markmaður Lille mætti honum en Salah setti boltann snyrtilega yfir hann og í netið 50. evrópumark Salah. Salah var svo nálægt því að setja annað mark undir lok fyrri hálfleiks en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Í byrjun seinni hálfleiks fengu Liverpool svo algjört dauðafæri til að gera út um leikinn þegar Salah fékk boltann í stöðunni fjórir á móti tveimur en með aragrúa möguleika ákvað hann að hlaða í skot og átti laflaust skot framhjá markinu. Stuttu seinna var Quansah næstum búinn að skora þegar hann átti fínan skalla yfir markið.

Á 59. mínútu misstu Lille svo mann af velli þegar Elliott átti flotta sendingu á Diaz en Mandi varnarmaður Lille tók hann niður og fékk sitt seinna gula spjald, en hann fékk það fyrra fyrir mótmæli eftir mark Salah. Þremur mínútum síðar jöfnuðu Lille. Þeir komust bakvið Bradley og kom fyrirgjöf fyrir markið þar sem Hákon Arnar átti skot í Tsimikas en þaðan barst boltinn á David sem skoraði auðveldlega.

Sem betur fer tók það aðeins fjórar mínútur fyrir Liverpool að komast aftur í forustu þegar varnarmaður Lille hreinsaði hornspyrnu fyrir fæturna á Elliott sem átti skot fyrir utan teyg sem breytti um stefnu af öðrum varnarmanni og þaðan í netið. Í uppbótatíma skoraði Nunez eftir að hafa fylgt á eftir skoti Chiesa en var klárlega rangstæður og markið réttilega dæmt af.

Bestu menn Liverpool

Elliott átti frábæra innkomu skoraði sigurmarkið, kom Diaz í frábæra stöðu þegar rauða spjaldið kom og hélt spilinu gangandi. Tsimikas átti flottan leik í bakverðinum vann boltann fyrir fyrra markið og skapaði hættu úr föstum leikatriðum. Salah var í betri gír en í síðustu leikjum, fyrir utan þegar hann fór illa með bestu stöðu Liverpool í leiknum í byrjun seinni, þá var hann sífellt hættulegur. Quansah átti sinn besta leik í nokkurn tíma.

Vondur dagur

Var enginn sérstaklega slakur í dag. Fór ekki sérstaklega mikil orka í leikinn og sumir slakir á köflum en skiluðu allir fínu dagsverki.

Umræðan

  • Enn með fullt hús stiga en endurkoma Barcelona þýðir að efsta sætið er ekki tryggt
  • Slóum félagsmet með að halda hreinu í Meistaradeildinni í 572 mínútur frá því að Pulisic skoraði fyrir Milan í upphafi fyrsta leik riðilsins þar til í dag.

Næsta verkefni

Næst er það Ipswich heima klukkan þrjú á laugardaginn í deildinni.

13 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Stórbrotinn árangur, gleymum því ekki. En þessi leikur fer ekki í sögubækurnar.

    Endalaus færi en sem betur fer, skoruðum meira en andstæðingarnir.

    3
    • Nei það var lítil dýrð yfir þessu sagðir þú og kvartaðir nokkrum sinnum undan skorti á skemmtun.

      Sem betur fer erum við með þjálfara sem er drullusama hvort mönnum eins og þér leiðist framan við skjáinn.

      Hvers vegna ætti hann að setja allt í botn í leik sem þessum? Við eru ekki komnir í útsláttakeppnina.

      Slot einfaldlega landaði sigri með minnsta mögulega fórnarkostnaði.

      3
      • Vissulega erum við komnir í útskáttakeppnina, en ég átti við að það hafi ekki verið nein ástæða til að nálgast þennan leik sem útsláttarleik.

        1
  2. Verst að barca vann 4-5. Við þurfum þá stig í Hollandi. Magnaður árangur samt ! SIGUR Í ÖLLUM LEIKJUM SO FAR. Þetta lið er æðislegt. Salah hefði samt mátt gefa boltann oftar, of eigingjarn. Gaman að sjá Chiesa !

    5
  3. Endo og Elliott báðir flottir. Eins og litlir skrattar, hangandi aftaná mönnum, brjóta niður sókn eftir sókn. Mega spila meira.

    7
  4. Já Elliot kom ferskur inná og stóð sig vel.
    Chiesa var líka ansi sprækur og óheppinn að ná ekki að skora. Það kom svo ekki á óvart að Nunez kallinn hafi ekki skorað í dag þó hann hafi verið ágætur í öðru.
    Heilt yfir bara ágætis frammistaða og liðið gerði það sem þurfti og bara snilld að vera með fullt hús stiga eftir 7 umferðir og með 2 mörk fengin á okkur.

    4
  5. Mjög skynsamlega uppsettur leikur, gerðum nóg til að vinna og fáum á okkur slysalegt mark, annars var markinu okkar ekki ógnað.

    Ég er alls ekki að segja að Klopp hafi gert hlutina vitlaust, en það sem mér finnst Slot vera að gera betur en Klopp er að hann leyfir mönnum að spila þessa leiki í 2. gír, halda sér heitum án þess að þreytast, ekki þessi endalausa heavy metal pressa og hraða spil. Meiðslalistinn hefur styst heilmikið og ég tel þetta vera lykilatriði í þeim “árangri”.

    Væri flott að eigna sér met sem ekki verður hægt að bæta með því að vinna síðasta leikinn í deildinni og fara með fullt hús stiga í 16 liða úrslitin, en því miður tökum við ekki með okkur stig í milliriðil eins og í handboltanum sem hefði komið sér rosalega vel annars.

    YNWA

    3
  6. Iðnaðarsigur í dag. Soldið skýrt held ég af hverju Slot notar Elliott og Chiesa ekki fyrr en seint í leikjum.

    Elliott hefur ekki nægan hraða eða þrótt til að loka menn af þegar boltinn tapast hátt. Ég veit ekki hvort það er hægt að þjálfa það uppí honum því hann hefur gríðarlega gott auga og tækni.

    Chiesa hins vegar er ennþá að læra staðsetningar og hreyfingar hápressuliðs og virðist vera að hann hafi bara þurft “boot-camp” frá a-ö og sé verið að byggja hann frá grunni. En líkt og Elliott þá býr mikið í honum þó það sé ekki til taks fyrir okkur ennþá.

    Vona að Jones hafi ekki meiðst illa. Hann er ágætur gír að hafa í liðinu.

    2
  7. Bara ósammála pistlahöfundi að ekki hafi farið fyrir gæðum í þessum leik. Það eru mikil gæði að stjórna leiknum fra? fyrstu mínútu til þeirrar síðustu því þetta Lille lið er bara þrusugott. Hver er staða Lille liðsins ? Þeir höfðu fyrir leikinn ekki tapað í síðustu 21 leik í öllum keppnum og voru í topp 8 í Meistaradeildinni og höfðu meðal annars unnið Real Madrid á útivelli. Síðasta tap þeirra var í september. Enda veitti liðið okkur verðuga mótspyrnu og reyndu þeir allan timan að spila góðan fótbolta en lögðust ekki í vörn sem ég kunni að meta. Leikurinn var á köflum skemmtilegur og Liverpool þurfti virkilega að hafa fyrir sigrinum. Liverpool spilaði þennan leik af mikilli skynsemi og yfirvegun og stjórnaði leiknum allan tímann eins og ég nefndi áður. Þetta er orðið aðalsmerki þessa liðs að stjórna öllum leikjum , þeir spila alltaf eins og þeir sem hafa völdin. Það er aðalsmerki góðra liða. Upplegg Slots er ekki alltaf það saman í öllum leikjum . Eins og aðrir hafa bent þá eyddum við ekki of mikilli orku í leikinn sem er af hinu góða. Ég var glaður að sjá Endo á vellinum og vil að Slot noti hann meira enda mikill baráttujaxl sem gefur lítið færi á sér og gefur allt í leikinn. Einnig var ég ánægður með innkomu Chiesa og það sést á öllum töktum hans að hann hefur mikla hæfileika og er stórhættulegur fyrir framan markið. Hann er alltaf glaður og fyrsti maður til að fagna með öðrum leikmönnum hvort sem hann er inni á vellinum eða á hliðarlínunni. Gæti vel sprungið út á vor mánuðum ef hann fær tækifæri. Það er bara ekkert sjálfgefið að vera með fullt hús stiga í Meistaradeild. Klopp sjálfur náði að ég held því aldrei í 6 leikja keppninni. Það sýnir vel hvað árangur Slot er frábær. Ég hef trú á því að Liverpool vinni forkeppni Meistaradeildarinnar með fullt hús stiga.

    3
  8. Eftir að hafa lesið leikskýrslurnar hér og kommentin finnst mér stundum að ég hafi verið að horfa á einhvern allt annan leik en þeir sem skrifa skýrslur og komment. T.d. hefur mér fundist menn varla halda vatni yfir gæða frammistöðu Quansah sem mér aftur á móti finnst atfa slakur og kærulaus og satt best að segja held ég stundum varla vatni af ótta yfir því hvaða klúður hann komi til með að vera ef hann fær boltann. Það er virkilega slæmt að Liverpool skuli þurfa að nota hann eins óþroskaður og hann er.

    1

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Byrjunarlið gegn Lille