Allar líkur á að Trent Alexander-Arnold fari

Verst geymda leyndarmálið í fótboltanum þetta árið er því miður að Trent Alexander-Arnold virðist nær örugglega ætla að yfirgefa Liverpool á frjálsri sölu og fara til helvítis djöf…. Real Madríd. Það eru nokkrir mismunandi vinklar á þessu auðvitað og hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á Liverpool liðið og plön næsta sumars.

Viðskilnaðurinn

Uppalin leikmaður hjá Liverpool sem ítrekað hefur talað um hversu mikið hann er að lifa drauminn og vilji hvergi annarsstaðar vera verður ekkert klappaður upp þegar hann ákveður 26 ára að fara á frjálsri sölu til Real Madríd. Eitt er að fara frá Liverpool liði sem er í kjörstöðu til að vinna titilinn og bara í vaðandi samkeppni við lið eins og Real Madríd. Annað er að fara á frjálsri sölu þannig að uppeldisfélagið fær ekkert við viðskilnaðinn annað en góðar minningar.

Hann skrifaði svo sannarlega undir samning til fjögurra ára árð 2021 og er auðvitað í fullum rétti að fara annað þegar sá samningur rennur út. En það er líka fullkomlega eðlilegt að hann fái helvítis hellings gagnrýni fyrir frá stuðningsmönnum Liverpool og þetta hefur klárlega mjög mikil áhrif á arfleið hans sem leikmaður Liverpool. Fróðlegt líka að hugsa til þess núna að hans samningur var til fjögurra ára þá en samningar Robertson til fimm ára og Alisson voru til sex ára, afhverju var það?

Trent er að upplifa draum stuðningsmanna félagsins og liðið er mjög vel samkeppnishæft öfugt við kannski liðið sem McManaman yfirgaf með sama hætti. Það er ekki alveg hægt að gefa Michael Owen þann vafa enda vann félagið Meistaradeildina bókstaflega tímabilið eftir að hann fór. Owen fór ekki á frjálsri sölu heldur og liðið var vissulega búið að vera í ströggli áður en hann fór 2004.

M.ö.o. það er hægt að bera aðeins meiri virðingu fyrir brottför Macca og Owen þegar þeir ákváðu að fara til Real en tímasetningu Trent núna. Hann verður líklega í svipuðum metorðum hjá stuðningsmönnum liðsins og þeir hafa verið sl. 20 ár.

Eins svíður það sérstaklega að missa Trent til Real Madríd í ljósi sögu Liverpool gegn Real Madríd árin sem Trent hefur spilað fyrir Liverpool.

Hvernig bregst Liverpool við?

Trent undir stjórn Jurgen Klopp hálfpartinn endurskilgreindi stöðu hægri bakvarðar og er í flokki þeirra allra bestu í þessari stöðu, ekki bara núna undanfarin ár heldur frá upphafi. Enda  hefur hann verið lykilmaður í geggjuðu Liverpool liði sem spilaði mjög mikið inn á styrkleika Trent. Þrjú +90 stiga tímabil og fjórir úrslitaleikir í Meistaradeild eða Evrópudeild er eitthvað sem fáir hægri bakverðir hafa afrekað undir 25 ára, hvað þá sem algjörir lykilmenn öll tímabilin.

Nýr stjóri virðist ekki alveg ætla að nýta hann eins og Klopp gerði og mig grunar að ef hann þyrfti að velja tvo af þremur fyrir næsta tímabil myndi hann velja Van Dijk og Salah frekar og þeim forsendum að það er erfiðara að fylla þeirra skörð. Það þarf ekkert að vera að Arne Slot sé að fara á taugum yfir því að missa hægri bakvörðinn sinn. Tíminn mun auðvitað leiða í ljós hversu stórt skarð Trent kemur til með að skilja eftir sig. Það er samt líklega nokkuð ljóst að arftaki Trent verður ekki leikstjórnandi Liverpool úr stöðu hægri bakvarðar og sendinga getan er eitthvað sem erfitt er að sjá nokkurn leika eftir í bráð.

Það er sannarlega hægt að byggja sóknarleikinn öðruvísi upp en Liverpool gerir og vonandi verður lausnin að fá inn mjög líkamlega öflugan og fljótan hægri bakvörð sem keppir um stöðuna við Conor Bradley. Hann fær líklega dauðafæri til að eigna sér þessa stöðu ef hann nær einhverntíma að halda sér heilum blessaður. Bara í guðanna bænum ekki missa Trent og fara inn í næsta tímabil með Conor Bradley sem aðalmann og Joe Gomez sem næsta varamann, læknavísindin eru bara ekki komin svona langt.

Liverpool þarf líka að kaupa vinstri bakvörð sem einfaldar ekki málið en sé það gert rétt, t.d. annar  sem er líkamlega sterkur og fljótur gæti það alveg styrkt Liverpool liðið frá því sem nú er. Kerkez hjá Bournemouth sem dæmi.

Fjárhagshliðin

Versta er að fá ekki krónu fyrir Trent og vafalaust eigum við eftir að heyra fréttir af því í sumar að ekki verði eytt um efni fram enda kom ekkert kaupverð inn fyrir Trent. Þetta er vel rúmlega 100m leikmaður.

Liverpool á þrátt fyrir þetta að eiga meira en nægt svigrúm til að taka þó ekki væri nema einn svona hálfan Chelsea glugga í sumar og þarf að gera það. Það er líka vel mögulegt að töluvert skili sér í kassann fyrir sölu á öðrum leikmönnum. Liverpool hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut undanfarin misseri en á sama tíma losnað við nokkra stóra bita af launaskrá, Trent sjálfur er t.a.m. stór biti sem losnar af launaskrá, Thiago og Matip voru það líka.

Kelleher, Nunez, Morton, Chiesa og jafnvel Diaz gætu allir skilað töluverðu í kassann fyrir utan að Liverpool hefur ítrekað reynt að kaupa stóra bita á leikmannamarkaðnum án árangurs.

Höfum samt í huga að Edwards og Hughes voru mjög líklega ekki að koma aftur til að Liverpool færu að kaupa mest augljósa og dýrasta bitann á markaðnum, Alexander Isak er sem dæmi aldrei að fara koma í sumar. Núna þurfa þeir líka að finna “réttu” bitana og klára kaupin á þeim, ekki meta stöðuna til dauða og missa svo fyrsta valkost eins og venjulega til keppinauta.

Nóg komið af neikvæðum fréttum

Liverpool er að eiga alveg einstaklega slæman mars mánuð eftir að tímabilið var nánast bara jákvætt fram til nú. Það hefði svo sannarlega frekar mátt tilkynna að þríeykið væri búið að framlengja núna frekar en að Trent væri mjög líklega að fara. Liðið er nýbúið að tapa bikarúrslitaleik og falla úr leik í Meistaradeildinni í 16-liða úrslitum eftir að hafa unnið 36 liða riðil í undankeppninni. Það sem verra er liðið hefur virkað dauðuppgefið og þungt undanfarnar vikur og jafnvel mánuði.

Það hefur ekki einn leikmaður verið orðaður af einhverri alvöru við Liverpool í vetur og raunar ekki nokkur einasta jákvæða frétt komið af leikmannamálum allt þetta tímabil. Samningsmál virka svipað strand og síðasta haust. Magnað fyrir lið sem er þrátt fyrir allt með 12 stiga forskot á toppi deildarinnar. Já og guði sér lof að liðið er með þetta forskot núna! 

Trent er að fara. Salah hefur ítrekað sagt að hann vilji vera áfram en lítið sem ekkert sé að frétta af samningsviðræðum við hann. Van Dijk er svipaður en segir að hann sé ekki í neinum viðræðum við klúbbinn. Konate er núna sagður erfiður í samningsviðræðum og mögulega að fara til PSG eða Real Madríd. Hann á ár eftir af sínum samningi í sumar.

Zubimendi var svo gott sem kominn í sumar en það fór samt í vaskinn. Úr því svo fór var enginn annar valkostur í boði! Félagið má svo sannarlega fara skipta aðeins um plötu og haga sér eitthvað meira í líkingu við lið sem er að vinna ensku úrvalsdeildina og stefnir á að gera það aftur á næsta tímabili.

 

 

32 Comments

  1. Mér er alveg sama hvað menn reyna réttlæta það að TAA sé búinn að vinna allt með uppeldisfélaginu og skref til Real Madrid sé það rétta.

    TAA hefur unnið allt hjá Liverpool nema eitt og það er að enda sem goðsögn í augum stuðningsmanna og félagsins!

    Hann verður bara partur af geggjuðum Liverpool liðum í minninguni.

    Meðan Gerrard td sem vann ekki allt er og verður goðsögn löngu eftir sinn dag verða fánar og borðar með andliti og nafni hans á Anfield.
    Sama verður ekki sagt um TAA.

    Hann er á leið til félags þar sem stuðningsmenn hans munu baula og púa á varnarframmistöðuna hans ef hann ætlar að halda henni áfram. Svosem verður örugglega minna að gera hjá honum þar í mikka mús deildinni sem hann er á leið í .

    En Liverpool verður hinsvegar áfram til og alltaf eitt af bestu liðum Evrópu það breytist ekkert og hefur ekki gert þegar menn fara.

    Versta við þetta er að maður hélt að svona menn myndu vilja halda tryggð við félagið í þeirri stöðu sem það er í, í dag en þegar sumir aðrir fóru.

    15
  2. Maður er búinn að vera að undirbúa sig fyrir þetta í nokkurn tíma þannig að sjokkið er ekkert svakalegt. Við vissum það öll að RM væri búið að lokka hann til sín. Og af öllum fregnum sem berast snýst þetta ekki um peninga heldur bara vilja Trent að fara. Hann um það. Verður bara any other player hjá Real. Ekki séns að hann sé að fara að skyggja á stórstjörnur Real.

    Hvað varðar replacement og önnur leikmannakaup hjá Liverpool, er maður ekkert svakalega spenntur. Stjórnendur Liverpool gefa ekkert af sér, ekki einu sinni hughreystandi orð, þannig maður býst ekki við miklu. Það er auðvitað fáránlegt að vera svona svartsýnn þegar liðið er að mala deildina, en maður bara vonar það besta.

    7
  3. Það verður sárt að sjá á eftir Trent fara frítt en enginn leikmaður er ómissandi, við höfum verið nánast óhuggandi þegar við höfum orðið að horfa á eftir góðum leikmönnum en liðið hefur samt yfirleitt batnað núna í seinni tíð eins og þegar Kúturinn fór til Spánar.
    Svo framarlega sem við fáum ekki aftur svona þjálfara eins og Roy Hodgson þá held ég í bjartsýnina.
    Eins trúi ég ekki öðru en að Liverpool versli hraustlega inn í sumar þótt það sé ekkert öruggt í þessu heimi eins og við höfum séð stundum áður á félagsskipta markaðnum hjá okkar mönnum.
    En hvað um það helvítis glasið mitt er meira en hálf fullt af bjartsýni.
    YNWA

    3
  4. Ég er mjög vantrúaður a að þetta fari svona. Það hefur komið fram að Real hafið viljað greiða 20 milljónir punda fyrir hann i janúar en því hafi verið hafnað. Félag eins og Liverpool sem hugsar allt út frá peningum ákvað samkvæmt því að láta hann frekar fara frítt í lok tímabilsins. Kannski er það rétt en það er þá á skjön við það fjármálastjórn sem Liverpool hefur sýnt. En af hverju kemur félagið eða Trent bara ekki fram og segir að það verði ekki samið ef það er niðurstaðan? Þessi staða er afleit fyrir báða aðila og gerir ekkert nema leyfa nettröllum að úthúða Trent sem hann á ekki skilið að mínu mati.

    3
  5. Sælir félagar

    TAA á Liverpool allt sitt að þakka. Hann er búinn að vera í þjálfun hjá Liverpool síðan hann var smá
    krakki í 7. – 6. flokki. Knattspyrnulegt uppeldi og utanumhald Liverpool samfélagsins hefur gert hann að því sem hann er í dag. Það er nú þannig að sjaldan launar kálfur ofeldið en vanþakklæti og viðhorf TAA er ömurlegt og ég tel að hann eigi ekkert inni nema skömmina og gleymskuna. Owen er búinn að halda uppi vörnum fyrir TAA í þessu máli en auðvitað er hann bara klóra yfir skítinn sinn sem Liverpool samfélagið hefur aldrei fyrirgefið honum og mun vonandi aldrei gera. TAA felluir í sama flokk og Owen og þegar hann fer til RM má hann fara helvítis til mín vegna eftir það. Hann mun alltaf ganga einn.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  6. Miklar tilfinningar hér greinilega.
    Frábær leikmaður. Það verður erfitt að finna mann í hans stað. Það mun ábyggilega takast, en Bradley er aldrei að fara verða sá maður.

    Þetta mál er um fram allt leiðinlegt

    7
    • Það er orðið þreytt að fylgjast með því að Liverpool missi stöðugt frá sér bestu mennina, að illa gangi að semja við leikmenn og að sjaldan eða aldrei keyptir leikmenn úr efstu hillu. Það er virðingarvert að reyna að vera klókur á leikmannamarkaðnum og finna óslípaða demanta. Af hverju ættu bestu leikmenn Liverpool að vilja framlengja við liðið sem kaupir helst leikmenn frá Wolves, Fulham og Southampton og keyrir seasonið á rúmlega 15 mönnum?? Leikmenn sem vilja vinna allt en það er líkamlegur ómöguleiki vegna rýrðar í hópnum. Maður er þakklátur fyrir stöðuna í deildinni og vonandi hanga þeir á efsta sætinu. Voða væri gaman að upplifa eitt sumar af sölum á 3-4 leikmönnum, (Nunez, Diaz, Tsimikas, Chiesa) og sjá kaup á mönnum eins Nuno Mendes í DL, Frimpong í hægri wing back, Flórian Wirtz á miðjuna, Raphinha á hægri væng og framherja sem skorar fokking mörk. Ég meina Peter Crouch er með jafnmörg mörk á Anfield á þessu ári og Diaz. Jota og Nunez samanlagt!!!

      9
      • Olivia Smith er á sama stað… búin að spila einn leik á Anfield árið 2025 og er með tvö mörk.

        10
      • skv bestu heimildum þá vilja Salah og VVD vera áfram en LFC hafa ekki enn gengið að kröfum þeirra.

        5
  7. Enginn er stærri en kúbburinn.
    Trent á allt gott skilið en lélegt gagnvart uppeldisklúbbnum að koma málum þannig fyrir að hann fari frítt. Kannski á klúbburinn einhverja sök á þessu en það virðsti sem Trent hafi verið búinn að ákveða að fara fyrir einhverju síðan. En svona er þetta bara og ekkert við því að gera.
    En nú þurfa Edwards og Huges, ef hann finnst, að fara að hysja upp um sig.
    Isak er of dýr fyrir innkaupastefnuna og við eigum að hjóla í Kane, engin spurning. Ég þoli hann ekki en hvað hann myndi styrkja sóknarleik liðsins.
    Verður ömurlegt ef við missum allra þrjá, þá þurfa hausar að fjúka.Trent að mínu mati sá sem yrði auðveldast að skipta út. (vantar gott íslenskt orð fyrir replace)
    En, það er eitt risastórt verkefni framundan sem þarf að klára, sama hvað, og það er eins gott að það verði klárað.

    4
  8. Hvar eru Edwards og Hughes, af hverju voru þessir menn fengnir til Liverpool. Hef ekki enþá séð neitt af viti frá þessum mönnum og það eina sem þeir gera er að bæði losa okkur við góða leikmenn og klúðra svo svakalega öðrum dílum, og enda svo með svona típísk Liverpool panic kaup( Federico Chiesa)

    jesús hvað þetta er lélegt!

    6
    • Þeir eru ekki til. Þeir eru gervigreind ! Þannig sparar FSG sér launakostnað.

      4
  9. Trent hefur verið minn uppáhalds leikmaður hjá Liverpool í nokkur ár og virkilega sárt að sjá hann fara. Eiginlega alveg mjög!

    Ferill knattspyrnumanna er ekki langur og lífið stutt. Menn skipta um störf og það þykir ekkert tiltökumál. Þrátt fyrir svekkelsið ætla ég að sýna þessu skilning. Hann fær þarna tækifæri til að búa erlendis í stórborg með góðu veðri og spila með Real Madrid. Á ofurlaunum. Ekki margir sem fá það tækifæri á lífsleiðinni.

    Ef Trent væri vinur minn þá myndi ég segja honum að hugsa bara um sig. Allt tal um að hann skuldi klúbbnum er fjarstæða. Hann hefur skilað sínu og rúmlega það. Knattspyrnulið láta leikmenn fara þegar þau vilja ekki hafa þá lengur og leikmenn mega eins alveg ákveða sín örleg ef þeir hafa tækifæri til þess.

    Ef hann vill fara þá er það bara hans ákvörðun, alveg eins og á almennum vinnumarkaði.

    Ég mun sakna þín Trent en gangi þér vel þótt ég muni ekki styðja þig á móti Liverpool.

    15
    • Ég er sammála þessu. Hann verður að taka þessa ákvörðun fyrir sjálfan sig. Þetta er að mörgu leyti fullkominn tími fyrir Trent til að yfirgefa Liverpool og mögulega frábær tími fyrir hann til að skrifa undir hjá Real.

      Glatað að missa hann og leiðinlegt hann sjái ekki framtíð sína hjá Liverpool.

      FSG á núna eftir að komast að því hvernig er að versla ódýra leikmenn og hafa ekki Jurgen Klopp til að rífa þá upp. Það á sama tíma og bestu leikmenn liðsins undanfarin ár eru að renna út á samningi.

      Pínu klúður hjá liði sem virðist ætla að vinna deildina þrátt fyrir allt.

      3
  10. Ég sakna ekki þeirra leikmanna sem hafa valið þann kost að hverfa til ,,stóru liðanna” frá okkar ástkæra Liverpool. Nafni (L. Suárez) minn má þó eiga það að kisturnar voru fleytifullar eftir brottför hans, þótt fátt gagnlegt hafi verið keypt fyrir þá peninga. En hinir, sem hverfa á braut og skilja félagið eftir án bóta… vil heyra sem minnst af þeim.

    Og vona að Trent komi ekki nálægt neinum þeirra leikja sem eftir eru í vor, skyldi hann ná aftur bata. Ef hann vill horfa á getur hann keypt sér miða eins og við hin.

    5
  11. Ég er á báðum áttm. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna hjá Liverpool og er líklegur til að fá annan PL titil. Ef hann vill fara til RM og reyna að vinna þar þá er það bara frábært, það er undir honum komið og engum öðrum. Það þýðir ekkert að erfa það við hann.
    Hins vegar er frekar skítalegt að RM sé að fá hann frítt þegar þú ert 100 milljón punda leikmaður.
    Og í fullri hreinskilni, myndum við sakna hans? Hann er hræðilegur varnarmaður. Ok, hann er að öllum líkindum einn mest skapandi leikmaður deildarinnar og einn besti sendingamaðurinn og góður í föstum leikatriðum, en hvaða gagn er það ef hann getur aðeins spilað RB og veldur oft eigin vörn gríðarlegum vandamálum?
    Kannski er þetta bara fínn timi að hann yfirgefi Liverpool og við fáum alvöru RB og skiptum loksins út sköpunargáfu hans yfir skapandi CM þar sem það er raunverulega þörf á og þar sem við höfum ekki haft neinn í mörg, mörg ár.
    Ég elska Trent, en er ég leiður að sjá hann fara? Reyndar ekki. Útganga hans gæti í raun reynst vera það sem félagið þarfnast.

    YNWA

    2
  12. Trent er og verður goðsögn í mínum huga.

    En að Liverpool hafi ekki samið við hann og leyft málunum að fara í þetta horf er hreinn og beinn aumingjaskapur. Við eigum nóg af fjármunum til að tryggja okkur heimsklassa uppalinn leikmann og að það hafi ekki verið gert er með ólíkindum. Það að missa hann svo á frjálsri sölu til erkióvinanna toppar svo aumingjaskapinn.

    Þetta mun veikja liðið gríðarlega það er engin spurning.

    Og hvað fær þessi Hughes langan tíma til að gera ekki neitt. Maðurinn sem sagði þegar hann kom að það væri í forgangi að gera samninga við Trent, Sala og Van Dijk. Mér sýnist á öllu að nú eigi að galdra eitthvað fram en heimsklassa leikmenn eru bara ekki á hverju strái. Það er staðreynd.

    Úff hvað þetta er sorglegt.

    9
    • Rakst á frekar dapra frétt á netinu um hverja við höfum fengið í staðinn fyrir stjörnur okkar sem við höfum leyft að fara til Real Madrid – okkar erkióvina.

      Steve McManaman. Vladimir Smicer leysti hann af hólmi. Smicer var fínn en ekki meira en það og ekkert stórlið vildi fá hann frá Liverpool. Slæm skipti.
      Michael Owen. Fengum töffarann Djibril Cisse. Cisse var líka fínn en ekki meira en það. Slæm skipti.
      Xabi Alonso. Jú enginn annar en Alberto Aquilani. Ítalska undrabarnið er líklega ein verstu kaup í sögu Liverpool. Arfaslæm skipti.
      Trent Alexander-Arnold – Conor Bradley. Fabrizio Romano segir að Liverpool ætli að veðja á Bradley í staðinn fyrir Tent. Ekkert annað sé í kortunum. Svosem ekki öll von úti með Bradley en eins og staðan er í dag á Bradley töluvert langt í land með að ná Trent að gæðum.
      Svo gleymdu menn að minnast á Alvaro Albeloa sem var algjörlega geggjaður hægri bakvörður hjá okkur og fór fyrir slikk til Real Madrid. Hann var hjá okkur í þrjú tímabil og var algjör lykilmaður í vörninni. Við seldum hann fyrir 5 millj. punda til Real Madrid þar sem hann átti eftir að spila í 7 ár og vinna 7 stóra titla þar með talið tvo meistaradeildartitla. Auk þess varð hann einu sinni heimsmeistari með Spáni og tvisvar Evrópumeistari. Við fengum Glen Johnson í staðinn sem var svosem ágætur en alls ekki heimsklassa. Hann vann einn deildarbikar með Liverpool. Klárlega dropp í gæðum að hafa fengið hann í staðinn fyrir Arbeloa.

      Þannig að sagan er því miður ekki með okkur þegar við leyfum leikmanni að fara til Real Madrid.

      Það væri svo líka áhugavert að sjá samanburð á því hvaða heimsklassa lið annað en Liverpool hefur oftar misst sínar helstu stjörnur og uppalda leikmenn til sinna erkióvina og liðs sem við viljum bera okkur saman við. Við hljótum að vera að vinna þá keppni svo um munar.

      7
      • Sæll Hossi

        Ég skil ekki alveg. Liverpool búið að bjóða TAA 300 000 pund í vikulaun auk bónusa sem hljóta að vera góðir hjá svo sigursælu liði. Vilt þú borga honum meira en það. Hann hefur frekar áhuga á að fá 220 000 hjá RM auk eingreiðslu við undirritun og svo virðist sem honum sé nákvæmlega sama um sögu og eftirmæli. Hann vill fara hvað sem það kostar og lítið við því að gera nema ver brjálaður við hann og það er ég. Fari hann bara norður og niður ef hann fer til RM í sumar.

        Það er nú þannig

        YNWA

        3
      • Ég vona þetta séu bara hugleiðingar F.Romano með að Liverpool ætli að treysta Bradley fyrir bakvarðastöðuni ef Trent er að fara. því við vitum öll stuðningsmenn Liverpool að Bradley er engann veigin ekki einu sinni nálægt því að fylla uppí þessa stöðu ekki útaf gæðum heldur útaf hversu mikið hann er meiddur. Hver ætti að koma þá inn ef hann dettur í þessi reglulegu meiðsli ?

        3
  13. Ég hélt í einfeldni minni að eftir millifyrirsögnina “Nóg komið af neikvæðum fréttum” myndi Einar skrifa eitthvað jákvætt. Það kemur vonandi í næsta pistli.

    2
  14. Verður hræðilegt að missa TAA, finnst hann einmitt hafa bætt sig mikið sem leikmann varnarlega undir Slot. Efa samt að Slot hafi sömu áru og Klopp man to man, svo kannski spilaði það eitthvað inní, ólíklegt samt. Verður gaman að heyra meira af þessum skiptum á komandi misserum, TAA mun væntanlega skýra sína hlið fljótlega, og svo kemur margt fleira í ljós seinna.
    Við erum auðvitað með Bradley, en ef við fáum Frimpong eða einhvern álíka þá efast ég um að við finnum mjög mikið fyrir því að missa TAA þó það sé ómögulegt að replace-a uppalinn leikmann eins og Trent, með þessa hæfileika.
    Að lokum, þó ég voni auðvitað að TAA standi sig vel, þá efast ég um að hann fái mjög stórt hlutverk hjá RM, hans hlutverk verður líklegast fyrst og síðast að verjast með alla þessa stjörnuleikmenn innanborðs. Það er ekki séns að hann fái svipað hlutverk og hjá Klopp eða Slot fyrir það leiti. Hann verður bara á sama stað og Carvajal, ekki einu sinni viss um að TAA slái hann út ef Carvajal nær fyrri styrk, just another player. Vörnin hefur einmitt ekki verið hans sterkasta hlið svo ég hef áhyggjur af því að hann ströggli hjá RM.

    6
    • Sæll Kalli

      Ég deili ekki áhyggjum þínu af TAA. Fyrir mína parta á hann ekkert gott skilið og má verða handónýtur leikmaður í framtíðinni fyrir mér. Mér er bókstaflega skít sama um leikmenn sem vilja ekki spila fyrir Liverpool svona almennt séð og alveg sérstaklega mikið sama um leikmenn sem launa uppeldisliðinu svona, liðinu sem gerði hann að mjög góðum leikmanni sem væri að öllum líkindum ekki svona góður ef ekki hefði notið við Liverpool samfélagsins og Klopp. Hann á í reynd Liverpool og Klopp allt að þakka og svo skilur hann svona við félagið. Skítlegt eðli eins og maðurinn sagði um árið.

      Það er nú þannig

      YNWA

      4
      • Ég get verið sammála því að þetta var ekki besta leiðin sem Trent gat farið, þeas að fara frítt frá uppeldisklúbbnum. Hefði verið betra ef hann hefði farið svipaða leið og Grealish og Bellingham gerðu, skrifa undir nýjan samning rétt áður en þeir voru svo seldir fyrir stórar upphæðir. Ef RM virkilega vildu Trent þá hefðu þeir verið tilbúnir að borga rétt verð fyrir hann. Þetta átti TAA að vita en það er eitthvað farið í hausnum á honum.
        Þetta mun klárlega skemma arfleifð hans hjá Liverpool, það er enginn vafi á því

        7
  15. Ef rétt er að hann er að fara frítt til real þá á að henda honum strax úr liðinu,

    2
  16. Þad er enginn stærri en klúbburinn! Seljum chiesa á 60mp og fáum wirtz á 70mp, isak a 50mp + quinsah. Fáum svo gabriel frá arsenal a 50mp og hujsen og kerkez frá bounemouth á 70mp. Frimpong frá leverkusen a 40mp.

    1
  17. Nú bíðum við eftir sambærilegum fréttum af VVD og Salah. Það væri búið að semja við þá ef klúbburinn hefði áhuga á að halda þeim. Það er enginn leikmaður að fara að koma inn ig fylla þessi skörð á stuttum tíma ekki einu sinni „made” leikmaður sem LFC hefur raunhæfan möguleika á að ná í og borga fyrir. Þannig að ef sumarglugginn spilast rétt erum við að fara í um 2-3 ára endurnýjun og vonandi baráttu um 4 sætið á þessu tímabili og sjáum kannski titilbaráttu eftir 4-5 ár. Einhver segði svartsýni en ég held að þetta sé raunsæ staða.

    3
  18. Mín fimm sent frá félagi eldri borgara: Við megum ekki gleyma að taka með í reikninginn að Trent er mjög trúlega sá sem hefur stjórnað ferð allan tímann í þessum samningsmálum við Liverpool. Ekki FSG.

    Trent hefur unnið ALLT með Liverpool. Áframhaldandi vist þar er bara meira af því sama og ég get mæta vel skilið löngun hans til þess að víkka út sjóndeildarhringinn og spila með öðru toppliði í öðrum menningarheimi (og betra veðri), eftir að hafa verið hjá Liverpool síðan hann var barn. Það er núna eða ekki, á meðan hann er á besta aldri, með toppgetu, og hann er ábyggilega löngu búinn að ákveða að taka þetta skref. Og er í fullum rétti til þess.

    Svo ég ætla hvorki að ergja mig út í meinta nísku FSG í samningamálum né heldur óska Trent norður og niður. Munum að það koma alltaf nýir menn. Það liggur í hlutarins eðli.

    5
  19. þetta er sjonarmið ut af fyrir sig Henderson 14. Hins vegar hefði þetta att að gerast með þeim hætti að LFC hefði fengið eithvað fyrir hann. Með þvi að ekkert fæst fyrir hann, er hann kominn i vafasaman flokk sem hann vissi vel af. Annars er Salah kominn með tilboð fra LFC, sem honum hugnast, bara að VvD semji og live goes on.

    YNWA

    3

Hverjir fara í sumar?

Gullkastið – Hvað gerir Liverpool á leikmannamarkaðnum?