Hugo Ekitike til Liverpool

Fimmti leikmaðurinn í sögu Liverpool sem er með nafn sem stafast eins áfram og afturábak er kominn til liðsins. Hér kynnum við til leiks Hugo Ekitike, enn eina viðbótina við meistaralið Liverpool.

Hver er Hugo Ekitike?

Það er erfitt að skrifa þetta nafn, ég villist alltaf á k og t þegar ég skrifa, þannig að héðan í frá verður hann kallaður Hugo.

Hugo Ekitike er franskur, fæddur 20.júní 2002 og því nýorðinn 23 ára. Hann ólst upp í fæðingarborg sinni, Reims, skammt norðaustur af París, ekki langt frá vígvöllum Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Nafnið hans er vissulega óvenjulegt en faðir hans er frá Kamerún en móðirin er frönsk. 6 ára gamall byrjaði hann að æfa með hverfisliðinu Cormontreuil FC, var þar í 6. og 5. flokki en fór árið 2013 til stóra liðsins í borginni, Stade de Reims. Þar lék hann næstu 10 árin, fyrst bara einfaldlega upp yngri flokkana, svo í b-liðinu og loks a-liði félagsins. Hann skrifaði 18 ára gamall undir atvinnumannasamning, lék með b-liðinu í Campionnat National, sem er fjórða efsta deildin í Frakklandi tímabilið 2019-2020 og skoraði þá 5 mörk í 12 leikjum. Þetta vakti nokkra athygli því næsta tímabil spilaði hann alls með þremur liðum, a- og b-liði Reims en eins fór hann á láni til Danmerkur þar sem hann spilaði með Vejle Boldklub á Jótlandi.

Þegar þarna er komið við sögu, í janúar 2021, er drengurinn ekki orðinn 19 ára en frammistaða hans er farin að vekja athygli hjá stærri klúbbum álfunnar. T.d. bauð Newcastle í hann og PSG var farið að fylgjast með honum og eflaust nokkur fleiri félög. Hugo lék síðan tímabilið 2021-2022 með Reims og skoraði þar 10 mörk í 24 leikjum.

Næsta skrefið á ferlinum var stigið í júlí sama ár. PSG tilkynnti um lánssamning við Reims með möguleika á 35 milljón evra kaupsamning. Þeir gengu síðan að samningnum í lok tímabils, því Hugo lék alls 25 leiki það tímabilið í deildinni (13 af bekknum) og skoraði 3 mörk í auðveldum deildarsigri PSG. Hann var vissulega að kljást við stór nöfn um sæti í liðinu og hefur líka eflaust lært ansi margt þetta tímabilið. Sóknarlína PSG samanstóð af Messi, Mbappe og Neymar.

Þetta er samt sem áður ansi mikilvægt tímabil fyrir Hugo. Þarna var hann í fyrsta sinn að spila á hæsta stigi heimsknattspyrnunnar með engum smá súperstjórnum og egóum. Ungur drengur frá frönskum smábæ kominn í höfuðborgina að spila með Messi…

Allavega, tímabilið á eftir gekk síður en svo vel þar sem hann kom aðeins inn á í einum leik í þónokkuð breyttri (nútímavæddri) sóknarlínu PSG og í janúar var hann sendur á lán til Eintracht Frankfurt. Þar náði hann að bjarga tímabilinu sínu, skoraði 4 mörk í 14 leikjum. Þarna kynntist hann líka egypska kantmanninum Omar Marmoush og honum gekk ansi vel að spila með honum, þó sérstaklega á fyrri hluta næsta tímabils. Undir lok apríl virkjaði Eintracht Frankfurt kaupákvæði þar sem þeir voru ekki í neinum vafa um leikmanninn. Alls greiddu þeir 16.5 milljónir evra fyrir Hugo.

Það átti svo sannarlega eftir að borga sig fyrir Frankfurt, því tímabilið 2024-2025 sprakk hann gjörsamlega út. Hann leiddi línuna hjá Frankfurt ásamt fyrrnefndum Marmoush – sem var seldur í janúar síðastliðnum til Manchester City. Hann skoraði alls 15 mörk í 33 deildarleikjum fyrir Frankfurt, alls 22 mörk og 12 stoðsendingar í 48 leikjum á tímabilinu. Það vakti auðvitað víða áhuga, ekki síst hjá Liverpool sem tryggðu sér kappann fyrir dágóða summu sem er talin vera 69 milljónir punda + 10 milljónir í viðbótargreiðslur.

Hvers konar leikmaður er Hugo Ekitike?

Maður veltir því vissulega fyrir sér hvað Hugo kemur með að borðinu til félags eins og Liverpool eftir eitt alvöru tímabil.

Hann er ungur og nokkuð hrár, tölurnar hans eru að mörgu leyti svipaðar og tölurnar hjá Darwin Nunez en hafa ber í huga að á síðasta tímabili spilaði Nunez lítið. Ég held að það sé ljóst að það verði ekki gerð krafa á fullkominn sóknarmann sem nýtir færin upp á 10, heldur verði Hugo settur inn í jöfnuna fremst á vellinum þar sem hann er talinn passa betur en Nunez, hann er flinkari og betri í link-up spili. Ég hef grun um að Slot og co sjái hann sem góðan kost hvort sem er svona link up leikmaður sem getur fundið sér pláss og tengt vel við sóknarmennina, en líka að vera gammur upp við markið þegar það á við. Sumir senterar hafa bara annað, en ég hef grun um að níunni hjá Liverpool sé ætlað að vera mjög flæðandi, út á kanta, upp í miðjuna, skipta um stöður við miðjumenn og að taka þríhyrningaspil út um allt. Leikskilningur og pláss skipta öllu máli auk þess að vera með góða fyrstu (einu) snertingu, geta komið boltanum mjúkt frá sér í fyrstu snertingu, tekið hlaup og séð hlaupin í kringum sig. Það verður að viðurkennast að Darwin Nunez, sama hversu mikið við elskum hann, hefur ekki endilega mikið af þessu.

Hugo er góður með boltann í fótunum. Hann getur tekið varnarmenn á og hlaupið hratt með boltann og skapar góð færi fyrir félaga sína. Aðeins þrír leikmenn voru með hærra xG + xA í stóru deildunum í vetur, hann var með 26 og Salah var t.d. með 32. En, eins og áður sagði, þá urðu þessi x ekki öll að mörkum og hann er stundum í krummafót þegar kemur að því að skjóta á markið úr teignum. Ekki síður er mikilvægt fyrir senterinn hjá Liverpool að vera góður og fljótur í pressu og lið Eintracht Frankfurt var öflugasta skyndisóknalið Evrópu á síðasta tímabili og Hugo hefur sýnt að hann hefur þessa tvo mikilvægu eiginleika líka.

Nánar um leikfræðilega eiginleika Hugo Ekitike hér:

https://www.nytimes.com/athletic/6501701/2025/07/21/hugo-ekitike-liverpool-tactical-fit/

Þegar allt er síðan tekið saman, þá er ljóst að Hugo Ekitike á eftir að koma með nýja vídd inn í leik Liverpool. Hann er hrár og á eftir að klúðra færum en hann á líka eftir að koma okkur á óvart. Ég er ekki í miklum vafa um að Slot og starfslið hans eigi eftir að fínpússa þennan strák og gera hann að markavél á 1-2 árum.

12 comments

  1. Það gæti alveg verið að Liverpool séu að ofborga eitthvað sem nemur 20-30 milljonum punda.

    Þó virtist vera að Newcastle, Chelsea og Man Utd hafi einnig vilja borga þessa upphæð fyrir Ekitike.

    Teymið hans Edwards hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessi leikmaður er talinn henta leikkerfinu best. Það er semsagt ástæða fyrir því að leikmaður eins og Goykeres var ekki í myndinni.

    Það má benda á líkindi með Ekitike og Nunez. Ætli það skipti máli að Ekitike er skátaður af teymi Edwards á meðan Nunez var skátaður af Klopp sem vildi Nunez þrátt fyrir að aðrir mæltu meira með Isak?

    Ekitike er samt virkilega spennandi en hafa verður í huga að verið er að kaupa liðsmann frekar en stórstörnu.

    Ektike vinnur aftarlega á vellinum, er vinnusamur og góður í pressu, frábær í uppspili með gríðarlega tækni og sendigagetu.

    Þetta er leikmaður sem býr til mikið af færum fyrir sjálfan sig og aðra. Hins vegar verður að segja að ætli Ekitike að komast í heimsklassa þyrfti færanýtingin að vera betri.

    Svo á hugarfarið hjá honum að vera fyrsta flokks. Þetta er leikmaður sem leggur mikið upp úr að bæta sig.

    Þess má líka geta að Ekitike getur einnig spilað á vinstri kantinum.

    7
  2. Sælir félagar

    Ég er mjög ánægður með það að Hugo sé kominn staðfestur til LFC og sé á leiðinni til liðsins í Hong Kong. Annars eru engin vandræði að stafa Ekitike því ef fólk rýnir aðeins í nafnið þá er það samhverfa þ.e. eins afurábak og áfram. Þannig að – einfalt.. Ég er einn af líklega mjög fáum sem hafði meiri áhuga á Ekitike en Alexander Ísak.

    Ég veit ekki alveg af hverju það er – en einhver sagnarandi segir mér að Ekitike muni verða magnaður fyrir Liverpool en A. Ísak vakti hjá mér og vakir einhverja ónota tilfinningu. Að öllum líkindum bara einhver móðusýki. Einnig er Konate kominn með nýtt og betra tilboð frá klúbbnum og allt virðist vera að smella saman. Svo er Rio víst hvílíkt undrabarn í fótbolta að menn halda að hann slái barnastjörnu Barca við, heitir sá ekki Jamal? En hvað veit ég sosum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
    1. Við erum allavega tveir um að vilja þennan strák frekar en Ísak, það er eitthvað við hann sem heillar en ég var svo sem líka að missa mig af spenningi þegar Nunez kom og lifi enþá í þeirri von að hann eigi eftir að standa við stóru orðin mín þegar hann kom um að hann ætti eftir að skora meira fyrir Liverpool en Haaland fyrir City en ég er nú samt hálf hræddur um að ég þurfi að japla á táfýlu sokk áður en að því verður.

      4
    2. Já svo virðist sem LFC ætli að bjóða Konate betri samning en mögulega aðeins til 3 ára. Hvort K skrifi undir á eftir að koma i ljós. Ef þetta verður einungis 3 ára samningur þá er líklegt að Konate ætli sér einungis að vera 1-2 ár í viðbót á Anfield.

      Isak vs. Ekitike,,, ég vel alltaf Isak en er engu að síður hæst ánægður með kaupinn á Ekitike.

      Þó er spurning hvort það sé auðveldara fyrir Slot að móta Ekitike í nákvæmlega þann leikmann sem Slot telur að henti Liverpool best.

      Við verðum líka að átta okkur á að Kerkez og Wirtz eru aðeins 22 ára gamlir og Ekitike 23. Það að gæti tekið tíma fyrir þá að blómstra.

      3
  3. Það er hálfsturlað að hugsa til þess að núverandi englandsmeistarar séu búnir að kaupa inn 5 nýja leikmenn og 4 af þeim séu hugsaðir nánast beint í byrjunarliðið.
    Tvær bombur í bakverðina og geggjaðan leikstjórnanda sem er einn sá besti í sinni stöðu og núna virkilega spennandi sóknarmann í Ekitike.

    Get varla beðið eftir að sjá hvernig Slot nær að koma þessum breytingum saman, það gæti það alveg tekið smá tíma þó að restin af liðinu kunni þetta uppá 10.

    Ég get alveg viðurkennt að ég hef ekki verið strærsti aðdáandi FSG hingað til enda fundist þeir hafa haldið oft aðeins of fast í veskið, en ég fagna þessu svo sannarlega.

    4
    1. Mér þykir það liggja í augum uppi.

      Ekki mikið af spennandi senterum á markaðnum fyrir Newcaste.

      Hugsa að þeir íhugi Nunez og Elliott

      1
  4. “Fimmti leikmaðurinn í sögu Liverpool sem er með nafn sem stafast eins áfram og afturábak er kominn til liðsins”

    Hverjir eru hinir fjórir

    1
  5. Það skyldi þó ekki vera að Liverpool muni enda með bæði Ekitike og Alexander Isak 🙂
    Litla sóknarlínan sem það yrði hjá okkur.

    Fabrizio Romano
    @FabrizioRomano

    13m
    Understand Alexander Isak remains a target for Liverpool even after signing Ekitike… but depends on Newcastle.

    If Newcastle open doors to an exit and #LFC sell Diaz, they can bid after direct contact made 10 days ago.

    Isak, ??? in concrete talks with Al Hilal so far.

    2
    1. Ég trúi því ekki hann sé að berjast fyrir því að fá fara til Al Hilal. Þetta er allt hið undarlegasta mál. Eina sem manni dettur í hug er Liverpool, og það væri ótrúlegt, færi í sögubækurnar þegar kemur að sumar innkaupum. Og það er mikið eftir, Konate, Diaz og Marc Guéhi.

      2

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

(Uppfært) Hugo Ekitike á leið í læknisskoðun

Uppfært: Liverpool sagt vera undirbúa tilboð í Isak