Fréttir af kvennaliði Liverpool

Eðli málsins samkvæmt hefur verið lítið að frétta úr herbúðum Liverpool síðustu viku, fólk er einfaldlega enn að syrgja fallinn liðsfélaga og mun gera það enn um sinn. Þannig verður t.d. öllu tjaldað til í æfingaleiknum gegn Preston á sunnudaginn til að minnast Diogo okkar og Andre bróður hans – leik sem verður spilaður þó svo það hafi verið talsverð óvissa um það á tímabili. Jú og klúbburinn er búinn að gefa það formlega út að skyrtunúmerið 20 mun tilheyra Diogo Jota héðan í frá, og engum öðrum. Þetta var endanlega tilkynnt í kvöld kl. 20:20 að breskum tíma, en hafði verið sterkt ákall um þetta frá áhangendum.

Reyndar er það svo að skyrtunúmerið er komið á hilluna hjá öllum liðum Liverpool, þar á meðal hjá kvennaliðinu. Og það er kannski við hæfi að við byrjum aðeins að skoða stöðuna á liðum Liverpool eftir harmleikinn með því að skoða hvað er að gerast hjá kvennaliði Liverpool. Í sjálfu sér er ekki mikið að frétta svona opinberlega… nokkuð ljóst að hafi klúbburinn verið búinn að plana að tilkynna eitthvað opinberlega núna í júlí þá var allt slíkt sett á ís eftir bílslysið. En það er kannski ekki ólíklegt að í næstu viku fari fyrstu fréttir að birtast á opinberu heimasíðunni varðandi kaup og sölur á leikmönnum, og við ætlum að skoða hér aðeins hvað er líklegast að sé að fara að gerast varðandi kvennaliðið.

Byrjum á knattspyrnustjóranum. Amber Whiteley tók við til bráðabirgða í vetur þegar Matt Beard var látinn fjúka, og lengi vel var lítið að frétta varðandi hver myndi taka við. Þó ljóst að Amber vildi sjálf stíga skrefið og verða formlega aðal manneskjan. Nýjasta slúðrið segir hins vegar að líklega verði fyrrum stjóri City, Gareth Taylor, sá sem muni taka við keflinu. Þarna er á ferðinni stjóri sem náði í einn FA bikar og einn deildarbikar fyrir City á síðustu árum, en það má líka segja að hann hafi haft ágætis fjármagn til að ná í þá leikmenn sem hann vildi, sem er ekki víst að hann muni hafa hjá Liverpool (sjá þó neðar). Eins munu samskipti hans og Chloe Kelly hjá City hafa orðið til þess að hún fékk að lokum ekkert að spila, var svo lánuð til Arsenal í janúarglugganum og fór þangað á frjálsri sölu núna í sumar. Ef Taylor kemur til Liverpool, þá er það ráðning sem maður vonar að sjálfsögðu að verði til góðs, en hann mun alveg þurfa að sanna sig. Áður hafði verið slúðrað um Nick Arnautis hjá Frankfurt, en það slúður virðist hafa fjarað út.

Skoðum þá aðeins hvaða leikmenn eru farnir eða eru að fara. Eins og kom fram í vor þá ákvað klúbburinn að framlengja ekki við þær Jasmine Matthews og Yana Daniels, þær eru núna komnar til Burnley í þriðju efstu deild þar sem téður Matt Beard tók við núna í sumar og þau stefna sjálfsagt á að komast upp um deild á næsta tímabili. Þá fór Teagan Micah eftir að hafa ekki náð að festa sig í sessi sem markvörður nr. 1, sjá meira um það neðar. Fyrirliðinn Niamh Fahey lagði svo skóna á hilluna en hafði svosem lítið spilað síðustu mánuði og það kom því lítið á óvart. Taylor Hinds var varafyrirliði og effektívt fyrirliði Liverpool síðasta árið eða rúmlega það út af því hve lítið Fahey spilaði, en hún ákvað að endurnýja ekki samning sinn við félagið og var því laus allra mála núna í lok júní. Hún ákvað að fara til Arsenal, svolítið merkilegt í ljósi þess að hún fer frá því að vera að spila nánast hverja mínútu hjá Liverpool yfir í harða samkeppni um stöðu hjá Arsenal, þar sem hún er bara alls ekki eitthvað örugg um að byrja. Verði henni að góðu með þessa ákvörðun, hún verður að standa og falla með þessu sjálf. Annars er það pínku merkilegt að bæði karla- og kvennalið Liverpool skuli hafa misst bakvörð sem var varafyrirliði á frjálsri sölu núna í sumar.

Þá er það hún Fuka okkar Nagano. Samkvæmt öllu hefði hún átt að vera laus á frjálsri sölu núna í lok júní… en hún er enn skráð í liðið á heimasíðunni þó svo ekkert hafi verið tilkynnt um framlengdan samning né að hún sé að fara eitthvað annað. Eitthvað var slúðrað um að United hafi verið að bera víurnar í hana… þar færi nú góður biti í hundskjaft. Mögulega er hún að bíða og sjá hvað gerist í stjóramálum áður en hún tekur endanlega ákvörðun.

Og svo er það stóra sprengjan: fréttir herma að klúbburinn sé búinn að samþykkja kauptilboð Arsenal í Oliviu Smith, upp á einhverja rúmlega eina milljón punda, og við værum þá að tala um að hún yrði dýrasti leikmaðurinn í sögu kvennaboltans. Höfum það á hreinu að Smith var LANG besti leikmaður okkar á síðasta tímabili, og það er aldrei gott þegar lið selja besta leikmanninn sinn. Hún var keypt í fyrra frá Sporting á rúmlega 200 þúsund pund – var þá dýrasti leikmaðurinn í sögu kvennaliðs Liverpool – og mögulega er þetta það besta sem er hægt að gera í stöðunni. Þ.e. frekar að selja hana fyrir metfé núna frekar en að missa hana á frjálsri sölu að ári (eða mögulega eftir tvö ár). Kannski kaupir klúbburinn 5 leikmenn á sama kaliberi og Olivia…. en við vitum jú að þetta er aldrei svona einfalt. Félagið datt í lukkupottinn með að kaupa hana í fyrra, en ekkert á vísan að róa með það hvernig leikmenn koma í staðinn. Samt ljóst að það má versla ansi hressilega fyrir milljón. Þetta er því líka veðmál hjá stjórn félagsins, mögulega verður þetta eins og salan á Coutinho, en svo gæti þetta líka verið eins og þegar Torres var seldur og Carroll kom í staðinn. Engin leið að segja fyrr en eftir ár hið minnsta.

Í dag eru 18 leikmenn skráðir á opinberan lista yfir leikmenn kvennaliðs Liverpool, þar inni eru Nagano og Smith, ef við segjum að Nagano framlengi en Smith verði seld þá eru þetta 17 leikmenn. Af þessum 17 þá eru Zara Shaw og Sofie Lundgaard meðal miðjumanna, báðar að vinna sig til baka úr langtímameiðslum og verða hvorugar tilbúnar í haust. Það eru því hugsanlega bara 15 leikmenn á skýrslu í fyrsta leik í haust… en það er nú lang líklegast að planið sé að kaupa leikmenn upp í þetta risa gat sem augljóslega er í leikmannahópnum. Eins og talað var um að ofan þá hefur ekkert verið gefið út opinberlega um nein leikmannakaup ennþá, en það eru strax tvö nöfn sem þykja líkleg. Hin þýska Rafaela Borggräfe hefur verið aðalmarkvörður hjá SC Freiburg og þótti vera besti markvörður þýsku deildarinnar á síðasta tímabili. Hún ku vera búin að kveðja það félag og altalað að hún sé að koma til Liverpool. Hún er á góðum aldri, 25 ára, svo þetta gætu verið góð kaup ef af verður. Annað nafn sem hefur verið kastað fram er Kirsty Maclean sem spilaði með Rangers á síðasta tímabili, nýorðin tvítug, miðjumaður sem var víst með þeim bestu í skosku deildinni. Báðar þessar viðbætur væru mjög svo nauðsynlegar, liðið er líklega bara með 3 heila miðjumenn og 2 markverði fyrir utan stelpur úr U21 liðinu sem eru varla tilbúnar í slaginn þó svo U21 liðið sé reyndar mjög gott og hafi verið nokkuð sigursælt á síðasta tímabili.

En það er alveg ljóst að klúbburinn þarf að halda vel á spöðunum þegar kemur að því að fá til sín leikmenn á næstu vikum, ljóst að það þarf að fá líklega 7-8 leikmenn sem er með mesta móti samanborið við síðustu sumarglugga. Það væri líka gaman að sjá klúbbinn koma með alvöru “statement” kaup og sýna að með því að kaupa Melwood og færa leiki liðsins yfir til St.Helens að þá hafi það bara verið fyrstu skrefin í áttina að því að gera klúbbinn samkeppnisfæran. Vissulega má spyrja sig hvort þá sé rétt að selja sinn besta leikmann, en eins og áður kom fram þá gæti það verið til góðs þegar til lengri tíma er litið.

Jæja, nóg um þetta. Orðið er laust, hvort sem það verða innlegg tengd kvennaliðinu, tengd væntanlegum æfingaleik karlaliðsins gegn Preston, eða eitthvað allt annað tengt okkar ástkæra félagi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Harmleikur í Portúgal