Fótboltaheimurinn allur er sleginn.
Heimsþekktur knattspyrnumaður kveður sviðið óvænt, rifinn úr þessari jarðvist án nokkurs fyrirvara. Enn ein staðfestingin á því hve heimurinn getur verið óútskýranlega erfiður. Við aðdáendur Liverpool höfum eiginlega bara staðið algerlega kolslegin niður í ljósi þessara frétta enda um leikmann úr okkar röðum sem er óumdeilanlega dáður og hefur verið nú um sinn.
Diogo José Teixeira da Silva okkar eini Diogo Jota er allur. Lést ásamt bróður sínum André í hörmulegu slysi á leið í ferju sem ætlað var að flytja þá bræður til Englands þar sem Diogo var á leið að hefja undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil sem Englandsmeistari. Ferjuna ætlaði hann að taka eftir að hafa verið varaður við að fljúga í kjölfar smávægilegrar lungnaaðgerðar sem hann fór í. Eftirköst meiðsla frá því í vetur sem við munum jú eftir.
Hér á eftir ætlum við að minnast mannsins og leikmannsins sem nú hefur verið staðfest að verður síðasti leikmaður í sögu Liverpool að skarta númerinu 20. Númerið verður nú aflagt honum til heiðurs og því að hann tryggði titil númer 20. Það er sannarlega við hæfi.
Við skorum á lesendur að skrifa uppáhalds minningu/minningar sínar um kappann í athugasemdum við þessa færslu.
Uppvöxtur og fyrstu ár ferilsins
Diogo Jota, fæddist 4. desember 1996 í Porto og ólst upp í útborginni Gondomaram sem liggur um 10 kílómetra frá miðborginni við ána Douro. Borgin er þekkt fyrir skartgripaframleiðslu og þjónustu við vín- og nautgriparækt en foreldrar hans voru verkamenn. Hún vann verksmiðjustörf en pabbi hans vann á vinnuvélum, aðallega alls konar krönum í byggingarvinnu. Fjórum áður síðar eignaðist hann bróður sem skírður var André og þessi fjögurra manna fjölskylda bjó við látlaust líf byggt á “gildum hins vinnandi manns” – látleysi sem í raun var hans lífsmottó alla tíð.
Skólagangan var í Gondomar og þar hófst fótboltaferillinn með yngri flokkum Gondomar SC. Strax frá upphafi varð hann mikill markaskorari þekktur fyrir yfirvegun í slútti og mikla hlaupagetu og þetta lið sem lengst af hefur dvalist í C-deildinni í Portúgal hefur haldið nafni hans á lofti síðustu ár, árið 2022 endurnefndu þeir akademíuna sína í höfuðið á honum. Diogo var reglulega í sambandi við bæði félagið og borgina, þeirra dáðasti sonur.
Þrátt fyrir hæfileikana voru stóru liðin á svæðinu Porto og Boavista á því að hann væri of lítill og nettur og því fór það svo að hann fór til Pacos de Ferreira þegar hann var á sextánda ári. Það er litla liðið í Portó af stóru liðunum og er reglulega í efstu deildinni þó vissulega þeir flakki svolítið á milli efstu tveggja deildanna. Hjá liðinu fékk hann fljótlega möguleika, lék fyrst leikinn í október 2014 þegar hann var í byrjunarliði í bikarkeppni og í febrúar 2015 kom hann inná í fyrsta sinn í deildarleik. Þann 17.maí skoraði hann svo sín fyrstu mörk þegar hann skoraði tvö mörk í sigri á Coimbra. Varð þar með yngstur í sögu liðsins til að skora í efstu deild. Titill sem hann heldur enn. Í maí 2015 gerði hann svo fimm ára samning við Pacos de Ferreira, sem var þó fyrst og fremst til að verja þeirra fjárfestingu. Það var alveg ljóst að hann væri að fara til stærri liðs og spurningin var bara hvert.
Leiðin frá Portúgal til Liverpool FC
Það kom enda fljótlega í ljós. Hann varð fastur byrjunarliðsmaður haustið 2015 og í mars 2016 gerði hann samning við Atletico Madrid. Hann hafði mjög fljótlega þann draum að leika erlendis og hafnaði tilboðum í Portúgal til þess að eltast við drauminn í höfuðborg Spánar. Það kom honum því í ansi opna skjöldu þegar honum var tilkynnt eiginlega strax við komu til Madrid að hann yrði lánaður til Porto og hann var mættur til heimaborgarinnar við lok gluggans. Stjóri Porto, Nuno Espirito Santo, henti honum fljótt í byrjunarliðið og svo fór að hann var lykilmaður í liðinu sem endaði í 2.sæti deildarinnar og féll út í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Þegar hann kom aftur til Madridar var enn ljóst að Diego Simeone taldi honum enn fyrir bestu að spila annars staðar haustið 2017 og aftur var það lán. Það hafði verið draumur Diogo að leika í ensku úrvalsdeildinni. Einhver lið, þ.á.m. Leicester sem hann hafði skorað gegn í Meistaradeildinni, töluðu við hann en hann ákvað þó að ganga til liðs við stjóra sinn frá Porto frá árinu áður. Sá hafði tekið við liði Úlfanna í Championship-deildinni og seldi Diogo hugmyndina að koma til liðs við verkefni leitt af portúgölskum eigendum ásamt fleiri löndum hans, þ.á.m. besta vini hans í fótboltanum Ruben Neves.
Í stuttu máli sagt varð Diogo Jota goðsögn hjá Úlfunum. Hann varð markahæstur á sínu fyrsta tímabili á Molineux þegar liðið vann deildina og um leið ávann sér sæti í efstu deild. Sérstakar reglur í deildinni bönnuðu leikmönnum að nota önnur nöfn á bak sitt en þeirra eftirnafn og því má sjá treyjunúmer hans hjá Úlfunum þetta fyrsta tímabil með nafninu “Jota” sem var gælunafn sem hann tók upp sökum þess að hann vildi aðskilja sig frá eftirnafninu Silva sem er eitt það algengasta í Portúgal. Þær treyjur ganga nú þegar kaupum og sölum á netinu enda gaf enska úrvalsdeildin leyfi til að hann veldi það nafn sem hann vildi á sína treyju og þar varð til “Diogo J” sem varð hans vörumerki í Englandi. Fyrst hjá Úlfunum, þar sem hann var áfram númer 18, og síðar hjá Liverpool þar sem hann tók upp númerið 20.
Hann hélt áfram markaskorun hjá Úlfunum í efstu deild. Þeir náðu frábærum árangri á fyrsta ári þar og unnu sér sæti í Evrópudeildinni. Diogo hafði aftur verið lánaður til Úlfanna haustið 2017 en það var í raun að hans undirlagi sem Úlfarnir keyptu hann i janúar 2018 fyrir 12 milljónir punda. Hann var þá ekki lengur tilbúinn að vera aukahjól í vagni Atletico Madrid, kominn í þá deild sem hann langaði að spila og með hans orðum orðinn ástfanginn af Englandi og liði Úlfanna. Hann hélt áfram að heilla aðdáendur þeirra leiktímabilið 2019 – 2020 þegar hann t.d. skoraði fyrsta mark liðsins í Evrópukeppni frá árinu 1980 og var fastur leikmaður í byrjunarliðinu elskaður og dáður af aðdáendum. Frá því fréttir bárust af andláti hans hafa viðbrögð þeirra verið nákvæmlega sömu og hjá Liverpool FC. Heimavöllur þeirra er umvafinn blómum og öðru sem minnist veru hans hjá Wolves og fólk algerlega miður sín. Þegar hann kvaddi Wolves þakkaði hann fyrir sig af einlægni þeirri sem einkenndi hann og gaf alveg í skyn að hann sæi sig aftur hjá félaginu síðar meir. Margir þeirra sem hafa komið í viðtöl af Wolves aðdáendum hafa lýst því að sú von var sterk. En það verður ekki.
Ferillinn hjá Liverpool FC
Árið 2020 var auðvitað Covid árið mikla og leikmannaglugginn var býsna sérstakur. Það þýddi að það var í september það ár sem staðfest var að Liverpool hefði keypt Diogo Jota frá Úlfunum fyrir verð sem með bónusum gæti endað í 45 milljónum punda. Níu dögum seinna kom svo fyrsta mark hans fyrir félagið þegar hann skoraði gegn Arsenal í fyrsta deildarleik sínum. Hann byrjaði frábærlega með nýju félagi og jafnaði met Robbie Fowler þegar hann skoraði sitt sjöunda mark í fyrstu tíu leikjum sínum fyrir LFC. Kaupin á honum komu á óvart held ég að hægt sé að fullyrða en eftir þessa byrjun var öllum ljóst að hér var hæfileikabúnt á ferð. Einkennin sem áður hefur verið farið yfir öllum ljós. Afbragðs slúttari og vinnusamur bæði sóknarlega og í pressu.
Það var þó í desember þetta ár sem Jota varð fyrir fyrstu meiðslunum á ferlinum hjá Liverpool. Meiðsli sem stóðu í rúma þrjá mánuði og voru þau fyrstu af mörgum sem áttu eftir að henda og í raun kannski koma í veg fyrir að hann eignaðist enn meiri status hjá aðdáendum LFC. Leiktímabilið 2021-202 varð svo í raun hans besta tímabil hjá Liverpool. Hann hóf tímabilið með marki í fyrsta leik og framundan var tímabil þar sem hann var byrjunarliðsmaður í flestum leikjum, var valinn leikmaður mánaðarins af aðdáendum EPL í nóvember og skoraði mikilvæg mörk. Sérstaklega gaman að minnast beggja marka í 0-2 sigri á Arsenal í undanúrslitum Carling cup og auðvitað vítanna í þeim vítakeppnum sem tryggðu tvo bikara þetta vor í sigrum á Chelsea. Þetta ár lék hann alls 55 leiki fyrir Liverpool og skoraði í þeim 21 mark. Langbesta framlag hans á þeim fimm árum sem hann lék í treyjunni.
Diogo var þó áfram mikilvægur hlekkur í liði Liverpool en því miður mörkuðu meiðsli að einhverju leyti næstu þrjú tímabil. Hann náði að leika í um 60% leikja þeirra tímabila og hélt áfram að skora mikilvæg mörk. Hver man ekki eftir sigurmarki gegn Spurs í 4-3 vorið 2023 eða frábærrar frammistöðu í janúar 2024 þegar hann skoraði 5 mörk í 4 leikjum á meðan Mo Salah var í Afríkukeppninni.
Síðasta mark hans fyrir félagið er svo í raun eins og skrifað inní það sorglega og dramatíska handrit sem örlögin hafa skapað honum. Við viðurkennum öll að hann átti erfitt á síðasta tímabili eftir að hann kom úr þeim meiðslum sem kölluðu á aðgerð á lunga sem var rót hans hinstu ferðar. Í spennuþrungnum leik gegn erkifjendunum í Everton fékk hann boltann utan teigs, komst framhjá varnarmönnum og slúttaði af hreinni snilld. Eina markið í 1-0 sigri og Anfield endurómaði lagið hans oft og mörgum sinnum eftir leikinn. Hann fór upp að Kop-stúkunni, brosti sínu ljúfa brosi og lyfti sínu þekkta merki um fagn. Myndaði hjarta með höndunum og beindi að stuðningsmönnum. Lagið hans Diogo Jota hefur frá upphafi verið eitt það vinsælasta hjá stuðningsfólki og nú þegar hefur verið lagt upp með að hefð verði mynduð með því að það verði sungið héðan af á tuttugustu mínútu leikja liðsins.
Umræðan nú í sumar hefur verið um hver framtíð hans væri hjá liðinu í ljósi meiðslasögu. Það var þó alltaf þannig að við vonuðum öll að heilt sumar með Slot og hans fólki myndi endurnæra Diogo Jota. Þar kom ekki síst til að þrátt fyrir að hann hafi verið inn og út úr liðinu allan hans tíma hjá Liverpool FC var hann aldrei með neitt vesen. Hann einfaldlega tók þær mínútur sem hann fékk og gerði það besta úr því. Hann hefur margtalað um það hversu hann elskaði borgina, öll börnin hans þrjú fædd þar og fjölskyldan hans sátt við allt. Örlögin spinna stundum vonda vefi og ástarsambandi Diogo Jota, Kop-stúkunnar og Liverpool aðdáenda er lokið.
Einstaklingurinn og arfleifð hans
Það er hreinlega búið að vera erfitt að opna netið nú síðustu sólarhringa og klukkutímana. Og verður áfram. Einlæg og djúp sorg allra þeirra sem að kynntust og unnu með Diogo Jota vekur upp tilfinningar okkar sem elskum þetta félag…og dáðum þennan leikmann. Það er auðvitað á einhvern hátt galið að maður taki það nærri sér að einstaklingur sem maður tengist ekki blóð- eða vináttuböndum falli frá en þó ekki. Leikmenn sem maður dáir verða heimilisvinir og maður situr og les um þá og vill kynnast þeim ekki bara út frá fótboltanum. Í mínu tilviki varð Diogo Jota strax einstaklingur sem ég tók eftir. Tengsl mín við Portúgal byggjast á þeirri staðreynd að móðir mín heitin bjó í landinu og stofnaði þar fjölskyldu. Því hef ég kynnst þessu landi og satt að segja bara byggt upp ástríðu byggt á kynnum mínum af því fólki sem landið byggir og menningu þess.
Því var ég býsna sáttur að eiga fulltrúa landsins hjá Liverpool FC og dreif mig í að kaupa treyju merkta honum strax á fyrsta tímabili og viðurkenni alveg að hafa verið á tíðum of sterkur talsmaður hans. Að einhverju leyti tengt landinu en líka því sem heimurinn hefur heyrt í lyndiseinkunnum sem vinir hans og samstarfsfélagar hafa birt á netinu síðustu daga. Æðsta mottó hvers og eins á að vera sú að vera almennilega manneskja sem dreifir jákvæðni og góðum straumum. Það var Diogo Jota. Saga hans frá látlausum uppvexti manns sem þurfti að hafa fyrir sínum ferli, mannsins sem giftist æskuástinni og hélt í gildi fjölskyldumannsins til síðasta dags. Knattspyrnumaðurinn sem allir þjálfarar segja hafa verið draum að þjálfa og leikmenn sem hafa talað um keppnismanninn sem utan vallar vildi öllum hjálpa.
Portúgal hefur tapað einum sinna dáðustu sona. Það sér maður sannarlega á öllum fjölmiðlum. Hefð landsins er að andlát leiða til hraðari ferils en við hér þekkjum. Jarðarför er ætlað að verða ekki síðar en 48 klukkustundum eftir andlát og áður en til útfarar kemur er skipulögð líkvaka þar sem fólk kemur saman til að syrgja. Sú fór af stað kl. 15 að íslenskum tíma og stendur í raun fram að útför sem verður á laugardaginn. Stundum er haldin messa til minningar um hinn látna um viku eftir jarðarför, nokkuð sem ekki hefur verið staðfest.
Liverpool FC stendur frammi fyrir risastóru verkefni. Félagið hefur staðið sig ótrúlega vel í fyrstu viðbrögðum sínum. Opnað dyr fyrir syrgjendum bæði á Anfield og í netinu, allir lykilaðilar birt hjartnæmar og einlægar kveðjur og heitið stuðningi við fjölskyldu Diogo Jota. Ung móðir með þrjú börn og foreldrar hans sem misstu báða syni sína með engum fyrirvara eiga allan okkar hug. Maður getur einfaldlega ekki ímyndað sér þá sorg sem nú býr í þeirra húsum svo stutt eftir þann gleðiviðburð sem gifting var fyrir aðeins nokkrum dögum.
Ætlunin var að kalla leikmenn til æfinga í dag og næstu daga, formleg dagsetning fyrstu æfingar var 8.júlí. Verkefnið verður sannarlega að halda utan um og byggja upp einstaklinga sem hafa misst náinn vin á ólýsanlegan hátt. Eins og Mo Salah segir að þessar aðstæður einfaldlega valda kvíða að koma aftur á svæði þar sem svo stórt skarð var hoggið. Þessi fyrstu viðbrögð félagsins og allra lykilaðila vekur þó sannarlega upp væntingar og vonir að félagið haldi utan um minningu Diogo Jota á þann hátt að takist að horfa í gegnum storminn og hlusta á hljóð söngfuglsins sem minnir okkur á að við göngum aldrei ein.
Minningu Diogo Jota verður best haldið upp með að fagna lífi hans og halda minningu um frábæran einstakling og hæfileikaríkan fótboltamann á lofti um alla framtíð.
Hvíl í friði kæri Diogo – takk fyrir þína vinnu fyrir Liverpool FC.
Descansa em paz, queriodo Diogo – obrigado pelo teu trabalho ao servico do Liverpool FC
Úff Maggi, þetta er nú bara svo flottur og góður pistill hjá þér að engu er hægt við hann að bæta! Játa að ég þurfti að bíta vel á jaxlinn til halda aftur af tárum því eins og þú kemur inná þá er það galið hvað maður tekur nærri sér um fráfall manns sem ekki er tengdur manni vináttu eða blóðböndum!
En jú við erum Liverpool fjölskylda og þar stöndum við aldrei ein!
YNWA
Sammála. Svakalega vel skrifaður texti. Takk Maggi.
Frá því að ég las fréttirnar um þetta í gærmorgun, sitjandi á sófanum með litla kútinn minn í fanginu, hef ég verið að reyna að koma orðum að tilfinningunum sem þetta vekur upp. Hverfuleiki lífsins er sjaldan augljósari en þegar ungt fólk fellur frá.
Hugur minn hefur verið hjá foreldrunum sem misstu tvo syni sömu nóttina, börnunum sem misstu pabba sinn, ekkjunni sem giftist æskuástinni fyrir innan við hálfum mánuði og leikmönnum Liverpool sem misstu vin sinn og vinnufélaga. Fyrir þá yngri í liðinu gæti vel verið að þetta sé í fyrsta sinn sem þeir glíma við harminn sem fylgir skyndilegu fráfalli náins vinar. Hópurinn er nú bundin órjúfanlegum böndum, dýpri og sterkari en jafnvel íþróttirnar vefja og munu veita þeim hlýju á erfiðum stundum ævilangt.
Sorgin sem fylgir fráfalli er í hlutfalli við sú gleði sem við vekjum í lífinu og ef það var eitt sem hægt var að segja Jota þá var hann gleðigjafi. Prakkaralega brosið sem lék um varir hans þegar hann skoraði, baráttugleðin sem geislaði af honum og stoltið sem logaði í augum hans þegar lagið hans ómaði úr stúkum um alla Evrópu. Þetta sama lag hefur verið raulað af mönnum og konum um allan heim síðan í gær og verður öskursungið komandi vetur og um ókomna tíð. Hann mun aldrei gleymast svo lengi sem leikið verður undir merki Liverpool.
Frægt er portúgalska orðið saudade, sem lýsir einammanalegri sorg blandaðri sætri löngun í eitthvað sem er ómögulegt að fá á ný. Sú tilfinning mun filla okkur í hvert sinn sem við sjáum myndir eða klippur af Diego Jota. Ekkert mark varn jafn Jota-legt og þegar hann skoraði í uppbótartíma gegn Spurs og meðan Anfield trylltist allt í kringum hann settist hann kampakátur í grasið og þóttist spila FIFA.
Hvíl í friði þú mikli meistari, þú munt sannarlega aldrei ganga einn.
Ég hugsa að upplifun okkar Liverpool aðdáanda sé örugglega mjög svipuð, við erum að taka þetta nærri okkur, og kannski upplifa einhver okkar einhvers konar samviskubit fyrir að láta fráfall einstaklings sem við þekktum ekkert hafa svona mikil áhrif á okkur. Ég skal alveg játa það og ætla bara ekki að skammast mín neitt fyrir það að ég hef grátið helling frá því þetta gerðist og mun sjálfsagt halda því eitthvað áfram um leið og það koma ný minningarorð frá liðsfélögum hans, eða einhver deilir klippum af helstu afrekum hans á vellinum. Eins reikna ég með því að það verði erfitt að heyra söngvana hans sungna á Anfield í fyrstu leikjunum, ég gæti trúað að það verði heilu leikirnir þar sem lagið hans verður sungið frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu, og alveg klárlega á 20. mínútu hvers leiks. Þið megið bara alveg reikna með að sjá mig með tárin í augunum á þeim augnablikum. Bara það að skrifa þetta komment er erfitt. Ég ætla að sama skapi ekkert að þykjast hafa orðið fyrir persónulegum missi sjálfur, en ég finn alveg ofboðslega mikið til með konunni hans, börnunum, foreldrum, ættingjum, liðsfélögum og öðrum sem fengu að upplifa það að umgangast hann.
Á einhvern furðulegan hátt þá hefur tvennt gerst við fráfall Diogo Jota: við erum búin að missa hann að eilífu, munum aldrei sjá hann aftur klæðast rauðu Liverpool treyjunni, hann mun aldrei aftur terrorisera vörn andstæðinganna. En á sama tíma þá erum við líka búin að eignast hann að eilífu. Nöfn Diogo Jota og Liverpool verða að eilífu tengd. Minningin um hann mun lifa svo lengi sem nokkurt okkar dregur andardráttinn, og örugglega talsvert lengur en það.
Hvað uppáhalds minningu varðar, þá verð ég að velja markið gegn Arsenal þar sem hann komst inn í sendingu alveg upp við teig, sólaði varnarmann, og sendi svo Ramsdale í vitlaust horn með einni gabbhreyfingu og renndi svo boltanum í autt markið. Mark sem sýndi hversu frábær fótboltamaður hann var og hvað markaskorunin var honum í blóð borin.
Ég vil líka minnast á þá tölfræði að ef Jota skoraði fyrir Liverpool í deildinni, þá tapaðist sá leikur ekki. 52 leikir þar sem hann skoraði, 43 unnust og 9 jafntefli.
Mjog falleg grein hja þer Maggi, sem segir oll þau orð og hugsanir sem komast kannski ekki ut fyrir varir okkar, alla vega fra mer a texta.
YNWA
Ég tek undir með ykkur hér að ofan og með pistlinum öllum í heild. Virkilega fallegar hugsanir og skrif sem segja okkur að þetta er raunveruleg fjölskylda, Liverpool samfélagið okkar.
Mig langar ekki að tína til eina einstaka minningu heldur það að svona ótrúlega ljúfur náungi átti alltaf mesta shithouseríið af okkar leikmönnum. Honum var svo drull, hann vildi bara vinna og kynda í andstæðningnum. Þekkjandi nokkra Skota og Íra kemur skemmtilega á óvart að hann hafi verið tengdur þeim félögum sínum hvað mestum tryggðaböndum og segir kannski líka heilmikið um karakterinn. Hvíl í friði Diogo og Andre.