Villa á virkum degi

Þrettán leikir eftir. Titill í húfi. Næsti (fyrsti?) leikurinn í þessum lokaspretti er annað kvöld þegar okkar menn heimsækja Aston Villa til Birmingham, í leik sem hefði átt að fara fram í mars en var færður fram í ljósi þess að Liverpool er að spila við Newcastle í úrslitum deildarbikarsins og er því ekki í stöðu til að spila í kringum þann leikdag. En byrjum aðeins að skoða stöðuna í töflunni, og berum saman gengi liðsins á þessari leiktíð við þá síðustu.

Gengið hingað til

Nú er 25 leikjum lokið og 13 eftir, því má segja að við séum búin með u.þ.b. 2/3 af leiktíðinni. Í þessum töluðu orðum er Liverpool með 60 stig eftir þessa 25 leiki – og eini stjórinn sem hefur nokkurntímann náð í fleiri stig í sínum fyrstu 25 leikjum fyrir félag var José nokkur Mourinho sem krækti í 64 stig í þessum fyrstu 25 umferðum. Á síðustu 10 árum hefur liðið aðeins tvisvar verið með fleiri stig á þessum tímapunkti í keppninni: 2018-2019 þegar liðið var með 62 stig og endaði í 97 stigum, og svo tímabilið sturlaða 2019-2020 þegar liðið var með 73 (!) stig af 75 mögulegum.

Ef við berum þessa leiktíð saman við þá síðustu, skoðum leikina sem Liverpool er búið að spila og hvernig liðinu er að ganga samanborið við sömu leiki í fyrra (þar sem Leicester kemur í staðinn fyrir Luton, Ipswich í staðinn fyrir Burnley, og Southampton í staðinn fyrir Sheffield United), þá kemur í ljós að liðið er merkilegt nokk bara með 2 stig í plús. Það sem af er þá er liðið í mínus í leikjunum gegn Fulham (-2) – þar sem Andy Robbo var rekinn af velli, Newcastle (-2) og Forest (-5), og okkar menn munu ekki ná að bæta tölurnar fyrir þessi 3 lið í leikjunum sem okkar menn eiga eftir gegn Fulham og Newcastle, einfaldlega vegna þess að sambærilegir leikir á síðustu leiktíð unnust og því ekki hægt að gera betur en þá. En svo á móti þá hefur liðið náð að bæta árangurinn frá síðasta tímabili gegn Everton (1 stig í plús – jújú það er eftir jafnteflið góða á Goodison), City (2 stig í plús), United (2 stig í plús), Spurs (3 stig í plús – sem ættu svosem bara að vera 2 stig ef Díaz markið hefði nú staðið), og að lokum West Ham (2 stig). Bara í ljósi þessara talna, og í ljósi þess að Liverpool endaði síðustu leiktíð með 82 stig, þá er ekkert út úr kortinu að spá því að okkar menn endi með 84-85 stig. Vonandi meira.

Það eru n.b. bara 2 lið sem geta fræðilega séð náð í 85 stig fyrir utan Liverpool: Arsenal sem er með PPG upp á 2.12 en þurfa að hífa sig upp í 2.46, og Forest sem þurfa þá að vinna alla leikina sem þeir eiga eftir.

Það er líka svolítið áhugavert að skoða muninn á stigasöfnun liðsins heima og úti. Í fyrra náði liðið að jafnaði í 2.52 stig í leik á heimavelli (1 tap, 3 jafntefli, 15 sigrar), en aðeins 1.78 á útivelli (3 töp, 7 jafntefli, 9 sigrar). En í ár er þetta jafnara. Liðið er örlítið undir pari á heimavelli með 2.42 PPG á heimavelli (helvítis Forest leikurinn…), en 2.38 á útivelli sem er talsverð bæting. Útkoman á heimavelli stafar af því að liðið er nú þegar búið að tapa einum heimaleik og gera 2 jafntefli, og má því í raun bara gera eitt jafntefli til viðbótar heima til að árangurinn verði ekki verri á þessu ári en því síðasta. En á útivelli er liðið enn taplaust – vs. 3 töp á útivelli allt tímabilið í fyrra – og er komið með 4 jafntefli á útivöllum á þessari leiktíð vs. 7 á allri síðustu leiktíð. Bætingin á útivelli er því allnokkur – a.m.k. enn sem komið er.

Eins er áhugavert að skoða að þegar leiknum á sunnudag lýkur, þá mun Liverpool aðeins eiga 4 útileiki eftir: Gegn Brighton, Chelsea, Fulham og Leicester.

Er einhver niðurstaða af þessu öllu? Nei í raun og veru ekki. Við vitum að okkar menn verða að halda sama dampi og helst að gefa í, og eins að meiðsli gætu sett strik í reikninginn. En ég vona að ég sé ekki að fullyrða of skarpt með því að segja að ekkert lið er í betri stöðu en okkar menn eins og staðan er núna.

Ég læt að lokum fylgja með mynd af þeim tölum sem ég var að vinna með, svo fólk sjái tölurnar svartar á hvítu (og alls konar aðrir litir þarna með).

Síðustu viðureignir

Þessi lið mættust á Anfield í haust, og þeim leik lauk með 2-0 sigri okkar manna. Í fyrra þá vannst heimaleikurinn sömuleiðis, en leikurinn í Birmingham fór 3-3, þar sem Jhon Duran var okkar mönnum erfiður og skoraði 2 mörk á síðustu mínútunum. Hans mun ekki njóta við á morgun, en í staðinn eru Villa menn komnir með ýmis önnur vopn í vopnabúrið. Marcus Rashford hefur nú gjarnan verið okkar mönnum óþægur ljár í þúfu, vonum að svo verði ekki á morgun.

Nú svo er vert að minnast aðeins á leik liðanna tímabilið 2019-2020, þegar Villa voru 1-0 yfir þegar 5 mínútur voru til leiksloka, en Andy Robertson jafnaði eftir fyrirgjöf frá Mané, og sá síðarnefndi skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma eftir hornspyrnu frá Trent. Ég væri alveg til í sömu úrslit á morgun eins og þá, en að sama skapi mætti líka alveg vinna ögn öruggar heldur en þá. Sætt var það verður þó að viðurkennast.

Staðan á liðinu

Byrjum á meiðslalistanum. Cody Gakpo er frá, en verður vonandi orðinn klár fyrir leikinn gegn City á sunnudaginn. Joe Gomez er líka frá, gæti mögulega þurft í uppskurð, en hvort sem af því verður eða ekki þá sjáum við hann líklega ekki fyrr en undir lok leiktíðarinnar. Tyler Morton meiddist á öxl og mun ekkert koma við sögu það sem eftir er leiktíðar, og hefði svosem ekki gert það hvort eð var. Þá er það upptalið, og Curtis Jones er endurheimtur eftir smávægilegt leikbann sem hann fékk út af dottlu.

Svo er það andlega staðan á hópnum. Eru menn búnir að jafna sig á svekkelsinu síðan fyrir viku síðan? Vonandi er það gleymt, líka rétt að minna leikmenn á að þeir fengu þó eitt stig sem er einu stigi meira en fékkst á Goodison á síðasta ári. Nú svo má líka bara sýna mönnum stöðutöfluna til að hressa, bæta og kæta liðsandann.

Hvað uppstillinguna varðar, þá er nú líklegt að Slot vilji stilla upp eins sterku liði og mögulegt er. Þó er líka vel mögulegt að hann nýti sér þá róteringamöguleika sem hann hefur. T.d. er ekki ólíklegt að bakvörðunum verði skipt út, þ.e. að Tsimikas og Bradley taki þennan leik, en Trent og Robbo taki svo City leikinn. Eitthvað er talað um að Trent hafi í raun verið að spila meiddur megnið af leiktíðinni, hafi gjarnan þurft sprautur, og því full ástæða til að rústa honum ekki endanlega með of miklu leikjaálagi. Eins er Robbo farinn að dala eins og sést hefur. Nú og svo er alveg líklegt að Curtis komi ferskur inn eftir bannið, en líklega leggur Slot ekki í frekari róteringar varðandi byrjunarliðið. Í framlínunni er svo í raun eina spurningin hvort Jota eða Nunez byrji, og undirritaður ætlar að giska á þann síðarnefnda.

Semsagt, spáum liðinu svona:

Alisson

Bradley – Konate – Virgil – Tsimikas

Curtis – Macca

Salah – Szoboszlai – Díaz

Nunez

Alls konar möguleikar á að hræra í þessu að sjálfsögðu: kannski verður Grav í sinni stöðu og Jones frekar í hlutverki Szoboszlai. Kannski spilar Trent. Kannski verður Jota í níunni. Nú og kannski vill læknateymið hvíla einhvern sem þarf að vera í toppformi á sunnudaginn. En líklega er þetta ekkert mjög fjarri lagi, ég verð fúll ef ég verð ekki a.m.k. með 8 rétta.

Það fer tvennum sögum af því hvort Stuart Atwell eða Craig Pawson verða á flautunni. Vonum bara að dómarinn – hver sem hann verður – dæmi bara eftir bókinni og setji sjálfan sig ekki í aðalhlutverkið. Ólíkt sumum.

Óskin er afar einföld: 3 stig og sleppa við meiðsli. Þetta er agnarlítil bón sem við skulum öll leggjast á eitt með að óska eftir.

Spái 2-0 sigri. Alveg sama hverjir skora, þó auðvitað væri frábært ef Salah héldi áfram marseringunni í átt að gullskónum.

KOMA SVO!!!!!

14 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Robertson er þriðji stoðsendingahæsti leikmaðurinn í deildinni.

    Langbesti vinstri bakvörður deildarinnar. Langbesti.

    Áfram Liverpool!

    8
  2. Með fullri virðingu fyrir Curtis Jones þá held ég ekki að hann verði settur inn fyrir Gravenbergh? Þessi samlíking á stöðunni núna og í fyrra sýnir okkur að liðið verður að rísa upp til að halda ser í toppbarattunni.Þvi miður virðast komin mikil þreyta í þetta svo ég veit ekki hvað maður á að halda og ef ekki væri fyrir Shala þá væru mörkin færri ,án hans er þetta lið ekki að fara vinna neinn titil ..En það versta við þessa leiki sem eru leiknir a miðvikudögum þegar leikið er í meistaradeildinni fáum við sem búum í DK ekki að sjá Liverpool leikinn.Uhff!!

    1
  3. Takk takk fyrir skínandi upphitun.

    Það er viðbúið að fólk sé orðið þreytt þegar hér er komið sögu. Einhvern tímann var ég í langhlaupaformi og þreytti m.a. eitt maraþonhlaup. Þá hafði maður þá reglu til að passa upp á andann, að á einhverjum tímapunkti í hlaupinu hætti maður að pæla í kílómetrunum sem voru framundan en reyndi að láta þá sem voru að baki ,,ýta” sér áfram. Peppaði upp á úthaldið með að segja sér í sífellu hversu vel maður hefði staðið sig að vera búinn að hlaupa svo og svo langt.

    Þetta gæti verið lykillinn að upphitunarræðu Slot: Sjáið strákar hvað þið eruð búnir að komast langa leið og hvernig þið fóruð að því. Komið vöðva- og taugaminninu í gang og spilið eins og þið hafið gert í þessum yfirburðarsigrum.

    Vonandi tekst okkur að heimta þrjú stig og heila skrokka þegar blásið verður til leiksloka.

    Gleymum því ekki að Nallar eru að keyra á öllum varaaflstöðvum. Sigur í dag gæti dregið úr þeim þróttinn í næstu leikjum!

    11
  4. Ég veit að City er langt á eftir okkur en ef við töpum í kvöld og svo á móti City þá eru þeir 10 stigum á eftir okkur og með 11 leiki eftir. City gætu alveg tekið upp á því að vinna restina af leikjunum sem eftir eru, sérstaklega ef þeir detta út á móti Real í kvöld.
    Einhvernveginn hef ég meiri áhyggjur af city heldur en Arsenal.

    En ég ætla ekki að detta í þessa gryfju, Slot kemur með liðið siglingu í leikinn í kvöld og við siglum þessum 3 stigum heim.

    4
    • Það er reyndar ekki alveg rétt því munurinn á liðunum eru 16 stig í augnablikinu, og City spila ekki í deild fyrr en á sunnudaginn. Þeir geta því í mesta lagi minnkað muninn í 13 stig með sigri í þeim leik. Vissulega munu þeir eiga leik til góða, en dæmin sýna að “betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi”.

      City geta að hámarki náð 83 stigum, og til þess þurfa þeir að vinna hvern einn og einasta leik sem er eftir. Fyrir einhverju síðan hefði það ekki verið svo fjarstætt, en í dag eru líkurnar á því talsvert minni.

      Liverpool er hins vegar með PPG upp á 2.4 í augnablikinu, sama form myndi skila liðinu í 91 stig í lok leiktíðar. Liverpool má því gefa aðeins eftir, og á sama tíma má City bara ekki misstíga sig neitt. Er það ómögulegt að Liverpool dali talsvert á lokakaflanum á meðan City vinnur rest? Nei. En er það líklegt? Alls ekki.

      10
      • Þá er eins gott að Van Dijk og Salah meiðist ekki neitt, Salah gjörsamlega er potturinn pannann og allt hitt í sóknarleik liðsins.

        7
      • Mikilvægt að Gravenberch haldist heill líka. Hann er búinn að vera einn besti leikmaður deildarinnar miðað við það sem ég hef séð. Ótrúlegt tímabil og algjörlega ófyrirséð. Nema auðvitað hjá FSG sem vissu að ekkert þyrfti að kaupa í sumar.

        4
  5. Það fer einhver slæm tilfinning í mig fyrir þennan leik þvi miður. Sé fyrir mér 2-1 fyrir Villa og Marcus Rashford med bæði mörkin.
    En ætla samt að spá þessum leik 0-2 fyrir okkar mönnum og gæti ekki verið meira sama hver skorar.

    1
  6. Alvöru upphitun.

    Væri hrikalega sterkt að vinna í kvöld. Tæki smá pressu af leikmönnum. Það jákvæða við seinni hálfleikinn gegn Wolves var innkoma Endo og svo Quansah, sem ég var hræddur um Slot væri búinn að afskrifa.

    Verður fróðlegt að sjá mínúturnar milli 50-70 í kvöld. Þá virðist Liverpool liðið oft slökkva á sér og hvíla. Ef ég væri Unai Emery myndi ég setja Rashford inn á í hálfleik.

    Annars held ég að hafa dottið úr FA Cup hafi verið hið besta mál. Þessi hópur á að einbeita sér að Deildinni og leika sér í Meistaradeildinni. Svo fer vonandi að styttast í að fólkið safnist saman fyrir leiki og taki á móti liðsrútu andstæðingana með blysum og bjórflöskum.

    0-1 sigur. Fyrirliðinn með markið. Og samning fyrir helgi takk!

    KOMA SVO!!! VINNUM DEILDINA. ÁFRAM LIVERPOOL OG ÁFRAM SLOT!!!

    11
  7. Takk fyrir þessa upphitun. Spennandi eins og alltaf en þetta AV lið er erfitt og verða allir að vera á tánum ef sigur á að hafast. Er þó bjartsýnn sem endranær en….
    …fullmargar ræpur eftir áramót
    …meiðslalistinn, æi sennilega styttist hann ekki
    …bakvarðar, vil ekki segja krísur, en þó smá
    …bestu menn tímabilsins fram að þessu: 1VvD, 2 MoS, 3 RG. Mega bara alls ekki meiðast. Setja þá í bómul milli leikja.
    …ákefðin hefur minnkað
    … Spurning hvað Slot gerir þegar á reynir. Tekur yfirleitt réttar ákvarðanir fyrir utan leikinn í FA bikarnum
    …spurning hvort Arsenal sé öllu snarpara í augnablikinu
    … næstu þrír leikir algjörir lykilleikir. Styttist í CL og þá verður allt slen að vera yfirstaðið.
    Spái sigri en tæpt gæti það orðið.

    3
  8. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun Daníel og alltaf gaman að smá tölfræði í bland við aðrar pælingar. En fyrir mér er ekkert í boði nema sigur og að sleppa án meiðsla ein og Daníel nefnir líka. Hitt er ljóst að okkar menn verða að mæta til leiks, einbeittir og mjög samstilltir. Enginn má slaka á einbeitingunni allan leikinn og þá er mögulegt að þessi leikur vinnist. Lið Villa er sterkt en okkar menn eiga að vera sterkari þó á útivelli sé. Ég er nú ekki vanur að spá um niðurstöður leikja og geri það ekki heldur nú en vonast eftir sigri í hunderfiðum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  9. Liðið er komið. Áhugavert að Diaz er ekki á vinstri kantinum. Sennilega annað hvort Jones eða Szobo í staðinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Sjónvarpið fékk að heyra það!

Byrjunarliðið gegn Villa