Þetta kemur þétt og ört þessar vikurnar og það er bara gaman. Næst á dagskránni er eitthvað sem ætti að vera formsatriði, Plymouth, botnlið Championship með Guðlaug Victor Pálsson í broddi fylkingar.
Borgin
Plymouth Argyle FC er félag frá samnefndri borg á Cornwall, suðvesturtánni á Englandi. Hún er stærsta borgin þar, með tæpa 300.000 íbúa. Næstu bæir heita m.a. Mousehole, Flushing, Falmouth, Dartmouth, Teignmouth, Exmouth og Sidmouth. Margir munnar að fæða þarna en næstu borgir eru Exeter, Torquay, héraðið heitir Devon og næstu fótboltaborgir eru Bournemouth, Southampton og Portsmouth.
Borg þessi er mikil hafnarborg og hún er sennilega frægust fyrir það að pílagrímar fóru þaðan yfir til Ameríku á 17.öld. Þaðan tekur félagið einmitt gælunafn sitt, Pilgrims. Það gerðist þó ýmislegt fyrir þann tíma, t.d. var Plymouth höfuðvígi Breta í sjóorrustum við hinn spænska sjóher Armada, en fyrir þá sem ekki vita þá þýðir Armada einmitt sjóher eða vopnuð skip. Leifar um mannabústaði frá bronsöld hafa fundist í hellum á svæðinu og því má ætla að svæðið hafi ansi snemma talist ákjósanlegt til búsetu. En nóg um söguna í bili, þetta er frekar afskekkt svæði á Bretlandi en ég held að það sé að sama skapi frekar fallegt og ekki eins mikið um túrisma og víða annars staðar. Kjörið að bregða sér í sveitarúnt til suðurs, það er líka margfalt betra veður þarna heldur en víðast annars staðar á eyjunni.
Félagið
Plymouth Argyle FC hefur einfaldlega aldrei náð neinum teljandi árangri í fótbolta. Þrátt fyrir að vera frá alveg sæmilega stórri borg hafa þeir frá örófi alda verið í b- eða c-deild enska boltans og margoft flakkað þar á milli. Ég sé ekki betur en að þeir hafi aldrei spilað í efstu deild og besti árangur þeirra í sögunni var að komast í undanúrslit enska bikarsins árið 1984 þar sem þeir töpuðu fyrir Watford. Árið 1991 réðu þeir Peter Shilton sem framkvæmdastjóra, í kjölfarið komu nokkrir ljúflingar á borð við Neil Warnock, Tony Pulis, Peter Reid og Wayne Rooney svo einhverjir séu nefndir. Núna heitir þjálfarinn Miron Muslic og miðað við söguna þá verður hann ekkert mjög lengi í starfi.
Liðið
Liðið heitir eiginlega Guðlaugur Victor og félagar. Guðlaugur leikur númer 44 í hjarta varnarinnar, honum er þó víðast ekki spáð í byrjunarlið af miðlum sem vita meira um liðið en ég. En það tekur því samt varla að nefna neina aðra leikmenn liðsins hér. Það situr á botni Championship deildarinnar og virðast örlög þeirra vera að falla um deild þetta árið en þeir eru þó komnir í 4.umferð FA Cup eftir sigur á Brentford. En þeir fara nú ekkert lengra en það.
Líklegt byrjunarlið þeirra er eitthvað á þessa leið:
5-4-1:
Hazard (ekki Eden)
Sorinola-Talovierov-Katic-Pleguezuelo-Puchacz
Randell-Boateng-Baidoo-Hardie
Bundu
Austur-Evrópskur blær á þessu liði enda er þjálfarinn austurrísk-bosnískur.
Liverpool
Hvað er hægt að segja? Arne Slot hefur náð því út úr þessu liði sem hægt er að ná út úr því. Það er enginn (!) ég endurtek, það er enginn (!) á meiðslalistanum í augnablikinu og ég held ég hafi ekki frétt af því síðan 1982. Allavega aldrei í tíð Klopp. Og Rodgers. Og meira að segja Roy Hodgson, og þá hefðu nú svona 10-20 manns mátt vera meiddir mín vegna. En það breytir ekki því að Arne Slot mun rótera rækilega í þessum leik. Hann spilaði með nánast allt a-liðið gegn Spurs á fimmtudaginn og svo er þokkalega strembið deildarprógramm framundan með leiki gegn Everton, Wolves, Aston Villa, Manchester City og Newcastle á 14 dögum. Hann mun því nota hvert tækifæri til að hvíla eftir þennan leik, taka menn útaf og slíkt, en einhverjir fá bara frí, aðrir munu spila lítið en minni og yngri spámenn fá að spreyta sig í þessum leik.
Joe Gomez og Trent Alexander Arnold eru tæpir, þ.e. þeir gætu náð að spila eitthvað í þessum leik ef með þyrfti, en mér finnst líklegra að þeir verði sparaðir. Jayden Danns er farinn á láni en mér skilst að Morton sé að glíma við axlarmeiðsli. McConnelly er klár í slaginn ásamt t.d. Trey Nyoni og Rio Ngumoha sem hvíldu í U21 leik á laugardag. Jota og Nunez þurfa helst báðir að spila og skora, kannski stillir hann þeim saman, en mér finnst líklegra að þeir skipti með sér hálfleikjum. Konate, Robertson, Szoboszlai, Gakpo og Salah spiluðu ansi mikið gegn Spurs og fá í það minnsta frí frá því að byrja, ef ekki bara alveg. Setjum þetta upp:
Ef ég er með 7 rétta þá er ég sáttur. Held að Tsimikas, Quansah, Bradley, Elliot og Chiesa séu öruggir nema eitthvað sé að plaga þá. Allt hitt gætu verið allt aðrir leikmenn, t.d. er Diaz eflaust í fínu standi og óþreyttur, Nunez örugglega líka, McAllister, Jones og Kelleher gætu allir byrjað.
En sama hvaða lið spilar fyrir okkur þá verður þetta veisla á Home Park, við vinnum leikinn 5-2 í miklu fjöri og opnum leik. Góða skemmtun og njótum þess að horfa á þetta frábæra lið spila frábæran fótbolta undir stjórn frábærs stjóra og þjálfara.
YNWA
…og það sem svo ótrúlegt er: ef Liverpool kemst í úrslit þessarar bikarkeppni, þá munu okkar menn EKKI mæta Chelsea.