Stelpurnar fá Villa í heimsókn

Það er komið að næsta leik hjá stelpunum okkar, og þær ætla núna að spila á St. Helens heimavellinum eftir að hafa spilað nokkra útileiki sem og einn á Anfield sællar minningar. Síðasti leikur var gegn Arsenal í deild og við ræðum hann ekkert frekar, né sjálfsmörkin tvö sem Jas Matthews skoraði, hún hristir það af sér.

Nú er það semsagt heimaleikur gegn Aston Villa. Andstæðingarnir hafa verið hlutfallslega í mesta brasinu af liðunum í deildinni, og eru í næstneðsta sæti og í alvöru hættu á að falla. Eru aðeins með Crystal Palace fyrir neðan sig, sem komu jú upp úr næstneðstu deild síðasta vor, og á meðan Palace er með Katie okkar Stengel í fremstu röð þá geta þær veitt hvaða liði sem er skráveifu, svo Villa eru heldur betur með hættulegan andstæðing andandi ofan í hálsmálið á þeim. Þær vita því fullvel að leikurinn í dag er upp á líf og dauða varðandi þátttökurétt í deildinni.

Eins og áður hefur komið fram eru Aston Villa núna með Missy okkar Bo Kearns innanborðs, hún hefur fengið meiri spilatíma upp á síðkastið eftir að hafa verið frá vegna meiðsla um mitt tímabil. Eins er Miri Taylor hjá þeim, var svosem ekki lengi leikmaður Liverpool en við munum nú samt alltaf eiga smá í henni.

Okkar konur eru jú í baráttu um 5. sætið við Brighton, og þurfa nauðsynlega á sigri að halda í dag til að halda opnum möguleikanum á að ná í það sæti. Jafnframt mun sigur í dag tryggja sætið í deildinni tölfræðilega, sem er jú alltaf jákvætt.

Nóg um það. Amber er ekkert að finna upp hjólið þegar hún stillir upp liðinu:

Laws

Fisk – Bonner – Matthews – Hinds

Holland – Nagano – Höbinger

Kiernan – Roman Haug – Kapocs

Bekkur: Micah, Evans, Clark, Bernabé, Daniels, Bartel, Kerr, Shaw, Enderby

Olivia Smith er ekki í hóp vegna einhverra meiðsla á mjöðm, það er nú heldur betur skarð fyrir skildi. En annars er lítið um meiðsli, Hannah Silcock er enn á sjúkrabekknum en aðrar eru leikfærar. Þetta þýðir að Lucy Parry er t.d. ekki í hóp, ekki af því að hún sé meidd heldur er bara ekki pláss á bekknum. Ekki það að Whiteley hefur lítið verið að nota varamenn hvort eð er. Þá er nokkuð ljóst að Rachael Laws er hennar markvörður nr. 1, og Teagan Micah verður að gera sér bekkjarsetu að góðu. Svo hefur Sam Kerr fengið byrjunarliðssæti á miðjunni hingað til, en byrjar á bekk í dag. Sama gerir Jenna Clark, verandi nýbúin að skrifa undir framlengingu á samning.

Eins og venjulega verður hægt að sjá leikinn á Youtube: https://www.youtube.com/watch?v=gvlsOkLdnUk

Jafnframt verður leikurinn sýndur á LFCTV

6 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. 1-2 tap eftir að hafa komist yfir.
    Arfaslakt, Villa mun betri og áttu þetta skilið.
    Tap fyrir fallbaráttu liði, sem hefur ekki unnið leik síðan um miðjan desember getur varla talist gott.
    Sömu vandamál og hjá karlaliðinu. Unnu fáar tæklingar eða seinni bolta, lélegar sendingar, enginn til að gefa á, illa framkvæmt, lélegar ákvarðanatökur.
    Vissulega hafði Villa að mun meiru að keppa en það þarf að gera betur en þetta.
    2 töp í röð ef ég man rétt, þrjú sjálfsmörk í tveimur leikjum.
    Vonbrigði.

    • Jebb, eins og þetta byrjaði nú vel hjá Amber. En það eru tækifæri til að koma til baka eftir hálfan mánuð. Blessuð landsleikjahléin.

      2
  2. Heilmikið fjör í FA-cup leiknum milli Bournemouth og Man City. Kepa varði víti frá Haaland og skömmu síðar skoruðu Bournemouth menn. 1-0 í augnablikinu.

    2

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Hvað gerir Liverpool á leikmannamarkaðnum?