Heimaleikur gegn Ipswich á morgun

Á morgun spilar Liverpool sína 22. umferð þegar Ipswich kemur í heimsókn á Anfield og hefst leikurinn klukkan þrjú.

Liverpool tryggði sig í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn með 2-1 sigri á franska liðinu Lille og ef ekki hefði verið fyrir ansi ævintýralegan viðsnúning Barcelona í sinni viðureign þá hefði Liverpool verið búið að tryggja sér efsta sætið fyrir lokaumferðina en ljóst er að liðið fer allavega ekki neðar en annað sætið í lokaumferðinni. Virkilega kærkomið að þurfa ekki að taka þátt í umspils umferðinni sem liðin í 9.- til 24.sæti þurfa að spila.

Nú fer fókusinn aftur á deildarkeppnina þar sem staða Liverpool er vissulega mjög góð enn þá. Liðið á sex stiga forskot og leik til góða á næstu lið, Arsenal og Nottingham Forest en þau eiga bæði útileiki gegn Wolves og Bournemouth á sama tíma á morgun.

Arne Slot segir að Curtis Jones verði ekki með á morgun en gæti vonandi verið með aftur fljótlega. Kannski bara strax í næstu viku, Konate er enn pínu tæpur og óvíst hve marga leiki hann getur spilað á einu bretti og enn er eitthvað í Diogo Jota. Að öðru leiti virðist hópurinn vera nokkuð heill og flottur.

Ipswich hafa svona að mestu verið í sæmilegu formi undanfarnar umferðir þó þeir hafi ekki fengið fjöldan allan af stigum úr þeim leikjum en létu Arsenal hafa fyrir sér, unnu Chelsea og gerðu jafntefli við Fulham – en hafa tapað síðustu tveimur leikjum gegn Brighton og Man City – sem vann þá 6-0 í síðustu umferð. Þeir eiga nokkra spræka leikmenn og mjög öflugan framherja í Liam Delap sem lét varnarmenn Liverpool finna fyrir sér í fyrstu umferð leiktíðarinnar.

Heilt yfir hefur Liverpool tekist vel að rótera megninu af sínu liði bæði í deildar- og Meistaradeildarleikjum en þó aðallega í bikarleikjunum. Á þriðjudaginn náði Liverpool til að mynda að gefa þeim Mac Allister, Trent, Robertson, Konate og Gakpo smá breik og ég vænti þess að þeir muni allir byrja leikinn á morgun.

Alisson

Trent – Konate – Van Dijk – Robertson

Mac Allister – Gravenberch – Szoboszlai

Salah – Nunez – Gakpo

Ég held að þetta verði eitthvað á þessa leið á morgun, kannski heldur Diaz sæti sínu í liðinu og þá á kostnað Nunez en ég vona pínu að Nunez fái að byrja þennan leik. Szoboszlai hefur verið öflugur en það hefur Harvey Elliott verið líka og í síðustu tveimur leikjum hefur hann átt risa þátt í því að þeir hafi endað með sigri og ég væri mjög til í að sjá hann fá tækifærið í byrjunarliðinu á morgun. Þá hefur Chiesa komið skemmtilega inn af bekknum og væri frábært að sjá hann byrja leik fljótlega en eflaust er það ekki líklegt á morgun. Kannski verður Tsimikas áfram í byrjunarliðinu á kostnað Robertson.

Sama hvaða lið Slot stillir upp þá er þessi leikur engu að síður skyldusigur og þurfa að vera mikilvæg þrjú stig í titilbaráttunni, fallbaráttulið á heimavelli á ekki að vera neitt annað en sannfærandi sigur og er krafan klárlega það. Sama hvert byrjunarliðið verður þá ætti það að vera nógu sterkt til að klára verkefni morgundagsins og nóg ætti að vera af leikmönnum á bekknum sem eiga að geta unnið leiki og breytt gangi þeirra.

5 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Það er likast, að allir seu i afalli eftir leikinn i gær. Slokum aðeins a, nuna er leikur okkar manna og næsta vist að engin þeirra se a bommer ut af gærdeginum, þ.e. leikmanna okkar. Þeir munu halda otrauðir afram og taka þetta 3-0, sagt og skrifað.

    YNWA

    6
  2. Annars finnst mer klikkuð spurning a Fotbolti.net, þar sem spurt er, Er Liverpool besta lið heims i dag. Samt eiga þessir herramenn að vita, sem setja fram svona spurningu, að einungis skynsemis folk segir ja, siðan er bara svo margt oskynsemdarfolk til sem segjir nei, væntanlega manu folk i meirihluta, en það er onnur saga. Maður spyr sig, hver er tilgangurinn með svona spurningu!!!

    YNWA

    4
  3. Óli Haukur er ekki Gomez enþá meiddur?
    Okkar menn verða í bölvuðu brasi í leiknu í dag og alveg viðbúið að pjakkurinn hann Liam Delap skori tvö þar sem ég henti honum út úr fantasy liðinu mínu í gær en við vinnum samt 3-2 þar sem Salah skora tvö og leggur upp eitt á Nunez.

    5
  4. Sælir félagar
    Að mínu viti kemur ekkert til greina nema sigur í þessum leik.. Það er næsta víst að markmaður Ipswich mun eiga leik ferils síns í dag, andstæðingarnir munu láta eins og andsetnir en það á ekki að breyta því að við vinnum leikinn. Ef liðið mætir með hausinn rétt skrúfaðan á og vörnin stendur af sér skyndiáhlaup Ipswich leikmanna í byrjun vinnst þessi leikur auðveldlega. Því miður lekur vörnin oft í upphafi leikja og það gerir allt erfiðara en það þarf að vera. Vonast eftir öruggum sigri í hunderfiðum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  5. Las í fljótu bragði fyrirsögnina hér að ofan sem: ,,Harmleikur gegn Ipswich…” sýnir nú hvað maður er uggandi alltaf og svartsýnn.

    Mér finnst ansi langt síðan við spiluðum eins og sá sem valdið hefur gegn liðum úr efstu hillum í fóbtoltanum Sigrarnir gegn RM, Tottenham (6-3 leikurinn) að ógleymdum útisigri gegn Man U. Það er ansi langt síðan þeir leikir fóru fram. Síðan höfum við náð jafntefli gegn sterkum liðum og knúið út sigur – vissulega kærkomna en maður finnur fyrir því að nokkuð hefur skort á að nýta þessa stöðuyfirburði.

    Þessi leikur gæti orðið einn þeirra þar sem xG er himinhátt yfir skoruðum mörkum. Og ef sú verður raunin er aldrei að vita nema að heimaleikurinn verði harmleikur. Vonandi tekst þeim að gíra sig í stuð. Annars gæti farið illa.

    Mig langar ekkert til að koma hingað að leik loknum og tuða eittvað á þá leið að ég hafi sko séð þetta allt fyrir. Hreint ekki.

    5

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Liverpool 2 -1 Lille

Liðið gegn Ipswich á Anfield