Þá styttist í lok alls tímabilsins í enska boltanum, karlaliðið er ekki formlega búið að ljúka leikjum þó að það sé klárlega þannig að það hefur slaknað á fókusnum hjá köppunum, en fram að lokaleiknum ætla ég aðeins að skoða niðurstöður annarra liða undir merkjum LFC sem hafa nú lokið leik.
Í dag ætla ég að skoða niðurstöðu kvennaliðs félagsins og í vikunni fer ég yfir niðurstöðuna hjá U18 og U21s árs liðunum.
Nýtt upphaf
Áður en við förum yfir leiktímabilið er ágætt að rifja upp að Liverpool ákvað að færa heimavöll varanlegan heimavöll kvennaliðsins, fara frá Prenton Park í Tranmere yfir á the Totally Wicked Stadium í St. Helens sem er bæjarfélag um miðja vegu milli Liverpool og Manchester en hluti Merseyside svæðisins. Með þessu vildi félagið bæta upplifun áhorfenda, völlurinn er aðalleikvangur eins þekktasta rugbyfélags Englands (St. Helens RFC) og var tekinn í notkun árið 2012. Hann tekur um 18000 manns í sæti og álagið á grasinu töluvert minna en var á Prenton Park.
Miðað við lýsingar þeirra sem þekkja til beggja valla var þetta góð ákvörðun, völlurinn meiri heimavöllur og umgjörðin betri. Að venju léku þær svo stærstu leikina á Anfield, þetta árið voru það leikir við City og Everton sem töpuðust en einn af stóru viðburðum vetrarins var fyrsti sigur liðsins á Anfield í deildarkeppni þegar Manchester United voru lagðar að velli 3-1. Fyrirkomulagið verður áfram með þessum hætti næstu 10 árin og leiðir vonandi allt gott af sér.
Leikmannaglugginn og erfitt upphaf
Tímabilið 2023-2024 gaf fín fyrirheit, konurnar lentu í 4.sæti í deildinni (sem telur 12 lið) og lagt var upp með að næsta skref yrði að taka af alvöru þátt í baráttunni um þrjú efstu sætin sem gefa sæti í Evrópukeppni og að ná langt í bikarkeppnunum. Með það að markmiði voru auðvitað sóttir leikmenn sem að styrkja áttu hópinn. Stóra fréttin voru dýrustu kaup í sögu kvennaliðsins þegar kanadíski framherjinn Olivia Smith var keypt á 210 þúsund pund frá Sporting Lisbon, önnur sóknartýpa var sótt til Svíþjóðar þegar Cornelia Kapocs, varnarkonan Gemma Evans kom frá Man United og varnartengiliðurinn Samantha Kerr kom að láni frá Bayern Munchen.
Upphaf tímabilsins voru vonbrigði, tvö jafntefli gegn minni spámönnum gáfu vísbendingu um framhaldið. Sigur gegn Spurs úti lyfti andanum en í kjölfarið komu 4 deildarstig í 8 leikjum og liðið í raun rétt ofan við neðstu liðin og fallbaráttuna. Bikarkeppnirnar gengu þó betur en eftir slæm töp fyrir Leicester í lok janúar og Man City um miðjan febrúar tók stjórnin ákvörðun um að leysa stjórann Beard frá störfum og í hans stað var ákveðið að ráða aðstoðarkonu hans, Amber Whiteley, til að stjórna liðinu út tímabilið.
Bikarkeppnir, leikskipulag og lok tímabilsins
Eins og áður er farið yfir var árangurinn í deildinni töluvert undir væntingum og liðið komst ekki upp úr undanriðlinum í League cup. Jákvæðasta ljósið í tímabilinu var gengið í FA bikarnum. Það hófst með risasigri, 0-5, gegn Dagnýju Brynjars og félögum í West Ham og á leiðinni í undanúrslitin vannst 0-2 sigur á Rugby Borough og síðan án vafa sterkustu úrslit vetursins þegar stúlkurnar lögðu Arsenal 0-1 á útivelli í leik þar sem vel sást hvað gat í raun búið í liðinu. Í undanúrslitum voru mótherjarnir risalið Chelsea (sem vann þrennuna í Englandi þetta árið) og úr varð risaleikur.
Leikurinn var á heimavelli Chelsea, Kingsmeadow og tóku okkar konur forystu í leiknum þegar Olivia Smith skoraði eftir flotta sendingu Mariu Höbinger. Chelsea jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks en í seinni hálfleik fengu bæði lið færi en það fór svo að í uppbótartíma síðari hálfleiks skoruðu heimakonur aftur sigurmarkið eftir að LFC höfðu staðið af sér töluverða pressu.
Lok tímabilsins urðu því ekki bikarúrslit á Wembley heldur fjórir deildarleikir, þ.á.m. Merseyside derby á Anfield þar sem enn einn ganginn gestirnir fóru með sigurinn af hólmi. Það er augljóslega þannig að Everton ætti eiginlega að spila heimaleiki kvennaliðsins þar frekar en á Goodison (sem er nú orðinn opinber heimavöllur þeirra kvennaliðs) þar sem þær hafa unnið þennan slag ansi mörg ár í röð, ósiður sem vert er að breyta. Fjögur stig úr þessum leikjum þýddu að niðurstaðan var fall um þrjú sæti milli ára, 7.sæti í deildinni, klárlega vonbrigði.
Eftir stjóraskiptin náðist ákveðinn árangur varnarlega, liðið spilaði 3-5-2 leikkerfi allt tímabilið en eftir að Whiteley tók við var liðið fært aðeins aftar á völlinn og meiri áhersla lögð á öflugar skyndisóknir. Lykilleikmenn liðsins voru fyrrnefndar Smith í framlínunni og Höbinger á miðjunni auk vinstri vængkonunnar Taylor Hinds, varnardrottningarinnar Gemmu Bonner og norska framherjans Sophie Haug. Óstöðugleikinn var ekkert síður þeirra en annarra þó og í raun voru það tveir leikir, sigurinn á United sem tryggði fyrsta sigurinn á Anfield og baráttusigurinn í FA bikarnum við Arsenal það eina sem stóð uppúr.
Næstu skref
Kvennaboltinn í Englandi er enn á öðrum stað en karlarnir þegar kemur að samningslengd og leikmannaskiptum. Í lok þess var tilkynnt að félagsfyrirliðinn (club captain) Niamh Fahey myndi leggja skóna á hilluna eftir farsælan feril og að þær Jasmine Matthews, Yana Daniels og Teagan Micah fengju ekki nýja samninga. Whiteley var tímabundið ráðin og enn hefur ekkert verið gefið út um það hvort hún verði áfram. Í síðustu leikskránni skrifar hún þakkir fyrir stuðning við liðið og sig persónulega um leið og hún notar orðið “við” um framhaldið, talar um áframhaldandi uppbyggingu félagsins, nú sé hvíld að hefjast og á næstu leiktíð komi liðið sterkar til leiks.
Þeir lykilmenn sem ég hef minnst á hér að ofan er reiknað með að haldi velli og verði áfram með liðinu en þegar horft hefur verið til styrkinga þá hefur verið talað um að fjárfesta þurfi í markverði og öflugum varnartýpum í miðju og sókn auk þess sem að liðinu vanti alvöru níu (höfum nú heyrt það á fleiri stöðum) ef liðið eigi að blanda sér af alvöru í bardagann um titla við Manchesterliðin tvö, Chelsea og Arsenal.
Einkunnagjöf fyrir tímabilið
C+
Deildin langt frá væntingum en frammistaðan í bikarnum kemur í veg fyrir falleinkunn. Sannarlega bætinga krafist, líklega með nýjum stjóra.
Kannski rétt að taka fram að það er eitthvað slúðrað um að klúbburinn sé með Nick Arnautis, stjóra Frankfurt í sigtinu varðandi stjórastarfið. Vonandi verður þetta ákveðið sem allra fyrst, það er mjög líklega alveg hægt að finna betri stjóra heldur en Amber Whiteley, en hversu margir kandídatar það eru og hvort þeir vilji koma til Liverpool er svo annað mál. Ég yrði ekkert ósáttur þó Amber fái sénsinn áfram, en sama hvaða stjóri verður fyrir valinu, þá þarf sá hinn sami að fá stuðning klúbbsins á leikmannamarkaðinum í sumar.
Í framhaldinu þarf félagið svo að leggjast í naflaskoðun með leikmennina, alveg ljóst að kjarninn er að mörgu leyti góður en engu að síður eru stór tækifæri til að bæta hópinn. Persónulega væri ég alveg til í að fá Sveindísi Jane, en slúðrið er nú frekar í þá áttina að hún fari til United, sem yrði hábölvað.