Leikurinn í dag var í hálfgerðu aukahlutverki, því það snerist allt um það að Virgil van Dijk lyfti tuttugasta deildarmeistarabikar í sögu félagsins. Sem hann gerði með stæl.
Heiðursvörðurinn
Palace stilltu upp í heiðursvörð fyrir okkar menn, og svo þegar hinir rauðklæddu voru búnir að ganga í gegn þá stilltu þeir sjálfir upp í heiðursvörð og klöppuðu fyrir bikarmeisturunum. Sérdeilis fallegt augnablik.
Leikurinn
Greinilegt að menn voru ekki jafn einbeittir í dag eins og fyrstu 34 leikina í vetur. Bradley átti slaka sendingu sem gaf mark, og var svo skipt útaf í hálfleik. Gravenberch var rekinn útaf eftir klaufalegt brot þar sem hann missti boltann verandi aftasti maður, og þetta þýðir að hann verður líklega ekki í hóp í fyrsta leik tímabilsins á næstu leiktíð. Manni færri náðu svo okkar menn að jafna eftir að Nunez átti góða fyrirgjöf á kollinn á Gakpo sem skallaði fyrir lappirnar á Salah og hann skoraði. Semsagt, gleymanlegur leikur í sjálfu sér, en gott að hann tapaðist ekki. Jafntefli voru sanngjörn úrslit, þetta Palace lið er lúmskt gott og átti bikarinn fyllilega skilið.
Fagnaðarlætin
Þetta er í fyrsta sinn í 35 ár sem Liverpool fær titilinn í hendurnar fyrir fullum Anfield, og greinilegt að allir ætluðu að njóta þess í botn. Við sáum allar kanónurnar á vellinum: Kenny Dalglish, Rafael Benitez, Steven Gerrard, Jordan Henderson, Roy Evans, Gary MacAllister, Steve Staunton, Ian Callaghan, David Fairclough, svo einhverjir séu nefndir. Og Jurgen nokkur Klopp, sem síðast var á Anfield fyrir ári síðan. Það að Papa Klopp var á staðnum hafði hugsanlega eitthvað með það að gera að ef einhver var óánægður með Trent, þá kom það hvergi fram í leiknum eða fagnaðarlátunum. Ég held að við getum öll sammælst um að minnast Trent Alexander-Arnold með hlýhug fyrir allt það sem hann hefur gert fyrir klúbbinn. Og setjum svo bara punkt við sögu hans hjá félaginu.
Næstu dagar
Liðið ætlar að hoppa upp í rútu á morgun og fara í “skrúðgöngu” um Liverpool borg. Ég gæti trúað að það verði svolítið gaman. Svo fara menn bara í frí… nema að ég hugsa að síminn hjá Richard Hughes verði í nákvæmlega engu fríi næstu daga og vikur. Vonandi förum við að sjá eitthvað af (Staðfest) póstum varðandi Frimpong, Kerkez, Wirtz, og vonandi fleiri. Það er mjög líklegt að klúbburinn láti þessa þrjá alls ekki duga. Enda má reikna með að á móti muni einhverjir leikmenn kveðja, þ.e. fleiri en Trent.
Mo Salah
Ræðum aðeins um Mo Salah. Hann var nýlega kosinn leikmaður tímabilsins í deildinni. Hann er markahæstur, og einnig sá sem átti flestar stoðsendingar. Þetta er þrátt fyrir að hann hafi nánast verið kominn í frí síðan í mars.
Nú verður gaman að sjá hvort klúbburinn nær að stilla upp framlínu fyrir næsta tímabil sem gefur Salah möguleikann á að eiga sambærilegt tímabil. Líklega eru þetta tölur sem hann nær aldrei aftur, en við fáum tvö ár til viðbótar með honum, og vonandi nær hann að komast eitthvað áleiðis að þeim hæðum sem hann er búinn að vera í á þessu tímabili.
Að lokum: verum óhrædd við að fagna þessu. Eins og margir hafa bent á, þá er þetta svo órafjarri því að vera sjálfsagður hlutur. Félagið þarf vonandi ekki að bíða lengi eftir næstu svona hátíð, og ég held að Arne Slot sé hárrétti maðurinn til að leiða liðið næstu árin og ná í fleiri bikara.
YNWA!!!!!
Mikið vona ég að það takist að hreinsa til í leikmannahópnum í sumar og að liðið spili betri fótbolta í haust. Alltof hægt, máttlaust og bitlaus fyrir minn smekk síðan í janúar. En upp með bikarinn og njóta dagsins.
Sammála þér Bobby, en þvílíkur meistari sem Arne Slot er á sínu fyrsta tímabili.
Glæsilegt var það og ánægjan er fölskvalaus.
Slot notaði lokaleikina til að sannreyna afstöðu sína gagnvart vissum leikmönnum og fá það endanlega á hreint hvaða stöður þarf að styrkja. Og nú erum við með miklu öflugri leikmenn í þessar stöður.
Til hamingju púlarar með frábæran árangur. Nú er bara að byggja ofan á þessa snilld og mæta með 30% sterkari hóp til leiks í haust. ‘
En plís ekki selja Endó!
Gefur auga leið að það þarf að taka vel til í hópnum. Rétt náðu að vinna deildina….sem við erum bara alltaf að vinna. Burt með þá…….já burt með þá segi ég. Þetta eru upp til hópa ónytjungar og jafnvel eitthvað þaðan af verra. Við skulum alls ekki gleðjast í dag og fagna, því þvílík er skitan. En annars bara góður og er búin að fagna í allan dag frábærum árangri þessa frábæra liðs. Frábærum árangri þessara leikmanna og frábærum árangri allra sem að þessu koma.
YNWA
Bara eitt!!! Geggjað! Meistarar.
Eina sem skiptir máli núna!
Byrja á því að óska allri Liverpool fjölskyldunni til hamingju með 20 deildarsigurinn, þvílíkt lið og þvílíkur þjálfari og þessir líka stuðningsmenn.
Auðvitað er sigur þynnka í liðunu, annað væri skrýtið, búnir að berjast allt tímabilið og þá verða seinustu leikirnir bara eins of þeir voru, höfum ekki séð það öðruvísi enda langt síðan deikdinn vannst seinast með svona yfirburðum.
Vonandi sjáum við svo bara staðfestingu í vikunni á nýjum leikmönnum sem munu styrka þennan frábæra hóp og þó það sé súrt að sjá á eftir sumum leikmönnum þá heldur félagið áfram.
YNWA
Til hamingju púllarar, Liverpool átti svona sannarlega skilið að vinna deildinni enda búnir að vera heilt yfir langbesta liðið í vetur.
Síðast sumar nagaði maður neglurnar af stressi meistari Klopp hættur og einhver Arne Slot að taka við liðinu sem flest okkar höfðu ekki hugmynd um hver væri eða hvernig fótbolta hann vildi spila.
Í mínum villtust draumum var ég að vona að Liverpool næði meistaradeildar sæti en að vinna deildinni hvarflaði ekki að mér.
Ég veit ekki með ykkur en goggel allt sem ég fann um manninn og skoðaði á YouTube hvernig hann væri að láta sín lið spila eftir þá yfirferð varð ég örlítið rólegri þar sem hann vildi greinilega spila skemtilegan bolta,
ég er reyndar svo sjúkur að ég skoða alla leikmenn sem eru orðaðir við okkur.
Til hamingju allir poolarar nær og fjær!!
Magnað að fyrstu tveir póstarnir séu um að hreinsa til í hópnum!! Eigum við ekki bara að njóta þess að við unnum deildina með 10 stigum!! Erum að signa geggjaða leikmenn.
Er alltaf hægt að finna það neikvæð??
Þreytist ekki á að óska okkur öllum sem styðjum Liverpool til hamingju!
Marseringin að titli nr20 reyndist á endanum fislétt ganga, slíkir voru yfirburðirnir.
Nú tekur við sumarfrí frá boltanum, en mikið óskaplega er ég spenntur fyrir leikmannaglugganum í þetta skiptið, tel okkar menn koma munu sterkari inn í næsta síson.
Takk fyrir veturinn þið meistarar sem haldið utan um þessa stórkostlegu þjónustu sem kop.is er!
Takk þið öll sem sjáið um að halda spjallinu fjörlegu og heitu!
Takk fyrir mig.
YNWA!