Spá kop.is – fyrri hluti

Sá tími ársins!

Fyrsti leikur á föstudagskvöld þegar okkar menn taka á móti Bournemouth og áður en að því kemur verðum við auðvitað að birta tímamótaspá okkar Kop-verja. Þið þekkið þetta, við röðum öllum liðum upp í sætin tuttugu þannig að það lið sem er í fyrsta sæti fær 20 stig og allt niður í neðsta sætið sem gefur 1 stig. Þar sem við erum níu þá er því besti mögulegi árangur 180 stig og minnst 9 stig. Ekki eftir neinu að bíða, hér koma liðin sem við spáum að verði á bilinu 11. – 20.sæti, seinni hlutinn kemur seint í kvöld eða snemma í fyrramálið!

20.sæti Burnley 14 stig

Besta spá: 17.sæti Versta spá: 20.sæti

Nágrannar okkar í Burnley eru sannarlega að verða týpískt jójó-lið milli deildanna, eru semsagt í nýrri deild fimmta árið í röð, komu beint upp úr Championship deildinni og eru aftur á meðal þeirra bestu. Þeir eru leiddir af Scott Parker sem hefur einmitt náð fínum árangri í næstefstu deild en svo hefur hann lent í brasi á meðal þeirra bestu. Eiginleiki hans liða er sterkur varnarleikur, Burnley setti met í “hreinum lökum” í Championship í fyrra og hafa lagt upp með að það verði áfram lykillinn. Þeir hafa verið ansi öflugir á leikmannamarkaðnum í sumar, þegar þetta er ritað eru 14 leikmenn titlaðir sem sumarkaup, blanda af reynslumeiri mönnum eins og Kyle Walker, Martin Dubravka og Alex Tuanzebe með yngri spennandi nöfnum eins og Jaidon Anthony sem kemur frá Bournemouth, bakverðinum Hartman frá Feyenoord, markmanninum Max Weiss frá Karlsruhe og þremur mönnum sem koma frá Chelsea. Þekktastur framherjinn Broja en einnig koma þaðan bakvörðurinn Bashir Humphreys og dýrustu kaup þeirra í sumar eru varnartengiliðurinn Lesley Ugochukwu. Stærsta nafnið sem kveður Burnley var markmaðurinn James Trafford sem var í lykilhlutverki í fyrra en Manchester City ákvað að nýta sér endurkaupsklásúlu í hans samningi og verður hann þá væntanlega varamarkmaður þar í stað þess að standa í búrinu hjá nýliðunum. Það er klárt að Burnley hafa horft til Nottingham Forest leiðarinnar með að endurnýja liðið nær allt við það að fara upp og væntanlega er Parker að horfa til þess að gera hlutina öðruvísi núna en þegar hann hefur áður stýrt liði í efstu deild. Við höfum þó litla trú á því verkefni og teljum Burnley fara beint niður aftur. Það hins vegar að eyða svo miklu gæti komið í bakið hjá liðinu ef það fellur enda kominn tími á að þeir bara taki lengri hvíld. Við nennum ekki jójó-liðum hér á kop.is!

19.sæti Sunderland 19 stig

Besta spá: 17.sæti Versta spá: 20.sæti

Eigum við ekki bara að segja Sunderland vera komna aftur á stað sem þeir mögulega eiga heima á? Þetta er risastór klúbbur í fótboltaóðum norðausturhluta Englands sem hefur lengst af sinni sögu verið í efstu deild og ekki síst frá stofnun PL. Hins vegar hefur liðið farið býsna djúpt í öldudalinn eins og frægt varð í sjónvarpsþáttunum “Sunderland till I die” sem voru satt að segja helvíti skemmtileg sýn á enska boltann og það þegar lið tapa þræðinum. Þeir voru djarfir sumarið 2024 þegar þeir réðu Frakkann Regis Le Bris sem stjóra og hann náði að búa til sterka liðsheild og spila skemmtilegan fótbolta sem lauk með sigri í playoffs úrslitaleiknum á Wembley. Það voru satt að segja rosalegar senur að horfa upp á aðdáendur þeirra upplifa aftur þá gleði að vera meðal þeirra bestu. Hins vegar vitum við öll að það er meira en lítið verkefni fyrir það lið sem kemur upp í gegnum playoffs að halda sér þar. Leikmannahópur Sunderland í fyrra var ekki sá dýrasti og í sumar seldu þeir yngri Bellingham bróðurinn til Dortmund, leikmaður sem að vissulega skipti þá miklu máli. Þeir hafa eins og Burnley verið mjög aktívir á leikmannamarkaðnum, byrjuðu á að festa miðjumanninn Enzo Le Fée frá Roma en hann var í algeru lykilhlutverki í fyrra hjá þeim. Í kjölfarið sóttu þeir Granit Xhaka aftur til Englands og hafa nú gert hann að fyrirliða liðsins. Aðrir 9 leikmenn hafa svo verið að detta inn um dyrnar, miðjumaðurinn Diarra frá Strasbourg, tveir leikmenn koma úr toppliðum Belgíu, vængmaðurinn Talbi frá Club Brugge og bakvörurinn Sadiki frá Union SG eru óskrifuð blöð en eru leikmenn sem fleiri lið horfðu til. Það eru líka sterkar vísbendingar um að þeir séu ekki hættir á markaðnum, eigendur liðsins ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ekki verði gerði fleiri þættir um volæði Sunderland FC en við teljum það ekki líklegt að þeim takist að verða áfram á meðal 20 bestu liða Englands haustið 2026. Munurinn á milli deildanna er einfaldlega of mikill og þó stjórinn hafi gert gott mót í fyrra þá er PL bara allt annað dýr. Við hlökkum þó til að sjá derby-slagina þeirra við Newcastle, það er alvöru rígur á milli þessara liða og leikirnir oft magnaðir!

18.sæti Leeds 31 stig

Besta spá: 16.sæti Versta spá: 19.sæti

Þá hafiði það. Allir nýliðar ársins falla lóðbeint niður. Við teljum Leeds þó aðeins sterkari en hin tvö, byggt kannski helst á því að sá klúbbur hefur ákveðið aðdráttarafl fyrir leikmenn og voru klárlega sterkasta lið þeirra þriggja á síðasta tímabili. Lengi vel virtist Leeds ætla að skipta um framkvæmdastjóra þó að þeir hefðu náð þessum árangri þar sem að Daniel Farke hefur hingað til átt mjög erfitt uppdráttar í PL og það er alveg stór hópur Leedsara sem eru á því að farsælast yrði að skipta honum hratt út. Í sumar hefur hann bætt í hópinn þó að umræða sé hávær um það að Leeds muni fara enn fastar inn á markaðinn nú í lok sumargluggans. Áherslan hefur svolítið verið á varnarstöður bæði í öftustu línu og á miðju, hafsentarnir Sebastian Bornauw (Wolfsburg) og Jaka Bijol (Udinese) þar dýrastir auk þess sem þeir keyptu sænska landsliðsbakvörðinn Gabriel Gudmundsson (Lille) og Brassann Perri til að keppa um markmannsstöðuna við Ilan Meslier. Á miðjuna hafa þeir bætt Sean Longstaff (Newcastle) og Anton Stach (Hoffenheim). Dominic Calvert-Lewin virðist vera að ganga frá samningi við þá alhvítu og alls konar slúður hefur verið uppi um fleiri leikmenn fremst á vellinum sem Leeds hefur augastað á. Það verður algert lykilatriði fyrir Leeds ef þeir ætla sér að haldast uppi að Elland Road verði vígi. Áhangendur þeirra eru háværir (en kröfuharðir) og ef tekst að gryfjuvæða þann völl eiga þeir mestan séns nýliðanna að halda sér uppi. Það er þannig að fjórir okkar telja þá munu halda sæti sínu en heilt yfir erum við á því að þeir…eins og hinir nýliðarnir…hverfi frá efstu deild aftur næsta vor.

17.sæti Wolves 42 stig

Besta spá: 15.sæti Versta spá: 19.sæti

Úlfarnir verða liðið sem fer næst því að falla, en það er þó þannig bilið milli þeirra og Leeds er um 5% svo að við höldum að þetta verði ekki barátta fram í síðustu umferð. Úlfarnir eru ólseigt lið sem hefur undanfarin ár sótt mikið í portúgalska skólann, bæði með leikmenn og stjóra. Þeir gerðu gott mót í fyrra þegar þeir sóttu stuðboltann Vitor Pereira sem fór mikinn á hliðarlínunni og hefur algerlega heillað heimafólk upp úr skónum. Þegar þessi orð eru rituð erum við á því að Úlfarnir hafi misst gríðarsterka hlekki úr sínu liði þegar Cunha og Ait-Nouri fóru til Manchester liðanna og enn sem komið er hafa þeir ekki farið mikinn á markaðnum. Þeir sóttu vængmennina Fer Lopez til Celta og Jhon Arias til Fluminense auk þess að ákveða að leysa hlutverk vinstri bakvarðins með David Möller Wolfe sem kemur frá AZ í Hollandi. Það er þó fastlega búist við því að á síðustu vikum gluggans verði rúllað suður til Portúgal og þangað sóttir leikmenn til að styrkja baráttuna. Pereira kom rosalega ferskt inn í mótið í fyrra og það er eiginlega fyrst og síðast hans vegna sem við teljum þá halda sér uppi. Það er þó þannig að tveir okkar telja þetta Miðlandalið falla, en heildarmyndin segir þá vera áfram uppi. Þar er gryfjan þeirra, Molineux, líka stór þáttur. Þessi völlur er af ansi mörgum talinn sá nöturlegasti í efstu deild og legan sem býður upp á vind og vosbúð sé öflugt vopn fyrir þá appelsínugulu.

16.sæti Brentford 43 stig

Besta spá: 12.sæti Versta spá: 18.sæti

Býflugurnar úr vesturhluta Lundúna sitja í sextánda sæti okkar spádrengjanna. Hér er auðvitað “Íslendingalið” á ferðinni þar sem að Hákon Valdimarsson er á mála þar þó hann hafi enn ekki unnið sér sess sem aðalmarkmaður liðsins. Í sumar skiptu Brentford um markmann þegar Flekken yfirgaf liðið og okkar ástkæri Caoimin Kelleher var keyptur með það að markmiði að taka hans pláss. Það eru þó blikur á lofti með Írann knáa, hann er meiddur þessa dagana og ekki alveg víst hvort hann verður klár í upphafi móts. Til að styrkja enn tengslin þeirra við Liverpool má telja líklegt að fyrirliði þeirra í upphafi móts verði Jordan nokkur Henderson sem kom til þeirra á frjálsri sölu frá Ajax nú í sumar. Auk þeirra keyptu þeir öflugan sóknarmiðjumann, Antoni Milambo frá Feyenoord. Þeir binda vonir við að hann nái að koma sem mótvægi við söluna á Mbeumo auk þess sem allar líkur eru á Wissa kveðji þá líka. Hann er í “verkfallsgírnum” með það að markmiði að komast í burtu. Bætum svo við að þeir seldu fyrirliðann sinn Nörgaard til Arsenal og þá getum við sannarlega sagt að sumarið hafi enn ekki verið á jákvæðum nótum hjá þeim. Rúsínan í þeim pylsuenda er svo auðvitað sú staðreynd að Thomas Frank ákvað að þiggja tilboð Tottenham um að færa sig um stjórastól í London. Hann hefur klárlega verið í lykilhlutverki hjá liðinu í þeirra velgengni og óvænt ráðning á Keith Andrews, innanfélagsmanni, í hans stað hefur sannarlega ekki sannfært aðdáendur liðsins um framgang félagsins. Það er enda svo að tveir okkar spá Brentford falli en það er líka til spámaður sem segir þá verða á öruggum sjó um miðja deild. Áhugaverður vetur framundann í vestur London!

15.sæti Bournemouth 53 stig

Besta spá: 12.sæti Versta spá: 19.sæti

Mótherjar okkar í fyrsta leik, suðstrendingarnir hans Iraola fá fimmtánda sætinu úthlutað í spánni. Við skulum hafa það á hreinu að við erum hér að horfa til þess að hugmyndafræði Bournemouth og öflugur stjóri muni skila liðinu örugglega áfram meðal þeirra bestu, þrátt fyrir töluverðar mannabreytingar nú í sumar. Markmaðurinn, báðir hafsentarnir og öflugur vinstri bakvörður hafa allir kvatt og þeir þurfa sannarlega að fylla í stór ksörð. Þeir völdu sér það að kaupa Petrovic varamarkmann Chelsea til að standa í búrinu, sóttu vinstri bakvörðinn Adrien Truffert til Rennes og hafsendin Diakité fyrir Lille. Þeir eiga enn fullt af peningum til að koma út á sléttu en eru líka að berja af sér áhuga annarra liða á bæði Semenyo og Kluivert. Þetta afgerandi minnsta lið PL hefur fest sig í sessi undanfarin ár með gríðarlega öflugum leikmannakaupum og áköfum leikstíl sem hefur sannarlega verið aðdáunarvert. Stjórinn og leikmenn ganga algerlega í takt og við erum á því að á meðan hann er þarna verði þessi kokteill áfram jafn áhrifaríkur. Það mun taka tíma fyrir þá að pússa liðið saman og það er alveg ljóst að önnur stærri lið eru farin að horfa til stjórans öfluga. Það að missa hann til stærra liðs yrði þeim afar erfitt og gæti breytt myndinni. Einn okkar telur ævintýrið vera úti og hér er á ferðinni síðasta liðið í spánni sem einhver okkar spáði falli. Heilt yfir erum við á því að Bournemouth verði ekki í neinni fallhættu.

14.sæti West Ham 63 stig

Besta spá: 10.sæti Versta spá: 16.sæti

Við erum aftur í London, núna í austurhlutanum þar sem Hamrarnir leika sína leik á Ólympíuleikvanginum. Liðið hefur um langt skeið átt drauma um að fara í baráttu um efstu sæti deildarinnar og titla enda úr risasvæði höfuðborgarinnar og hafa inn á milli náð ágætum árangri. Síðasta vetur gerðu þeir enn á ný tilraun til að fá inn “exótískan” stjóra til að búa til léttleikandi West Ham lið eins og var einkenni klúbbsins á síðustu öld en það fór eins og flestar hinar, illa! Að þessu sinni var Moyes í starfi og Allardyce í hvítvíni á ströndinni svo þeir sóttu Graham Potter sem hefur ekki haft sama stimpilinn en réð ekkert við Chelsea liðið á sínum tíma. Það skánaði satt að segja lítið gengið við hans ráðningu og þeir höktu hálfpartinn yfir línuna. Aldrei í fallhættu en heldur aldrei á neinu róli sem gladdi aðdáendur. Hingað til nú í sumar hafa þeir ekki farið í stóra bita. Callum Wilson og Kyle Walker-Peters komu á frjálsum sölum, markmaðurinn Mads Hermansen frá Leicester og vinstri bakvörðurinn El Hadji (Malick) Diouf sennilega mess spennandi nafnið til að mæta. Á móti misstu þeir stóran spón úr sínum aski þegar Kudus færði sig yfir til Tottenham og Potter ákvað að losa marga reynslubolta frá félaginu. Leikmenn eins og Coufal, Ings, Zouma og Antonio taldi komnir yfir hæðina góðu og Potter segist hafa fengið loforð um að byggja nú upp félagið á yngri mönnum og í anda þess leikstíls sem hann náði fram með Brighton á sínum tíma. Við erum á því að West Ham verði á svipuðu róli og áður, rétt neðan við miðju en ekki í fallströggli. Hvort það verður nóg til að halda Potter í starfi á alveg eftir að koma í ljós!

13.sæti Fulham 81 stig

Besta spá: 6.sæti Versta spá: 15.sæti

Við færum okkur um set í London, núna niður á bakka Thames-árinnar þar sem Marco Silva er að sigla inn í fimmta tímabilið sitt með Fulham, er ótrúlegt en satt með þriðja hæsta starfsaldur stjóra í deildinni, bara Arteta og Pep verið lengur í sínum sætum en hann. Enda hefur hann náð fínum árangri með þetta lið, kom þeim upp úr Championship og hefur styrkt sess þess í efstu deild hvert tímabil. Í fyrra voru þeir í raun hársbreidd frá alvöru bardaga um Evrópusætin og eru eins og mörg önnur lið nú að verða rútíneruð í sínu hlutverki sem alvöru Úrvalsdeildarlið. Það er ótrúleg staðreynd þó að þegar að leiktíðin hefst um næstu helgi virðist verða sem að Fulham verði ekki búnir að breyta í raun neinu í sínum leikmannahóp. Þeir eru orðaðir við fullt af leikmönnum en hafa enn í raun ekki styrkt byrjunarliðið sitt neitt. Silva hefur kvartað undan því að ná ekki í þá leikmenn sem hann vildi til þess að gera í raun aðra og meiri atlögu að efri hluta deildarinnar. Fulham vita hvað þeir vilja gera og munu styrkja liðið. Einn okkar er á því að þeir fari alla leið upp í 6.sætið en heilt yfir erum við á þægilegum miðjumótsvagni fyrir þá hvítsvörtu. Það gæti mögulega leitt til þess að Silva fái aftur séns hjá “stærra” liði, en hann virðist þó ósköp sáttur í sínum stól!

12.sæti Everton 82 stig

Besta spá: 7.sæti Versta spá: 13.sæti

Nýtt tímabil hjá Everton og nú á nýjum og glæsilegum velli. David Moyes kom heim og bjó til enn eitt ólseigt lið sem spilar kraftafótbolta sem auðvelt er að þola ekki. Hvað þá þegar um blue-white-s***e er um að ræða. Það er auðvitað búið að vera mikið bras og basl á Everton síðustu ár þegar kemur að eignarhaldsmálum þeirra og völlurinn jafn glæsilegur og hann er mun verða stór þáttur í framtíð þeirra. Moyes hefur hágrátið leikmannamarkaðinn í sumar, þeir hafa átt ótrúlega erfitt með að ná sér í leikmenn, það var bara nú nýverið sem hann náði í leikmenn til að styrkja liðið sitt. Framherjanum Thierno Barry (Villareal) er ætlað að setja mörk, Kiernan Dewsbury Hall og Jack Grealish eiga að skapa en þeir eru enn að elta bæði hafsenta og bakverði. Moyes hefur verið ansi ákveðinn í því að tala Everton upp sem topp tíu lið í ensku deildinni en á meðan að liðssöfnun gengur ekki betur verða þeir áfram lið sem kallar miðjutímabil ansi gott tímabil. Hann segist ætla að búa til ungt og ferskt lið sem spili skemmtilegan fótbolta. Einmitt…og íslensku aðalbláberin verða víst hvít á næsta ári.

11.sæti Nottingham Forest 96 stig

Besta spá: 8.sæti Versta spá: 13.sæti

Spútniklið síðasta árs, drengirnir úr Skírisskógi munu ekki njóta sömu velgengni þennan veturinn. Þeir enduðu tímabilið í ákveðnu brasi en UEFA rétti þeim þó smá gleði í sumar þegar Crystal Palace var gert að skipta við þá um keppni svo að Forest mun taka þátt í Europa League í vetur, sem er auðvitað hundskemmtilegt fyrir þá með alla sína Evrópusögu hér í den. Eigandinn þeirra er nú líklega sá klikkaðasti í bransanum og átti líklega eitt af stóru transfer mómentunum þegar hann stóð með þrumusvip yfir Morgan Gibbs White tilkynna um nýjan samning sinn við félagið. Þeir fengu fínan pening fyrir Elanga og Danilo og hafa nú þegar keypt strikerinn Igor Jesus, framherjann Ndoye og hafsentin Jair Cunha. Þeir eru enn að leita fyrir sér á markaðnum, vilja styrkja miðsvæðið og auka breiddina til að bregðast við því að vera nú að bæta við sig amk 8 leikjum í Evrópukeppni. Það mun taka toll af liðinu og það er bara einn okkur sem telur þá berjast um sæti í Evrópu áfram, við döðrum nokkrir við það að þeir fari enn neðar en það sem við spáðum, en öflugur varnarleikur og heilmikil heimavallargryfja er þó aðalástæða þess að við teljum þá verða á miðjuróli í vetur.

Þar með lýkur fyrri hluta spárinnar, á morgun koma 10 efstu sætin – þ.á.m. hvar við teljum okkar menn verða!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Næstu leikmannakaup í vinnslu