Samfélagsskjöldurinn á morgun

Á morgun munu Englandsmeistararnir í Liverpool spila upp á Samfélagsskjöldinn við bikarmeistara Crystal Palace á Wembley leikvanginum í London. Bæði lið spiluðu bikarúrslitaleik á vellinum í fyrra með mjög ólíkum árangir þar sem Crystal Palace lagði Man City í úrslitum FA bikarsins en Liverpool tapaði í úrslitum Deildarbikarsins gegn Newcastle. Ég held að það sé því nokkuð ljóst að Arne Slot langi mikið til að klára úrslitaleik á Wembley með sigri og byrja leiktíðina líkt og hann endaði þá síðustu – með bikar í hendi.

Auðvitað er alltaf ákveðið hitamál um mikilvæga þessara leikja, hvaða vægi þessi bikar hefur fyrir félögin og allt það en þetta er klárlega leikur sem enginn vill tapa og ómerkilegur titill eða ekki þá er það víst að Liverpool mun vilja uppfæra bikarvegginn sinn strax á mánudag og breyta úr sextán skiptum og yfir í sautján.

Staða liðana í sumar er rosalega ólík eins og staðan er fyrir leikinn. Liverpool hafa auðvitað gert töluverðar breytingar á leikmannahópi sínum og vænta má að þeir geri allavega eina eða tvær í viðbót, mögulega fleiri en kollegar þeirra frá London hafa hins vegar gert lítið sem ekki neitt, þeir hafa ekki selt neinn alvöru fastamann úr liðinu sínu og hafa bara bætt við sig að ég myndi giska á varamarkvörð og eflaust vara vinstri bakvörð. Hins vegar má nú alveg reikna með að þeir selji eitthvað úr liðinu sínu eftir leikinn og þá hugsanlega miðvörðinn Marc Guehi til Liverpool.

Þetta er mjög flottur loka undirbúningsleikur fyrir Liverpool áður en deildin fer af stað um næstu helgi þar sem Crystal Palace er hörku flott lið, með góðan stjóra og geta gert Liverpool lífið ansi erfitt á fleiri en einn veg. Þeir eru flottir í vörn og mjög beinskeyttir í skyndisóknum með leikmann eins og framherjann Mateta í fararbroddi. Föstu leikatriðin þeirra eru góð þar sem þeir eru margir ansi stórir og stæðilegir og þeir eru bæði mjög fínir í beinskeyttum sóknum og geta líka spilað úr öftustu línu og haldið bolta ágætlega með leikmenn eins og áðurnefndan Guehi sem og miðjumanninn Adam Wharton og Eberechi Eze.

Arne Slot hefur sagt að Joe Gomez sé enn meiddur og verði ekki með sem og Conor Bradley en þeir eru báðir að ná sér eftir smávægileg meiðsli. Federico Chiesa er aftur kominn í liðsæfingar og spilaði gegn Athletic Bilbao eftir að hafa misst af Asíuferðinni vegna meiðsla. Alisson er aftur með hópnum eftir að hafa fengið frí og flogið heim frá Asíu til að sinna persónulegum málefnum og í fljótu bragði þá er það held ég það eina marktækt að frétta af leikmannahópnum þessa stundina.

Mamardashvili

Frimpong – Konate – Van Dijk – Kerkez

Wirtz – Gravenberch – Szoboszlai

Salah – Ekitike – Gakpo

Ég held að Slot komi ekkert þannig séð á óvart með byrjunarliðið þar sem ég held að við höfum meira en minna séð það í seinni leiknum gegn Bilbao á mánudaginn. Stærsta spurningamerkið í mínum huga er það hvort að Mamardashvili byrji í markinu eða Alisson og ég myndi ekki missa hökuna í gólfið ef nýliðinn fengi byrjunarliðssætið þar sem Alisson missti af tveimur undirbúningsleikjum. Van Dijk virðist hafa náð sér af veikindum og ætti að vera klár í slaginn, Frimpong er sjálfvalinn í hægri bakvörðinn þar sem Bradley er meiddur og vá hvað hann leit vel út á mánudaginn. Kerkez hefur verið að spila sem vinstri bakvörður með “aðalliðinu” á undirbúningstímabilinu svo ég held að hann fái að byrja í stað Andy Robertson en mögulega gætu þeir ákveðið að velja reynsluna framyfir nýjungina í svona leik.

Gravenberch og Szoboszlai hafa litið frábærlega út á undirbúningstímabilinu og hafa spilað mikið saman og ég reikna með að þeir taki þennan leik, sérstaklega þar sem Gravenberch er í banni í fyrsta deildarleiknum. Jones hefur litið mjög vel út í sumar og Mac Allister kom seinna en aðrir inn í liðsæfingar í sumar og hefur Slot sagt að hann gæti alveg verið inn í myndinni með að byrja en spili alls ekki 90 mínútur – svo ég reikna með að þeir setji hann frekar inn af bekknum á morgun.

Salah heldur svo auðvitað sínu sæti og Gakpo, sem hefur litið mjög vel út í sumar, þykir mér sjálfvalinn á vinstri vænginn og ætli Ekitike sem átti mjög góðan leik gegn Bilbao mun leiða línuna. Virkilega sterkt byrjunarlið og á bekknum eru menn eins og Curtis Jones, Mac Allister og Rio Ngumhoa sem hefur heldur betur gripið tækifærið í sumar og gæti sett mikið líf í leikinn af bekknum.

Við sjáum hvað setur á morgun en ég er mjög spenntur fyrir þessum leik og held að þetta verði virkilega góður prófsteinn fyrir komandi leiktíð, sterkt lið Crystal Palace mun gefa allt sitt í þetta og hafa leiðir til að refsa veikleikum Liverpool svo það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þeir takast á við það og hvernig nýjir leikmenn og nýjar áherslur muni skila sér inn í alvöru keppnisleik. Vonandi sækir Slot annan bikar til að skreyta í kringum bækistöðvar félagsins og setur tóninn fyrir leiktíðina sem mun vonandi skila sér í fleiri og enn stærri bikurum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Hóparnir hjá stóru liðunum