Úlfarnir koma heimsókn – Upphitun

Eftir nístandi vonbrigði hinum megin við Stanley Park þá fá okkar menn tækifæri til að sýna sitt rétta andlit í þegar Úlfarnir frá Wolverhampton koma í heimsókn. Gengi liðanna í vetur gæti ekki verið ólíkara. Okkar menn eru á toppi deildarinnar, 7 stigum fyrir ofan næsta lið þegar þetta er skrifað. Úlfarnir eru tveim stigum frá fallsæti þegar þetta er skrifað. Það þarf ansi mikið að ganga á til að þeir lyfti sér upp í næsta sæti fyrir ofan, þar sem West Ham sitja, 8 stigum betur settir en þeir. Stuðningsmenn Leicester og Ipswich byggja alla sína drauma á að halda sér í deildinni á því að þeir gulklæddu haldi áfram núverandi gengi þeirra.

Andstæðingurinn Wolverhampton Wanderers.

Þegar maður var lítill að kynnast ensku deildinni voru Wolverhampton Wanderers helst merkilegir fyrir að vera með áberandi svalasta merki fótboltans. Allavega fannst þessum höfund ekkert meira kúl á merki en úlfshöfuð (og finnst en, sumt þroskast seint úr manni). Nafn borgarinnar Wolverhampton er dregið af vígi fornar aðalskonu, Wulfrun, sem er sögð hafa stofnað bæinn sem nú er kallaður Wolverhampton.

Liðið hefur verið í B-deildinni megnið af 21. öldinni. Það er að verða áratugur síðan þeir komu sér aftur upp í deild hinna bestu, þá undir stjórn Nuno Espirito Santo. Þeir komu eins og stormsveipur inn í deildina, enduðu í sjöunda sæti á jómfrúartímabilinu. Santo setti mark sitt á félagið, sótti helling af hæfileikaríkum mönnum til heimalandsins Portúgals (eins og til dæmis ungan mann að nafni Jota…) og þeir spiluðu glimrandi skemmtilegan bolta.

Eins og oft vill gerast hjá liðum sem koma upp eins og rakettur fór að halla undan fæti hjá þeim. Sumarið 2021 ákváðu Nuno og liðið að segja þetta gott. Arftaki hans náði tíunda sæti, en árið eftir fór skelfilega af stað. Eftir átta leiki voru þeir með örfá stig í tuttugasta sæti, Lopetegui tók við keflinu og náði að lyfta þeim upp í þrettánda sæti í lok tímabilsins. Hann sagði sig þó frá störfum vegna ósættis um hvað hann mætti eyða í glugganum og Gary O‘Neil tók við liðinu, starf sem hann vann þangað til núna í desember.

Lið reka venjulega ekki þjálfara í desember af því að það gengur frábærlega. Wolves hafa verið lélegir frá því að tímabilið hófst, í eða við fallsæti allt frá upphafi. Það segir meira um liðinn sem komu upp í fyrra en úlfanna að fæstir spái þeim falli. Eftir hrikalega erfiða byrjun á árinu, þar sem þeir léku við fjögur af topp sex liðunum í röð, fengu þeir loksins lið aðeins neðar… það er að segja Aston Villa sem eru í áttunda sæti. Þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu Villa-menn. Það verður að teljast risastór sigur hjá þeim og eftir að þeir koma í heimsókn á Anfield geta þeir horft til aðeins léttari tíma. Þeir munu líklega horfa til þess hvernig Everton náðu að skemma fyrir okkar mönnum stanslaust í miðri viku og reyna að leika það eftir. Það er undir Liverpool komið að koma í veg fyrir að það takist.

Okkar menn.

Menn hafa þurft langa sturtu til að ná sér niður eftir hasarinn á Goodison Park í vikunni. Fyrir þennan leik mun reyna rosalega á þjálfarateymið að stilla hausinn á leikmönnum rétt. Þeir munu líklega vera grautfúlir yfir hvernig fór, svo ekki sé talað um það sem gekk á eftir leik.

Það er því til næst öruggt að Slot mun fá bann tengt spjaldinu eftir leik, spurningum er hversu langt. Aganefnd kemur þó ekki saman fyrr en eftir helgi til að fara yfir skýrsluna frá Michael Oliver, ég held að sá fundur sé strax eftir helgi. Það lýtur þá út fyrir að Slot sé ekki komin í bann og verði á hliðarlínunni. Curtis Jones fær hins vegar strax að taka út bannið sitt, sem er fyrir tvö gul og ætti því aðeins að vera einn leikur.

Það eru tveir leikmenn frá eins og stendur. Gakpo er samkvæmt Slot tæpur eftir högg, ég skil það þannig, „had a knock“ finnst mér alltaf ögn ruglingsleg lýsing á meiðslum og svo er grey Joe Gomez á leið í aðgerð. Aðrir eru ferskir og örugglega vel til í að ná í sigur eftir vonbrigði vikunnar.

Alisson verður á sínum stað, sem og bæði Konate og Van Dijk. Það er ekki alveg augljóst hvaða bakverðir byrja, en líklega verða það Trent og Robbo. Gravenberch átti sjaldgæfan leik gegn Everton, það er að segja hann var ekkert sérstakur. Hann er þó fyrsti maður á blað og líklega verða Szoboszlai og Macallister á sínum stað. En á Gakpo er framlínan orðin smá spurningar merki. Nunez og Diaz er báðir bestir út á vinstri kanti, en sjálfur er ég ekki að fýla Diaz í níunni. Jota er líklega ekki tilbúin í að byrja leik. Ég vil Nunez upp á topp, Diaz vinstra megin og kónginn að sjálfsögðu hægra megin.

Allar þessar spá byggja á að allir séu ferskir eftir Everton og það verðir grimmar skiptingar með Villa leikinn í næstu viku í huga. Það kæmi samt ekkert á óvart ef til dæmis Bradley og Tsimikas byrja í bakvörðunum og annað hvort Szoboszlai eða MacAllister víki fyrir fyrir Elliott. En ef ég hef rétt fyrir mér verður byrjunarliðið svona:

Spá:

Áður en leikar hefjast fá Arsenal tækifæri til að setja pressu á okkar menn. En það á ekki að skipta neinu máli hvernig fer hjá þeim. Leikur gegn liðið í fallbaráttu á Anfield er bara skyldu sigur. Ég held að gestirnir verði á bleiku skýi eftir sigurinn á Villa og okkar menn fari harkalega með þá. 3-0 fyrir okkar mönnum, Salah með tvö mörk og Nunez eitt.

7 Comments

  1. Sælir félagar

    Ekkert nema sigur er ásættanlegt á morgun eftir dapra frammistöðu í síðasta leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    11
  2. Takk fyrir góða umfjöllun. Held einmitt að féndur okkar þykist hafa fundið kryptónítið: Berjast eins og djöfulóðir um allan völl, gefa engan tíma og ekkert pláss.

    Það er mikilvægt að Slot mæti þessu kerfi. Þurfum að vinna og passa viðkvæmar lappir fyrir komandi átök.

    Væri mjög gott að moka inn marki fyrir hlé og reyna svo að hægja á leik áður en Salah skorar fyrirsjáanlega sitt seinni hálfleiksmark.

    6
  3. Ég er svartsýnis maður að eðlisfari og hef yfirleitt allt á hornum mér fyrir hvern leik og býst við hinu versta því í hvert skiftið sem ég hef dottið í bjartsýnis gírinn þá hefur ýlla farið fyrir okkar mönnum svo ég tali nú ekki um ef ég skreyti í kringum mig með Liverpool dóti, þá fyrst er fjandinn laus þannig að allt mitt Liverpool dót er komið í geymslu og verður ekki hreyft það á þessu tímabili til að stykkja ekki æðri fótboltamáttarvöld.
    Þrátt fyrir alla mína svartsýni þar sem ég óttast það versta þá vona ég að okkar menn komi ferskir til leiks á morgun en um úrslitin þori ég engu að spá.
    YNWA

    13
  4. Laugardagur, tvö atriði:

    Arsenal tókst að finna markaskorara í dag, því miður. Vonum bara að Mikel Merino geri það ekki að reglu á næstunni að setja tvö mörk í leik. Má ég þá heldur biðja um Sterling sem gat ekki blautan skít áður en honum var skipt út af fyrir Merino.

    Og allt gengur mönnum í mót á Old Trafford. Það er ekki bara að Vopnafjarðar-lordinn vaði með blóðugan niðurskurðarhníf um allt hús þannig að elstu mötuneytiskellingar muna ekki annað eins, heldur eru nýjustu fréttir þær að besti maður liðsins, Amad Diallo, verður frá það sem eftir er leiktíðarinnar. Og þá er nú orðið fátt um fína drætti í hópi Amorins.

    Best að þurrka af sjónvarpinu fyrir sunnudagsleikina…

    10
  5. 3 stig á morgun eru algerlega nauðsynleg. Það er óþolandi að Arsenal sé að hala inn stigin þrátt fyrir meiðslabrekku. Svo eiga Liverpool 2 mjög erfiða útileiki í röð gegn Villa og City áður en Newcastle kemur í heimsókn. Ef við náum að komast í gegnum þetta með 9-12 stig þá fer maður að verða bjartsýnn. En eins og spilamennskan hefur verið undanfarið þá er maður farin að efast. Nú er að duga eða drepast. Við verðum að vinna þessa deild! Spái 4-0 og Darwin kemur með 2

    5
  6. Já, við verðum að fá þrjú stig á móti ulfunum.

    Við eigum helling inni og ég efast um að oliver dæmi hjá okkur aftur í bráð.

    7
  7. Takk fyrir þessa upphitun. Núna verður liðið að hrökkva aftur í gang enda ekkert annað í stöðunni. Hið nánast árlega eftir jóla slen hefur hrjáð liðið frá áramótum amk miðað við hressleikann fyrir áramót. Síðustu 12 leikir, í öllum keppnum, aðeins 6 sigrar og 3 jafntefli er nánast drulluræpa ef tekið er mið af hve liðið okkar er gott. Ég vill sjá sigur, mikinn ákafa, mikið af mörkum og að Nunez nánast rífi netið með neglum af dýrari gerðinni. Hann skuldar félaginu og stuðningsfólki nokkuð mörg mörk. Og Diaz greyið þarf að þiðna eftir miðvetrarsvalann enda ekki keyptur til að vera bara með og horfa til himins. Núna kemur þetta, Slot setur gremju síðasta leiks til hliðar og……..sigur.

    5

Deloitte og Kop.is í samstarf

Liverpool-Wolves – liðið og leikþráður