Það er alveg sama frá hvaða vinkli það er skoðað Englandsmeistaratitill Liverpool á þessu tímabili er magnað afrek, hvað þá að vinna með svo miklum yfirburðum að mótið er formlega búið í apríl með fjórar umferðir eftir.
Stuðningsmenn Liverpool vissu vel að Jurgen Klopp skilaði af sér mjög góðu búi og liði fullu af leikmönnum sem unnið hafa stóra titla. Liðið fór langt í öllum keppnum á síðasta tímabili svosem ekkert kraftaverk að þessi hópur geti tengt saman heilt tímabil og unnið deildina. Líkt og við fórum yfir fyrir tímabil er hópurinn alls ekkert veikari en hópar Arsenal og Man City sem dæmi.
Hinsvegar var nýr stjóri fullkomlega spurningamerki fyrir mót og hvað þá í ljósi þess að hann er að taka við stærsta karakter félagsins síðan Bill Shankly hætti og hann “fékk ekki” að kaupa neina nýja leikmenn. Félagið var með eitt stórt nafn í sigtinu sem það svo á endanum landaði ekki. Man City keyptu ekki leikmenn fyrir nema €243m á þessu tímabili og Arsenal fyrir tæplega €109m. Liverpool keypti Chiesa á €12m og tryggði sér markmann fyrir næsta tímabil.
Satt að segja var hópurinn töluvert veikari á pappír fyrir þetta tímabil heldur en það síðasta. Thiago og Matip fóru á elliheimili án þess að nýr leikmaður kæmi inn í staðin. Bajcetic fór í endurhæfingu hjá öðrum liðum í Evrópu, eitt mesta efni félagsins fyrir síðasta tímabil. Carvalho og Van Den Berg voru báðir seldir til annars Úrvalsdeildarfélags, Bobby Clark var líka seldur og Ben Doak lánaður. Strákar sem hjálpuðu m.a. við að landa deildarbikarnum á síðasta tímabili. Enginn af þessum fyrir utan Matip var lykilmaður á síðasta tímabili en að missa þá stækkaði ekkert hópinn sem Slot hefur úr að vinna.
Liverpool vann deildina tímabilið 2024-25 og á í raun leikmanamarkaðinn algjörlega inni. Nördarnir eru komnir aftur þannig að hvað ef Slot er bara rétt að byrja og á nóg inni?
Samanburður á leikmannakaupum
Árangur Liverpool í samkeppni við önnur lið á Englandi og reyndar í Evrópu líka nær þó mun lengra aftur en bara þetta fyrsta tímabil Slot. Helstu sérfræðingum og stuðningsmönnum annarra liða er tíðrætt núna um hversu góðu búi Slot tók við og að hann sé bara að njóta góðs af vinnu Klopp undanfarin ár. Hann er allra manna síðastur til að neita fyrir það og var raunar að syngja nafnið hans á sunnudaginn. Hinsvegar spáði enginn af þessum sérfræðingum Liverpool sigri í deildinni sl. sumar. Meistaradeildarsæti í besta falli og nánast enginn ofar en 3.sæti. Opta var held ég með rúmlega 9% líkur á sigri Liverpool.
Mikel Arteta og hans menn hafa lengst af í vetur helst verið næst því að veita Liverpool samkeppni og heldur betur farið mikinn á samfélagsmiðlum. Hann tók við Arsenal liðinu árið 2019 og greinilega blandað sínu Everton hjarta vel í sál félagsins. Það er áhugavert að skoða leikmannakaup enskra liða frá því hann tók við sumarið 2019.
Hvernig hroðalegur árangur Chelsea undanfarin ár er ekki meira til umfjöllunar og hvað þá hvernig fjármál félagsins hafa ekki meira verið undir smá sjá síðan er með ólíkindum. Sérstaklega frá því kúrekarnir keyptu félagið af Roman, hver hefði trúað að ruglið yrði bara ennþá meira? Kaupverð leikmanna frá 2019 er um €1,8ma og nettó eyðsla €840m
Manchester United sem nú vermir 14. sæti eftir 34 umferðir er að sama skapi magnaður árangur eftir að hafa keypt leikmenn fyrir €1,1ma og með nettó eyðslu upp á tæplega €840m sem er það sama og hjá Chelsea. Man City hefur þó verið að kaupa árangur fyrir sína peninga.
Það fer hinsvegar töluvert undir radarinn að frá því Arteta tók við Arsenal hefur félagið eytt tæplega €950m í nýja leikmenn og nettó eyðslan er um €660m eða á pari við Man City. Það er kannski ekki alveg jafn mikið kraftaverk og af er látið að hann sé á sjötta ári með þessum nútíma Tony Mourinho Dyche bolta að ná að byggja upp gott lið.
Arsenal er búið að kaupa leikmenn fyrir rúmlega €430m meira síðan Arteta tók við heldur en Liverpool. Það eru um €70m á hverju tímabili eða svipuð fjárhæð og Liverpool borgaði fyrir MacAllister og Gravenberch.
Jurgen Klopp var sannarlega búinn að byggja upp geggjað lið þrjú tímabil áður en Arteta tók við Arsenal en nettó eyðsla Liverpool þá þrjá leikmannaglugga var tæplega €125m á móti €165m nettó eyðslu Arsenal. M.ö.o. Arsenal var að kaupa leikmenn fyrir meiri pening m.a.s. áður en Arteta tók við.
Það er sannarlega hægt að gagnrýna FSG fyrir að eyða svona mikið minna í leikmannakaup heldur en liðin sem Liverpool er að keppa við enda höfum við oft upplifað hópinn þannig að í hann vanti 2-3 lykilmenn. Það á m.a.s við núna líka. Það að Arsenal sem var aldrei í Meistaradeildinni á tímabili geti keypt leikmenn á hverju ári fyrir svona mikið hærri fjárhæðir getur verið pirrandi.
Þrátt fyrir þetta hefur Liverpool núna unnið deildina tvisvar og tekið tvö +90 stiga tímabil til viðbótar við það. Eins hefur félagið unnið Meistaradeildina einu sinni og spilað þrisvar til úrslita í henni. Það fyrir utan minni bikarkeppnir og vel heppnaða stækkun og breytingar á Anfield.
Eitthvað er FSG að gera rétt í rekstri félagsins, félagið er eðli málsins samkvæmt t.a.m. aldrei í vandræðum með FFP sem dæmi. Jurgen Klopp á sannarlega mikinn heiður fyrir það hvernig hann breytti félaginu en það er rosalega spennandi og jákvætt að nú sé búið að ráða annan mann sem er að sanna það að hann getur líka náð árangri með félagið. Leikmannakaup er svo augljóslega ekki lausnin á öllum vanda, sjáið bara Chelsea og Man Utd.
Þrengra samanburðartímabil
Árangur Liverpool í samanburði við önnur lið verður ekkert minna merkilegur ef við þrengjum aðeins tímabilið og skoðum síðustu þrjú tímabil á leikmannamarkaðnum.
Hérna fyrst verður “árangur” Chelsea magnaður, þeir hafa núna yfir þrjú tímabil keypt leikmenn fyrir €1,4ma, megnið af þeim leikmenn sem orðaðir voru við Liverpool og hefðu líklega allir betur komið til okkar og árangurinn er barátta um CL sæti þrátt fyrir að það eru fimm sæti í boði. Þetta félag ætti að vera með 117 stig af 114 mögulegum á þessu tímabili. Nettó eyðsla er €805m og þeir eru ekki einu sinni til rannsóknar!
Man Utd er áfram kirkjugarður fyrir áður sæmilega leikmenn og eyðsla Arsenal er á pari við Man City, þá frekar nettó eyðsla frekar en kaupverð leikmanna. City hefur selt leikmenn mun “betur” en Arsenal undanfarin ár en þeir hafa líka verið að glíma við FFP og eru sannarlega undir smásjánni með sitt augljósa fjármálasvindl.
Liverpool er að kaupa leikmenn fyrir rúmlega €60m minna en Newcastle og um €115m minna en Aston Villa, bæði félög sem hafa verið í miklu basli með FFP undanfarið. Þá eru ótalin í þessum samanburði fleiri ensk lið sem hafa verið að eyða mun meira en Liverpool undanfarin ár.
Svigrúm fyrir stóran leikmannaglugga
Enn á ný þá er hellings svigrúm hjá Liverpool fyrir alvöru stórum leikmannaglugga og kannski þörf á slíkum núna. Arne Slot er búinn að fá heilt tímabil til að vega og meta hópinn sem hann er með. Nördarnir eru komnir aftur og munu klárlega ráða mjög miklu um leikmannakaup félagsins líkt og þeir gerðu þegar gullaldarliðið var soðið saman.
Það er töluvert af leikmönnum í hópnum núna sem er alls ekkert óhugsandi að fari í sumar og skili jafnvel töluverðum aur í kassann og skapi eins pláss í hópnum. Hópurinn í vetur er þar að auki nú þegar mun minni en hann var á síðasta tímabli og þarf að vera mun stærri til að takast á við aukið leikjaálag og meiri samkeppni.
Það er ekki stíll Liverpool undir stórn FSG að gera byltingu á einu sumri og engin ástæða til að losa kjarna liðsins sem var að skila titlinum. Nýr samningur á Van Dijk og Salah er dæmi um það. Slot notaði hinsvegar hópinn ótrúlega lítið og því er auðvelt að sjá framtíð ansi margra annarsstaðar, leikmanna sem flestir geta vel spilað á efsta leveli í öðrum liðum.
Kelleher og mögulega Jaros gætu farið og skilað góðum pening í kassann fari svo að Mamardashvili komi í sumar og sætti sig við að keppa við Alisson um stöðuna.
Trent óvissuna þarf ekki að ræða en fari svo hann yfirgefi Liverpool er planið vonandi að kaupa nýjan leikmann frekar en að treysta á Bradley sem hefur ef mér telst rétt til tvisvar klárað heilar 90 mínútur í deildarleik fyrir Liverpool.
Óvissan í vinstri bakverði er ekki minni, Robertson og Tsimikas voru vissulega að leysa þessa stöðu í liði sem er með stigasöfnun upp á rúmlega 90 stiga tímabil en hvorugur þeirra er framtíðarmaður og væri rosalega spennandi að skipta öðrum þeirra út fyrir ferskari lappir sem eru strax tilbúnar í byrjunarliðið.
Miðjuna þarf ekkert að skera upp og óvíst hvort planið sé að kaupa mikið af nýjum mönnum í ljósi efniviðar sem félagið á fyrir. Bajcetic virkar eins og hannaður fyrir Slot fótbolta ef skrokkurinn er í lagi og hann heldur áfram að þróast sem leikmaður. Hann var nýlega frábær á miðjunni í liði Las Palmas þegar þeir unnu Atletico Madrid í La Liga. Slot hrósaði McConnell upp til skýjanna fyrr í vetur en notaði hann reyndar ekki í sekúndu eftir það. Eins er Trey Nyoni að komast á aldur þar sem hann þarf mínútur en spurning hvort þær verði hjá Liverpool. Nýr miðjumaður til viðbótar við þá fjóra sem Slot treystir tekur mínútur af þessum strákum.
Þá eigum við samt eftir Tyler Morton og Wataro Endo sem báðir gætu vel skilað smá pening í leikmannasölum. Eins Harvey Elliott, líklega viljum við fæst að hann verði seldur en ef stjórinn treystir honum ekki þarf hann að fara annað til að fá mínútur.
Frammi er búið að tryggja framtíð Salah sem var aðalatriði. Gakpo er þar fyrir utan líklega ólíklegastur til að vera seldur en rest er spurningamerki:
Luis Diaz er heilt fyrir að eiga gott tímabil, 16 mörk og fimm stoðsendingar í öllum keppnum og engin ástæða til að selja hann nema fyrir rétt verð og arftaka sem er betri bæði strax og til framtíðar. Diaz er alls ekki nía eins og Slot virðist vanta en mun sprækari á vinstri vængnum. Hann verður 29 ára í janúar og spurning í sumar hvort planið verði að semja við hann aftur og þá mun stærri samning eða losa núna.
Diogo Jota virkar hreinlega kominn yfir hæðina og hentar mun verr í leikstíl Slot en hann gerði hjá Klopp. Hann er allt of mikið meiddur og hefur alltaf verið en það er ennþá stærra vandamál ef hann skilar sér svona illa til baka úr meiðslum líkt og hann hefur gert í vor.
Darwin Nunez er fyrir aftan Jota í goggunarröðinni nánastr sama hversu lélegur Jota er. Ef að Edwards nær að þvinga hann fyrir morðfjár inná eitthvað lið í Saudi Arabíu eða á meginlandi Evrópu hugsa ég að hann sigli með hann sjálfur persónulega. Nunez er samt þannig leikmaður að ég vill ekki sjá hann hjá öðru liði í Englandi.
Chiesa er svo að því er virðist bara að klára besta GAP year sögunnar. Skil ekki hvernig ekki er hægt að nota hann meira en þetta en hann getur ekki verið sáttur við sitt hlutskipti hjá Liverpool.
Þá eru ótaldir Ben Doak og Rio Ngumoha (og Danns) sem allir þurfa spilatíma fljótlega.
Niðurstaða
Þessi titill Liverpool í vetur var vægast sagt verulega sætur og verðskuldaður. En spurningin fyrir næsta ár er hvað ef Arne Slot getur svo alveg bætt þetta lið? Árangur hans í Hollandi við að bæta leikmenn er gríðarlega góður og ferilsskrá Edwards og Hughes á leikmannamarkaðnum er ekkert slor heldur.
Það er rosalega gaman að vera Púllari í dag